Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Skorradalshreppur - Ákvarðanir um verðlagningu á heitu vatni til einkahlutafélags í eigu margra íbúa

Skorradalshreppur                                                     16. desember 1996                                            96110076

Hr. Davíð Pétursson oddviti                                                                                                                1001

Grund

311 Borgarnes

 

 

           Vísað er til erindis yðar frá 19. nóvember 1996, sbr. einnig símbréf yðar, dags. 3. desember s.l. Þar óskið þér eftir áliti félagsmálaráðuneytisins á því hvort það samræmist lögum að hreppsnefnd Skorradalshrepps tilefni hluthafa í Hitaveitu Skorradals í nefnd til að ákveða vatnsverð fyrir hönd hreppsins.

           Þér lýsið málavöxtum svo, að Skorradalshreppur hafi látið leita að og bora eftir heitu vatni í landi Stóru Drageyrar í sama hreppi, með góðum árangri. Í framhaldi af því og til nýtingar á heita vatninu hafi Hitaveita Skorradals ehf. verið stofnuð og hafi hitaveitu verið komið til þeirra býla og sumarbústaða sem áhuga hafi haft á því. Hreppsnefndin hafi ákveðið að hreppurinn ætti holuna, en seldi hitaveitunni vatnið sem og öðrum sem legðu leiðslur sínar að holunni á heildsöluverði. Þér lýsið því einnig að Skorradalshreppur hafi keypt þriggja millj. kr. hlutafé í hitaveitunni og þess utan hafi allir hreppsnefndarmenn nema einn keypt hlutafé í henni. Heildarhlutafé Hitaveitu Skorradals ehf. sé 35 millj. kr., þar af eigi Skorradalshreppur 3 millj. kr., en hvert lögbýli sem tengist veitunni hafi keypt hlutafé fyrir kr. 1.582.000.- og séu 1-3 einstaklingar sem eigi þetta hlutafé á bæ, en hlutafé hvers sumarbúsaðar sé kr. 250.000.- Um 80 einstaklingar og félög séu hluthafar og hafi 11 lögbýli og 48 lóðarhafar keypt hlutabréf. Næsti áfangi geri ráð fyrir að til viðbótar komi 3 lögbýli með um 300 sumarhúsalóðum.

           Í símtali ráðuneytisins við yður, 17. desember s.l., kom fram að ekkert ákvæði í samþykktum einkahlutafélagsins mæli fyrir um skipan í umrædda nefnd og er gengið út frá þeim forsendum í áliti þessu.

           Ákvæði 1. mgr. 45. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 mælir fyrir um að “sveitarstjórnarmanni ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af.” Í 2. mgr. 2. mgr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að um sérstakt hæfi sveitarstjórnarmanna fari eftir stjórnsýslulögum. Stafar þessi undanþága frá stjórnsýslulögum af því að vegna fámennis í sumum sveitarfélögum hefur ekki þótt fært að gera eins strangar kröfur til þeirra sem starfa við stjórnsýslu sveitarfélaga og gerðar eru í II. kafla stjórnsýslulaga. Enda þótt II. kafli stjórnsýslulaga gildi þannig ekki um hæfi sveitarstjórnarmanna verður þó að líta til stjórnsýslulaga við skýringu og fyllingu ákvæða 45. gr. sveitarstjórnarlaga.

           Samkvæmt upplýsingum þeim sem lagðar hafa verið fram liggur fyrir að málefni Hitaveitu Skorradals ehf. tengjast með einum eða öðrum hætti flestum íbúum í Skorradalshreppi, og er um nokkuð almenna hlutafjáreign að ræða, en hlutur hvers einstaklings tiltölulega lítill miðað við heildarfjárhæð hlutafjár. Hafa verður einnig í huga, enda þótt það geti eigi ráðið úrslitum við úrlausn málsins, að teldist hlutafjáreign leiða til vanhæfis yrðu allir hreppsnefndarmenn utan einn vanhæfir, auk þess sem erfitt yrði að finna staðgengla þeirra innan hreppsins til setu við ákvörðunartöku í málinu, eða yfirleitt einhverja hreppsbúa til setu í nefndinni.

 

           Með hliðsjón af framansögðu og málavöxtum öllum lítur ráðuneytið svo á, að hagsmunir hreppsnefndarmanna Skorradalshrepps séu eigi slíkir að talið verði að ómálefnaleg sjónarmið hafi áhrif á ákvörðun þeirra í hreppsnefnd, sbr. orðalag 2. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. einnig ákvæði 45. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986, um tilefningu í umrædda nefnd um vatnsverð, né heldur geti þeir staðið gegn setu þeirra í nefndinni. Ráðuneytið telur að lokum ástæðu til að árétta að sérstök lög gilda um einkahlutafélög, nr. 138/1994 og fer um meðferð mála af hálfu einkahlutafélagsins eftir reglum þerra laga og samþykktum félagsins.

 

F. h. r.

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Elín Blöndal (sign.)

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta