Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Úrskurður í máli nr. IRN22010633

Ár 2022, þann 9. febrúar, er í innviðaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli IRN22010633

 

Kæra X

á ákvörðun

sveitarfélagsins Hornafjarðar

 

 

I.          Kröfur og kæruheimild

Þann 5. apríl 2021 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra X (hér eftir nefnd kærendur), vegna ákvörðunar bæjarráðs Hornafjarðar (hér eftir nefnt H), dags. 6. janúar 2021, sem kæranda var tilkynnt með bréfi dags. 12. janúar 2021, um að hafna beiðni um niðurfellingu gatnagerðargjalda vegna A. Krefjast kærendur þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lagt verði fyrir sveitarstjórn Hornafjarðar að fella niður gatnagerðargjald af lóðinni að A.

 

Kæran er fram borin á grundvelli 1. mgr. 11. gr. laga nr. 153/2006 um gatnagerðargjald og er kæran fram komin innan lögmælts kærufrests, sbr. 1. mgr. 11. gr. sömu laga.

 

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur fengu lóð að A úthlutað þann 6. október 2020. Í kjölfarið sendu kærendur erindi til sveitarstjórnar dags. 22. desember 2020, þar sem farið var fram á að gatnagerðargjöld yrðu felld niður.

 

Bentu kærendur á að sveitarfélagið hafi tekið ákvörðun um tímabundna niðurfellingu gatnagerðargjalda á tímabilinu frá 11. maí 2017 til 11. maí 2019. Þeir sem hafi fengið úthlutaðar lóðir á framangreindu tímabili þurftu því ekki að greiða gatnagerðagjald en kveðið var á um skyldu lóðarhafa til að hefja framkvæmdir á lóðunum innan níu mánaða. Ljóst sé að fjöldi lóðarhafa sem fengu úthlutað á tímabilinu hafi ekki hafið framkvæmdir þrátt fyrir að níu mánaða frestur sé löngu liðinn. Sveitarfélagið hafi brugðist við með því að framlengja framkvæmdafresti og samhliða framlengja niðurfellingu gatnagerðargjalda í þeim tilfellum. Þá hafi sveitarfélagið einnig fallist á framsal lóðarréttinda varðandi sumar lóðirnar án þess að krefja viðkomandi framsalshafa um gatnagerðargjöld. Töldu kærendur að sveitarfélagið hefði brotið á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að hafa tekið ákvarðanir, fyrir og eftir úthlutun til kærenda, um framlengingu á niðurfellingu gatnagerðargjalda sem og að innheimta ekki gatnagerðargjöld við framsal á tilteknum lóðum.

 

Með bréfi bæjarstjóra H, dags. 12. janúar 2021, var kærendum tilkynnt að beiðni þeirra um niðurfellingu gatnagerðargjalda væri hafnað.

 

Eins og fyrr segir barst stjórnsýslukæra kæranda ráðuneytinu þann 5. apríl 2021. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 13. apríl sl., var sveitarfélaginu gefinn kostur á að koma að frekari gögnum og sjónarmiðum varðandi kæruna. Með bréfi dags. 18. maí sl. var beiðni ráðuneytis um umsögn og frekari gögn ítrekuð.  Ráðuneytið sendi lokabréf dags. 8. júní sl. og sveitarfélaginu tilkynnt að ef engin gögn eða umsögn myndi berast ætti ráðuneytið ekki annarra kosta völ en að úrskurða í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna.  Þrátt fyrir fresti og ítrekanir hafa engin gögn eða umsögn borist frá sveitarfélaginu.

 

Kærendur sendu viðbótarrökstuðning með bréfi dags. 21. sept. 2021.

 

III.       Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast  þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lagt verði fyrir sveitarstjórn H að fella niður gatnagerðargjald á lóðinni að A.

 

Kærendur benda á að rekja megi upphaf þessa máls til ákvörðunar sem bæjarstjórn H tók á árinu 2017 um að fella tímabundið niður gatnagerðargjöld af lóðum í sveitarfélaginu. Þann 11. maí 2017 hafi sveitarfélagið sett um þetta sérstakar reglur þar sem fram hafi komið að markmið reglnanna væri að ýta undir nýbyggingar í sveitarfélaginu og að vonast hefði verið til þess að niðurfellingin leiddi til aukins framboðs á íbúðarhúsnæði en ásókn í tilbúnar lóðir hefði verið lítil misserin á undan. Reglur sveitarfélagsins um úthlutun á byggingarrétti fyrir íbúðarhúsnæði frá  2008 kveði á um að lóðarhafi skuli hefja framkvæmdir á lóð eigi síðar en níu mánuðum eftir lóðaúthlutun.

 

Kærendur vekja einnig athygli á því að kveðið hafi verið nánar á um fyrirkomulag niðurfellingarinnar í reglunum en vísað var til reglna sveitarfélagsins um úthlutun á byggingarrétti fyrir íbúðarhúsnæði frá 2008 um heimild til afturköllunar lóðaúthlutunar. Samkvæmt 4. gr. reglnanna skyldi niðurfellingin gilda í 12 mánuði frá samþykkt reglnanna. Gildistími reglnanna hafi síðar verið framlengdur til 11. maí 2019.

 

Kærendur benda jafnframt á að reglur sveitarfélagsins um úthlutun á byggingarrétti fyrir íbúðarhúsnæði frá 2008 hafið kveðið á um að lóðarhafi skyldi hefja framkvæmdir á lóð eigi síðar en 9 mánuðum eftir úthlutun lóðar. Þá skyldi hús vera fullgert að utan, lóð grófjöfnuð og gróðri komið fyrir innan fjögurra ára frá því lóð varð byggingarhæf. Reglur kváðu einnig á um að bæjarráð gæti afturkallað úthlutaða lóð, ef lóðarhafi haldi ekki byggingar- og skipulagsskilmála, m.a. um upphaf framkvæmda.

 

Kærendur benda einnig á að við skoðun fundargerða bæjarráðs H á því tímabili sem um ræði megi ráða að um 36 lóðum hafi verið úthlutað á því tímabili sem niðurfelling gatnagerðargjalda varði. Um 13 af þeim lóðum hafi verið enn óbyggðar þegar ákvörðun bæjarráðs í máli kærenda hafi verið tekin, þvert á reglur sveitarfélagsins um skyldu til að hefja framkvæmdir innan 9 mánaða. Sveitarstjórn H hafi brugðist við þessu með því að framlengja frest til þess að hefja framkvæmdir og samhliða framlengja niðurfellingu gatnagerðargjalds í þeim tilfellum.

 

Kærendur benda einnig á dæmi um lóðir í kringum lóð kærenda sem hafi verið úthlutað á umræddu tímabili þar sem niðurfelling átti við. Engar framkvæmdir séu byrjaðar á þeim lóðum þrátt fyrir að frestur til framkvæmda sé liðinn og engar framkvæmdir á umræddum lóðum þegar bæjarráð tók ákvörðun um að hafna beiðni kærenda um niðurfellingu gatnagerðargjalda en bæjarráð hafi í öllum tilvikum framlengt frest lóðarhafa áðurnefndra lóða til framkvæmda og þar með einnig niðurfellingu á gatnagerðargjöldum fram til 31. mars 2021. Auk þessa hafi framsali á einni af áðurnefndum lóðum verið samþykkt þann 3. nóvember 2020 án þess að áætlað sé að krefja nýjan lóðarhafa um gatnagerðargjöld.

 

Kærendur hafi fengið lóðinni að A úthlutað þann 6. október 2020 og áætla að full gatnagerðargjöld verði innheimt af lóðinni sem nemi 2,3 – 2,8 millj. króna. Uppbygging þeirra á lóðinni muni því verða tæpum þremur milljónum dýrari en uppbygging annarra lóðarhafa við sömu götu sem hafa ekki hafið framkvæmdir en njóta áfram ívilnunar í formi niðurfellingar gatnagerðargjalda. Kærendur telja þessa stöðu ósanngjarna og að sveitarstjórn H mismuni aðilum í sömu stöðu með ómálefnalegum hætti þannig að jafnræði þeirra sé raskað. Fóru kærendur því fram á við sveitarstjórn með bréfi dags. 22. desember 2020 að gatnagerðargjöld á lóð þeirra yrðu felld niður.

 

Erindi kærenda var tekið fyrir á fundi bæjarráðs þann 6. janúar sl. og var eftirfarandi bókað af því tilefni:

 

„Í reglunum er engin heimild til að krefjast greiðslu fyrir lóðirnar sem úthlutað var með tímabundinni niðurfellingu gatnagerðargjalda og felur frestur sveitarfélagsins til lóðarhafa til að hefja framkvæmdir því ekki í sér að verið sé að fallast á niðurfellingu gatnagerðargjalda heldur er þar einungis verið að veita frest til framkvæmda sem kveðið er á um í reglunum.

Af framangreindum ástæðum telur bæjarráð að ekki hafi verið brotið í bága við jafnræðisreglu stjórnsýslulaga af hálfu Sveitarfélagsins Hornafjarðar að því er varðar ákvarðanir í tengslum við gatnagerðargjöld eins og haldið er fram í bréfi frá 22. desember 2020.“

 

Var kærendum í kjölfarið tilkynnt um ákvörðun bæjarráðs með bréfi dags. 12. janúar sl.

 

Kærendur telja að sveitarfélagið brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að hafa tekið ákvarðanir, fyrir og eftir úthlutun til kærenda, um framlengingu á niðurfellingu gatnagerðargjalda sem og að innheimta ekki gatnagerðargjald við framsal á tilteknum lóðum. Kærendur telja málsmeðferð sveitarfélagsins ekki byggjast á þeim grundvallarsjónarmiðum að aðilar í sambærilegri stöðu skuli hljóta sams konar úrlausn. Kærendur telja að bein heimild sé til niðurfellingar gatnagerðargjalda vegna lóðaúthlutunar þeirra á grundvelli 1. mgr. 6. gr. laga um gatnagerðargjald við sérstakar aðstæður.

 

Kærendur telja ennfremur að ákvarðanir sveitarfélagsins er lúta að framlengingu frests til þess að hefja framkvæmdir og þar með ákvörðun um að ekki verði innheimt gatnagerðargjöld þrátt fyrir að tímamörk reglna sveitarfélagsins um frest til að hefja framkvæmdir séu löngu liðin valdi því að aðilar í sambærilegri stöðu séu skattlagðir með mismunandi hætti. Frestur hafi verið veittur eftir að kærendur fengu úthlutað lóð sinni. Framkvæmd og málsmeðferð sveitarfélagsins að þessu leyti valdi því að uppbygging kærenda á húsi sínu verði tæplega þremur milljónum dýrari en hjá nágrönnum þeirra sem byggja hús sín á sama tíma og/eða seinna.

Kærendur telja því að þeim hafi verið mismunað við skattlagninguna með ómálefnalegum hætti enda sé það beinlínis ósanngjarnt hvernig staðið hafi verið að álagningu gatnagerðargjalda innan sveitarfélagsins.

 

Í viðbótarrökstuðningi kærenda er bent á að sveitarfélagið sé enn að veita aðilum afslátt af gatnagerðargjöldum þvert á fyrri reglur og viðmið sem borin voru fram við ákvörðun sveitarfélagsins um að hafna kærendum um niðurfellingu gatnagerðargjalda. Meðfylgjandi sé fundargerð fundar bæjarráðs H frá 10 . ágúst sl. þar sem fram komi að sveitarfélagið fallist á ósk leigufélagsins Bríetar og Mikaels ehf. um 50% afslátt af gatnagerðargjöldum. Að mati kærenda standi engin málefnaleg rök til þess að taka kærendur út fyrir sviga og krefja þau um full gatnagerðargjöld á meðan aðrir fá ósk sína um niðurfellingu uppfyllta.

 

IV.       Sjónarmið sveitarfélagsins

 

Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir ráðuneytisins bárust engin sjónarmið af hálfu sveitarfélagsins.

 

V.        Niðurstaða ráðuneytisins

 

Til umfjöllunar er ákvörðun bæjarráðs Hornafjarðar frá 6. janúar 2021 um að hafna beiðni kærenda um niðurfellingu gatnagerðargjalda vegna A

 

Um almennt hlutverk sveitarfélaga er fjallað í 7. gr. sveitarstjórnarlaga. Segir þar að sveitarfélögum sé skylt að annast þau verkefni sem þeim eru falin í lögum.

 

Í lögum nr. 153/2006 um gatnagerðargjald er sveitarfélögum gert að innheimta gatnagerðargjald af fasteignum í þéttbýli. Markmið laganna er að lögbinda gjaldstofn fyrir sveitarfélög til töku sérstaks skatts af fasteignum og rétt sveitarfélaga til að ákveða innan marka laganna hvernig sá gjaldstofn sé nýttur, sbr. 1. gr. laganna. Með lögum nr. 153/2006 voru tekin af öll tvímæli að um skatt væri að ræða en ekki þjónustugjald en eldri lög voru óljósari hvað þetta varðar og því talið nauðsynlegt að skerpa á því.

 

Samkvæmt 2. gr. laganna er lóðarhafi, eða byggingarleyfishafi þar sem það á við, gjaldskyldur samkvæmt lögum um gatnagerðargjald og ber ábyrgð á greiðslu þess.

 

Í 3. gr. laganna er fjallað um gjaldstofn gatnagerðargjalds. Í 2. mgr. kemur fram að stofn til álagningar sé fermetrafjöldi byggingar á tiltekinni lóð og að sveitarstjórn geti ákveðið hann á eftirfarandi hátt í samþykkt, sbr. 12. gr. laganna:

a. Þegar sveitarstjórn úthlutar eða selur lóð eða byggingarrétt á lóð skal leggja á gatnagerðargjald í samræmi við fermetrafjölda þeirra bygginga sem heimilt er að reisa á viðkomandi lóð samkvæmt deiliskipulagi.

b. verði ekki lagt á gatnagerðargjald skv. a-lið, eða ef veitt er byggingarleyfi fyrir stærri byggingu en álagning skv. a-lið var upphaflega miðuð við, skal við útgáfu byggingarleyfis leggja á gatnagerðargjald í samræmi við fermetrafjölda þeirrar byggingar sem byggingarleyfi tekur til.

 

Í lögunum er einnig að finna heimildir sveitarstjórna til lækkunar eða niðurfellingar. Kveðið er á um almennar lækkunarheimildir í 5. gr. og sérstaka lækkunarheimild í 6. gr.

 

Í almennri lækkunarheimild sveitarstjórna skv. 5. gr. er sveitarstjórnum heimilað að kveða á um mishátt gatnagerðargjald eftir notkun bygginga skv. 1. mgr.;

1. íbúðarhúsnæði.

2. verslunar-, skrifstofu- og þjónustuhúsnæðis.

3. Fjölbýlishús.

 

Í 2. mgr. kemur fram að sveitarstjórn sé einnig heimilt að ákveða í samþykkt sinni að gjald af íbúðarhúsnæði megi vera mishátt eftir því hvort um sé að ræða;

1. Einbýlishús.

2. Par-, rað-, tvíbýlis- og keðjuhús.

3. Fjölbýlishús.

 

Í 3. mgr. er svo kveðið á um heimild sveitarstjórna til að lækka eða fella niður gatnagerðargjald í nánar tilgreindum tilvikum sem eiga ekki við í þessu máli.

 

Í 6. gr. laganna er eins og áður sagði að finna sérstaka lækkunarheimild til handa sveitarstjórnum. Í 1. mgr. er sveitarstjórn veitt heimild til að lækka eða fella niður gatnagerðargjald af einstökum lóðum í sveitarfélaginu við sérstakar aðstæður, svo sem vegna þéttingar byggðar, atvinnuuppbyggingar, lítillar ásóknar í viðkomandi lóð eða eftirspurnar eftir leiguhúsnæði.

 

Þá er í 12. gr. laganna kveðið á um að sveitarstjórn skuli setja samþykkt um gatnagerðargjald fyrir sveitarfélagið þar sem eftir atvikum er kveðið á um álagningu gjaldsins, undanþágur frá því og afslætti, gjalddaga og eindaga gjaldsins, greiðslufyrirkomulag og annað er varðar innheimtu þess.

 

Í gildi er gjaldskrá um embættis byggingar- og skipulagsfulltrúa Sveitarfélagsins Hornafjarðar nr. 291 frá 6. mars 2014 sem samþykkt var af bæjarstjórn þann 6. mars 2014 og birt í B -deild Stjórnartíðinda í kjölfarið.

 

Í 1. gr. gjaldskrár er kveðið á um að greiða skuli gatnagerðargjald af öllum nýbyggingum og viðbyggingum í þéttbýli í Sveitarfélaginu Hornafirði, samkvæmt samþykktu deiliskipulagi eða staðfestu aðalskipulagi.

 

Hvað varðar heimild til lækkunar eða niðurfellingar gatnagerðargjalds þá kveður gjaldskráin á um slíkt í 6. gr. Þar kemur eftirfarandi fram;

 

Bæjarstjórn getur lækkað eða fellt niður gatnagerðargjald af einstökum lóðum í sveitarfélaginu við sérstakar aðstæður, sbr. ákvæði 6. gr. laga um gatnagerðargjald nr. 153/2006. Bæjarstjórn er heimilt að hækka eða lækka gjaldskrá gatnagerðargjalds um allt að 35% vegna breytilegs kostnaðar við undirbyggingu og frágang gatna eftir hverfum, m.a. vegna kostnaðar við land, jarðvegsdýpi, stærð lóðar við götu, staðsetningu lóðar, verðmæti lóðar, þversnið lóðarfrágangs o.fl.

 

 

Þann 9. apríl 2015 samþykkti bæjarstjórn Sveitarfélagsins Hornafjarðar reglur um tímabundna niðurfellingu gatnagerðargjalda. Í reglunum kom fram að aukin eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu og mikið framboð á tilbúnum lóðum til byggingaframkvæmda hafi verið ástæða þessa tímabundna verkefnis. Það hafi verið von bæjarstjórnar að reglurnar myndu ýta undir nýbyggingar í sveitarfélaginu.

 

Þá segir ennfremur að markmið bæjarstjórnar með reglunum sé að ýta undir nýbyggingar í sveitarfélaginu og að bæjarstjórnin vonist til þess að tímabundin niðurfelling gatnagerðargjalds leiði til aukins framboðs á íbúðarhúsnæði, bæði til eignar og leigu, en ásókn í tilbúnar lóðir hafi verið lítil misserin á undan.

 

Með reglunum voru gatnagerðargjöld tímabundið felld niður af tilbúnum lóðum til byggingar íbúðarhúsnæðis.

 

Gildistími reglna um tímabundna niðurfellingu gatnagerðargjalda gilti í 24 mánuði frá samþykkt þeirra.

 

Þann 11. maí 2017 samþykkti bæjarstjórn sveitarfélagsins aftur reglur um tímabundna niðurfellingu gatnagerðargjalda. Voru þær samhljóða fyrri reglum utan þess að gildistími tímabundinnar niðurfellingar gilti í 12 mánuði frá samþykkt reglna.

 

Þann 9. maí 2018 samþykkti bæjarstjórn sveitarfélagsins enn á ný framlengingu á reglum um tímabundna niðurfellingu gatnagerðargjalda í 12 mánuði frá samþykkt reglna.

 

Með ákvörðun bæjarráðs sveitarfélagsins, dags. 9. apríl 2019, var ákveðið að framlengja ekki reglur um tímabundna niðurfellingu gatnagerðargjalda og féllu þær því úr gildi 9. maí sama ár.

 

Bæjarráð sveitarfélagsins samþykkti þann 25. ágúst 2008 reglur um úthlutun á byggingarétti fyrir íbúðarhúsnæði. Þar er kveðið á um hvernig undirbúningi lóðaúthlutana sé háttað og hvaða reglur gilda. Þar kemur m.a. fram í 4. gr. að lóðarhafi skuli hefja framkvæmdir eigi síðar en 9 mánuðum eftir að hann fékk lóðina úthlutaða. Einnig kemur fram í 8. gr. reglna að bæjarráð geti afturkallað úthlutaða lóð, ef lóðarhafi heldur ekki byggingar- og skipulagsskilmálum, m.a. varðandi upphaf framkvæmda o.s.frv. Við slíka afturköllun skuli innborguð gatnagerðargjöld endurgreidd.

 

Ljóst er að fjölda lóða var úthlutað á umræddu tímabili frá 9. apríl 2015 – 9. maí 2019 þar sem sveitarfélagið innheimti ekki gatnagerðargjöld. Þá má sjá af þeim gögnum sem kærendur leggja fram og fundargerðum bæjarstjórnar og bæjarráðs að eftir að umræddu tímabili lauk þá tók bæjarráð ákvörðun um að heimila frestun á framkvæmdum á tveimur lóðum við A. Annars vegar lóð sem var úthlutað með lóðaútdrætti þann 12.11.2018 á fundi bæjarráðs. Beiðni um frestun á framkvæmdum þeirra lóðar var samþykkt á fundi bæjarráðs þann 17.11.2020, eða 18 mánuðum eftir að reglur um tímabundna niðurfellingu gatnagerðargjalda féllu úr gildi. Hins vegar lóð sem bæjarráð mælti með úthlutun á á fundi sínum þann 18.02.2019. Beiðni um frestun á framkvæmdum þeirrar lóðar var samþykkt á fundi bæjarráðs þann 10.11.2020, eða 18 mánuðum eftir að reglur um tímabundna niðurfellingu gatnagerðargjalda féllu úr gildi. Í svari bæjarráðs til lögmanns kærenda segir eftirfarandi hvað þetta varðar:

 

„Í reglunum er engin heimild til að krefjast greiðslu fyrir lóðirnar sem úthlutað var með tímabundinni niðurfellingu gatnagerðargjalda og felur frestur sveitarfélagsins til lóðarhafa til að hefja framkvæmdir því ekki í sér að verið sé að fallast á niðurfellingu gatnagerðargjalda heldur er þar einungis verið að veita frest til framkvæmda sem kveðið er á um í reglunum.“

 

Þá samþykkti bæjarráð á fundi sínum þann 3. 11. 2020, eða um 18 mánuðum eftir að niðurfellingarheimild féll úr gildi, að heimila framsal á lóðarréttindum til annars aðila og að því er virðist án innheimtu gatnagerðargjalda. Í svari bæjarráðs til lögmanns kærenda segir eftirfarandi um þessa afgreiðslu:

 

„Að því er varðar framsal á lóðarréttindum á A þá samþykkti bæjarráð framsal á fundi sínum þann 3.11.2020 af málefnalegum ástæðum í samræmi við reglur um úthlutun á byggingarrétti fyrir íbúðarhúsnæði. Þar segir í 1. gr. að byggingarrétti sé úthlutað á nafn/nöfn umsækjenda og óheimilt sé að framselja byggingarrétt, nema fyrir liggi samþykki bæjarráðs. Í þessu tilviki voru sérstakar aðstæður hjá lóðarhafa á A og hann hafði þegar hafið framkvæmdir og þannig fjárfest í lóðinni sem réttlætti það að hann fengi leyfi til að framselja lóðarréttinn. Af framangreindum ástæðum telur bæjarráð að ekki hafi verið brotið í bága við jafnræðisreglu stjórnsýslulaga af hálfu Sveitarfélagsins Hornafjarðar að því er varðar ákvarðanir í tengslum við gatnagerðargjöld eins og haldið er fram í bréfi frá 22. desember 2020.“

 

Eins og áður hefur komið fram þá sóttu kærendur um og fengu úthlutað lóð að A þann 6. október 2020. Með bréfi, dags. 22. desember 2020, til sveitarfélagsins kröfðust kærendur þess að fá niðurfellingu gatnagerðargjalda vegna lóðarinnar með vísan til þess að lóðarhafar allt í kringum kærendur hafi fengið niðurfellingar á gatnagerðargjöldum, annað hvort á niðurfellingartímabilinu eða með nýjum ákvörðunum sveitarfélagsins um frestun á framkvæmd eða lóðaframsali. Vísuðu kærendur til jafnræðissjónarmiða.

 

Bæjarráð sveitarfélagsins fjallaði um erindi kærenda á fundi sínum þann 6. janúar 2021 þar sem kröfu um niðurfellingu gatnagerðargjalda var hafnað.

 

Sveitarfélagið tók ákvörðun um að beita heimild til lækkunar eða niðurfellingar gatnagerðargjalda almennt og til lengri tíma eða samfellt í fjögur ár. Má því segja að ákveðin stjórnsýsluframkvæmd hafi myndast hjá sveitarfélaginu. Með ákvörðun sveitarfélagsins um að falla frá niðurfellingu gatnagerðargjalda sem tók gildi 9. maí 2019 var þeirri stjórnsýsluframkvæmd breytt með ákvörðun bæjarráðs.

 

Ein af grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins er jafnræðisregla stjórnsýslulaga og er henni ætlað að tryggja að við úrlausn mála skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Jafnræðisreglan tryggir þannig samræmi og fyrirsjáanleika í framkvæmd. Henni er ætlað að koma í veg fyrir mismunun og að úr sambærilegum málum sé leyst á sambærilegan hátt.

 

Þegar breyting hefur orðið á venjubundinni stjórnsýsluframkvæmd telst samanburður yfirleitt ekki tækur við mál sem afgreidd voru fyrir breytinguna. Hefði því í öllu falli ekki verið tækt að bera saman lóðaúthlutanir sem áttu sér stað á umræddu niðurfellingartímabili og þeirra sem afgreiddar voru eftir að niðurfellingarheimild féll úr gildi. Hins vegar tók sveitarfélagið þá ákvörðun að heimila bæði frestun á framkvæmdum sem og framsal á lóðaúthlutun án þess að til innheimtu gatnagerðagjalda kæmi eftir að stjórnsýsluframkvæmd var breytt í þá veru að innheimta ætti gatnagerðargjöld sem varð til þess að framkvæmd sveitarfélagsins á tímabundinni niðurfellingu og ákvarðanir í kjölfarið hafa leitt af sér mismunun og gert það að verkum að lóðarhafar við A standa ekki jafnfætis hvað varðar greiðslu gatnagerðargjalda.

 

Með vísan til þess sem að framan er rakið telur ráðuneytið ljóst að sveitarfélagið hafi ekki gætt að jafnræðisreglu stjórnsýslulaga við afgreiðslu á beiðni kærenda og því óhjákvæmilegt að úrskurða hina kærðu ákvörðun ólögmæta.

 

Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu og er beðist velvirðingar á því.

 

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun bæjarráðs Hornafjarðar um að hafna beiðni um niðurfellingu gatnagerðargjalda vegna A er ólögmæt.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta