Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Mál nr. IRR14040226

 Ár 2014, þann 1. október, er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. IRR14040226

 

Kæra [X]

á ákvörðun

Samgöngustofu

 

I.      Kröfur og kæruheimild

 Með stjórnsýslukæru  dagsettri 22. apríl 2014 kærði [X] (hér eftir nefnd [X]), kt. [xxxxxx-xxxx], [Y], ákvörðun Samgöngustofu (hér eftir nefnd SGS) frá 11. apríl 2014 um að hafna forskráningu bifreiðar af gerðinni Audi A8. Af kæru verður ráðið að [X] krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og umsókn hennar um forskráningu bifreiðarinnar tekin til greina.

Kæruheimild er í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.<


II.      Málsatvik og málsmeðferð

Þann 25. mars 2014 barst SGS umsókn [X] um forskráningu á notaðri bifreiða af gerðinni Audi A8 með stýrishjól hægra megin. Þar sem SGS taldi að innflutningur bifreiðarinnar uppfyllti ekki skilyrði til undanþágu frá því að stýrishjól skuli vera vinstra megin var umsókninni hafnað með bréfi stofnunarinnar dags. 11. apríl 2014.

Ákvörðun SGS var kærð til ráðuneytisins með bréfi [X] dags. 22. apríl 2014.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 12. maí 2014 var SGS gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið með bréfi stofnunarinnar dags. 18. júní 2014.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 18. júní 2014 var ]X} gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna málsins. Bárust þær athugasemdir ráðuneytinu með bréfi [X] dags. 26. júní 2014.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 1. júlí 2014 var [X] tilkynnt að gagnaöflun væri lokið og málið hefði verið tekið til úrskurðar.

 

III.    Málsástæður og rök [X]

Í kæru kemur fram að [X] hafi keypt bifreiðina [X] af gerðinni Audi A8 árgerð 2002 af Ríkiskaupum í nóvember 2013. Hafi skráningu verið hafnað þar sem skráningarskírteini hafi ekki legið fyrir. Þá sé bifreiðin með stýrishjól hægra megin en samkvæmt SGS fáist slíkir bílar aðeins skráðir ef þeir eru fluttir inn sem hluti af búslóð. Sé þess ekki getið í ákvörðun SGS að ferðamenn frá Bretlandi fái akstursleyfi fyrir bíla sem komi með Smyril Line til Seyðisfjarðar. Þá kveðst [X] hafa áður verið með bifreið með hægri handar stýri. Bendir [X] einnig á að Ríkiskaup hafi selt bifreiðina til notkunar en ekki niðurrifs. Hafi ekkert komið fram í uppboðsauglýsingu þess efnis og kveðst [X] hafa verið í góðri trú. Þá sé [X] öryrki og hafi fengið styrk og lán hjá Tryggingastofnun til kaupa á bifreið en það hafi ekki fengist greitt út þar sem bifreiðin hafi ekki fengist skráð. Vísar [X] til jafnræðisreglu þar sem fjöldi bifreiða með hægri handar stýri fái leyfi til aksturs hér á landi sem og þeir sem flytji inn slíkar bifreiðar sem hluta af búslóð.

Í andmælum sínum vísar [X] til þess að hún hafi keypt bifreiðina af Ríkiskaupum en ríkið hafi eignast bílinn eftir að hann var gerður upptækur með dómi árið 2012. Hafi bifreiðin verið auglýst á uppboði til notkunar og án allra kvaða. Vísar [X] til þess að ákvæði reglugerðar um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004 hafi verið breytt þann 4. mars 2014 og heimild til innflutnings á bifreiðum með hægri handar stýri þrengd. Bendir [X] á að mörg fordæmi séu fyrir því að bifreiðar með hægri handar stýri hafi fengist skráðar. Upprunalegt skráningarskírteini hafi fengist frá Bretlandi og séu fullnægjandi gögn því til staðar fyrir skráningu bifreiðarinnar.

 

IV.    Ákvörðun og umsögn SGS

Í ákvörðun SGS segir að í gr. 03.05 (4) reglugerðar um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004 komi fram að tiltekin gögn skuli fylgja umsókn um skráningarviðurkenningu allra notaðra ökutækja. Í a-lið segi að frumrit skráningarskírteinis, eða titilsbréf, skuli fylgja sem veiti heimild til notkunar án takmörkunar í landinu þar sem skráningarskírteinið/titilsbréfið er gefið út. Jafnframt komi fram í d-lið að farmbréf skuli fylgja ökutæki nema þegar innflytjandi er skráður eigandi samkvæmt skráningarskírteini. Í því felist að sé innflytjandi ekki skráður eigandi skuli nafn hans koma fram á farmbréfi ökutækisins. Af gögnum sem fylgi umsókn verði séð að ofangreind skilyrði til skráningarviðurkenningar ökutækisins séu ekki uppfyllt. Hvorki sé að finna erlent skráningarskírteini né upprunavottorð með gögnunum. Enn fremur sé nafn umsækjanda ekki að finna á farmbréfi ökutækisins.

Í gr. 05.10 (8) reglugerðarinnar komi einnig fram að stýrishjól bifreiða skuli vera vinstra megin. Í tilfellum þar sem um búslóðaflutninga sé að ræða og innflytjandi hafi verið skráður eigandi í a.m.k. sex mánuði geti SGS veitt undanþágu frá reglunni. Frá henni séu ekki veittar undanþágur á öðrum grundvelli. Umrætt ökutæki sé með stýrishjól hægra megin og því ekki hæft til skráningar á Íslandi. Ljóst sé að innflutningur ökutækisins uppfylli ekki þau skilyrði sem sett eru til undanþágu frá meginreglunni, sbr. tilgreint ákvæði hennar. Bendir SGS á að ökutæki með stýrishjól hægra megin geti fengið sérstaka tímabundna akstursheimild sem útgefin er af tollyfirvöldum. Hafi umrætt ökutæki fengið slíka undanþágu sem bundin er þeim skilyrðum að ökutækið verði flutt úr landi að tilteknum tíma liðnum. Um skráningu slíkra ökutækja gildi þær reglur sem raktar hafi verið og þau ökutæki sem [X] vísi til fengju ekki forskráningu af sömu ástæðum. Uppfylli innflutningur ökutækisins ekki skilyrði til forskráningar notaðra ökutækja.

Í umsögn SGS kemur fram að umsókn [X] um forskráningu hafi verið hafnað með vísan til a- og d- liða gr. 03.05 (4) og gr. 05.10 (8) reglugerðar nr. 822/2004 þar sem leitt hafi verið í ljós að hvorki erlent skráningarskírteini né upprunavottorð hafi verið að finna í gögnum sem fylgdu umsókninni. Þá sé stýrishjól bifreiðarinnar hægra megin. Hafi umsóknin þannig ekki uppfyllt tilgreind ákvæði reglugerðarinnar. Er á það bent að fylgi skráningarskírteini ökutæki sé það nægjanlegt svo lengi sem nafn innflytjanda sé þar að finna. Frá þessari kröfu séu engar undantekningar, sbr. a-lið gr. 03.05 (4). Í d-lið sé gerð sú krafa að farmbréf fylgi umsókn um forskráningu í þeim tilfellum þar sem skráður eigandi samkvæmt skráningarskírteini er ekki sá sami og flytur inn eða sækir um. Ljóst sé að í tilfellum þar sem staðið sé að innflutningi ökutækja erlendis sé ekki hægt að gera þá kröfu að innflytjandi sé eigandi samkvæmt skráningarskírteini. Hins vegar sé nauðsynlegt að sá aðili sem skráður er á farmbréfi sé sá hinn sami og sækir um forskráningu til þess að tryggja með sem bestum hætti að sá sem sækir um eigi lögmætt tilkall til ökutækisins. Frá þessari kröfu séu ekki gerðar neinar undantekningar og sé umsókn hafnað þegar nafni umsækjanda og nafni á farmbréfi beri ekki saman. Leggi SGS áherslu á að reglum þessum sé fylgt í hvívetna til þess að tryggja að skráning ökutækja á Íslandi sé eins áreiðanleg og kostur er.

Þá kemur fram í umsögn SGS að umsókn [X] hafi verið hafnað þar sem ákvæði gr. 05.10 (8) reglugerðar nr. 822/2004 hafi ekki verið uppfyllt. Sé ákvæði reglugerðarinnar skýrt. Sé þar gerð sú krafa að bifreiðar skuli hafa stýrishjól vinstra megin og frá því sé aðeins ein  undanþága veitt. Sé heimilt að veita undanþágu frá meginreglunni í þeim tilfellum þar sem um búslóðarflutninga er að ræða og innflytjandi hefur verið skráður eigandi bifreiðarinnar í a.m.k. sex mánuði og að skráningarskírteini fyrra ríkis sýni fram á það. Engar aðrar undantekningar séu gerðar en nokkur fjöldi fordæma sé fyrir því að bifreiðum með stýrishjól hægra megin sé synjað um skráningu.

SGs telur ljóst að tilgreind ákvæði reglugerðar nr. 822/2005 feli í sér kröfur sem gerðar eru til allra notaðra ökutækja sem flutt eru til landsins og sótt er um skráningu á. Fáeinar undantekningar séu heimilaðar á reglunum en engar þeirra taki til umsóknar [X] Sé synjun SGS í samræmi við gildandi reglur.

Í umsögn SGS vísar stofnunin til þess að þrátt fyrir að skráningarskírteini bifreiðarinnar hafi fundist hafi það ekki áhrif á afstöðu stofnunarinnar. Skráður eigandi á skráningarskírteini sé ekki sá sami og innflytjandi og skráður eigandi sé ekki heldur sá sami og sækir um forskráningu. Sé því krafa um að framvísa erlendu skráningarskírteini nú uppfyllt en upplýsingar í skráningarskírteininu komi í veg fyrir að skráning verði heimiluð.

Þá sé í gr. 05.10 (8) reglugerðar nr. 822/2004 gerð sú krafa að stýrishjól bifreiðar sé vinstra megin. Frá reglunni sé gerð ein undantekning sem eigi ekki við í máli [X]. Hins vegar sé það svo að hingað komi bifreiðar með stýrishjól hægra megin og fái þá tímabundna akstursheimild frá tollyfirvöldum. Aðeins sé veitt leyfi til að nota bifreiðina í tiltekinn tíma en að þeim tíma loknum skuli bifreiðin snúa aftur til síns heima. Sé þetta gert til að ekki séu gerðar óréttmætar kröfur til ferðamanna sem hingað komi með bifreiðar sínar. SGS hafi ekki milligöngu um þau akstursleyfi sem þannig séu veitt. Sé skýr munur á því að veita bifreið tímabundið leyfi til aksturs og að skrá hana á Íslandi þvert á þær reglur sem gildi. Hafi SGS aðeins veitt undanþágu frá meginreglunni um stýrishjól þegar um búslóðaflutninga er að ræða. Aðstaða [X] uppfylli ekki það skilyrði. Sú staðreynd að bifreið með stýrishjóli hægra megin hafi áður verið í eigu [X] breyti ekki framangreindri kröfu.

Hvað varðar athugasemdir [X] um að hún hafi keypt bifreiðina af Ríkiskaupum í góðri trú vísar SGS til þess að um sé að ræða álitamál sem [X] verði að eiga við Ríkiskaup sem seljanda bifreiðarinnar. SGS sé skráningaraðili ökutækja og geti þ.a.l. ekki tekið tillit til þeirra aðstæðna sem fyrir liggi við kaup eða sölu ökutækja. Hver sem grundvöllur viðskiptanna og upplýsingaveitu seljanda sé verði því ekki breytt að bifreiðin og framlögð gögn til skráningar uppfylli ekki skilyrði reglugerðar nr. 822/2004. Þá hafi forsendur synjunar á skráningu ekkert með ástand ökutækisins að gera. Er á það bent að þær kröfur sem reglugerðin mælir fyrir um séu settar í þeim tilgangi að skráning ökutækja verði sem best og áreiðanlegust og að við skráningu sé með tryggum hætti sýnt fram á að viss tæknileg atriði fullnægi skilyrðum reglugerðarinnar. Kröfurnar séu þannig allt í senn til þess fallnar að tryggja aukið umferðaröryggi, aukna neytendavernd og að tekið sé tillit til umhverfissjónarmiða. Þá byggist kröfurnar á tilskipun 2007/46/EB um ramma um viðurkenningu á vélknúnum ökutækjum og eftirvögnum þeirra og á kerfum, íhlutum og aðskildum tæknieiningum sem ætlaðar eru í slík ökutæki.

 

V.     Niðurstaða ráðuneytisins

Til umfjöllunar er ákvörðun SGS frá 11. apríl 2014 um að synja umsókn [X] um forskráningu bifreiðar af gerðinni Audi A8 þar sem umsóknin hafi ekki uppfyllt kröfur reglugerðar um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004. Hafa sjónarmið [X] og SGS verið rakin hér að framan.

Líkt og fram kemur í ákvörðun SGS er þess krafist samkvæmt a-lið gr. 03.05 (4) reglugerðar nr. 822/2004 að með umsókn um skráningarviðurkenningu fylgi frumrit erlends skráningarskírteinis eða titilbréfs. Fylgi skráningarskírteini ökutækinu sé það nægjanlegt ef nafn innflytjanda er á því. Samkvæmd d-lið ákvæðisins er gerð sú krafa að farmbréf fylgi umsókn um forskráningu í þeim tilfellum þar sem skráður eigandi samkvæmt skráningarskírteini er ekki sá sami og flytur inn eða sækir um. Er þá nauðsynlegt að sá aðili sem er skráður á farmbréfi sé sá hinn sami og sækir um forskráningu. Frá þessum kröfur eru ekki gerðar neinar undantekningar.

Ráðuneytið telur ljóst að þrátt fyrir að skráningarskírteini bifreiðarinnar hafi nú verið lagt fram breyti það engu um niðurstöðu málsins þar sem skráður eigandi á skráningarskírteini er ekki sá sami og innflytjandi. Þá er skráður eigandi ekki heldur sá sami og sækir um forskráningu. Liggur þannig fyrir að þær upplýsingar sem fram koma í skráningarskírteini bifreiðarinnar leiða til þess að hún uppfyllir ekki skilyrði til forskráningar samkvæmt framangreindu.

Í gr. 05.10 (8) reglugerðar nr. 822/2004, sbr. reglugerð nr. 236/2014 um breytingu á henni sem tók gildi þann 4. mars 2014, kemur fram að stýrishjól bifreiðar skuli vera vinstra megin. Geti SGS veitt undanþágu frá ákvæðinu í þeim tilvikum þegar um búslóðaflutninga er að ræða og innflytjandi hefur verið eigandi bifreiðarinnar í a.m.k. sex mánuði. Samkvæmt ákvæðinu eru engar aðrar undantekningar heimilar frá ákvæðinu. Liggur fyrir að umrætt skilyrði er ekki uppfyllt í tilviki [X].

Það er mat ráðuneytisins með vísan til þess sem að framan er rakið að ákvörðun SGS um að synja umsókn [X] um forskráningu umrædds ökutækis sé að öllu leyti í samræmi við tilgreind fyrirmæli reglugerðar nr. 822/2004 og þær reglur sem um forskráninguna gilda.

Hvað varðar þá málsástæðu [X] að að bifreiðin hafi verið keypt af Ríkiskaupum í góðri trú bendir ráðuneytið á að hlutverk SGS, sem sá aðili sem annast skráningu ökutækja hér á landi, er fyrst og fremst að gæta þess að gætt sé þeirra fyrirmæla laga og reglna sem um slíka skráningu gilda. Sé það þannig ekki hlutverk SGS að taka tillit þeirra aðstæðna sem kunna að koma upp við kaup eða sölu ökutækja eða grundvöll slíkra viðskipta. Telur ráðuneytið þó rétt að leiðbeina [X] um að telji hún að á henni hafi verið brotið með sölu bifreiðarinnar sé [X] rétt að beina kröfu sinni til Ríkiskaupa sem seljanda bifreiðarinnar.

Þá tekur ráðuneytið einnig fram að gera verður skýran greinarmun á því hvort um sé að ræða annars vegar tímabundið leyfi til aksturs bifreiðar með stýrishjól hægra megin og hins vegar skráningar bifreiðarinnar á Íslandi. Þegar um er að ræða tímabundna akstursheimild er hún veitt af tollyfirvöldum og kemur SGS þar hvergi nærri. Verða slík tilvik því ekki lögð að jöfnu við skráningu bifreiða.

Með vísan til þess að framan hefur verið rakið er það niðurstaða ráðuneytisins að SGS hafi verið rétt að synja umsókn [X] um forskráningu bifreiðarinnar. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur uppkvaðning úrskurðar dregist og er beðist velvirðingar á því.

 

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun Samgöngustofu frá 11. apríl 2014 um að synja umsókn [X] um forskráningu bifreiðar af gerðinni Audi A8.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta