Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Mál nr. 62/2010

Ár 2011, 24. febrúar er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. 62/2010 (IRR10121579)

NN

gegn

lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu.

 

I.      Kröfur, aðild, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru dagsettri 10. september 2010 kærði NN, ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu (hér eftir nefndur lögreglustjórinn) frá 30. júlí 2010 um að synja beiðni sinni um endurveitingu ökuréttinda. Barst kæran því innan þriggja mánaða kærufrests sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæruheimild er í 106 gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki er ágreiningur um aðild.

II.      Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 11. október 2006 var NN sviptur ökurétti í tvö ár og sex mánuði frá og með þeim degi að telja. Þá var NN sviptur ökurétti í eitt ár frá 11. október 2008 með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 28. mars 2007. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 11. apríl 2007 var NN síðan sviptur ökurétti í þrjú ár frá 11. október 2009. Sótti NN um endurveitingu ökuréttinda til lögreglustjórans með bréfi dags. 26. júlí 2010 en þeirri kröfu var hafnað með bréfi dags. 30. júlí 2010.

Ákvörðun lögreglustjórans var kærð til ráðuneytisins með bréfi NN dags. þann 10. september 2010.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 17. september 2010 var lögreglustjóranum gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið með bréfi dags. 14. október 2010.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 20. október 2010 var NN gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Engin andmæli bárust.

Með bréfum til aðila dags. 23. desember 2010 tilkynnti ráðuneytið að gagnaöflun væri lokið og málið væri tekið til úrskurðar.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III.    Málsástæður og rök NN

NN byggir á því að mál hans sé nokkuð sérstakt. Hann hafi fengið á sig þrjár ákærur með stuttu millibili og verið dæmt í þeim öllum með sér dómi en mál ekki sameinuð eins og rétt hefði verið og verði að líta á það sem handvömm. Um hafi verið að ræða eftirtalin brot, dóma og refsingu:

Brot framið                       Uppkvaðning dóms             Refsing, svipting

22.07.2006                       11.10.2006                       2 ár frá 11.10.2006

24.09.2006                       28.03.2007                       1 ár frá 11.10.2008

30.01.2007                       11.04.2007                       3 ár frá 11.10.2009

NN telur ljóst að ef fylgt hefði verið eðlilegri sameiningu mála hefði hann uppfyllt skilyrði 106. gr. umferðarlaga.

IV.    Málsástæður og rök lögreglustjórans

Lögreglustjórinn byggir á því að samkvæmt 1. mgr. 106. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 sé lögreglustjóra heimilt að veita ökurétt að nýju þegar maður hefur verið sviptur ökurétti um lengri tíma en þrjú ár þegar sviptingin hefur staðið í þrjú ár. Ekki sé því heimilt að breyta ákvörðun um tímabundna ökuréttarsviptingu þegar svipting skal vara þrjú ár eða skemur. Þá hafi verið litið svo á að ekki sé heimilt að leggja saman tíma tveggja eða fleiri sviptinga til að skapa rétt samkvæmt ákvæðinu sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 1896/1996.

Í kæru sé bent á að mál NN sé sérstakt að því leyti að hann hafi verið ákærður þrisvar sinnum með stuttu millibili en dæmt hafi verið í hverju máli fyrir sig í stað þess að sameina málin og verði að líta á það sem handvömm. NN hafi fyrst verið dæmdur 11. október 2006. hafi það verið vegna brots 22. júlí sama ár og hafi hann þá verið sviptur ökurétti í tvö ár. Ákæra í því máli hafi verið gefin út 25. september 2006 en daginn áður, eða 24. september 2006, hafi NN verið á ný staðinn að því að aka bifreið undir áhrifum áfengis. Því máli hafi verið lokið með dómi þann 28. mars 2007 og NN sviptur ökurétti í eitt ár til viðbótar. Sú svipting hafi því verið helminguð og niðurstaðan sú sama og ef málin hefðu verið sameinuð, þ.e., samtals þrjú ár, en hvort mál fyrir sig hefði annars hljóðað upp á tveggja ára ökuréttarsviptingu. Í þessu tilviki sé ekki hægt að fallast á að um handvömm hafi verið að ræða.

Síðasta málið hafi verið afgreitt með dómi 11. apríl 2007 og sé vegna brots í janúar 2007. Sé það afgreitt sem ítrekun við fyrsta dóminn og hljóti afgreiðslu sem slíkt. Sé niðurstaðan full refsing fyrir annað brot, þ.e. fyrstu ítrekun. Ef brot NN frá 24. september 2006 hefði verið sameinað því síðasta, eins og rétt hefði verið að gera, þá hefði sá dómur átt að hljóða upp á fjögur ár (þ.e. 3+1) frá 11. október 2008. Sviptingin vegna þess máls hefði verið helminguð alveg eins og það hefði verið sameinað fyrsta málinu. Niðurstaðan hefði því verið sú sama þegar tímalengd sviptinganna er lögð saman. Hins vegar hefði það þá þýðingu fyrir NN að hann hefði getað látið reyna á undanþáguákvæði 1. mgr. 106. gr. umferðarlaga í október 2011.

Lögreglustjórinn byggir á því að ákvörðun embættisins frá 30. júlí 2010 sé í fullu samræmi við ákvæði 1. mgr. 106. gr. umferðarlaga. Með hliðsjón af málavöxtum og úrskurði ráðuneytisins í máli nr. 4/2006 geri embættið þó ekki athugasemdir við að heimilað verði að endurveiting verði tekin til skoðunar í október 2011 eins og NN hefði átt rétt á ef ákært hefði verið fyrir síðari tvö brotin í einu.

V.     Álit og niðurstaða ráðuneytisins

Ágreiningur aðila lýtur að því hvort lagaskilyrði séu til endurveitingar ökuréttinda samkvæmt 106. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Í 1. mgr. 106. gr. umferðarlaga segir að hafi maður verið sviptur ökurétti um lengri tíma en þrjú ár geti lögreglustjóri þegar svipting hafi staðið í þrjú ár heimilað að honum skuli veittur ökuréttur að nýju. Hefur ákvæði þetta verið túlkað svo að ekki sé heimilt að leggja saman tíma tveggja eða fleiri sviptinga til að réttur skapist samkvæmt ákvæðinu, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 1896/1996. Myndi önnur túlkun enda leiða til þess að áhrif dóms yrðu að engu gerð. Kemur endurveiting ökuréttinda á grundvelli 1. mgr. 106. gr. umferðarlaga því ekki til greina nema svipting ökuréttar hafi verið ákveðin í meira en þrjú ár.

Fyrir liggur að NN hefur verið sviptur ökurétti í samtals sex frá og með 11. október 2006. Er þar um þrjá aðskilda dóma að ræða sem kveða á um sviptingu í tvö ár, eitt ár og þrjú ár. Byggir NN á því að ef framfylgt hefði verið eðlilegri sameiningu mála hefði tímalengd 1. mgr. 106. gr. umferðarlaga verið náð.

Í 1. mgr. 23. gr. þágildandi laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála sem í gildi voru þegar NN framdi brot sín segir að ef saksækja skuli mann fyrir fleiri en eitt brot skuli það gert í einu máli eftir því sem við verður komið. Telur ráðuneytið ljóst að NN byggi á því að þar sem ákvæði þessu hafi ekki verið fylgt leiði það til þess að um handvömm hafi verið að ræða sem túlka beri NN í hag.

Fyrsta brot sitt framdi NN þann 22. júlí 2006. Var ákæra gefin út vegna þess brots þann 25. september 2006 og gekk dómur í málinu þann 11. október 2006. Var ökuleyfissvipting ákveðin í tvö ár frá og með þeim degi. Annað brot sitt framdi NN þann 24. september 2006, eða degi áður en ákæra í fyrsta málinu var gefin út. Er það mat ráðuneytisins að þar sé því ekki um handvömm að ræða. Ákæra í því máli var gefin út þann 12. mars 2007 og lauk málinu með dómi þann 28. mars 2007. Var svipting ökuréttar NN ákveðin í eitt ár frá 11. október 2008.

Þriðja brot sitt framdi NN þann 30. janúar 2007. Hafði þá ákæra vegna brotsins frá 24. september 2006 ekki enn verið gefin út. Ákæra vegna brotsins frá 30. janúar 2007 var gefin út þann 26. mars 2007 og lauk málinu með dómi þann 11. apríl 2007. Var NN þar gert að sæta sviptingu ökuréttar í þrjú ár frá 11. október 2009.

 

Það er mat ráðuneytisins að samkvæmt fyrirmælum 1. mgr. 23. gr. þágildandi laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 hefði átt að sameina málin vegna brota þeirra sem NN framdi þann 24. september 2006 og 30. janúar 2007. Hafði ákæra vegna brotsins þann 24. september 2006 ekki verið gefin út þegar NN braut af sér á ný þann 30. janúar 2007. Hefðu málin verið sameinuð er ljóst að dómur vegna brotanna hefði hljóðað upp á fjögurra ára ökuleyfissviptingu. Hefði það þá þýðingu fyrir NN að að hann gæti látið reyna á undanþáguákvæði 1. mgr. 106. gr. umferðarlaga 11. október 2011 þar sem sviptingartími væri þá ákveðinn lengri en þrjú ár í skilningi 1. mgr. 106. gr. umferðarlaga. Í ljósi þessa myndi ráðuneytið ekki gera athugasemdir við að NN gæti sótt um endurveitingu ökuréttinda eftir 11. október 2011. Er þessi afstaða ráðuneytisins í samræmi við úrskurð samgönguráðuneytisins frá 27. júní 2006 í máli nr. 4/2006.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og þar sem ekki er heimilt að leggja saman tíma tveggja eða fleiri sviptinga til að réttur skapist samkvæmt ákvæði 1. mgr. 106. gr. umferðarlaga er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki sé uppfyllt skilyrði ákvæðisins um tímalengd ökuleyfissviptingar fyrr en þann 11. október 2011. Því ber að hafna kröfu NN um endurveitingu ökuréttinda líkt og í úrskurðarorði greinir.

Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur uppkvaðning úrskurðar dregist og er beðist velvirðingar á því.

 Úrskurðarorð

Kröfu NN um endurveitingu ökuréttinda er hafnað.

Bryndís Helgadóttir

Brynjólfur Hjartarson



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta