Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Vestur-Landeyjahreppur - Hæfi hreppsnefndar til að fjalla um málefni fyrrverandi oddvita

Haraldur Júlíusson                                          19. apríl 2000                     Tilvísun: FE199900028/1001

Akurey 1, Vestur-Landeyjahreppi

861 Hvolsvöllur

 

 

 

        Vísað er til erindis yðar og Svanborgar E. Óskarsdóttur til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 7. desember 1999, varðandi ýmsa þætti í starfsemi Vestur-Landeyjahrepps.

 

        Óskað var eftir umsögn meirihluta hreppsnefndar Vestur-Landeyjahrepps um efni erindisins með bréfi, dagsettu 19. janúar 2000. Umsögn barst ráðuneytinu með bréfi, dagsettu 9. febrúar 2000.

 

I.     Málavextir og málsástæður bréfritara

 

        Bréfritarar skýra með eftirfarandi hætti frá málavöxtum og málsástæðum:

 

        „Við undirrituð óskum eftir úrskurði félagsmálaráðuneytisins á því hvort Jón Gunnar Karlsson, Vilborg Jónsdóttir og Brynjólfur Bjarnason séu vanhæf eða ekki til að starfa í hreppsnefnd og fjalla um málefni er tengjast fyrrverandi oddvita, Eggerti Haukdal og líka hvort þau séu yfirleitt hæf til að vera í hreppsnefnd vegna aðildar þeirra að sveitarstjórnarmálum, sum hver allt frá árinu 1986 í nánu samstarfi með Eggert Haukdal og framkomnu getuleysi þeirra til að fást við það sem hreppsnefnd ber að sjá um, sbr. hjálögð gögn.

        Greinargerð

        Siðblinda og ófagleg vinnubrögð hreppsnefndar við afgreiðslu mála í tíð Eggerts Haukdal fyrrv. oddvita og eins eftir afsögn hans er með þvílíkum endemum að við getum ekki orða bundist. Má beinlínis kalla það valdníðslu hvernig málum er komið í gegn á hreppsnefndarfundum í skjóli lýðræðislegra kosninga.

        Frá því Eggert lét af störfum hefur meirihluti hreppsnefndar beint kröftum sínum að því að verja hagsmuni hans en ekki sveitarfélagsins.

1)   Á fundi hreppsnefndar 01.12.99 (þá hafði ekki verið haldinn hreppsnefndarfundur í 5 ½ mánuð) var afgreidd fyrirspurn Ríkislögreglustjóra hvort sveitarstjórn legði fram skaðabótakröfu ef ákæra yrði gefin út á Eggert Haukdal. Án nokkurra umræðna eða raka af hálfu meirihlutans var þessari kröfu vísað frá (sjá fundargerð 01.12.99, bréf frá Ríkislögreglustjóra og fundargerð frá 23.06.99)

2)   Bréf Eggerts til hreppsnefndar um kauphækkun fyrir oddvitastörf sín, umsjónarmannslaun fyrir starf er var búið að leggja niður að frumkvæði Eggerts og beiðni um niðurfellingu dráttarvaxta (sjá bréf Eggerts Haukdal til hreppsnefndar, bréf um niðurlagningu húsvarðarstarfsins við félagsheimilið Njálsbúð). Þessu erindi var af meirihluta hreppsnefndar vísað til lögfræðings. Við vantreystum þessari vísun til lögfræðings því sami lögfræðingur og hefur starfað fyrir Eggert starfar líka fyrir meirihluta hreppsnefndar.

3)   Á þessum fundi var líka samþykktur útsvarsskattur, fasteignaskattur og vatnsskattur. Það sem okkur þykir ámælisvert er að ákveða skattprósentu án fjárhagsáætlunar og án nokkurra upplýsinga um stöðu sveitarsjóðs (sjá fundargerð 01.12.99).

4)   Á þessum fundi var líka samþykkt greiðsla vegna upphreinsunar á skurði. Verkið var unnið og greitt og síðan lagt til samþykktar fyrir hreppsnefnd. Þrátt fyrir ítrekaðar áminningar bæði frá ráðuneyti, núverandi endurskoðanda og minnihluta hreppsnefndar er málum þrýst í gegn eftir á.

        Af fleiru og fleiru er að taka og ber samt allt að sama brunni. Allt er með sama hætti og var í tíð Eggerts Haukdal (sjá fundargerð um borgarafund).

        Fundargerðir eru mjög ónákvæmar og stundum beinlínis farið með rangfærslur. Oddvitalaun voru t.d. keyrð í gegn kr. 600.000 án nokkurs ráðningarsamnings og án nokkurrar umræðu um starfssvið oddvita, þótt annað megi lesa út úr fundargerð (sjá fundargerð 01.12.99).“

 

II.    Málsástæður meirihluta hreppsnefndar

 

        Í umsögn meirihluta hreppsnefndar segir svo um erindið:

 

        „Með bréfi dags. 7. desember 1999 óska Haraldur Júlíusson og Svanborg E. Óskarsdóttir eftir „úrskurði félagsmálaráðuneytisins“ um það hvort þrír tilgreindir fulltrúar í hreppsnefnd Vestur-Landeyjahrepps, þau Jón Gunnar Karlsson, Vilborg Jónsdóttir og Brynjólfur Bjarnason, oddviti, séu vanhæf til að starfa í hreppsnefndinni og til að fjalla þar um málefni sem tengjast fyrrverandi oddvita, Eggerti Haukdal. Sérstaklega er óskað úrskurðar um hvort viðkomandi aðilar séu yfirleitt „hæf til setu í hreppsnefnd“ vegna samstarfs við Eggert í sömu hreppsnefnd, fyrr á árum og allt frá árinu 1986 í sumum tilvikum. Í bréfinu eru að því er virðist tilgreind tiltekin mál sem hafa verið á borði hreppsnefndar til umfjöllunar og ákvörðunar. Engar kröfur eru þó gerðar af hálfu þeirra sem leita eftir „úrskurðinum“ og því fæst ekki betur séð en að verið sé að leita eftir lögfræðilegri álitsgerð hjá félagsmálaráðuneytinu, sbr. nánar hér á eftir.

        Félagsmálaráðuneytið hefur með bréfi dags. 19. janúar sl. óskað eftir umsögn meirihluta hreppsnefndar Vestur-Landeyjahrepps um erindi Haraldar og Svanborgar. Af því tilefni tekur meirihluti nefndarinnar eftirfarandi fram:

a.   Við teljum að ekkert þeirra atriða sem talin eru upp í 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 geti átt við um störf okkar sem kjörinna fulltrúa í hreppsnefnd Vestur-Landeyjahrepps og ákvarðanir varðandi þau einstöku málefni sem nefnd eru í erindi bréfritara og tengjast fyrrverandi oddvita, Eggerti Haukdal. Því getum við ekki með nokkru móti talist vanhæf og skoðun okkar er sú að ekki hafi verið sýnt fram á eða rökstutt að ekki hafi verið gætt fyllsta hlutleysis við afgreiðslu þeirra mála sem bréfritarar nefna í dæmaskyni um „siðblindu“ og „ófagleg vinnubrögð“ og til stuðnings gífuryrðum um meint vanhæfi okkar. Þá leyfum við okkur að mótmæla fullyrðingum og orðnotkun bréfritara eins og „valdníðslu“ sem á engan hátt er reynt að rökstyðja. Við teljum að gætt hafi verið hlutleysis við undirbúning og töku ákvarðana í þeim málum sem nefnd eru, þannig að fráleitt er að ætla að ákvæði í 6. tölul. 3. gr. nefndra stjórnsýslulaga, eða aðrir tölul. greinarinnar eigi við í málinu. Sama er að segja um ákvæði 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 48/1998. Þá skal tekið fram að við höfum, vegna þessara aðdróttana, sérstaklega kynnt okkur rit forsætisráðuneytisins um stjórnsýslulögin (útg. 1993) og vísum til bls. 26-32.

b.   Við bendum á að ekki er af hálfu bréfritara gerðar kröfur í málinu, þannig að úrskurður getur ekki átt við. Vísum við í þessu sambandi til 26. gr. stjórnsýslulaganna. Við teljum að um sé að ræða beiðni um lögfræðilega túlkun og álit félagsmálaráðuneytisins, sem ekki getur verið hlutverk ráðuneytisins að veita. Engin sérstök krafa er höfð uppi í erindinu um að tiltekin ákvörðun hreppsnefndarinnar sé ógilt vegna meints vanhæfis okkar.

        Við undirrituð erum kjörin til setu í hreppsnefnd Vestur-Landeyjahrepps á yfirstandandi kjörtímabili og þannig bær til töku ákvarðana um málefni sveitarfélagsins, gerum þá kröfu að félagsmálaráðuneytið vísi erindinu frá ráðuneytinu, enda samræmist það að okkar áliti hvorki stjórnsýslulögum né sveitarstjórnarlögum að félagsmálaráðuneytið láti í té þau álitaefni sem um ræðir í erindinu.

        Meðal tilgreindra fylgiskjala með erindinu til félagsmálaráðuneytisins er í 9. tölul. tilgreind fundargerð Haraldar Júlíussonar af borgarafundi 14. júní 1999. Rétt er að fram komi að Haraldur var ekki starfsmaður fundarins og enginn fékk honum það verkefni að rita frásögn af fundinum. Fundargerð þessi er því einkafrumtak Haraldar en ekki skal efast um hæfni hans til að rita slíka fundargerð.“

 

III.  Niðurstaða ráðuneytisins

 

        Ráðuneytið hefur haft til umfjöllunar erindi vegna samskonar atriða frá minnihluta hreppsnefndar Vestur-Landeyjahrepps. Er niðurstaða ráðuneytisins í því máli send hér með þar sem fjallað er um megnið af þeim atriðum sem koma fram í málavaxtalýsingu og málsástæðum hér að framan.

 

        Sérstök ástæða er til að taka fram að pólitískt samstarf getur ekki eitt og sér leitt til vanhæfis sveitarstjórnarmanna, sbr. umfjöllun í áliti ráðuneytisins. Ljóst er að í málefnum Eggerts Haukdal og Vestur-Landeyjahrepps að öðru leyti eru deilur sem eiga sér djúpar rætur og langan aðdraganda og tengjast flestir íbúar hreppsins og þar með hreppsnefndarmenn þeim málum með einum eða öðrum hætti. Að því er varðar siðferði eða hæfni manna til að gegna störfum í sveitarstjórn eru ekki bein ákvæði í sveitarstjórnarlögum nr. 45/1998 og því hefur ráðuneytið ekki heimild til að kveða upp úrskurð um slíkt. Sveitarstjórnir eru kjörnar í lýðræðislegum kosningum, sbr. 8. gr. sveitarstjórnarlaga og lög um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998, og hefur ráðuneytið ekki heimild til að víkja frá störfum í sveitarstjórn einstaklingum sem til þeirra starfa hafa verið kjörnir.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

Samrit: Svanborg E. Óskarsdóttir.

Afrit: Hreppsnefnd Vestur-Landeyjahrepps.

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta