Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

X - Uppsögn á leiðbeinanda

Lögmannsstofa Arnmundar Backman ehf.                     17. júlí 1997                                           97030061

Björn L. Bergsson hdl.                                                                                                                         16-4607

Pósthólf 8383

128 Reykjavík

            

             Þann 17. júlí 1997 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

             Með erindi, dagsettu 14. mars 1997, kærði Björn L. Bergsson hdl. fyrir hönd A uppsögn hennar úr stöðu leiðbeinanda við X á Y.

 

             Erindið var sent til umsagnar bæjarstjórnar sveitarfélagsins Z með bréfi, dagsettu 25. mars 1997. Umsögn barst ráðuneytinu þann 29. apríl 1997 með bréfi, dagsettu 17. sama mánaðar. Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um efni umsagnarinnar en engar athugasemdir bárust.

 

I.          Málavextir

 

             A starfaði í fullu starfi sem leiðbeinandi við X veturinn 1995-1996 er einn kennari við skólann var í ársleyfi. Fram til þess tíma hafði hún starfað í hlutastarfi við skólann frá árinu 1987. Á fundi skólanefndar sveitarfélagsins Z þann 28. júní 1996 var fjallað um ráðningu kennara fyrir skólaárið 1996-1997. Í fundargerð þess fundar segir m.a.: “Starfslið er óbreytt á Æ, Ö og á Y.”

 

             Þann 28. ágúst 1996 sendu nokkrir foreldrar erindi til skólanefndar X þar sem fram kemur að þeir eru mjög ósáttir við vinnubrögð A við skólann og röktu þeir ýmsar ástæður fyrir því. Jafnframt þessum mótmælum við ráðningu hennar, neitaði B, sá kennari sem verið hafði í leyfi, að koma aftur til fyrri starfa við skólann ef A starfaði þar áfram.

 

             Bréf foreldranna var tekið fyrir á fundi framkvæmdaráðs skólanefndar þann sama dag, 28. ágúst 1996. Var þar ákveðið að formaður skólanefndar og formaður félagsmálaráðs myndu boða A á sinn fund þann 3. september.

 

             Skólastjóri X, sambýlismaður A, gerði ráðningarsamning við hana þann 30. ágúst 1996 og sótti jafnframt um heimild til undanþágunefndar grunnskóla menntamálaráðuneytisins til að ráða leiðbeinanda. Umsóknin var samþykkt með áritun nefndarinnar þann 3. september 1996.

 

             Næst var fjallað um málið í framkvæmdaráði skólanefndar þann 8. september 1996. Í fundargerð þess fundar segir að framkvæmdaráðið telji ekki rétt að hnekkja ráðningu A að svo stöddu, en ráðið telji að endanleg niðurstaða eigi að fást á næsta fundi skólanefndar.

 

             Á fundi framkvæmdaráðsins þann 12. september 1996 var málið enn á dagskrá, en á þeim fundi var einvörðungu flutt skýrsla formanns skólanefndar um fundi með A og B.

 

             Þann 17. september 1996 er fjallað um mál þetta í bæjarráði sveitarfélagsins Z. Á þeim fundi var ákveðið að ráða A ekki til starfa við X. Forsenda þeirrar niðurstöðu er samkvæmt fundargerð að skólastjóri X hafi ekki haft umboð til að ráða hana til starfa vegna tengsla þeirra. Bæjarstjóra var því falið að sjá um málið “svo sem verið hefur með ráðningar allra annarra starfsmanna hjá sveitarfélaginu Z, annarra en forstöðumanna stofnana bæjarins.”

 

             Með bréfi bæjarstjóra, dagsettu 18. september 1996, var A tilkynnt um að hún yrði ekki endurráðin sem leiðbeinandi við grunnskólann að X skólaárið 1996-1997. Ennfremur fylgdi afrit af bréfi til skólastjóra X þar sem tilkynnt var að bæjarráð sveitarfélagsins Z hefði ákveðið að A yrði ekki endurráðin og að ráðning skólastjórans hefði verið markleysa vegna vanhæfis hans. Þann 20. sama mánaðar barst A annað bréf frá bæjarstjóra sveitarfélagsins Z þar sem áréttað var að hún væri ekki ráðin sem leiðbeinandi við skólann, en var jafnframt greint frá að þar sem hún hafi hafið störf við skólann vegna misskilnings, yrðu henni greidd þriggja mánaða laun án viðurkenningar á biðlaunarétti.

 

II.         Málsástæður kæranda

 

             Kærandi telur að bæjarráð sveitarfélagsins Z hafi misbeitt valdi sínu við val á leiðum til úrlausnar á þeim ágreiningi sem var um ráðningu hennar er það bar fyrir sig meint vanhæfi skólastjóra X til þess að ráða A sem leiðbeinanda við skólann. Hafi það verið gert til þess að víkja henni úr starfi en að mati A hafi verið “tvímælalaust byggt á ólögmætum sjónarmiðum þegar henni var tilkynnt um að hún væri ekki ráðin sem leiðbeinandi”. Ennfremur hafi rökin af hálfu sveitarfélagsins Z verið beinlínis í andstöðu við 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hins vegar telur kærandi að þrátt fyrir að C, skólastjóri, hafi verið vanhæfur til þess að ráða sambýliskonu sína til starfa leiði það ekki til þess að ráðningin hafi verið markleysa. Slík niðurstaða sé andstæð lögum um umboð, bæði lögum um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936 og lögum um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla nr. 72/1996. Ennfremur hafi skólanefnd sveitarfélagsins Z fjallað um ráðninguna og hún verið samþykkt í menntamálaráðuneytinu.

 

             Að auki var A neitað um aðgang að þeim gögnum sem höfðu að geyma meintar ávirðingar í hennar garð. Ennfremur var henni ekki gefin kostur á að njóta andmælaréttar þegar málið var tekið til úrlausnar af hálfu sveitarfélagsins Z og ákvörðun tekin í máli hennar. Jafnframt telur kærandi að meðalhófsregla stjórnsýsluréttar hafi verið brotin í málinu, þar sem “A var svipt stöðu sinni fyrirvaralaust með ólögmætum hætti í tilraun stjórnsýsluhafa til þess að setja niður innansveitardeilur milli manna sem í raun, að áliti A, lúta ekki að hæfi hennar til að gegna starfi sem leiðbeinandi. Var þannig viðurhlutamiklu úrræði beitt og með því vegið alvarlega að æru og starfsheiðri A jafnframt sem högum hennar var raskað.”

 

             Gerð er því krafa um að ráðuneytið skeri úr um “ólögmæti ákvarðanatöku sveitarfélagsins Z.” Jafnframt er þess krafist að ráðuneytið felli úr gildi ákvörðun sveitarfélagsins Z um “að svipta A starfi sínu.”

 

III.        Málsástæður kærða

 

             Í umsögn bæjarráðs sveitarfélagsins Z, dagsettri 17. apríl 1997, kemur fram að skólamálayfirvöld hafi ekkert komið að ráðningu A áður en skólastjóri réð hana til starfa. Skilningur skólanefndar sveitarfélagsins Z hafi verið sá að sögn formanns skólanefndar “að þar sem B var að koma til kennslu á ný yrði ekki þörf fyrir starfskrafta A, sem hafði haustið áður tekið að sér að leysa B af. Bókun nefndarinnar felur ekki í sér viðurkenningu á áformum skólastjóra um ráðningu A.”

 

             Bæjarráðið dregur jafnframt hæfi skólastjórans til þess að standa að ráðningarsamningnum við A í efa. Sökum vanhæfis hefði skólastjórinn átt að leita til bæjarstjóra um frágang á ráðningarsamingnum, en grunnskólinn hafði þá alfarið verið fluttur yfir til sveitarfélaga. Auk þess hafi honum verið skylt að leita umsagnar skólanefndar um ráðningu kennara.

 

             Í umsögninni er greint frá því að bæjarráð hafi talið að með þessum aðgerðum hafi verið mögulegt að leysa langvarandi deilur í sveitinni um skólahaldið. Að mati bæjarráðs sé það fortakslaus skylda þess, barnanna vegna og eðlilegs skólahalds, að setja niður deilur um skólann með öllum tiltækum og löglegum ráðum.

 

             Auk þessa er tekið fram “að á fundum bæjarráðs var ekki annað til umræðu en vanhæfi skólastjórans og mikilvægi þess að freista þess að lægja illdeilur um skólahaldið. Afstaða var hvorki tekin til einstaklinga eða fullyrðinga um þá né heldur hverjum illdeilurnar væri að kenna. Þess vegna var ekkert fjallað um hæfi A til þess að gegna stöðunni eða ávirðingar sem á hana voru bornar.” Jafnframt er tekið fram að þegar ákvörðun bæjarráðs var tekin varðandi A var orðið ljóst að sáttatilraunir skólanefndar hafi ekki borið árangur.

 

IV.       Niðurstaða ráðuneytisins.

 

             Þann 1. ágúst 1996 tóku gildi lög um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda gilda nr. 72/1996. Samkvæmt athugasemdum með frumvarpi til þeirra laga taka þau ennfremur til svokallaðra réttindalausra kennara, þ.e. kennara sem starfa á grundvelli undanþágu skv. 13. gr. laga nr. 48/1986 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra.

 

             Í 2. gr. þeirra laga segir að um ráðningu og skipun skólastjórnenda og kennara við grunnskóla fari eftir ákvæðum grunnskólalaga og ákvæðum laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra.

 

             Í 3. mgr. 23. gr. laga um grunnskóla nr. 66/1995 er svohljóðandi ákvæði: “Um ráðningu kennara og annarra starfsmanna fer eftir ákvæðum í samþykkt um stjórn sveitarfélags. Séu þar eigi sérstök ákvæði þessa efnis gefur sveitarstjórn eða byggðarráð fyrirmæli til skóla um hvernig staðið skuli að ráðningu starfsmanna.”

 

             Í 65. gr. samþykktar um stjórn sveitarfélagsins Z og fundarsköp bæjarstjórnar nr. Þ segir að bæjarstjórn ráði forstöðumenn stofnana og í 66. gr. samþykktarinnar segir að bæjarráð ráði aðra fasta starfsmenn en þá sem greinir í 65. gr. nema á annan veg sé mælt í reglugerð eða reglum sem bæjarstjórn hefur sett.

 

             Í umsögn bæjarráðs sveitarfélagsins Z kemur ekki með skýrum hætti fram að almennar reglur hafi verið settar af bæjarstjórn um ráðningu kennara eða annarra starfsmanna grunnskóla, en þó verður ráðið af umsögninni að slíkt sé í sveitarfélaginu Z almennt í verkahring skólastjóra, sem sé skylt að leita umsagnar skólanefndar um ráðningu kennara.

 

             Um sérstakt hæfi starfsmanna sveitarfélaga gildir 45. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986, sbr. og 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það ákvæði felur í sér að starfsmaður, sem starfar við stjórnsýslu sveitarfélags, er vanhæfur til meðferðar máls ef það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt megi ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af. Vegna fámennis í sumum sveitarfélögum þótti ekki fært að gera eins strangar kröfur til þeirra sem starfa við stjórnsýslu sveitarfélaga og gerðar eru í II. kafla stjórnsýslulaga.

 

             Samkvæmt gögnum málsins er skólastjóri X sambýlismaður A og er því ljóst að hann var ekki hæfur samkvæmt 45. gr. sveitarstjórnarlaga til að ráða hana til starfa. Honum bar því að leita til næsta yfirmanns starfsliðs bæjarins sem er bæjarstjóri, sbr. 4. mgr. 64. gr. samþykktar nr. 615/1996.

 

             Jafnframt kemur ekki fram með skýrum hætti að skólanefnd hafi veitt samþykki sitt fyrir því að A yrði ráðin í fullt starf skólaárið 1996-1997. Bókun í fundargerð skólanefndar frá 28. júní 1996 er óljós og kemur fram í umsögn bæjarráðs að skilningur skólanefndar hafi verið sá að A yrði ekki ráðin í fullt starf þar sem B kæmi aftur til starfa. Ráðuneytið telur rétt að gera athugasemdir við þennan hátt á bókun skólanefndar, en brýnt er að niðurstöður funda komi með skýrum hætti fram í fundargerð, sbr. m.a. 59. gr. samþykktar nr. 615/1996.

 

             Jafnframt gerir ráðuneytið alvarlegar athugasemdir við tregðu sveitarfélagsins Z við að láta A í té öll gögn málsins. Ljóst er að hún sem aðili málsins átti rétt á að fá aðgang að þeim strax og þau lágu fyrir, sbr. m.a. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

             Hvað varðar meint brot sveitarfélagsins Z á andmælarétti gagnvart A, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, skal tekið fram að samkvæmt gögnum málsins var hún kölluð til sérstaks fundar með m.a. formanni skólanefndar eftir að umrætt bréf foreldranna frá 28. ágúst 1996 barst. Var sá fundur haldinn 3. september s.á. og greindi formaður skólanefndar frá þeim fundi á fundi framkvæmdaráðs skólanefndar þann 12. september 1996. Málið var síðan tekið fyrir í bæjarráði þann 17. sama mánaðar. Verður því að telja að A hafi verið gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi málið.

 

             Áðurgreind bréf nokkurra foreldra barna við X og B, bæði dagsett 28. ágúst 1996, voru tekin fyrir á fundi framkvæmdaráðs skólanefndar þann sama dag. Í fundargerð þess fundar segir m.a.:

             “Rædd voru ráðningarmál kennara á Y í framhaldi bréfs frá nokkrum foreldrum og B. Í framhaldi af umræðunni vék C af fundi.”

 

             Ljóst er því að C, skólastjóra X, var ljóst að hugsanleg ráðning A við skólann hafði verið tekin til sérstakrar meðhöndlunar af hálfu skólanefndar í framhaldi bréfaskrifanna. Verður og ekki annað ráðið af gögnum málsins en að A hafi einnig á þessum tíma verið kunnugt um málið. Þrátt fyrir það gerir skólastjórinn ráðningarsamning við A tveimur dögum síðar.

 

             Með hliðsjón af áðurgreindu vanhæfi skólastjórans til að ganga frá ráðningarsamningi við A og öðrum atvikum málsins þykir ráðuneytinu ljóst að samningurinn hafi ekki getað öðlast fullt gildi gagnvart A fyrr en með undirritun bæjarstjóra.

 

             Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

             Hafnað er kröfu kæranda um að ráðuneytið úrskurði ákvarðanir sveitarfélagsins Z í máli A ógildar.

 

F. h. r.

 

Sigríður Lillý Baldursdóttir (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

Ljósrit:  Bæjarstjórn sveitarfélagsins Z.

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta