Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Vatnsleysustrandarhreppur - Nýting húsnæðis. Hreppsnefndarmaður nágranni

Valdemar G. Valdemarsson og                             30. desember 1998                                            98080040

Margrét Ingimarsdóttir                                                                                                                               1001

Skólatúni I

190 Vogum

 

 

Á L I T

 

             Með erindi, dagsettu 14. ágúst 1998, óskuðu Valdemar G. Valdemarsson og Margrét Ingimarsdóttir, Skólatúni I, Vatnsleysustrandarhreppi, eftir úrskurði félagsmálaráðuneytisins varðandi ýmis atriði tengd meðferð byggingarnefndar og hreppsnefndar Vatnsleysustrandarhrepps á málum varðandi Skólatún I og Skólatún II.

 

             Erindið var sent til umsagnar hreppsnefndar Vatnsleysustrandarhrepps með bréfi, dagsettu 21. ágúst 1998. Umsögn Þorvaldar Jóhannessonar hdl. fyrir hönd hreppsnefndarinnar barst ráðuneytinu með bréfi, dagsettu 21. september 1998. Jafnframt bárust athugasemdir kærenda við umsögn hreppsnefndarinnar með bréfi, dagsettu 16. nóvember 1998.

 

I.          Málavextir og málsástæður.

 

1.

             Í erindinu er óskað eftir að ráðuneytið úrskurði um eftirfarandi atriði:

1.                 “Við kærum til félagsmálaráðherra það háttarlag sem lýst er í greinargerð, þar sem einstaklingar sitja báðum megin við borðið og í skjóli valds og stöðu í opinberri stjórnsýslu nýta sér völd og áhrif sín sér til framdráttar og til að koma höggi á óvildarmenn sína ...“

2.                 “Við kærum til félagsmálaráðherra þá staðreynd að sami einstaklingur (Finnbogi Kristinsson) skuli taka þátt í afgreiðslu máls í hreppsnefnd sem áður hafði afgreitt sem fulltrúi byggingarnefndar ...“

3.                 “Við kærum til félagsmálaráðherra það háttarlag Sigurðar Kristinssonar hreppsnefndarmanns að fjalla sjálfur um mál er hann varðar. Þannig misnotar hann aðstöðu sína sem hreppsnefndarmaður sér til framdráttar og/eða til að klekkja á nágranna sínum. Hann er m.a. uppvís af því að fara í eigin persónu af stað með undirskriftarlista meðal íbúa um mál er síðar kom til hans kasta í hreppsnefnd ...“

4.                 “Við kærum til félagsmálaráðherra það háttarlag sveitarstjóra að senda seint um kvöld tvo byggingarfulltrúa og tvo byggingarnefndarmenn með hótanir um niðurrif mannvirkja sem um árabil hafa staðið athugasemdalaust á lóð okkar ...“

5.                 “Við kærum til félagsmálaráðherra það háttarlag sveitarstjóra að senda tvo byggingarfulltrúa í þeim erindum að ganga úr skugga um að meint atvinnustarfsemi hafi verið lögð niður. Slíkt er eins og ráðherra veit ekki í verkahring sveitarstjóra heldur sýslumanns og ber aðeins vott um þá valdníðslu sem undirritaðir hafa orðið fyrir af hálfu yfirvalda ...“

 

             Kærendur gera í framhaldi af þessu eftirfarandi kröfur:

             “Það er krafa okkar ábúenda að Skólatúni I og Skólatúni II að ráðherra geri alvarlegar athugasemdir við þá stjórnsýslu sem lýst er hér að framan og áminni bæði sveitarstjóra og þá hreppsnefndarmenn sem hlut eiga að máli fyrir þau vinnubrögð og stjórnsýslu sem þeir hafa viðhaft. Það er skýlaus krafa okkar að Íslensk yfirvöld tryggi okkur þau sjálfsögðu stjórnarskrárréttindi að þurfa ekki að una ofsóknum af hálfu stjórnvalda í þeirri sveit er við búum í.

             Meðfylgjandi gögn sýna á mörgum stöðum hvernig á okkur hefur verið brotið og orðið “valdníðsla“ eitt íslenskra orða fær nógu vel lýst því er íbúar hafa mátt móttaka af frá yfirvöldum í hreppnum.

             Við getum ekki annað séð en um sé að ræða samantekin ráð einstaklinga innan stjórnsýslunar á staðnum um að koma í veg fyrir alla framtaksemi og atvinnuskapandi uppbyggingu. ...“

 

             Síðan segir svo meðal annars í greinargerð kærenda:

             “Forsaga málsins er að núverandi eigendur Skólatúns I og II (hér eftir nefndir eigendur) hafa búið þar að mestu frá 1993. Í upphafi leigðu eigendur eignina Skólatún I, en u.þ.b. ári síðar bauðst þeim húseignin Skólatún II til kaups. Það húsnæði var á þeim tíma aðeins skemma sem í hafði verið bílaverkstæði, og hefur því nú verið breytt í íbúðarhúsnæði sbr. samþykkt hreppsnefndar þar um.

             Á árinu 1996 eignast Húsnæðisstofnun húseignina Skólatún I og selur núverandi eigendum eignina í framhaldi af því. Á lóðinni Skólatúni I stendur skúr einn ca. 40 frm. að stærð, ljótur en að áliti eigenda vel nýtanlegur, sem hundaskúr enda 3 stórir hundar á heimilinu. Eftir miklar lagfæringar á skúrnum sóttu eigendur um leyfi bygginganefndar til að reisa skjólgirðingu út frá honum, enda hafði þá vaknað sú hugmynd að auka atvinnu- og þjónustustig í hreppnum, með starfrækslu hundagæslu. Girðing þessi fékkst samþykkt athugasemdarlaust.

             Allt frá því að hugmyndin um hundagæslu kviknaði hafa eigendur haft náið samráð við heilbrigðisyfirvöld. Til dæmis skoðaði Magnús dýralæknir úr Keflavík uppdrátt af svæðinu og taldi hann ekkert því til fyrirstöðu að starfrækja hundagæslu þar. Einnig hefur Bernhard Laxdal dýralæknir sem annast hefur heimilishundana, verið leiðbeinandi um atriði er lúta að heilbrigðisþættinum. Eftir þriggja ára starfa við breytingar á skúrnun, frágang útisvæðis og þessháttar, var Hundaeftirliti Suðurnesja ásamt fulltrúa frá heilbrigðisyfirvöldum í Keflavík boðið að taka út væntanlegt fyrirtæki. Var gerður góður rómur að öllum aðstæðum.

             Eftir þetta var framkvæmd könnun á þörfinni. Dreifibréf var prentað og látið liggja frammi í nokkrum gæludýrabúðum.

             Hér verða straumhvörf, því að kvöldi annars dags júnímánaðar sl. komu að Skólatúni, fjórir menn, opinberra erinda. Mættir voru tveir byggingafulltrúar (Jón og Sigurður) ásamt jafn mörgum Bygginganefndarmönnum (Finnboga og Þórði). Tjáðu þeir eigendum að þeir væru sendir af sveitarstjóra til að hvetja eigendur til að sækja hið bráðasta um leyfi fyrir framkvæmdum, ella yrði jarðýtu beitt. Eigendur vitnuðu á áðurnefnda samþykkt Bygginganefndar, enda er skúrinn óumdeilanlegur hluti þeirrar samþykktar.

             Næsta dag, eða 3. júní sl. hringdi nefndur Þórður og tjáði eigendum að sækja um leyfi fyrir nefndum framkvæmdum strax, enda væri búið að ákveða aukafund í Bygginganefnd. Þrátt fyrir skamman tíma ákváðu eigendur að skila inn óformlegu minnisblaði (Memo), með athugasemdum sínum, þar sem þeir furða sig á vinnubrögðum yfirvalda.

             Þann 5. júní sl. gekk Margrét Ingimarsdóttir erinda eigenda, en þó ekki í formlegu umboði þeirra á fund byggingafulltrúa til að leggja inn áðurnefnd gögn. Henni var ráðlagt af byggingafulltrúa að útfylla “Umsókn um byggingaleyfi“ á þartilgert eyðublað, um að nefndur skúr fái að standa áfram á lóðinni Skólatúni I.

             Sama dag, eða að kvöldi 5. júní var samþykkt á fundi hjá bygginga- og skipulagsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps að synja “meintri“ umsókn eigenda undirritaðri af Margréti Ingimarsdóttur, sem eins og áður segir var ekki undirrituð í umboði eigenda.

             Á sama fundi gerir nefndin sig seka um dæmalausa þversögn í afgreiðslu mála. Hún synjar umsókn Jóhanns nokkurs Mýrdals um uppsetningu vinnuskúrs á forsendum byggingareglugerðar 3.1.2 ... en afgreiðir “meinta“ umsókn Margrétar sem fullgilda.

             Maður er nefndur Finnbogi Kristinsson. Finnbogi sat í bygginganefnd hreppsins á síðasta kjörtímabili. Athygli skal vakin á því að aukafundurinn sem frá er sagt hér að ofan var síðasti fundur þáverandi bygginganefndar. Svo vill til að ný hreppsnefnd tekur við að loknum kosningum í vor og er nefndur Finnbogi orðinn hreppsnefndarmaður. Það kemur síðan í hans hlut að taka afstöðu til úrskurðar byggingarnefndar, þar sem hann sjálfur átti sæti.

             Maður er nefndur Sigurður Kristinsson. Sigurður þessi býr að Sunnuhlíð sem er næsta hús við Skólatún II. Sigurður situr nú sitt annað kjörtímabil í hreppsnefnd Vatnsleysustrandahrepps. Til að undirstrika óánægju sína við þá atvinnustarfsemi sem til stóð við Skólatún gekk hann manna á meðal og safnaði undirskriftum til að mótmæla fyrirhugaðri starfsemi. Þessi listi, með alls 19 nöfnum, sem hreppsnefndarmaðurinn safnaði í eigin persónu fór sína leið til bygginganefndar og þaðan til afgreiðslu hreppsnefndar eins og rakið hefur verið hér að framan. Það skal áréttað að Sigurður Kristinsson vék ekki sæti vega afgreiðslu málsins þar.

             Eins og lesendum þessara blaða má ljóst vera ríkir ekki “nábúakærleikur“ milli íbúa Skólatúns II og Sunnuhlíðar.

             Til enn frekari staðfestu á “valdníðslu“ hreppsins gagnvart eigendum Skólatúns II eru hér lögð fram gögn vegna umsóknar um breytingu á húsnæði úr “iðnaðarhúsnæði“ í “íbúðarhúsnæði“ frá síðsta ári. Þar kemur Sigurður Kristinsson enn við sögu. Hann sem íbúi að Sunnuhlíð og þar með næsti nágranni Skólatúns II lætur í “grenndarkynningu“ álit sitt í ljós varðandi staðsetningu bílskúrs. Hann bætir um betur og tekur skýrt fram í “grenndaráliti“ sínu að ... “Okkur undirrituðum finnst að bygginganefnd eigi að sjá til þess að eigendur Skólatúns 2 framkvæmi þær kröfur sem bygginganefnd hefur sett eigendum um endurbætur á Skólatúni, áður en að leyfi fyrir meiri framkvæmdum er gefið.“

             Með þessum orðum á hreppsnefndarmaðurinn væntanlega við áminningu sem veitt var þegar skjólgirðing skúrsins við Skólatún I var samþykkt.

             Meginmálið er að íbúar Skólatúns I og Skólatúns II una því ekki að þurfa að byggja framtíð sína á geðþóttaákvörðunum Sigurðar Kristinssonar og handbenda hans í hrepps- og bygginganefnd.

             ...

             Húsnæðið Skólatún II liggur mjög nálægt húsi Sigurðar Kristinssonar hreppsnefndarmanns sem áður er getið. Hann hefur frá því undirritaðir fluttu í húsnæðið lýst yfir vilja sínum í þá átt að húsnæðið verði nýtt sem íbúðarhúsnæði í stað iðnaðarframleiðslu af einhverju tagi.

             Fyrir lá munnleg umsókn hjá byggingarnefnd um samþykki breytinga á nefndu húsnæði þannig að það yrði samþykkt sem íbúðarhúsnæði og með bílskúr sunnan megin (Sigurðar megin). Eins og fram kemur er það byggingarfulltrúinn sem upplýsir um að rétt sé að slíta skúrinn frá húsinu að sunnanverðu, enda muni hann aldrei fást samþykktur þar, sbr. munnlegu grendarkynninguna. Samsærið er fólgið í því að fá húseigendur til að leggja fram aðra umsókn eða tillögu af bílskúr, en nú norðan megin á lóðinni. Þar með var búið að slíta bílskúrinn frá húsinu og hægt að samþykkja það sem íbúðarhúsnæði, þannig að hæstvirtur hreppsnefndarmaður þyrfti ekki í framtíðinni að búa við hliðina á fiskverkun, en allt í lagi að sýna svo vald sitt og níðslu og hafna tillögunni af bílskúrnum norðan við húsið, þrátt fyrir að látið hafi verið að því liggja að hann fengist samþykktur. Þess má geta að vanir sveitarstjórnarmenn skilja alls ekki hvers vegna ekki má byggja bílskúr á lóð sem er í einkaeign í einu af dreifbýlasta sveitarfélagi landsins. Það skal tekið fram að Sigurður tók sjálfur á málinu í hreppsnefnd.

             Þetta kallast valdníðsla og ekkert annað og samkvæmt stjórnarskrá íslenska lýðveldisins eiga þegnar landsins ekki að þurfa að búa við slíkt af hálfu stjórnvalda og kærum við þess vegna.“

 

2.

             Um málsástæður kærenda segir meðal annars svo í umsögn hreppsnefndarinnar:

             “Í framangreindri kæru og greinargerð með henni eru sett fram fjölmörg atriði sem bæði varða afgreiðslu byggingarnefndar á grundvelli skipulags og byggingarmála og einnig atriði er varða meint vanhæfi sveitarstjórnarmanns við stjórnsýslulega meðferð máls. Framsetning málsins og lýsing málavaxta er mjög óskipuleg og þar eru lögð til grundvallar fjölmörg fylgiskjöl.

             Hér verður leitast við að fjalla um málið einvörðungu hvað varðar meint vanhæfi og þar með orðið við óskum yðar um að fjalla ekki um þá þætti í kærunni sem varða skipulags- og byggingarmál þar sem þau heyra ekki undir félagsmálaráðuneytið. Í þessu skyni verður fjallað um málið og það rakið í tveim meginþáttum. Þessir þættir málsins varða annars vegar Skólatún I og hins vegar Skólatún II.

             Samskipti kærenda við byggingaryfirvöld og hreppsnefnd hefjast í júlí 1997 með umsóknum til byggingarnefndar um breytingu og byggingu mannvirkja við Skólatún II. Það mál er afgreitt í byggingarnefnd í október 1997 og því máli lýkur með því að fundargerð byggingarnefndar er samþykkt í hreppsnefnd. Í annan stað, varðandi Skólatún I, eru samskipti kærenda við hreppinn þau fyrst að í júlí 1996 er samþykkt bygging skjólgirðingar og síðan í júnímánuði síðastliðnum er lagt fram erindi og fjallað um og afgreitt mál varðandi umsókn þeirra um leyfi fyrir því að tiltekinn skúr fái að standa áfram á lóðinni við Skólatún I. Þetta eru þeir tveir þættir sem málið snýst um og eru aðskildir í stjórnsýslulegri meðferð hreppsins og varða annars vegar Skólatún I sérstaklega og hins vegar Skólatún II.

             Hér verða í stuttu máli raktir málavextir og gerð grein fyrir stjórnsýslulegri meðferð þeirra. Jafnframt verður leitast við að gera grein fyrir reglum og sjónarmiðum um sérstakt hæfi tveggja sveitarstjórnarmanna, þeirra Finnboga Kristinssonar og Sigurðar Kristinssonar, sem bornir hafa verið þungum sökum um meint vanhæfi þeirra við stjórnsýslulega meðfeð þessara tveggja mála.

             Skólatún II

             Kærendur leggja fram umsókn dags. 25.07.97 til bygginganefndar um að byggja bílskúr ásamt forsofu við húsið.

             Á fundi bygginganefndar 19.08.97 var fjallað um málið og fram kom sú skoðun bygginganefndar að bílskúrinn yrði líklega betur staðsettur norðan megin á lóðinni þar sem rými er meira. Málið var talið þurfa að fara í grenndarkynningu.

             Á fundi bygginganefndar 09.09.07 var málið tekið fyrir og því frestað.

             Þann 30.09.97 barst bygginganefnd umsókn um að breyta húsinu að Skólatúni II úr iðnaðarhúsnæði í íbúðarhús.

             Á fundi bygginganefndar 30.09.97 voru bæði erindin tekin fyrir þ.e. bílskúrsbyggingin og breyting hússins í íbúðarhúsnæði. Bygginganefnd ákvað að fram færi grenndarkynning.

             Á fundi bygginganefndar 14.10.97 var erindið enn tekið fyrir og lögð fram grenndarkynning. Málið afgreitt í bygginganefnd þannig að samþykkt var að húsinu yrði breytt í íbúðarhús en hafnað var erindinu um byggingu bílskúrs eins og það lá fyrir nefndinni á forsendum grenndarkynningar.

             Á hreppsnefndarfundi sem haldinn var 04.11.97 var fundargerð byggingarnefndar frá 14.10.97 samþykkt án umræðu. Á þeim fundi lágu m.a. fyrir fjórtán fundargerðir auk annarra mála.

             Finnbogi Kristinsson sveitarstjórnarmaður sat alla framangreinda fundi bygginganefndar nema þann fyrsta 19. ágúst 1997. Finnbogi sat ekki á þeim tíma í hreppsnefnd og tók því á engan hátt þátt í afgreiðslu málsins þar. Sigurður Kristinsson var þá í hreppsnefnd og sat á þeim fundi þegar fundargerðin var samþykkt. Sigurður hefur aldrei setið í byggingarnefnd og hefur engin ítök þar. Eina viðkoma Sigurðar að þessu máli er sú að byggingafulltrúi sendi honum ásamt öðrum í nágrenni við Skólatún II bréf vegna grenndarkynningar. Sigurður setti þá ásamt eiginkonu sinni fram sjónarmið þeirra sbr. bréf dags. 13.10.97. Einnig sendi Hannes Kristjánsson inn bréf með sjónarmiðum sínum vegna grenndarkynningar. Í bréfi Sigurðar og konu hans koma fram þau sjónarmið þeirra að það sé fagnaðarefni ef húsinu að Skólatúni II verði breytt í íbúðarhúsnæði og að þeirra skoðun sé sú að staðsetning bílskúrs gæti verið betri við norð/vestur hlið hússins. Þessi skoðun Sigurðar og konu hans getur á engan hátt talist ómálefnaleg og þaðan af síður fjandsamleg eins og látið er liggja að í greinargerð kærenda. Þær staðhæfingar kærenda eru með öllu órökstuddar. Sigurður situr síðan fund hreppsnefndar þar sem fundargerð bygginganefndar er samþykkt án nokkurrar umræðu. Sú seta hans þar og þátttaka hans í þeirri afgreiðslu getur ekki valdið vanhæfi hans við þá afgreiðslu. Þáttur hans í afgreiðslu málsins er mjög óverulegur. Aðstæður eru ekki þannig í þessu tilviki að þær séu almennt til þess fallnar að draga úr óhlutdrægni hans. Til þess að starfsmaður verði vanhæfur verður að gera þá kröfu að hann eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn málsins, svo sem vegna ágóða, taps eða óhagræðis. Sigurður lagðist ekki gegn erindum kærenda. Hann samþykkti annað erindið og lagðist ekki gegn hinu heldur lagði fram sjónarmið sín um hvað betur mætti fara í afgreiðslu þess. Þetta getur ekki leitt til þeirrar niðurstöðu að hann sé vanhæfur með setu sinni í hreppsnefnd við einfalda afgreiðslu málsins þar.

             Í þessum þætti málsins getur ekki leikið nokkur vafi á að Finnbogi Kristinsson er ekki vanhæfur við meðferð málsins í bygginganefnd. Til þess liggja margvíslegar ástæður og röksemdir en ekki er talin ástæða til að fjalla sérstaklega um það hér þar sem því er í erindi kærenda ekki haldið fram svo séð verði að þessi þáttur Finnboga í málinu sé talinn valda vanhæfi hans. Um meint vanhæfi Finnboga er fjallað hér síðar varðandi Skólatún I. Að öðru leyti vísast hér hvað þetta varðar til reglna 3. gr. laga nr. 37/1993 ásamt greinargerð og sjónarmiða um mat á vanhæfi í skýringarriti forsætisráðuneytisins; Stjórnsýslulögin eftir Pál Hreinsson útg. 1994.

             Skólatún I

             Á fundi bygginganefndar 18.07.1996 var samþykkt umsókn kærenda um leyfi til þess að reisa skjólgirðingu á lóðinni við Skólatún I.

             Á fundi bygginganefndar 18.06.1998 var lögð fram umsókn kærenda um að skúr sem stendur á lóðinni við Skólatún I fái að standa þar áfram eftir að bygginganefnd hafði tilkynnt kærendum að skúrinn stæði þar heimildarlaust. Skúrinn hafði fengið á árinu 1989 bráðabirgðaleyfi til tveggja ára. Á þessum fundi byggingarnefndar var erindinu synjað á þeim forsendum að skúrinn hefði verið á bráðabirgðaleyfi sem runnið væri út og stæðist ekki kröfur sem gerðar eru í byggingareglugerð. Á þessum fundi bygginganefndar sat Finnbogi Kristinsson.

             Um þetta er fjallað í greinargerð kærenda og í kæru þeirra og þar kærð sú “staðreynd að sami einstaklingur (Finnbogi Kristinsson) skuli taka þátt í afgreiðslu máls í hreppsnefnd sem áður hafði afgreitt sem fulltrúi Byggingarnefndar“ eins og segir í kærunni.

             Varðandi meint vanhæfi Finnboga við afgreiðslu þessa máls vísast til þess að það er viðurkennd regla í stjórnsýslunni að strfsmaður sem hefur áður haft afskipti af sama máli í starfi sínu verður ekki vanhæfur af þeirri ástæðu einni og sér nema afstaða eða framkoma hans hafi þá verið með þeim hætti að draga megi óhlutdrægni hans í efa með réttu. Þetta á auðvitað enn frekar við um nefndarmann í fjölskipaðri nefnd. Um þetta vísast til áðurnefnds rits Páls Hreinssonar, Stjórnsýslulögin, á bls. 75/76 og dóms Hæstaréttar 1972:1061. Ekkert er komið fram um það að málið varði persónu eða hagsmuni Finnboga sérstaklega og að einhver sérstök hætta hafi verið á því að ómálefnaleg afstaða réði afgreiðslu málsins við þessar aðstæður.

             Á framangreindum fundi hreppsnefndar sat einnig Sigurður Kristinsson. Að þessu leyti er vísað til þess sem að framan greinir um hagsmuni og afstöðu Sigurðar í garð kærenda í umfjöllun hér að framan varðandi Skólatún II. Ekkert er komið fram um að óvild ríki af hálfu Sigurðar í garð kærenda og að nábýli hans við Skólatún valdi því að afstaða hans verði ómálefnaleg og auk heldur að seta hans í hreppsnefnd hafi áhrif á afgreiðslu málsins þar. Sigurður undirritaði ásamt eiginkonu sinni og sautján öðrum íbúum í nágrenni Skólatúns mótmæli við því að þar væri rekin ólögmæt starfsemi með hundagæslu. Undirskriftarlisti þessi var lagður fram á fundi bygginganefndar 05.06.98 þar sem mál hundagæslunnar var tekið fyrir. Sigurður sat ekki á þeim fundi. Seta hans á fundi hreppsnefndar þar sem fundargerð bygginganefndar var samþykkt án umræðu eða athugasemda getur ekki valdið vanhæfi hans við þá meðferð málsins. Hans afstaða til ólögmætrar starfsemi með hundahótel kærenda getur eitt sér ekki valdið því að afstaða hans til erinda á sviði byggingar- og skipulagsmála verði ómálefnaleg. Þá verður að líta til þess að hann er við afgreiðslu málsins aðeins einn af nefndarmönnum þar sem nefndin tekur ákvörðun án þess að málið komi til neinnar umfjöllunar í nefndinni að öðru leyti en því að samþykkt er þar fundargerð annarrar nefndar. Sigurður vék ekki sæti á fundinum þar sem engin umræða varð um málið. Á bls. 76 á áðurtilvitnuðu riti um stjórnsýslulögin er sérstaklega tekið fram að það valdi ekki vanhæfi þótt starfsmaður hafi áður fengist við önnur mál sama aðila og er þar vísað til álits umboðsmanns Alþingis, SUA 1990:113.

             Kærendur fara mikinn í kæru sinni og greinargerð og setja þar fram skoðanir sínar á afstöðu einstakra sveitarstjórnarmanna og afgreiðslu hinna tveggja nefnda, bygginganefnd og hreppsnefnd. Órökstuddar eru fullyrðingar um að ómálefnaleg afstaða hafi ráðið afgreiðslu mála þeirra sem lögð hafa verið fyrir nefndirnar. Enn frekar eru órökstuddar og með öllu óviðeigandi kenningar kærenda um það sem þau kalla samsærisvef hreppsnefndar og bygginganefndar. Þeirri framsetningu og skrifum í greinargerð kærenda verður ekki svarað hér í umsögn hreppsnefndar sem ráðuneytið hefur óskað eftir, að öðru leyti en ráða má af því sem fram kemur hér í umsögninni. Þá verður, eins og áður er getið, ekki fjallað hér um þau atriði í kærunni og greinargerðinni sem varða framkvæmd byggingarlaga nr. 54/1978 og skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

             Í greinargerð kærenda er tekið fram að meginmálið sé það “að íbúar Skólatúns I og Skólatúns II una því ekki að þurfa að byggja framtíð sína á geðþóttaákvörðunum Sigurðar Kristinssonar og handbenda hans í hrepps- og bygginganefnd“. Eins og fram hefur komið er það skoðun hreppsnefndar að þessar fullyrðingar eigi ekki við nein rök að styðjast eins og gerð hefur verið grein fyrir. Það verður heldur ekki séð að geðþóttaákvarðanir manna nái svo hæglega fram í fjölskipaðri hreppsnefnd.

             Byggingarnefnd og hreppsnefnd hafa fjallað um málefni kærenda á málefnalegan hátt og hafa þar engir hagsmunir ráðið aðrir en hagsmunir heildarinnar svo sem nefndunum er skylt að hafa að leiðarljósi. Nefndirnar hafa samþykkt sum erindi kærenda og einnig synjað öðrum og á það einnig við um erindi sumara annarra íbúa hreppsins með sama hætti.

             Verði litið svo á að sveitarstjórnarmaður hafi verið vanhæfur við meðferð máls og hefði átt að víkja sæti á grundvelli ákvæðis 2. mgr. 4. gr. stjórnsýslulaga, er rétt að víkja sérstaklega að þeim reglun. Stjórnvaldsákvörðun verður ógildanleg ef meðferð málsins er talin vera haldin verulegum annmarka og veigamikil rök mæli með því að ógilda hana. Við brot á hæfisreglum verður lagður til grundvallar hinn sérstaki mælikvarði þegar vænhæfur nefndarmaður hefur tekið þátt í meðferð og úrlausn máls. Ákvörðun er þá talin gild ef talið er sannað að áhrif og atkvæði hins vanhæfa nendarmanns hafi ekki ráðið úrslitum máls.

             Hreppsnefnd er þess fullviss að ekki sé nein ástæða til að ógilda ákvarðanir nefndarinnar eða byggingarnefndar á framangreindum forsendum og að einstakir sveitarstjórnarmenn hafi ekki verið vanhæfir við stjórnsýslulega meðferð mála í hreppnum.“

 

3.

             Eins og áður segir bárust athugasemdir frá kærendum við umsögn hreppsnefndarinnar og segir þar meðal annars svo:

             “... gera verður þá kröfu til lögmannsins að hann fari með rétt mál í umsögn sinni og reyni ekki að afvegaleiða lesendur með því að láta skína í að kærendur hafi haldið öðru fram en lesa má í kæru og greinargerð sem hann er beðinn umsagnar um. Einnig teljum við það í hæsta lagi ámælisvert að lögmaðurinn slítur úr samhengi mikilvæg atriði málsins ...“

             Varðandi umfjöllun lögmannsins um fund byggingarnefndar þann 19. ágúst 1997 er tekið fram að “lögmaðurinn getur þess ekki að þetta sama kvöld mætti öll bygginganefndin, ásamt byggingafulltrúa og tjáðu eigendum þessa niðurstöðu, auk þess að nefndur Sigurður Kristinsson ábúandi Sunnuhlíðar væri mótfallinn byggingu nefnds skúrs á þessum stað. Nefnd grenndarkynning fór fram munnlega þannig að byggingafulltrúi leitaði umsagnar tveggja nágranna; Hannesar Kristjánssonar og Sigurðar Kristinssonar. Hálfum mánuði síðar tjáði byggingafulltrúi að niðurstaða grenndarkynningar lægi fyrir og voru báðir þátttakendur mótfallnir ráðagerðinni. ...“

             Í umfjöllun lögmannsins er fjallað um þátt Sigurðar Kristinssonar. “Hér verður að gera verulegar athugasemdir við skrif lögmannsins. Hann birtir ekki umsögn þeirra hjóna nema að hálfu leyti. Hið sleppta er einmitt það sem telja verður ómálefnalegt, svo ekki sé nú talað um fjaldsamlegt viðmót.“ Í umsögn hjónanna Sigurðar Kristinssonar og Bryndísar Rafnsdóttur segir meðal annars: “Ps okkur undirrituðum finnst að bygginganefnd eigi að sjá til þess að eigendur Skólatúns II framkvæmi þær kröfur sem bygginganefnd hefur sett eigendum um endurbætur á Skólatúni áður en að leyfi fyrir meiri framkvæmdum er gefið.“ Segja kærendur að hér sé átt við endurbætur á Skólatúni I. Síðan segja kærendur meðal annars: “Með þessari umsögn sinni, sem lögmaðurinn hefur ákveðið að gera ekki að umtalsefni, er Sigurður raunverulega sem hreppsnefndarmaður, og þar með á hærra stjórnsýsluþrepi en bygginganefnd, að segja bygginganefnd fyrir verkum. ... Fram kemur í málinu að aðeins tveir aðilar svöruðu grenndarkynningu sem synjun um byggingu nefnds skúrs byggði á. Samkvæmt orðum lögmannsins “lagðist Sigurður aldrei gegn erindum kærenda.““ Vitnað er síðan orðrétt til umsagnar Hannesar Kristjánssonar. “Þarna er hlutur Sigurðar og áhrif af umsögn hans meiri en lesa má úr bréfi lögmannsins. Umsögn Hannesar Kristjánssonar ... getur vart talist málefnaleg, né heldur réttlæta synjun umsóknar um byggingu bílskúrs. Lögmaðurinn segir: “Sigurður lagðist aldrei gegn erindum kærenda“ og samkvæmt því er “grenndarkynning“ Hannesar Kristjánssonar því eina “grenndarkynningin“ sem liggur til grundvallar synjun. Þarna skortir okkur skilning á ákvörðun hreppsins um synjun, enda umsögn hans hvorki málefnaleg né sannfærandi. Við getum ekki annað en litið svo á að synjunin eigi rætur að rekja til persónulegrar skoðunar Sigurðar á bílskúrsmálinu og að synjun á grundvelli grenndarkynningar hafi þótt heppileg sem yfirvarp og “falsrök“ fyrir þeirri stjórnsýslulegu ákvörðun að synja eigendum Skólatúns II að byggja nefndan bílskúr. ...

             Hvað varðar umsögn lögmannsins og varðar beint Skólatún I lítum við svo á að lögmaðurinn vísvitandi reyni að ausa ryki í augu lesenda með því að sundurslíta staðreyndir í þeim tilgangi að lesandi dragi rangar ályktanir af framgangi málsins. ...“ Vitnað er til þess sem segir í umsögninni um fund byggingarnefndar 18. júní 1998. “Í fyrsta lagi tilkynnti bygginganefnd kærendum ekki á formlegan hátt að nefndur skúr stæði þar í óleyfi. Hitt er annað að þegar Sigurður Kristinsson, þá hreppsnefndarmaður og ábúandi í Sunnuhlíð fékk hugboð um að til stæði að reka hundagæslu í skúrnum fór hann í eigin persónu hús úr húsi til að safna undirskriftum þar sem nágrannar mótmæla fyrirhugaðri hundagæslu. Í umfjöllun sinni um þetta atriði reynir lögmaðurinn enn að afvegaleiða lesendur. Hann getur þess ekki að Sigurður hafi sjálfur gengið hús úr húsi með nefndan lista og enn frekar rangfærir hann yfirskrift undirskriftalistans.“

             Varðandi umfjöllun lögmannsins um málsmeðferðina í hreppsnefndinni og þátt Sigurðar þar segir meðal annars: “Við getum ekki annað en litið svo á að úr því að sveitarstjóra var falið að fylgja málum eftir hafi í raun orðið umræða um málið. Þess vegna teljum við að Sigurður Kristinsson hafi átt að víkja sæti (lög 37 frá 30. apríl 1993). Einnig þykir okkur það í hæsta máta óeðlilegt og raunar í fullkomnu ósamræmi við sömu lög, þ.e. lög um stjórnsýslu nr. 37 frá 30. apríl 1993, að Finnbogi Kristinsson geti tekið á málinu fyrst í bygginganefnd ... og síðar afgreitt málið endanlega í hreppsnefnd. Þessu til stuðnings bendum við á 3. gr. nefndra laga ...

             Vegna þeirra raka sem fram hafa komið mótmælum við harðlega niðurlagi umsagnar lögmannsins ...

             Um þetta viljum við segja: Hreppsnefndin er “fullviss“ um lögmæti aðgerða sinna gegn íbúum Skólatúns, en hefur þó þegar mátt una ógildingu samþykktar sinnar hvað varðar niðurrif skúrsins sem málið fjallar um. Er hér vitnað til úrskurðar Úrskurðarnefndar skipulags- og byggingamála frá september sl.

             Íbúar Skólatúns líta svo á að nefndur úrskurður og ógilding ákvarðana hreppsins staðfesti að stjórnsýslan í hreppnum hafi ekki staðið eðlilega að afgreiðslu mála er varða Skólatún I og Skólatún II. ...“

 

II.         Niðurstaða ráðuneytisins.

 

             Ljóst er að ýmsir þættir kærunnar varða framkvæmd byggingarlaga nr. 54/1978 og skiplags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Þau lög heyra undir verksvið umhverfisráðuneytisins og skal kærum beint til úrskurðarnefndar um skipulags- og byggingarmál, sbr. 8. gr. laga nr. 73/1997. Hafa kærendur þegar verið upplýstir um það, sbr. bréf ráðuneytisins frá 21. ágúst 1998.

 

             Þau atriði í kærunni sem heyra undir verksvið félagsmálaráðuneytisins eru annars vegar þátttaka Finnboga Kristinssonar í afgreiðslu máls í hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps eftir að hafa fjallað um málið í byggingarnefnd og hins vegar hæfi Sigurðar Kristinssonar til að fjalla um málefni Skólatúns I og Skólatúns II í hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps.

 

Um þátt Finnboga Kristinssonar.

 

             Um skipan byggingarnefndar eru meðal annars ákvæði í 6. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en þau lög tóku gildi 1. janúar 1998. Í 1. mgr. 6. gr. segir svo meðal annars: “Í hverju sveitarfélagi skal starfa byggingarnefnd, kjörin af sveitarstjórn.“ Um verkefni byggingarnefndar er síðan fjallað á nokkrum stöðum í lögunum. Eldri byggingarlög voru nr. 54/1978 og í 6. gr. þeirra laga var fjallað um kosningu í byggingarnefnd. Sagði meðal annars svo í 1. mgr. 6. gr.: “Sveitarstjórn kýs menn í byggingarnefnd, aðalmenn og varamenn, samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga.“

 

             Í 1. mgr. 33. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er svohljóðandi ákvæði: “Aðal- og varamönnum í sveitarstjórn er skylt að taka kjöri í nefnd, ráð eða stjórn á vegum sveitarfélagsins.“ Samsvarandi ákvæði 1. mgr. 43. gr. eldri sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 hljóðaði svo: “Kjörnum fulltrúum í sveitarstjórn og varamönnum þeirra er skylt að taka kjöri í nefnd, ráð eða stjórn á vegum sveitarfélagsins.“

 

             Samkvæmt þessu er sveitarstjórnarmanni skylt að taka kjöri ef sveitarstjórn kýs hann í einhverja nefnd á sínum vegum. Gert er því beinlínis ráð fyrir að sveitarstjórnarmenn geti setið í nefndum á vegum sveitarstjórnar.

 

             Skýrt er tekið fram í 1. mgr. 38. gr. laga nr. 73/1997 að byggingarnefndir fari með byggingarmál undir yfirstjórn sveitarstjórna. Jafnframt er meðal annars í lögum nr. 73/1997, 4. mgr. 39. gr., gert ráð fyrir að heimilt sé að kæra ákvarðanir sveitarstjórnar samkvæmt lögunum til úrskurðarnefndar skv. 8. gr. sömu laga. Með hliðsjón af ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 telur ráðuneytið að byggingarnefnd og hreppsnefnd séu ekki tvö stjórnsýslustig, heldur er byggingarnefnd starfsnefnd á vegum hreppsnefndar og er hún körin á grundvelli 1. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga og 6. gr. skipulags- og byggingarlaga.

 

             Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið að þátttaka Finnboga Kristinssonar í afgreiðslu máls í hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps eftir að hafa fjallað um málið í byggingarnefnd samræmist ákvæðum sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.

 

Um þátt Sigurðar Kristinssonar.

 

             Í 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er fjallað um hæfi sveitarstjórnarmanna til að fjalla um einstök mál sem koma til umræðu og afgreiðslu í sveitarstjórn og í 1. mgr. segir meðal annars svo: “Sveitarstjórnarmanni ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af.“ Samhljóða ákvæði var í 45. gr. eldri sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986.

 

             Í 19. gr. sveitarstjórnarlaga er fjallað um hæfi sveitarstjórnarmanna til meðferðar einstakra mála. Sú hæfisregla sem þar kemur fram er að nokkru leyti annars eðlis en reglur þær sem fram koma í stjórnsýslulögum nr. 37/1993, en vegna fámennis í sumum sveitarfélögum hefur ekki þótt fært að gera eins strangar kröfur til þeirra sem starfa við stjórnsýslu sveitarfélaga og gert er í II. kafla laga nr. 37/1993, sbr. lokamálslið 2. mgr. 2. gr. þeirra laga. Ákvæði stjórnsýslulaga eiga því almennt ekki við um hæfi sveitarstjórnarmanna.

 

             Ljóst er að Sigurður Kristinsson býr í Sunnuhlíð sem er næsta hús við Skólatún II. Málefni er tengjast hugsanlegri atvinnustarfsemi Skólatúns I og Skólatúns II, sem er í eigu sömu aðila, svo og skipulags- og byggingarmál þess svæðis hljóta því að varða hann sérstaklega sem eiganda Sunnuhlíðar. Hann hefur sem slíkur rétt á að gera athugasemdir í grenndarkynningu og hefur hann gert það samkvæmt gögnum málsins. Jafnframt hefur hann sjálfur staðið fyrir söfnun undirskrifta vegna hugsanlegrar atvinnustarfsemi á svæðinu o.fl.

 

             Með hliðsjón af þessari stöðu Sigurðar Kristinssonar verður að telja að málefni Skólatúns I og Skólatúns II varði hann svo að almennt megi ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af, sbr. 1. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Er niðurstaða ráðuneytisins því sú að honum beri að víkja sæti í hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps þegar málefni er varða Skólatún I og Skólatún II sérstaklega koma til afgreiðslu í hreppsnefndinni.

 

             Rétt er að taka sérstaklega fram að félagsmálaráðuneytið er með þessari álitsgerð ekki að fjalla um gildi ákvarðana sem heyra undir verksvið úrskurðarnefndar um skipulags- og byggingarmál.

 

 

             Afgreiðsla erindis þessa hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

Afrit:  Hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps.

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta