Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Gnúpverjahreppur - Umfjöllun sveitarstjórnar um breytingu á deiliskipulagi, úrskurður oddvita um vanhæfi hreppsnefndarmanns

Sigurður Páll Ásólfsson 31. ágúst 2001 FEL01070020/1001

Ásólfsstöðum I, Gnúpverjahreppi

801 Selfoss

Með erindi, dags. 6. júlí sl., óskaði Sigurður Páll Ásólfsson, hreppsnefndarmaður í Gnúpverjahreppi, álits ráðuneytisins varðandi fundarstjórn oddvita og hæfi hreppsnefndarmanna á hreppsnefndarfundi sem haldinn var 28. júní sl. Á umræddum fundi var m.a. fjallað um skipulagsmál. Kemur fram í gögnum málsins að við umfjöllun um breytingu á deiliskipulagi lýsti oddviti því yfir að Sigurður Páll Ásólfsson skyldi víkja af fundi vegna vanhæfis, þar sem hann hefði sent inn skriflegar athugasemdir við skipulagstillöguna. Engar athugasemdir komu fram við þessari afstöðu oddvita og var tillaga um breytt deiliskipulag samþykkt með atkvæðum þeirra fjögurra sem eftir sátu í hreppsnefnd.

Málshefjandi hefur leitað álits ráðuneytisins á því hvort þessi afgreiðsla hreppsnefndar hafi verið lögmæt. Einnig óskar hann afstöðu ráðuneytisins til þess hvort Már Haraldsson hreppsnefndarmaður sem jafnframt er fulltrúi í byggingarnefnd hreppsins hafi verið vanhæfur við meðferð málsins. Kemur fram í erindinu að hann hefur unnið að deiliskipulagsmálum fyrir hreppinn ásamt landslagsarkitekt og skipulagsfulltrúa og alltaf greitt atkvæði á hreppsnefndarfundum um þær tillögur sem hann hefur átt þátt í að móta.

I. Umsögn hreppsnefndar Gnúpverjahrepps

Með bréfi, dags. 12. júlí sl., óskaði ráðuneytið umsagnar hreppsnefndar Gnúpverjahrepps um málið. Sérstaklega óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum um eftirfarandi atriði:

  1. Með hvaða hætti ákvörðun var tekin um að Sigurður Páll Ásólfsson viki af fundi meðan fjallað var um 10. lið á dagskrá fundarins og hvort komið hafi til tals að hafa varamann til reiðu til að taka sæti hans við þann lið fundarins.
  2. Hvort oddviti eða hreppsnefnd hafi litið svo á að þær athugasemdir sem Sigurður Páll Ásólfsson sendi inn vegna breytinga á deiliskipulagi hafi verið gerðar af honum sem einstaklingi eða sem hreppsnefndarmanni.
  3. Afstöðu hreppsnefndar til þeirra sjónarmiða sem velt er upp í bréfi Sigurðar Páls Ásólfssonar varðandi hugsanlegt vanhæfi annarra hreppsnefndarmanna.

Umsögn hreppsnefndar barst í bréfi dags. 12. ágúst sl. Í henni kemur fram að vegna athugasemda sem málshefjandi gerði við tillögu um breytingu á deiliskipulagi og beiðni sem hann sendi Skipulagsstofnun um sérstaka úttekt á hjólhýsasvæði að Skriðufelli, hafi oddviti talið hann vanhæfan til endanlegrar afgreiðslu málsins.Hafi málið varðað hann svo sérstaklega og persónulega að almennt mætti ætla að viljaafstaða hans mótaðist að einhverju leyti þar af. Þessari afstöðu lýsti oddviti yfir, án þess að nokkrar athugasemdir kæmu fram á hreppsnefndarfundinum 28. júní. Í framhaldi af því var bókað um vanhæfi málshefjanda. Ekki hafi reynst unnt að grípa til varamanns þótt venja sé að 1. varamaður sitji alla hreppsnefndarfundi. Á fundinum 28. júní hafi einn aðalmanna forfallast með mjög stuttum fyrirvara og ekki hafi gefist tími til að kalla til annan varamann vegna þessara sérstöku aðstæðna. Fundurinn hafi engu að síður verið ályktunarhæfur.

Í umsögninni lýsir oddviti þeirri skoðun sinni að þær athugasemdir sem málshefjandi gerði við tilllögu um breytingu á deiliskipulagi hafi verið gerðar af honum sem einstaklingi. Hann búi á næsta bæ við Skriðufell, jarðirnar liggi saman og umferð að báðum bæjum og hjólhýsasvæði fer að hluta til um sama veg. Hafi málshefjandi að undanförnu átt í útistöðum við nágranna sína, bæði Skógrækt ríkisins og einstaka aðila í hópi hjólhýsaeigenda. Áður hafi komið til tals á hreppsnefndarfundum að afskipti hans af málinu væru persónulegs eðlis þannig að vanhæfisreglur sveitarstjórnarlaga ættu við. Við afgreiðslu málsins á hreppsnefndarfundi 28. júní sl. hafi oddviti ekki talið vafa leika á að málshefjanda bæri að víkja sæti við afgreiðslu málsins.

Varðandi hugsanlegt vanhæfi annarra hreppsnefndarmanna kemur fram í umsögninni að í litlu sveitarfélagi eins og Gnúpverjahreppi, þar sem oddviti er einungis í hálfri stöðu, hljóti aukin vinna að koma til á aðra hreppsnefndarmenn. Meðal annars sé einn hreppsnefndarmaður fulltrúi í byggingarnefnd uppsveita Árnessýslu og forsvarsmaður sveitarinnar í skipulagsmálum. Ekki sé greitt fyrir aukastörf hreppsnefndarmanna nema fyrir setu á fundum ásamt útlögðum kostnaði. Aldrei hafi komið upp neinn vafi um hæfi einstakra hreppsnefndarmanna þó þeir vinni að undirbúningi mála fyrir fundi, sem reyndar var ekki í þessu tilviki þar sem skipulagsráðgjafi og fulltrúi unnu þá tillögu sem til afgreiðslu var. Öll afskipti annarra hreppsnefndarmanna af málinu hafi verið á faglegum grunni, þar sem hagsmunir sveitarfélagsins voru hafðir að leiðarljósi.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 12. júlí, var málshefjanda gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum vegna ofangreindra atriða. Athugasemdir hafa ekki borist frá honum.

II. Álit ráðuneytisins

Áður en málshefjandi sendi erindið til umfjöllunar hafði hann samráð við lögfræðing ráðuneytisins. Var honum þá gerð grein fyrir því að ráðuneytið gæti ekki tekið erindi hans til meðferðar sem stjórnsýslukæru, enda heyra ágreiningsmál um skipulags- og byggingarmál ekki undir ráðuneytið. Málshefjandi óskaði engu að síður eftir að ráðuneytið fjallaði um málið og er það því tekið til meðferðar á grundvelli 2. og 102. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, með vísan til eftirlitshlutverks ráðuneytisins á sviði sveitarstjórnarmála. Niðurstaða ráðuneytisins getur hins vegar ekki haft áhrif á gildi samþykktar hreppsnefndar Gnúpverjahrepps um breytingu á deiliskipulagi sem samþykkt var á hreppsnefndarfundi 28. júní sl.

Í 1. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að sveitarstjórnarmanni ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af. Af gögnum málsins er ljóst að málshefjandi lét færa til bókar á hreppsnefndarfundi þann 15. mars sl. mótmæli við framkominni tillögu um breytingu á deiliskipulagi að Skriðufelli. Einnig mun málshefjandi hafa sent Skipulagsstofnun beiðni um sérstaka úttekt á hjólhýsasvæðinu að Skriðufelli. Kemur fram í umsögn hreppsnefndar að oddviti leit svo á að málshefjandi hefði sent athugasemdirnar inn sem einstaklingur og hafi hann verið að gæta persónulegra hagsmuna sinna í umræddu máli.

Ráðuneytið telur að með hliðsjón af því að málshefjandi er búsettur í næsta nágrenni við umrætt hjólhýsasvæði hafi mátt vakna efasemdir um hæfi hans til að fjalla um málið í hreppsnefnd. Engu að síður skal bent á að athugasemdir málshefjanda voru gerðar með bókun á hreppsnefndarfundi og er því alls ekki augljóst að unnt sé að túlka þær sem persónulegar athugasemdir málshefjanda, líkt og gert er í umsögn hreppsnefndar. Telur ráðuneytið aðfinnsluvert, með vísan til 5. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga, að oddviti bar ekki undir hreppsnefnd með formlegum hætti hvort málshefjandi væri vanhæfur til að fjalla um málið og veita málshefjanda kost á að taka þátt í atkvæðagreiðslu um hæfi sitt, gerðist þess þörf. Einhliða yfirlýsing oddvita um vanhæfi einstakra hreppsnefndarmanna á sér ekki stoð í sveitarstjórnarlögum, enda er um að ræða sérreglu sem takmarkar úrskurðarvald oddvita um fundarsköp hreppsnefndar.

Að því er varðar hæfi annarra hreppsnefndarmanna til að taka þátt í afgreiðslu umrædds máls telur ráðuneytið ljóst af umsögn hreppsnefndar að Már Haraldsson hefur ekki þegið sérstaka þóknun fyrir vinnu að skipulagsmálum hreppsins, ef undan eru skildar greiðslur fyrir setu á fundum og útlagðan kostnað. Hann getur því ekki talist starfsmaður hreppsins í skilningi 3. mgr. 19. gr. sveitarstjórnalaga, enda falla kjörnir fulltrúar í nefndir sveitarfélaga ekki undir umrætt ákvæði. Gilda því einungis almennar hæfisreglur um þátttöku hans í afgreiðslu einstakra mála. Því hefur ekki verið haldið fram af hálfu málshefjanda að Már Haraldsson né aðrir hreppsnefndarmenn hafi átt persónulegra hagsmuna að gæta í umræddu máli. Getur því ekki orðið um vanhæfi þeirra að ræða.

Ráðuneytið gerir ekki athugasemd við skýringar í umsögn hreppsnefndar á tildrögum þess að ekki var tiltækur varamaður á fundinum, þrátt fyrir að oddvita væri kunnugt um að hans gæti verið þörf. Þar sem málshefjandi vék án andmæla af fundi í umrætt sinn og fjöldi hreppsnefndarmanna var nægur til að samþykkja tillögu um breytingu á deiliskipulagi, sbr. 1. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga, telur ráðuneytið að samþykkt hreppsnefndar standist sveitarstjórnarlög.

Ráðuneytið telur loks nauðsynlegt, með vísan til 102. gr. sveitarstjórnarlaga, að taka afstöðu til þess hvort fundarstjórn oddvita gefi tilefni til beitingar viðurlaga gagnvart oddvita eða sveitarstjórn. Telur ráðuneytið, eins og áður sagði, aðfinnsluvert að oddviti vakti ekki athygli hreppsnefndar á hugsanlegu vanhæfi málshefjanda en lýsti því þess í stað yfir einhliða að málshefjanda bæri að víkja af fundi við afgreiðslu tillögu um breytt deiliskipulag í landi Skriðufells. Bar hreppsnefnd að skera úr um hvort málið væri svo vaxið að málshefjanda bæri að víkja af fundi við afgreiðslu málsins. Ráðuneytið hefur margoft lýst þeirri afstöðu sinni að viðurlögum verður aðeins beitt ef um er að ræða stórfellt eða ítrekað brot eða ef um ásetning er að ræða. Telur ráðuneytið að engin tilefni séu til veitingar áminningar í þessu máli.

III. Niðurstaða

Ekki er gerð athugasemd við samþykkt hreppsnefndar Gnúpverjahrepps frá 28. júní 2001, um breytt deiliskipulag í landi Skriðufells.

Ráðuneytið telur aðfinnsluvert, með vísan til 5. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga, að oddviti Gnúpverjahrepps bar ekki undir hreppsnefnd með formlegum hætti hvort málshefjandi, Sigurður Páll Ásólfsson væri vanhæfur til að taka þátt í afgreiðslu hreppsnefndar á tillögu um breytt deiliskipulag í landi Skriðufells.

F. h. r.

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta