Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Grindavíkurbær - Fundarstjórn og úrskurðarvald oddvita, dagskrá sveitarstjórnarfundar, bókunarréttur

Hallgrímur Bogason
29. mars 2006
FEL06020033

Heiðarhrauni 28

240 Grindavík

Hinn 29. mars 2006 var í félagsmálaráðuneyti kveðinn upp svofelldur

ú r s k u r ð u r:

Þann 10. febrúar 2006 barst ráðuneytinu erindi frá Hallgrími Bogasyni, bæjarfulltrúa í

bæjarstjórn Grindavíkurbæjar, dags. 8. febrúar 2006, hér eftir nefndur kærandi, þar sem kært er

að forseti bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar, hér eftir nefnd kærði, hafi á fundi bæjarstjórnar þann

8. febrúar sl. hafnað því að leggja fram tillögu og greinargerð kæranda um að skoðuð verði

tillaga Gjaldskila ehf. um innheimtu fasteignagjalda.

Er þess krafist að ráðuneytið úrskurði hvort heimilt hafi verið að hafna framlagningu

framangreindrar tillögu á fundi bæjarstjórnar 8. febrúar 2006.

Erindið var sent Grindavíkurbæ til umsagnar með bréfi, dags. 20. febrúar 2006. Umsögn

bæjarins, dags. 9. mars 2006, var send kæranda með bréfi, dags. 10. mars 2006. Athugsemdir

kæranda bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 16. mars 2006.

I. Málavextir og sjónarmið aðila máls.

 

Á fundi bæjarráðs Grindavíkurbæjar þann 25. janúar 2006 er bókað svo undir lið 8:

Bréf Gjaldskila ehf. innheimta fasteignagjalda. Bréfið lagt fram.

Á fundi kærða þann 8. febrúar 2006, þar sem framangreind fundargerð bæjarráðs var lögð fram,

var gerð eftirfarandi bókun undir lið 2:

Fundargerð bæjarráðs dags. 25/2 og 1/2 2006. Umræður. Til máls tóku ... Bæjarstjóri svaraði

fyrirspurnum.“

Á fundinum óskuðu tveir fulltrúar B-lista, en kærandi er annar þeirra, eftir að leggja fram

eftirfarandi tillögu:

113-18 Tillaga:

Leggjum við til að skoðuð verði tillaga Gjaldskila ehf. um innheimtu fasteignagjalda.

Greinargerð:

Heildarálögur Grindavíkurbæjar á eigendur íbúðarhúsa hafa hækkað á kjörtímabilinu um

85,45%. Ef frá eru dregin kostnaðargjöld við sorphirðu og sorpeyðingu sem hækkað hafa

verulega stendur eftir 77% skattahækkun á samtölu fastaeignaskatts, lóðarleigu, fráveitugjaldi

og vatnsgjaldi. Er því mikilvægt að innheimta gjalda verði eins góð og kostur er.“

Í kæru kemur fram að forseti bæjarstjórnar hafi hafnað því að tillagan, ásamt greinargerð, yrði

lögð fram og jafnframt neitað að færa til bókar að tillögu um framlagningu væri hafnað.

Kærandi heldur því fram að skv. 29. gr. sveitarstjórnarlaga, svo og 28. og 29. gr.

bæjarmálasamþykktar Grindavíkurbæjar, hafi forseta bæjarstjórnar ekki verið heimilt að hafna

framlagningu á tillögunni og greinargerðinni.

Í umsögn Grindavíkurbæjar, dags. 9. mars 2006, kemur fram að erindi félagsmálaráðuneytisins

þar sem óskað var umsagnar um kæruna hafi verið tekið fyrir á fundi bæjarstjórnar þann 8. mars

sl. Eftirfarandi var bókað á fundinum:

Á fundi bæjarstjórnar þann 8. febrúar sl. var erindi frá Gjaldskilum ehf. þar sem boðin er fram

þjónusta vegna innheimtumála Grindavíkurbæjar. Bæjarfulltrúi, Hallgrímur Bogason, óskaði

eftir að leggja fram tillögur um gjaldskrárbreytingar sem forseti hafnaði. Bæjarfulltrúanum var

bent á að tillögur hans tengdust á engan hátt umræddu bréfi en ítrekað var reynt að þvinga á

dagskrá máli sem ekki var til umræðu. Síðasta tillaga Hallgríms var síðan í þá átt að skoða

tillögu Gjaldskila um innheimtu. Meinlaust hefði verið að taka þessa síðustu tillögur Hallgríms á

dagskrá og afgreiða hana.

Meirihluti D og S lista.“

Bókun minnihluta var eftirfarandi:

Sem betur fer er úrskurður Harðar Guðbrandssonar, forseta bæjarstjórnar Grindavíkur, ekki

fullnaðarúrskurður um meðferð sveitarstjórnarmála.

Bíðum við úrskurðar félagsmálaráðuneytis og fullvissir um sigur okkar þar sem réttlætið sigri.

Fulltrúar B-lista

Loks kemur fram í umsögn Grindavíkurbæjar að á fundinum 8. mars hafi minnihlutanum verið

boðið að taka umrædda tillögu þeirra á dagskrá til afgreiðslu en þeir hafi hafnað því boði.

Í athugasemdum kæranda við umsögn kærða, dags. 16. mars 2006, segir að hann geri enga

efnislega athugasemd við umsögnina. Hins vegar vilji hann árétta, varðandi það sem fram komi í

niðurlagi umsagnarinnar um að minnihlutanum hafi verið boðið að taka umrædda tillögu á

dagskrá til afgreiðslu en þeir hafi hafnað því boði, að ekkert slíkt boð hafi komið fram á fundi

kærða þann 8. mars sl.

II. Niðurstaða ráðuneytisins.

 

Samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, úrskurðar ráðuneytið um ýmis vafaatriði

sem upp kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna, meðal annars um það hvort

sveitarstjórnarfundir fari löglega fram.

Ráðuneytið lítur svo á að í erindinu felist kæra í skilningi 103. gr. sveitarstjórnarlaga og að kæran

taki til höfnunar forseta bæjarstjórnar um að tillaga kæranda, um að skoða tillögu Gjaldskila ehf.

um innheimtu fasteignagjalda, yrði tekin til umræðu á fundi hennar 8. febrúar 2006. Kæran er

fram komin innan tilskilins kærufrests, sbr. 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Málið er því tækt

til úrskurðar.

Það sem aðila greinir á um er hvort forseta bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar hafi verið heimilt, á

fundi sínum 8. febrúar 2006, að hafna að leggja fram tillögu kæranda, sbr. bréf Gjaldskila ehf.,

en það bréf hafði verið lagt fram á fundi bæjarráðs 25. janúar 2006 en var ekki á dagskrá fundar

bæjarstjórnar 8. febrúar 2006.

Um afgreiðslu sveitarstjórnar á fundargerðum ráða og nefnda á vegum sveitarfélagsins er fjallað

í 49. gr. sveitarstjórnarlaga. Þar kemur fram að ef fundargerðir nefnda innihalda ekki ályktanir

eða tillögur sem þarfnast sérstakrar staðfestingar sveitarstjórnar eru fundargerðirnar lagðar fram

til kynningar. Ályktun nefndar sem hefur fjárútlát í för með sér skal lögð fyrir sveitarstjórn eftir

því sem fyrir er mælt í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins. Í 2. tölul. 11. gr. í samþykkt

Grindavíkurbæjar er ekki kveðið nánar á um þetta efni heldur er tiltekin sams konar regla og

fram kemur í 49. gr. sveitarstjórnarlaga.

Hvað varðar rétt bæjarstjórnarmanns til að fá mál tekið fyrir á fundi bæjarstjórnar

Grindavíkurbæjar vísast til 11. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Grindavíkurbæjar. Þar

kemur fram að bæjarstjóri boðar til fundar með dagskrá og skal þar tilgreint hvert efni fundarins

verður. Samkvæmt 3. tölul. 11. gr. samþykktarinnar skal bæjarstjórnarmaður, sem óskar að fá

mál tekið á dagskrá bæjarstjórnarfundar, tilkynna það bæjarstjóra skriflega með tillögu eða

fyrirspurn a.m.k. þremur sólarhringum fyrir fund.

Um skráningu fundargerða er bent á að skv. 23. gr. sveitarstjórnarlaga skal skrá í fundargerð það

sem gerist á sveitarstjórnarfundi.

Ekki er ágreiningur um staðreyndir máls þessa. Liggur fyrir að bréf Gjaldskila ehf. var lagt fram

á fundi bæjarráðs 25. janúar 2006, að kærandi óskaði ekki eftir að fá tillögu sína í tengslum við

bréf Gjaldskila ehf. á dagskrá bæjarstjórnarfundar þann 8. febrúar 2006 og að kærði hafnaði að

leggja tillöguna fram við afgreiðslu málsins á þeim fundi. Þá er óumdeilt að á fundi

Grindavíkurbæjar 8. febrúar 2006 var ósk kæranda um framlagningu á tillögunni ekki færð til

bókar. Jafnframt liggur fyrir að kærði færði ekki til bókar á fundinum 8. febrúar sl. að tillögu um

framlagningu hefði verið hafnað.

Með hliðsjón af framangreindu liggur fyrir að kærandi lagði ekki fram ósk um að fá tillögu sína á

dagskrá bæjarstjórnarfundar þann 8. febrúar 2006 eins og hann átti kost á skv. 3. tölul. 11. gr.

samþykktar Grindavíkurbæjar.

Afgreiðsla bæjarráðs á bréfi Gjaldskila ehf. er ekki þess efnis að þörf sé staðfestingar

bæjarstjórnar, sbr. 49. gr. sveitarstjórnarlaga og 2. tölul. 11. gr. samþykktar Grindavíkurbæjar.

Loks er þeirri staðhæfingu kæranda ekki mótmælt að forseti bæjarstjórnar hafi neitað að færa til

bókar á fundi kærða 8. febrúar 2006 að hafnað væri að leggja fram tillögu kæranda og

greinargerð.

Að því virtu sem að framan er rakið bar kærða ekki skylda til að taka tillögu kæranda til umræðu

á fundi hennar 8. febrúar 2006 enda var þar hvorki um að ræða tillögu sem staðfesta bæri í

sveitarstjórn, sbr. 2. mgr. 49. gr. sveitarstjórnarlaga og 2. tölul. 11. gr. samþykktar

Grindavíkurbæjar, né hafði kærandi óskað eftir að fá tillöguna á dagskrá fundarins, sbr. 3. tölul.

11. gr. samþykktar Grindavíkurbæjar. Höfnun forseta bæjarstjórnar um að taka tillögu kæranda

fyrir á fundinum 8. febrúar 2006 er því lögmæt.

Ekki verður séð í gögnum málsins að farið hafi verið fram á að málið yrði tekið á dagskrá með

afbrigðum, sbr. 2. mgr. 20. gr. samþykktar Grindavíkurbæjar.

Kveðið er á um hlutverk oddvita sveitarstjórnar í 22. gr. sveitarstjórnarlaga. Þar kemur fram að

oddviti stjórnar fundum sveitarstjórnar og sér um að fundargerðir séu skipulega færðar í

gerðabók sveitarstjórna og að allar ályktanir og samþykktir séu rétt og nákvæmlega bókaðar, sbr.

og 23. gr. laganna um fundargerðir sveitarstjórnar. Hvað Grindavíkurbæ áhrærir er hlutverkið

frekar útfært í 19. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp bæjarins. Þar segir að forseti

bæjarstjórnar stýri fundum hennar og úrskurði um skilning á fundasköpum en skjóta megi

úrskurði hans til úrlausnar bæjarstjórnar.

Í máli þessu telur ráðuneytið að rétt hefði verið að fram hefði komið í fundargerð að kærandi

óskaði eftir að tillaga Gjaldskila ehf. yrði til umræðu á fundinum, þ.e. eðlilegt hefði verið að

bóka þann atburð, sbr. 22. og 23. gr. sveitarstjórnarlaga og 19. gr. samþykktar Grindavíkurbæjar,

og að þeirri beiðni var synjað. Sá ágalli er aðfinnsluverður en varðar þó ekki lögmæti hinnar

kærðu ákvörðunar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Frávísun forseta bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar á tillögu kæranda á fundi bæjarstjórnar 8.

febrúar 2006 er lögmæt.

Fyrir hönd ráðherra

Guðjón Bragason (sign.)

Þorgerður Benediktsdóttir (sign.)

29. mars 2006 - Grindavíkurbær - Fundarstjórn og úrskurðarvald oddvita, dagskrá sveitarstjórnarfundar, bókunarréttur. (PDF)




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta