Ísafjarðarbær - Valdsvið aldursforseta bæjarstjórnar
Birna Lárusdóttir, 9. júní 1998 98060007
Guðni Geir Jóhannesson og 1001
Ragnheiður Hákonardóttir
Ísafirði
Vísað er til erindis yðar til ráðuneytisins, dagsett 7. júní sl., þar sem óskað er eftir að ráðuneytið “skeri úr um það hvert umboð og valdsvið aldursforseta nýrrar bæjarstjórnar er.“ Fram kemur að aldursforsetinn, Sigurður R. Ólafsson, hefur farið þess á leit við þá sem skiptu með sér starfi bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar í lok síðasta kjörtímabils að þeir sitji áfram þar til nýr bæjarstjóri tekur við störfum, sbr. bréf hans frá 5. júní 1998 á bréfsefni Ísafjarðarbæjar.
Í 1. mgr. 46. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 sagði að það væri hlutverk aldursforseta nýkjörinnar sveitarstjórnar að kveðja hana saman til fyrsta fundar eigi síðar en 15 dögum eftir að hún tekur við störfum eftir kosningar og bar honum jafnframt að stýra fundi þar til oddviti hefur verið kjörinn.
Þann 5. júní sl. voru birt í Stjórnartíðindum ný sveitarstjórnarlög nr. 45/1998. Í 13. gr. hinna nýju laga segir svo:
“Nýkjörin sveitarstjórn tekur við störfum 15 dögum eftir kjördag.
Sá kjörinn fulltrúi í sveitarstjórn sem á að baki lengsta setu í sveitarstjórninni kveður hana saman til fyrsta fundar eigi síðar en 15 dögum eftir að hún tekur við störfum eftir kosningar og stýrir fundi þar til oddviti hefur verið kjörinn. Hafi tveir eða fleiri fulltrúar í sveitarstjórn átt jafnlengi setu í sveitarstjórninni fer aldursforseti þeirra með verkefni samkvæmt þessari málsgrein.“
Önnur verkefni en að framan greinir hefur aldursforseti eða sá sem lengsta setu hefur átt í sveitarstjórn ekki með höndum samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Sá einstaklingur hefur þannig ekki umboð til að rita bréf fyrir hönd sveitarstjórnarinnar og hefur heldur ekki umboð til þess að óska eftir fyrir hönd sveitarfélagsins að tilteknir aðilar gegni áfram störfum fyrir sveitarfélagið eftir að ráðningarsamningur þeirra er útrunninn.
F. h. r.
Húnbogi Þorsteinsson (sign.)
Sesselja Árnadóttir (sign.)