Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Reykholtsdalshreppur - Umsögn um vegalagningu til umhverfisráðuneytis. Tveir hreppsnefndarmenn meðal kærenda til ráðuneytisins

Jón Björnsson                                                        23. desember 1997                                            97100102

Deildartungu                                                                                                                                                1001

320 Reykholt

 

 

             Vísað er til erindis yðar og Sigurðar Bjarnasonar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 9. nóvember 1997, þar sem óskað er eftir að tekið verði upp álit ráðuneytisins frá 28. október 1997 varðandi hæfi nokkurra aðal- og varamanna í hreppsnefnd Reykholtsdalshrepps til að fjalla um erindi umhverfisráðuneytisins frá 10. október 1997.  Ennfremur er óskað eftir svörum til tilteknum spurningum er málið varða og verður þeim svarað hér á eftir:

 

1.         “Eru Sigurður og Jón vanhæfir í þessu máli?”

 

             Í fyrrgreindri niðurstöðu ráðuneytisins frá 28. október 1997 kemur með skýrum hætti fram að Jón Björnsson og Sigurður Bjarnason teljist vanhæfir til að fjalla um hið tiltekna mál.  Ekki verður talið að neitt nýtt hafi komið fram í máli þessu sem leitt geti til annarrar niðurstöðu.

 

2.         “Hvað þýðir að gera stuttlega grein fyrir afstöðu sinni sbr. gr. nr. 45?”

 

             1. og 2. málsl. 1. mgr. 45. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 hljóðar svo:  “Sveitarstjórnarmanni ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af.  Honum er þó heimilt að gera stuttlega grein fyrir afstöðu sinni.”

 

             Með hliðsjón af samhengi framangreinds ákvæðis telur ráðuneytið að sveitarstjórnarmanni, sem vanhæfur er við afgreiðslu tiltekins máls, sé heimilt að gera stuttlega grein fyrir afstöðu sinni til málsins í heild, ekki einvörðungu til ákvörðunar um hæfi hans.

 

3.         “Getur Pétur Pétursson 3. varamaður í hreppsnefnd talist hæfur að fjalla um erindi umhverfisráðherra, þar sem hann ásamt fleirum stóð að kæru til umhverfisráðherra dags. 1. ágúst 1995 vegna leiðar nr. 1?”

 

             Ráðuneytið telur að Pétur Pétursson teljist ekki vanhæfur til að fjalla um erindi umhverfisráðherra frá 10. október 1997, þar sem það tiltekna kærumál sem hann átti áður beina persónulega aðild að hefur verið til lykta leitt hjá viðkomandi stjórnvöldum.

 

4.         “Er oddviti Reykholtsdalshrepps hæfur til að fjalla um skipulagstillögu sína af leið nr. 3 á fundum svæðaskipulagsnefndar sveitarfélaganna norðan Skarðsheiðar?”

            

             Oddviti Reykholtsdalshrepps situr í samvinnunefnd um svæðisskipulag í Borgarfirði norðan Skarðsheiðar fyrir hönd hreppsins og er til þess kjörinn af hreppsnefnd Reykholtsdalshrepps, sbr. 1. gr. reglna fyrir nefndina nr. 584/1994 og 3. gr. skipulagslaga nr. 19/1964.

 

             Að mati ráðuneytisins kemur ákvæði 1. mgr. 45. gr. sveitarstjórnarlaga ekki í veg fyrir að hreppsnefndarmaður fjalli í hreppsnefnd um mál frá nefnd þegar hann situr í nefndinni sem fulltrúi sveitarfélagsins.  Oddvitinn er því ekki vanhæfur til að fjalla um fyrrgreint mál.

 

5.         “Getur hreppsnefndarmaður sem ritar fundargerð á almennum hreppsfundi fjallað um og tekið afstöðu til eigin fundargerðar á hreppsnefndarfundi?”

 

             Samkvæmt 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga er sveitarstjórn heimilt að boða til almennra borgarafunda um málefni sveitarfélagsins.  Í 3. mgr. sömu greinar segir að til slíks fundar skuli boðað með opinberri auglýsingu og skal þar taka fram hverjir hafi atkvæðisrétt á fundinum ef ætlunin er að atkvæðagreiðsla fari þar fram.  Tekið er síðan fram í 4. mgr. greinarinnar að ályktanir slíkra funda séu ekki bindandi fyrir sveitarstjórn.

 

             Að öðru leyti er ekki fjallað um almenna borgarafundi í sveitarstjórnarlögum.  Er meðal annars ekki sérstaklega gert ráð fyrir að sveitarstjórn beri að fjalla sérstaklega um og taka afstöðu til fundargerða almennra borgarafunda.  Fundargerðir slíkra funda þarfnast því ekki sérstakrar staðfestingar viðkomandi sveitarstjórnar, eins og er t.d. um fundargerðir ýmissa nefnda á vegum sveitarfélaga, heldur standa þær sjálfstæðar.

 

             Með hliðsjón af framangreindu telur ráðuneytið að hreppsnefndarmenn teljist ekki vera vanhæfir við umfjöllun hreppsnefndar um niðurstöður almenns borgarafundar, hvort sem viðkomandi hreppsnefndarmaður ritaði fundargerð þess fundar eða ekki.

 

Páll Pétursson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

 

Samrit:  Sigurður Bjarnason, Nesi, 320 Reykholt.

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta