Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Byggðasamlagið Árborg - Ráðning leikskólastjóra. Formaður stjórnar og einn umsækjenda systkinabörn

Kristín Ólafsdóttir                                                 27. apríl 1998                                                     98020073

Sigtúnum 17                                                                                                                                                 1001

800 Selfossi

 

 

 

 

 

             Þann 27. apríl 1998 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

             Með bréfi, dagsettu 16. febrúar 1998, kærði Kristín Ólafsdóttir til ráðuneytisins ákvörðun stjórnar byggðasamlagsins Árbæjar um ráðningu leikskólastjóra við leikskólann Árborg, en fjallað var um málið á fundum stjórnarinnar 6., 10. og 12. nóvember 1997.

 

             Erindið var sent til umsagnar stjórnar Árbæjar bs. með bréfi, dagsettu 24. febrúar 1998. Umsögn barst ráðuneytinu þann 27. mars 1998 með bréfi, dagsettu 18. sama mánaðar.

 

I.          Málavextir.

 

             Þann 15. október 1997 auglýsti stjórn Árbæjar bs. starf leikskólastjóra við leikskólann Árborg laust til umsóknar. Tveir umsækjendur voru um stöðuna, Kristín Ólafsdóttir og Rannveig Guðjónsdóttir.

 

             Fjallað var um málið á fundum stjórnarinnar 6., 10. og 12. nóvember 1997 og var á síðasta fundinum samþykkt svohljóðandi bókun:

             “Stjórn Árbæjar leggur áherslu á að áfram verði unnið eftir þeirri uppeldisstefnu sem fram til þessa hefur verið í leikskólanum. Í framhaldi af því samþykkir stjórnin að ráða Rannveigu Guðjónsdóttur sem leikskólastjóra þar sem hún lýsti yfir að hún sé tilbúin að vinna áfram eftir stefnunni. Stjórnin telur að báðir umsækjendur séu vel hæfir til stjórnunarstarfa á vettvangi leikskóla.“

 

II.         Málsástæður.

 

             Kærandi tekur fram í erindi sínu til ráðuneytisins að hún kæri málið vegna þess að Sigurður Jónsson formaður stjórnar Árbæjar bs. og hinn umsækjandinn um starfið (Rannveig Guðjónsdóttir) séu systkinabörn og hafi hann ekki vikið sæti þegar ráðningin fór fram.

 

             Í umsögn stjórnar Árbæjar bs. er fyrst og fremst fjallað um hvaða ástæður lágu að baki vali stjórnarinnar. Valið milli umsækjendanna hafi byggst á því “að tryggja það að uppeldisstefna leikskólans héldist óbreytt.“ Rannveig Guðjónsdóttir hafi lýst sig reiðubúna til að halda áfram með uppeldisstefnuna, en Kristín Ólafsdóttir hafi ekki verið “eins afdráttarlaus í sínum svörum“. Síðar segir svo orðrétt í umsögninni:

             “Stjórnin stóð frammi fyrir vali á milli tveggja hæfra einstaklinga til að gegna stöðu leikskólastjóra. Eindregnar óskir foreldra um að láta uppeldisstefnuna haldast höfðu úrslit um val milli umsækjenda. Stjórnin telur því ekki að skyldleiki formanns við annan umsækjanda hafi haft úrslit í máli þessu.“

 

III.        Niðurstaða ráðuneytisins.

 

             Í úrskurði þessum verður einungis fjallað um hvort fylgt hafi verið málsmeðferðarreglum sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 við umfjöllun og afgreiðslu stjórnar Árbæjar bs. á ráðningu leikskólastjóra við leikskólann Árborg.

 

             Um hæfi sveitarstjórnarmanna til afgreiðslu einstakra mála gildir 45. gr. sveitarstjórnarlaga. Gildir sú regla einnig um stjórnarmenn í byggðasamlögum, sbr. 4. mgr. 98. gr. sveitarstjórnarlaga. Rétt er að taka fram að stjórnsýslulög nr. 37/1993 eiga ekki við í þessu sambandi, enda segir í 2. mgr. 2. gr. þeirra laga að um sérstakt hæfi sveitarstjórnarmanna og annarra þeirra sem starfa við stjórnsýslu sveitarfélaga fari eftir sveitarstjórnarlögum.

 

             Í 45. gr. sveitarstjórnarlaga segir svo:

             “Sveitarstjórnarmanni ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af. Honum er þó heimilt að gera stuttlega grein fyrir afstöðu sinni. Sveitarstjórn sker umræðulaust úr hvort mál er svo vaxið. Sveitarstjórnarmaður, sem hlut á að máli, má taka þátt í atkvæðagreiðslu um hæfi sitt. Sveitarstjórnarmanni, sem veit hæfi sitt orka tvímælis, ber að vekja athygli á því.

             Sveitarstjórnarmaður, sem vanhæfur er við úrlausn máls, skal yfirgefa fundarsal sveitarstjórnar við afgreiðslu þess.“

 

             Eins og áður er rakið var á fundum stjórnar Árbæjar bs. 6., 10. og 12. nóvember 1997 fjallað um ráðningu leikskólastjóra. Sigurður Jónsson formaður stjórnarinnar sat alla þá fundi, en samkvæmt gögnum málsins eru hann og Rannveig Guðjónsdóttir, annar umsækjendanna, systkinabörn.

 

             Eins og áður er rakið segir í 1. mgr. 45. gr. sveitarstjórnarlaga að sveitarstjórnarmanni beri að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af. Þótt ákvæði stjórnsýslulaga gildi ekki um sérstakt hæfi sveitarstjórnarmanna er rétt að líta til þeirra við skýringu og fyllingu 45. gr. sveitarstjórnarlaga.

 

             Í 3. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um ástæður sem valdið geta vanhæfi starfsmanns eða nefndarmanns í stjórnsýslunni og í 3. tölul. 1. mgr. er fjallað um skyldleika o.fl. Þar segir að starfsmaður eða nefndarmaður sé vanhæfur ef hann er eða hefur verið maki aðila, skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar.

 

             Með hliðsjón af þessu ákvæði verður að líta svo á að með nánum venslamönnum í 1. mgr. 45. gr. sveitarstjórnarlaga sé átt við þá sem tilgreindir eru í 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga. Ljóst er því að Rannveig Guðjónsdóttir telst vera náinn venslamaður Sigurðar Jónssonar formanns stjórnar Árbæjar bs., en þau teljast vera skyld í annan lið til hliðar. Ennfremur telur ráðuneytið ljóst að ákvörðun stjórnarinnar varðaði verulega Rannveigu Guðjónsdóttur. Með vísan til þess telur ráðuneytið að umfjöllun stjórnar Árbæjar bs. um fyrrgreint mál varði náinn venslamann formanns stjórnarinnar svo sérstaklega að ætla megi að viljaafstaða hans hafi mótast að einhverju leyti þar af. Af þeim sökum telur ráðuneytið að Sigurður Jónsson hafi verið vanhæfur til þess að fjalla um málið í stjórninni.

 

             Í 2. mgr. 45. gr. sveitarstjórnarlaga er sérstaklega tekið fram að sveitarstjórnarmaður, sem vanhæfur er við úrlausn máls, skuli yfirgefa fundarsal sveitarstjórnar við afgreiðslu þess. Samkvæmt orðanna hljóðan nægir því ekki að vanhæfur sveitarstjórnarmaður sitji hjá við afgreiðslu viðkomandi máls heldur ber honum að víkja úr fundarsal “við afgreiðslu þess“. Á þetta bæði við um umfjöllun málsins og atkvæðagreiðslu um það, en samkvæmt 1. mgr. 45. gr. er sveitarstjórnarmanninum þó heimilt “að gera stuttlega grein fyrir afstöðu sinni“.

 

             Með vísan til framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að Sigurði Jónssyni hafi borið að víkja af fundi stjórnar Árbæjar bs. við umræðu og atkvæðagreiðslu um ráðningu leikskólastjóra á fundum stjórnarinnar 6., 10. og 12. nóvember 1997.

 

             Málsmeðferðarreglum sveitarstjórnarlaga og stjórnsýslulaga er ætlað að tryggja rétta málsmeðferð og niðurstöðu stjórnvalda í málum sem þau fá til meðferðar. Við mat á því hvort annmarki á málsmeðferð leiðir til ógildis ákvörðunar er litið til þess hvort annmarki á meðferð máls telst almennt til þess fallinn að hafa áhrif á efni ákvörðunar. Ef svo er telst ákvörðunin ógildanleg nema sannanlegt sé að annmarkinn hafi í raun ekki haft áhrif á efni ákvörðunarinnar.

 

             Í máli þessu var tekin endanleg ákvörðun um ráðningu leikskólastjóra af stjórn Árbæjar bs. Í ljósi þess að um er að ræða vanhæfi formanns stjórnarinnar telur ráðuneytið að vanhæfi þetta leiði til þess að ógilda ber ákvörðun stjórnarinnar frá 12. nóvember 1997 um ráðningu leikskólastjóra, enda telur ráðuneytið ekki sannanlegt að annmarki þessi hafi í raun ekki haft áhrif á efni ákvörðunar stjórnarinnar. Stjórn Árbæjar bs. ber því að taka málið fyrir á nýjan leik og er eðlilegt að kallaður verði til varamaður í stað þess sem vanhæfur telst.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

             Umfjöllun og afgreiðsla stjórnar Árbæjar bs. á ráðningu leikskólastjóra í nóvember 1997 er ógild. Stjórninni ber að taka málið fyrir á ný til löglegrar meðferðar.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

Afrit:  Stjórn Árbæjar bs.

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta