Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Austur-Eyjafjallahreppur - Boðun aukafundar í hreppsnefnd, fundarstjórn oddvita, þáttaka aðila utan hreppsnefndar í umræðum á fundi

Austur-Eyjafjallahreppur                           9. júlí 2001                               FEL01050048/1001

Ólafur Tryggvason, oddviti

Fossbúð, Skógum

861 HVOLSVÖLLUR

 

 

 

Hinn 9. júlí 2001 var kveðinn upp í félagsmálaráðuneytinu svohljóðandi:

 

úrskurður

 

Með erindum, dags. 10. maí sl., kærðu Guðmundur Sæmundsson, Sigurgeir Ingólfsson og Vigfús Andrésson, sem allir eru íbúar í Austur-Eyjafjallahreppi, til ráðuneytisins hvernig staðið var að boðun, auglýsingu og framkvæmd aukafundar í hreppsnefnd Austur-Eyjafjallahrepps sem haldinn var 10. maí sl. Með símbréfi dags. 11. maí óskaði ráðuneytið eftir umsögn hreppsnefndar um málið. Svar hreppsnefndar barst með símbréfi dags. 16. maí sl.

 

Málavextir og málsrök aðila

Athugasemdir kærenda, sem settar eru fram í tveim aðskildum erindum til ráðuneytisins, varða ekki að öllu leyti sömu atriði. Þau má þó setja fram með eftirfarandi hætti:

 

Kærendur gera þær aðfinnslur við málsmeðferð hreppsnefndar að umræddur aukafundur hafi ekki verið auglýstur hreppsbúum, hvað þá dagskrá. Þá finna kærendur að því að skólastjóri hafi setið fundinn til að skýra frá störfum nefndar sem hafði tekið að sér að ræða við önnur sveitarfélög um sameiginlegt skólahald. Í stað þess að gefa einungis álit sitt hafi skólastjóri tekið fullan þátt í almennum umræðum fundarins, m.a. um undirskriftalista frá foreldrum um áframhaldandi skólahald að Skógum. Þá gera kærendur athugasemd við að ekki hafi verið tekið til umræðu bréf frá einum hreppsbúa, sem oddviti hafði fengið í hendur hinn 5. maí sl.

 

Í umsögn hreppsnefndar kemur fram að á á umræddum fundi var einungis eitt mál á dagskrá: Rekstur grunnskólans í Skógum. Fundurinn var boðaður símleiðis sólarhring fyrir fundinn. Skólastjóri grunnskólans sat fundinn með málfrelsi samkvæmt samþykkt fundarmanna við upphaf fundar. Af hálfu hreppsnefndar er ekki að öðru leyti fjallað um málsástæður kærenda. Þó kemur fram í umsögn nefndarinnar að fyrir fundinn hafði oddvita borist erindi um skólamál frá einum af íbúum hreppsins, en öðrum hreppsnefndarmönnum hafði ekki verið kynnt erindið og var það ekki tekið fyrir á umræddum fundi.

 

Niðurstaða ráðuneytisins

Um fundi hreppsnefndar Austur-Eyjafjallahrepps gildir samþykkt um stjórn og fundarsköp hreppsins, nr. 174/2001, og viðeigandi ákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 45/2001. Er meginreglan sú samkvæmt 10. og 13. gr. samþykktarinnar, að hreppsnefndarfundir skuli auglýstir og dagskrá skuli vera aðgengileg íbúum eftir því sem nánar er tilgreint í samþykktinni. Þá skal senda hreppsnefndarmönnum fundarboð með þeim hætti að dagskrá og fundargögn berist hreppsnefndarmönnum í síðasta lagi tveimur sólarhringum fyrir hreppsnefndarfund.

 

Frá fyrrgreindum meginreglum er gerð undantekning í 14. gr. samþykktarinnar. Þar segir að oddviti skuli senda fundarboð aukafundar í hreppsnefnd þannig að það berist hreppsnefndarmönnum ásamt dagskrá a.m.k. sólarhring fyrir fund. Er ekki gert ráð fyrir því í samþykktinni að aukafundir séu auglýstir, en eðli máls samkvæmt kann það að vera nokkrum vandkvæðum bundið með svo skömmum fyrirvara. Telur ráðuneytið að ekki hafi verið skylt að auglýsa aukafund þann í hreppsnefnd Austur-Eyjafjallahrepps sem um er deilt í þessu máli. Jafnframt telur ráðuneytið að ekki hafi verið sýnt fram á annað en að fundurinn hafi verið boðaður með sólarhrings fyrirvara, þrátt fyrir fullyrðingar kærenda um að fyrirvari kunni að hafa verið skemmri.

 

Í umsögn oddvita Austur-Eyjafjallahrepps er bent á að bókað sé í fundargerð hreppsnefndarfundar frá 10. maí sl. að skólastjóri grunnskólans á Skógum sat aukafundinn með málfrelsi samkvæmt samþykkt hreppsnefndarmanna við upphaf fundar. Heimild til slíkrar samþykktar er að finna í 3. mgr. 22. gr. fyrrgreindrar samþykktar um stjórn og fundarsköp Austur-Eyjafjallahrepps. Í því ákvæði kemur ekki fram hve ríkan þátt aðilar utan hreppsnefndar mega taka í umræðum. Telur ráðuneytið að ákvörðun um það hljóti, líkt og aðrar ákvarðanir um fundarstjórn að vera í valdi oddvita, sbr. 19. gr. sömu samþykktar og 22. gr. sveitarstjórnarlaga. Þar sem ekki er að sjá af fundargerð að ágreiningur hafi risið á fundinum um fundarstjórn oddvita telur ráðuneytið ekki tilefni til að fjalla frekar um þennan þátt málsins.

 

Jafnframt telur ráðuneytið, með vísan til skýringa í umsögn hreppsnefndar, að ekki sé tilefni til að gera athugasemd við þá ákvörðun oddvita að kynna ekki á fundinum bréf sem honum hafði borist frá einum íbúa í hreppnum, og taka það þess í stað til umræðu á næsta fundi hreppsnefndar.

 

Með vísan til alls framangreinds getur ráðuneytið ekki fallist á að neinir þeir meinbugir hafi verið á boðun eða framkvæmd aukafundar í hreppsnefnd Austur-Eyjafjallahrepps sem haldinn var 10. maí sl. að varðað geti ógildingu fundarins.

 

ÚRSKURÐARORÐ

 

Hafnað er kröfu Guðmundar Sæmundssonar, Sigurgeirs L. Ingólfssonar og Vigfúsar Andréssonar um að ráðuneytið ógildi ákvarðanir hreppsnefndar Austur-Eyjafjallahrepps sem teknar voru á aukafundi hreppsnefndar sem haldinn var 10. maí 2001.

 

 

F. h. r.

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta