Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Mál nr. 63/2010

Ár 2011, 24. febrúar er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. 63/2010 (IRR10121574)

Hagbarður Marinósson

gegn

Siglingastofnun Íslands

 

I.      Kröfur, aðild, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru dagsettri 16. september 2010 kærði Hagbarður Marinósson, (hér eftir nefndur HM) kt. 040873-4149, ákvörðun Siglingastofnunar Íslands (hér eftir nefnd Siglingastofnun) frá 27. ágúst 2010 um að synja umsókn HM til að starfa sem yfirstýrimaður á skipinu Silver River. Var kæran móttekin hjá ráðuneytinu þann 16. september 2010. Barst kæran því ráðuneytinu innan þriggja mánaða kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæruheimild er í 17. gr. laga nr. 30/2007 og 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki er ágreiningur um aðild.

II.      Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti.

HM sendi umsókn til Siglingastofnunar til starfa á farþegaskipum og flutningaskipum þann 24. ágúst 2010. Var um að ræða starf yfirstýrimanns á skipinu Silver River.

Með bréfi dags. 27. ágúst 2010 hafnaði Siglingastofnun kröfu HM um undanþágu.

Ákvörðun Siglingastofnunar var kærð til ráðuneytisins með tölvubréfi HM dags. 16. september 2010.

Með bréfi ráðuneytisins til HM dags. 17. september 2010 óskaði ráðuneytið eftir því að HM staðfesti að skilningur ráðuneytisins á kæruefninu væri réttur og gaf honum kost á að koma að frekari gögnum eða rökstuðningi. Bárust sjónarmið HM með bréfi dags. 23. september 2010.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 6. október 2010 var Siglingastofnun gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og var sú beiðni ítrekuð með bréfi ráðuneytisins dags. 16. nóvember 2010. Bárust sjónarmið Siglingastofnunar með bréfi dags. 18. nóvember 2010.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 30. nóvember 2010 var HM gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum Siglingastofnunar. Bárust þau andmæli með bréfi dags. 6. janúar 2011.

Með bréfum til aðila dags. 18. janúar 2011 tilkynnti ráðuneytið að gagnaöflun væri lokið og málið væri tekið til úrskurðar.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III.    Málsástæður og rök HM

HM byggir á því að honum hafi boðist starf sem yfirstýrimaður á skipinu Silver River sem sé 3500 bt. Kveðst HM hafa verið stýrimaður hjá Samskipum í 100 daga sem undirstýrimaður á 8800 bt skipi. Þá hafi hann einnig verið yfirstýrimaður á Jaxlinum sem hafi siglt hér árið 2005. Það skip sé með sömu mál og Silver River nema að búið sé að breyta mælingarrreglum þannig að Jaxlinn mælist 493 bt en Silver River 3500 bt.

Kveðst HM hafa starfað samfellt til sjós frá árinum 1989. Hann hafi lokið farmannaprófi fá Stýrimannaskólanum í Reykjavík vorið 1999 og hafi starfað sem skipstjóri og stýrimaður frá þeim tíma. Kveðst HM vonast til að starfsreynsla hans verði skoðuð við afgreiðslu málsins.

Í andmælum sínum áréttar HM að hann hafi 100 daga sem undirstýrimaður en ekki tvo mánuði líkt og komi fram í svari Siglingastofnunar. Kveðst HM vera með uppáskrifaðar sjóferðabækur á 8800 bt skipi frá Samskipum því til staðfestingar.

IV.    Málsástæður og rök Siglingastofnunar

Siglingastofnun byggir á því að skipið Silver River sé ekki skráð í íslenska skipaskrá. Um undanþágur á farþega- og flutningaskip sé fjallað í 8. gr. laga nr. 76/2001 og 8. gr. reglugerðar nr. 416/2003, en þau lög gildi einungis um skip sem skráð eru á íslenska skipaksrá, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna.

HM hafi lokið 3. stigi skipstjórnarprófs úr Stýrimannaskóla sem geti gefið ótakmörkuð réttindi á farþega- eða flutningaskip að öðrum skilyrðum uppfylltum, t.d. um siglingatíma. Til að fá aukin réttindi við þau sem HM hefur samkvæmt atvinnuskírteini sínu útgefnu 11. febrúar 2009 þurfi hann að hafa a.m.k. 12 mánaða siglingatíma sem stýrimaður á skipi sem er stærra en 500 bt, sbr. stafliði D, E, F og G í 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 416/2003 með síðari breytingum. Samkvæmt gögnum sem HM hafi framvísað hafi hann aðeins siglingatíma sem stýrimaður í tvo mánuði á skipum yfir 500 bt.

V.     Álit og niðurstaða ráðuneytisins

Ágreiningur aðila lýtur að því hvort Siglingastofnun hafi verið heimilt að hafna beiðni HM um undanþágu fyrir starf yfirstýrimanns á skipinu Silver River. Var þessi skilningur ráðuneytisins á kæruefninu staðfestur af HM með bréfi hans til ráðuneytisins dags. 23. september 2010.

Um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa gilda lög nr. 76/2001. Segir þar í 1. mgr. 1. gr. að lögin taki til áhafna allra íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa sem skráð eru hér á landi samkvæmt lögum skráningu skipa. Er því ljóst að lögin gilda einungis um skip sem skráð eru í íslenska skipaskrá.

Skipið Silver River er ekki skráð í íslenska skipaskrá og fellur því ekki undir lög nr. 76/2001 sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Ber því þegar af þessari ástæðu staðfesta hina kærðu ákvörðun líkt og í úrskurðarorði greinir.

Óski HM eftir því að fá aukin atvinnuréttindi við þau sem hann hefur samkvæmt núgildandi atvinnuskírteini sínu er honum bent á að sækja um endurnýjun á réttindum sínum til Siglingastofnunar og fara fram á að fá tilgreind réttindi. Hafni Siglingastofnun beiðni HM er sú ákvörðun kæranleg til ráðuneytisins. Úr slíkum ágreiningi verður ekki leyst í þessu máli þar sem hann tengist ekki hinni kærðu ákvörðun.

Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur uppkvaðning úrskurðar dregist og er beðist velvirðingar á því.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Siglingastofnunar um að hafna umsókn Hagbarðs Marinóssonar um undanþágu til að starfa sem yfirstýrimaður á skipinu Silver River er staðfest.

Bryndís Helgadóttir

Brynjólfur Hjartarson



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta