Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Úrskurður í máli nr. SRN17040543

Ár 2020, þann 23. júlí, er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli SRN17040543

 

Kæra Landsvirkjunar

á ákvörðun

Þjóðskrár Íslands

 

 

I.         Kröfur og kæruheimild

Með kæru sem barst ráðuneytinu þann 23. desember 2016 kærði Landsvirkjun (hér eftir nefnt kærandi), ákvörðun Þjóðskrár Íslands (hér eftir ÞÍ) frá 28. desember 2019 um skráningu vatnsréttinda vegna Kárahnjúkavirkjunar. Krefst kærandi þess aðallega að ákvörðun ÞÍ um endurmat vatnsréttinda og annarra réttinda sem nýtt eru vegna Kárahnjúkavirkjunar verði felld úr gildi. Til vara krefst kærandi þess sá hluti ákvörðunar ÞÍ sem lýtur að endurmati og framkvæmd endurmats vatnsréttinda sem nýtt eru vegna Kárahnjúkavirkjunar verði felld úr gildi.

Um kæruheimild vísast til 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum var gerður samningur milli kæranda og eiganda jarða við Jökulsá á Dal og Jökulsá á Fjöllum þann 13. desember 2005 þess efnis að kærandi væri eigandi vatnsréttinda tilgreindra vatnsfalla sem áður höfðu tilheyrt fjölda landeigna. Landeigendur sem framseldu kæranda vatnsréttindi sín staðfestu með yfirlýsingum afmörkun vatnsréttindanna. Var ágreiningur um verðmæti réttindanna lagður fyrir sérstaka matsnefnd og kvað nefndin upp úrskurð þann 22. ágúst 2007. Var niðurstaða nefndarinnar um bætur staðfest með dómi Hæstaréttar frá 18. október 2012 í máli nr. 233/2011. Þann 18. júní 2008 óskaði Fljótsdalshérað eftir því við ÞÍ að umrædd vatnsréttindi vegna Jökulsár á Dal yrðu metin fasteignamati óháð stöðu þeirra samkvæmt þinglýsingu. Féllst ÞÍ á kröfu sveitarfélagsins um skráningu og mat þeirra vatnsréttinda sem framseld höfðu verið kæranda. Var sú ákvörðun kærð til innanríkisráðuneytisins sem staðfesti ákvörðun ÞÍ með úrskurði þann 10. febrúar 2012. Þann 14. desember 2012 höfðaði kærandi mál fyrir héraðsdómi Reykjavíkur til ógildingar á fyrrgreindri ákvörðun. Féllst dómurinn á kröfu kæranda og felldi ákvörðun ÞÍ úr gildi. Var dóminum í kjölfarið áfrýjað til Hæstaréttar sem sneri við dómi héraðsdóms og sýknaði ÞÍ og Fljótsdalshérað af öllum kröfum kæranda. Féllst dómurinn á að skrá skyldi vatnsréttindi í Jökulsá á Dal í fasteignaskrá og virða til mats eftir því sem kveðið er á um í lögum nr. 6/2001  og 4. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 406/1978, sbr. dómur Hæstaréttar frá 8. október 2015. Í framhaldi af dóminum tilkynnti ÞÍ Landsvirkjun með bréfi dags. 28. desember 2015 að vatnsréttindi kæranda í Fljótsdalshreppi og Fljótsdalshéraði hefðu verið skráð í fasteignaskrá á grundvelli dómsins og að beiðni sveitarfélaganna, sem og í samræmi við 2. og 3. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001. Vísaði ÞÍ til þess að vegna skráningar vatnsréttindanna á Fljótsdalshéraði hefði í þeim tilgangi verið stofnuð lóð úr landi Laugavalla sem bæri landnúmerið 223696. Væru vatnsréttindin skráð sem vatnsorkuréttindi með fastanúmerið 2357931. Einnig var vísað til þess að þar sem ákvörðun um eignarnám hefði ekki verið þinglýst myndu eigendur þeirrar jarðar sem lóðin væri tekin úr (Laugavalla) verða skráðir sem eigendur fasteignarinnar og tilheyrandi réttinda í fasteignaskrá. Væri Landsvirkjun skráð sem gjaldandi vegna vatnsorkuréttindanna í álagningarskrá sveitarfélaganna. Varðandi skráningu og mat vatnsréttinda í Fljótsdalshreppi hefðu þau verið skráð sem vatnsorkuréttindi á fastanúmerið 2318082 á lóðinni Valþjófsstaður sem væri í eigu Landsvirkjunar. Með bréfi kæranda dags. 8. janúar voru gerðar athugasemdir við skráninguna og með hvaða hætti væri staðið að skráningu og mati umræddra réttinda. Með bréfi ÞÍ dags. 25. janúar 2016 var tekið fram að fasteignamatið hafi verið fundið þannig að heildarmat það sem matsnefndin fann árið 2007 hafi verið notað. Því mati hafi síðan verið skipt landfræðilega milli sveitarfélaganna. Fasteignamat vatnsorkuréttinda væri því heildarmat vatnsorkuréttinda fyrir Kárahnjúkavirkjun. Með bréfi kæranda dags. 11. febrúar 2016 var ítrekuð fyrri beiðni um að ÞÍ breytti fyrirhugaðri framkvæmd og skráði umsamin og lögvarin vatnsréttindi kæranda fyrir hverri jörð á hverja jörð fyrir sig. Með tölvubréfi ÞÍ dags. 19. apríl var kæranda tilkynnt að unnið væri að svari og í gögnum málsins kemur fram að ÞÍ hafi litið svo á að á þeim tíma hafi endanlegur rökstuðningur ekki legið fyrir. Kærandi kærði ákvörðun ÞÍ til yfirfasteignamatsnefndar þann 22. apríl 2016. Af hálfu ÞÍ er til þess vísað að þegar umsagnarbeiðni barst vegna kærunnar hafi stofnunin ekki talið ástæðu til að svara erindi kæranda. Með úrskurði yfirfasteignamatsnefndar þann 30. nóvember 2016 var kærunni vísað frá með vísan til þess að ekki væri séð að ágreiningur um tilhögun og framkvæmd skráningar í fasteignaskrá félli undir valdsvið nefndarinnar.

Ákvörðun ÞÍ var kærð til ráðuneytisins með bréfi kæranda mótteknu 23. desember 2016.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 31. janúar 2017 var ÞÍ gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið ráðuneytinu með bréfi stofnunarinnar  mótteknu 19. maí 2017.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 13. júní 2017 var kæranda kynnt umsögn ÞÍ og gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna málsins. Bárust þær athugasemdir ráðuneytinu með bréfi kæranda mótteknu 26. júní 2017.

 

III.      Málsástæður og rök Landsvirkjunar

Í kæru kemur fram að endurmat á vatnsréttindum Kárahnjúkavirkjunar hafi verið framkvæmt með þeim hætti að niðurstaða Hæstaréttar í máli 233/2011 um verðmat vatnsréttinda vegna virkjunarinnar hafi verið lögð til grundvallar við ákvörðun fasteignamatsgrunns vatnsréttinda Kárahnjúkavirkjunar. Í stað þess að skrá vatnsréttindi fyrir hverri jörð eða innan þeirrar þjóðlendu sem þau eru hluti af hafi verið stofnuð ný lóð úr landi Laugavalla með landnúmerið 223696. Öll vatnsréttindi innan Fljótsdalshéraðs hafi verið skráð undir viðkomandi lóð sem vatnsorkuréttindi með fastanúmerið 235-7931 og með tiltekinni fjárhæð endurmats vatnsréttindanna. Hvað varðar skráningu og mat vatnsréttinda í Fljótsdalshreppi hafi þau réttindi í heild sinni verið skráð sem vatnsorkuréttindi á fastanúmerið 231-8082 á lóðinni Valþjófsstaður sem er í eigu kæranda og með tiltekinni fjárhæð endurmats vatnsréttindanna. Kveðst kærandi ekki hafa gert athugasemdir fyrir sitt leyti við ákvörðun heildarfjárhæðar endurmatsins í sveitarfélögunum tveimur. Hins vegar hafi kærandi ítrekað vakið athygli ÞÍ á því að umtalsverður hluti vatnsréttindanna sé innan þjóðlendna og að kærandi fari ekki með eignarhald þeirra réttinda. Fleiri en kærandi verði því að koma að matinu og tjá sig um ákvörðun þess svo það geti talist unnið og ákveðið með lögmætum hætti. Telur kærandi að framkvæmd ÞÍ við endurmatið eigi sér ekki lagastoð. Telur kærandi að svo virðist sem ÞÍ hafi tekið öll vatnsréttindi vegna Kárahnjúkavirkjunar og skipt þeim upp til hægðarauka á milli sveitarfélaganna tveggja í hlutföllum sem væru u.þ.b. 75% hjá Fljótsdalshéraði og 24% hjá Fljótsdalshreppi án þess að sú skipting sé rökstudd eða skýrð sérstaklega. Vatnsréttindi innan Fljótsdalshéraðs hafi í heild sinni verið skráð undir nýrri lóð sem stofnuð hafi verið út frá jörð í eigu skráðra landeigenda Laugavalla en ekki kæranda. Í því felist að vatnsréttindi í eigu kæranda séu skráð í eigu þriðja aðila. Séu vatnsréttindi skráð undir lóð sem þau eru hvorki hluti af né tengd þeim með nokkrum hætti. Í tilviki Fljótsdalshrepps séu öll vatnsréttindi vegna Kárahnjúkavirkjunar (innan og utan þjóðlendna) flutt einhliða af hálfu ÞÍ frá viðkomandi jörðum á lóð Landsvirkjunar í Valþjófsstað.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2001 beri að skrá fasteignir, hluta þeirra og einstök mannvirki sem „eindir“ í fasteignaskrá. Í (f) og (g) lið 2. mgr. 3. gr. segi að hlunnindi og önnur réttindi tengd fasteignum skuli skrá sem sérstakar eindir fasteigna. Því beri að skrá vatnsréttindi sem og önnur réttindi tengd fasteignum sem „eind“ í fasteignaskrá fyrir hverri jörð sem réttindi tengjast, óháð eignarhaldi umræddra réttinda. Sen dæmi um slíka skráningu megi nefna skráningu og mat jarðhitaréttinda sem séu réttindi nátengd vatnsréttindum. Bendir kærandi á að fyrir landi jarðanna Voga og Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi sé að finna jarðhitaréttindi sem hafi verið skráð og metin. Sams konar skráningu sé að finna í landskrá fasteigna yfir veiðiréttindi og önnur réttindi sem fasteignum fylgja. Telur kærandi þannig að sú framkvæmd endurmats sem ÞÍ hefur beitt sé hvorki lögum samkvæm né í samræmi við þær venjur sem þekktar eru við skráningu sambærilegra réttinda.

Þá byggir kærandi á því að sú ákvörðun að skrá og endurmeta vatnsréttindi sem tilheyra þjóðlendu sem hluta af annarri fasteign sé ólögmæt. Bendir kærandi á að samkvæmt 2. gr. laga um þjóðlendur nr. 58/1998 sé íslenska ríkið eigandi lands og hvers konar landréttinda og hlunninda í þjóðlendum sem ekki eru háð einkaeignarrétti. Samkvæmt ákvæðinu fari íslenska ríkið með öll réttindi innan þjóðlendna sem ekki eru í eigu annarra. Með samningum við íslenska ríkið hafi kærandi fengið heimild til nýtingar á vatnsréttindum í þágu Kárahnjúkavirkjunar og hafi þegar greitt fyrir þau afnot. Kærandi sé hins vegar ekki eigandi umræddra réttinda og geti ekki öðlast eignarrétt að þeim samkvæmt lögum nr. 58/1998. Áréttar kærandi að framkvæmd endurmats vatnsréttinda vegna Kárahnjúkavirkjunar hafi verið háttað með þeim hætti að matsfjárhæð hafi verið skipt í þar til greindum hlutföllum milli Fljótsdalshéraðs og Fljótsdalshrepps, án tillits til þess hvort vatnsréttindi hafi verið hluti af tiltekinni jörð eða þjóðlendu. Sá hluti vatnsréttinda á Kárahnjúkasvæðinu sem liggi innan þjóðlendu sé umtalsverður, eða alls 40,29%. Nánar tiltekið séu vatnsréttindi innan þjóðlendu 32,55% þeirra vatnsréttinda sem eru innan Fljótsdalshéraðs. Vatnsréttindi innan þjóðlendu séu 63,29% þeirra vatnsréttinda sem eru innan Fljótsdalshrepps. Ekki hafi verið tekið tillit til þessa hlutfalls við endurmat vatnsréttinda eða skiptingu matsfjárhæðar, en þessi aðgreining geti haft verulega þýðingu. Telur kærandi að framangreind framkvæmd við endurmatið hafi verið ólögmæt og vísar til þess að vatnsréttindi í eigu íslenska ríkisins séu skráð og metin sem hluti af jörð í eigu þriðja aðila (Laugavalla) og hins vegar kæranda. Líkt og fram komi í 2. gr. þjóðlendulaga nr. 58/1998 sé það íslenska ríkið sem er eigandi réttinda og hlunninda innan þjóðlendu. Ekki verði séð að ÞÍ geti einhliða tekið slík réttindi í eigu ríkisins og flutt til í Landskrá fasteigna. Þá vísar kærandi til þess að skipting matsfjárhæða taki ekki mið af skiptingu réttinda innan þjóðlendu annars vegar og annarra vatnsréttinda hins vegar. Í 7. mgr. 3. gr. þjóðlendulaga sé að finna undanþágu vegna slíkra réttinda sem feli í sér að óheimilt sé að leggja skatt eða önnur gjöld á réttindi innan þjóðlendu. Með því að sameina mat á vatnsréttindum sem tilheyra þjóðlendu annars vegar og öðrum jörðum hins vegar og endurmeta sameiginlega séu réttindi innan þjóðlendu gerð að gjaldstofni fasteignaskatts. Fáist sú framkvæmd ekki staðist samkvæmt þjóðlendulögum. Þá vísar kærandi til þess að íslenska ríkinu hafi ekki verið gefinn kostur á að taka afstöðu til ákvörðunar ÞÍ um að skrá og endurmeta vatnsréttindi í eigu þess líkt og kveðið sé á um í lögum um skráningu og mat fasteigna sem og ákvæðum stjórnsýslulaga. Eigi því ákvörðun ÞÍ sér ekki lagastoð.

 

Kærandi vísar til þess að ákvörðun ÞÍ um endurmat vatnsréttinda sé í ósamræmi við ákvæði laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001. Geri kærandi athugasemdir við málsmeðferð ÞÍ. Hafi stofnunin tilkynnt um frummat réttinda og endurmat sömu réttinda þann 28. desember 2015. Verði ekki séð að sú framkvæmd samræmist ákvæðum V. kafla laga nr. 6/2001 sem fjallar um fasteignamat og framkvæmd þess. Samkvæmt 30. gr. laganna skuli ÞÍ hlutast til um að allar nýjar eða breyttar eignir skuli metnar frummati innan tveggja mánaða frá því að upplýsingar bárust stofnuninni. Samkvæmt 31. gr. geti aðili sem eigi verulegra hagsmuna að gæta krafist nýs úrskurðar um matið. Slík krafa um endurmat skuli vera skrifleg og rökstudd. Í a-lið 32. gr. komi svo fram að ÞÍ skuli endurmeta skráð matsverð allra fasteigna 31. maí ár hvert. Í 2. mgr. 31. gr. komi fram að ÞÍ geti að eigin frumkvæði endurmetið einstakar eignir í því skyni að tryggja samræmt mat hliðstæðra eigna. Ekki verði séð að umrætt ákvæði eigi við þar sem frummat og endurmat sem tilkynnt er um þann sama dag sé samhljóða. Því sé ljóst að ákvörðun ÞÍ um að gefa út endurmat einliða uppfylli ekki það skilyrði ákvæðisins að það sé gert til að tryggja samræmt mat hliðstæðra eigna. Telur kærandi ljóst að sú framkvæmd eða málsmeðferð sem var viðhöfð við endurmatið sé ekki í samræmi við V. kafla laga nr. 6/2001. ÞÍ hafi borið að tilkynna kæranda um frummat eignar og í framhaldinu hafi kærandi átt rétt á því að óska eftir endurmati. Sé kærandi í raun sviptur þeim rétti samkvæmt lögunum. Endurmatið hafi fyrst átt að fara fram 31. maí 2016, sbr. a-liður 32. gr. laga nr. 6/2001. Þess í stað hafi ÞÍ gefið út frummat og endurmat vatnsréttinda sama dag. Verði ekki séð að sú málsmeðferð við endurmatið eigi sér lagastoð. Sé um verulega annmarka að ræða á formhlið málsins sem brjóti gegn ákvæðum laga nr. 6/2001 sem og lögmætis- og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Þá byggir kærandi á því að sú framkvæmd sem viðhöfð er við endurmat fari gegn markmiðum laga nr. 6/2001 og geti skapað hættu á ósamræmi milli Landskrár fasteigna og þinglýsinga. Í því sambandi vísar kærandi til laga nr. 83/2008 um breytingu á lögum nr. 6/2001. Sú lagabreyting hafi m.a. falið í sér að tryggja hafi átt samræmi á milli fasteignaskrár og þinglýsinga. Í 1. gr. laga nr. 83/2008 sé sérstaklega kveðið á um að fasteignaskrá skuli vera grundvöllur þinglýsingabókar fasteigna, mats fasteigna og húsaskrár ÞÍ og sé þannig úr garði gerð að hún nýtist sem stoðgagn í landupplýsingakerfum. Saga breytinga á skráningu fasteignar skuli varðveitt í fasteignaskrá. Sé skráning matshluta vatnsréttinda ekki skráð undir hverri og einni jörð sé ljóst að ósamræmi verði milli þinglýsinga og fasteignaskrár og yrði slík framkvæmd því ekki í samræmi við tilgang þeirra lagabreytinga sem lögum nr. 83/2008 hafi verið ætlað að ná fram. Í 1. gr. laga nr. 6/2001 komi fram að ÞÍ fari með yfirstjórn fasteignaskráningar og að í fasteignaskrá skuli skrá allar fasteignir í landinu. Fasteignaskrá sé grundvöllur þinglýsingabókar fasteigna, mats fasteigna og húsaskrár ÞÍ. Í 4. gr. laganna segi að skráning skv. 1. gr. á fasteignum skv. 3. gr. skuli fela í sér nýjustu upplýsingar sem tiltækar séu á hverjum tíma og varði fasteignina auk nauðsynlegra greinitalna hverrar fasteignar. Í 1. mgr. 5. gr. laganna segi að upplýsingar skv. 4. gr. skuli skráðar og skráningu þeirra breytt þegar landstærðir breytast, notkun lands breytist, s.s. við gerð lóðarsamnings eða úthlutun lóðar, en annars á byggingartíma mannvirkis, þegar mannvirki er tekið í notkun og loks þegar mannvirki er breytt eða eytt. Í 2. mgr. 2. gr. segi m.a. að upplýsingar skuli einnig skráðar við eignaskipti eða breytingu á notkun eignar svo og umráðum eignar, sbr. 22. gr. Byggir kærandi á því að við yfirtöku á hinum umræddum vatnsréttindum hafi yfirlýsingum þess efnis verið þinglýst á allar viðkomandi jarðir vegna þeirra réttinda sem voru yfirtekin. Í samræmi við ákvæði laga um skráningu og mat fasteigna telji kærandi rétt að skráning á eignarhaldi vatnsréttindanna komi fram undir fasteignamati viðkomandi jarðar. Að mati kæranda skorti skýran lagagrundvöll fyrir því að hin umræddu réttindi séu flutt brott af viðkomandi jörðum, þar sem réttindin sannanlega eru, og skráð á tvær einstakar lóðir sem réttindin séu ekki hluti af. Með því fyrirkomulagi skapist ósamræmi milli skráningar eignarheimilda í veðbækur annars vegar og skráningar í fasteignamati hins vegar, sem fari gegn þeim markmiðum sem lögunum er ætlað að ná. Slíkt fyrirkomulag sé til þess fallið að draga verulega úr samræmi, öryggi og réttarvernd í viðskiptum með viðkomandi fasteignir þar sem réttindi hafa verið framseld. Vísar kærandi til tveggja dóma þar sem upplýsingar um ráðstöfun vatnsréttinda höfðu hvorki ratað í fasteignaskrá né þinglýsingarbækur.

Þá bendir kærandi á að með vísan til 2. mgr. 5. gr. laga nr. 6/2001 skuli upplýsingar skráðar við eignaskipti eða breytingu á notkun eignar svo og umráðum eignar, en kærandi hafi eignast að hluta hin umræddu vatnsréttindi með samningi dags. 13. desember 2005. Áður en umrædd vatnsréttindi voru yfirtekin af kæranda hafi þau verið hluti af fasteignamati umræddra jarða. Sú breyting ein að kærandi hafi eignast eða fengið til umráða réttindi geti ekki sjálfkrafa leitt til þess að heimilt sé að skrá öll réttindin í einu lagi á eina lóð. Gæta verði jafnræðis og samræmis við skráningu samskonar réttinda og skuli þau skráð með sama hætti, enda sé lagaáskilnaður um slíka framkvæmd, m.a. í lögum nr. 6/2001. Í 22. gr. laganna segi að skráður eigandi fasteignar sé sá sem hafi þinglýsta eignarheimild hverju sinni. Sé fasteign ekki skráð í þinglýsingarhluta fasteignaskrár sé fyrrverandi eigandi ábyrgur fyrir tilkynningu til ÞÍ um breytingar á eignayfirráðum yfir skráðri eign sinni. Kærandi hafi látið þinglýsa eignarheimild sinni yfir vatnsréttindum á hverja jörð sem réttindin tilheyra í samræmi við ákvæði laganna. Sú ákvörðun ÞÍ að skrá réttindin með þeim hætti sem nú hefur verið gert sé því ekki að óskiljanleg heldur einnig ólögmæt og til þess fallin að valda ósamræmi og mögulega skertri réttarvernd þeirra sem kunni að eiga viðskipti með umræddar jarðir/lóðir í framtíðinni. Að mati kæranda séu umrædd réttindi áfram hluti af jarðeignunum þó að kærandi hafi eignast hluta af vatnsréttindum viðkomandi jarða eða fengið umráð þeirra. Hafi heimildum kæranda verið þinglýst með sjálfstæðum yfirlýsingum og komi þær fram í veðmálabókum sýslumanns og á veðbókarvottorðum jarðanna. Áréttar kærandi að með samningi aðila um yfirtöku vatnsréttinda hafi ekki fylgt eignaréttur að landi heldur eingöngu vatnsréttindin sjálf. Með vatnsréttindum fylgi ekki heldur veiðiréttur sem sé órjúfanlegur hluti vatnsréttinda í ám og vötnum og óheimilt sé að skilja frá jörðum. Sé rétt að hafa þetta í huga þó að um slíkan rétt hafi að takmörkuðu leyti verið að ræða á Kárahnjúkasvæðinu, hvað sem síðar verður. Sé það sérkennileg hugsun að tengja ekki vatnsréttindi lengur við viðkomandi jarðir þar sem veiðiréttur í vatnsfallinu haldist ótvírætt áfram hjá jörðinni sjálfri. Verði að gæta samræmis þar sem vatnsréttindi hafi áður verið hluti af umræddum jörðum og verði svo í sambærilegum tilvikum áfram víða annars staðar á landinu. Flutningur vatnsréttindanna af viðkomandi jörðum og skráning þeirra í heild sem hluta af ótengdum lóðum sé því ólögmæt.

Kærandi vekur athygli á öðrum samningum sem gerðir hafi verið um vatnsréttindi sem séu frábrugðnir samningum vegna Kárahnjúkavirkjunar og geti leitt til þess að ósamræmi verði í stjórnsýsluframkvæmd. Vísar kærandi til samninga sem fyrirtækið hefur gert um leigu á vatnsréttindum vegna virkjana í neðri hluta Þjórsár. Þar séu vatnsréttindi annars vegar í eigu íslenska ríkisins á grundvelli samninga en hins vegar í eigu einstakra landeigenda. Í þeim tilvikum hafi kærandi gert leigusamninga til 65 ára við viðkomandi landeigendur. Sé kærandi ekki eigandi vatnsréttinda heldur leigutaki. Sams konar samningar hafi verið gerðir af hálfu kæranda við eigendur jarða við Hólmsá um leigu vatnsréttinda til tiltekins tíma, ef af virkjun verður þar. Í slíkum tilvikum séu vatnsréttindin áfram hluti viðkomandi jarða og endurgjald greitt til jarðeiganda fyrir afnotin. Við þær aðstæður teljist vatnsréttindi áfram til viðkomandi jarðeignar. Verði vart séð að unnt sé að aðskilja slík réttindi frá viðkomandi jörðum og færa yfir á önnur lönd eða aðrar eignir eins og gert sé í þessu máli. Ef ákvörðun ÞÍ standi óhögguð sé ljóst að umtalsvert ósamræmi verði í skráningu vatnsréttinda á landinu. Þá orki það tvímælis að færa réttindi kæranda í Fljótsdalshéraði af þeim jörðum sem þau tilheyra og á lóð í eigu þriðja aðila. Sama gildi um réttindi innan þjóðlendna sem eru í eigu íslenska ríkisins. Því fari ákvörðun ÞÍ gegn lögum um skráningu og mat fasteigna. Varðandi varakröfu sína vísar kærandi til sömu sjónarmiða og varðandi aðalkröfu.

Í athugasemdum kæranda frá 23. júní 2017 kemur fram að kærandi taki undir það með ÞÍ að ágreiningurinn snúist fyrst og fremst um það hvort rétt hafi verið staðið að framkvæmd um skráningu og mat vatnsréttinda. Við slíkt mat verði ekki eingöngu horft til þessa máls heldur einnig annarra sambærilegra mála þar sem vatnsréttindi eru nýtt í þágu vatnsaflsvirkjana, t.d. þar sem landeigandi leigir frá sér vatnsréttindi. Telur kærandi ljóst að í þeim tilvikum þar sem landeigandi leigir frá sér vatnsréttindi verði réttindi skráð fyrir viðkomandi jörð en ekki einhliða færð af ÞÍ yfir á aðra lóð eða lönd í eigu þriðja aðila. Mikil hætta sé á misræmi í skráningu og brýnt að gæta samræmis í allri framkvæmd frá upphafi.

Kærandi vísar til þess að uppskipting vatnsréttinda til hægðarauka milli Fljótsdalshéraðs og Fljótsdalshrepps eigi sér enga stoð enda snúist ágreiningsefnið um að ekki hafi verið tekið tillit til staðsetningar eða uppruna réttinda við skráningu þeirra. Séu réttindin flutt frá landfræðilegri staðsetningu á lóð sem þau hafi engin landfræðileg tengsl við. Engin sundurliðun eða flokkun á réttindum eftir jörðum hafi fylgt landflutningum eða tilfærslum ÞÍ. Hafi ÞÍ til hægðarauka gert einfalda hlutfallaskiptingu réttinda og tilfærslu í heild, í stað þess að leggja í þá vinnu að skrá einstök réttindi fyrir þeim jörðum sem þau voru landfræðilega og náttúrulegur hluti af, tekið tillit til uppruna og staðsetningar óháð eigendaskiptum af réttindum. Þá mótmælir kærandi fullyrðingum ÞÍ um að ekki sé unnt að skrá vatnsréttindi sem skilin hafa verið frá jörðum sem matshluta eða sérstakar eindir í fasteignaskrá skv. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2001, undir viðkomandi jörð. Séu fjölmörg dæmi um að hlunnindi og önnur réttindi séu skráð með þeim hætti, óháð eignarhaldi. Þá er því mótmælt að vatnsréttindi eða önnur réttindi, líkt og veiðiréttindi, sem skilin hafa verið frá jörðum hafi ekki tengsl við umræddar jarðir. Þvert á móti séu slík réttindi með bein og órjúfanleg tengsl við viðkomandi jarðir, enda fyrir viðkomandi jörðum þrátt fyrir að eignarhald hafi færst frá landeiganda. Fullyrðing þessi sé auk þess í ósamræmi við framkvæmd ÞÍ þar sem vatnsréttindi séu flutt frá viðkomandi jörð á lóð sem þau hafi engin tengsl við. Í dómi Hæstaréttar nr. 22/2015 komi fram að vatnsréttindi sem skilin hafi verið frá jörðum skuli ekki farið með sem sjálfstæða fasteign, sbr. 16. gr. vatnalaga. Því sé ljóst að framkvæmd ÞÍ eigi sér ekki stoð í dómi Hæstaréttar. Þá mæli öll rök með því að vatnsréttindi fyrir einstökum jörðum séu skráð inn á viðkomandi jörð þó eigandinn sé annar, eins og þinglýstar heimildir kæranda geri ráð fyrir. Þá vísar kærandi til þess að í dómi Hæstaréttar nr. 22/2015 sé ekki kveðið á um hvernig staðið skuli að framkvæmd við skráningu eða mat vatnsréttinda, heldur eingöngu að slík réttindi skuli skráð og metin. Hafi dómurinn því ekki fordæmisgildi hvað þetta mál varðar. Líti Hæstiréttur ekki svo á að skrá eigi vatnsréttindi sem sjálfstæða fasteign þótt land fylgi ekki. Að sama skapi yrði ekki litið svo á að skylda til skráningar aðskilinna vatnsréttinda í fasteignaskrá yrði ekki leidd af stöðu þeirra sem sjálfstæðrar fasteignar í skilningi laga nr. 6/2001.

Kærandi tekur undir með ÞÍ að forsendur séu fyrir hendi til að skrá umrædd vatnsréttindi sem eind fasteignar sem sé í eigu annars eiganda en viðkomandi lands, líkt og gert sé um leigusamninga o.fl. Kærandi geti hins vegar ekki tekið undir að lagalegur áskilnaður sé fyrir hendi um að réttindi, hvort sem er vatnsréttindi, jarðhitaréttindi, veiðiréttindi o.fl., verði að færa og skrá með annarri lóð og að forsenda slíkrar skráningar sé að slík réttindi hafi lóðarréttindi. Samkvæmt tilvitnuðum dómi Hæstaréttar komi skýrt fram að sá áskilnaður eða sú forsenda sem ÞÍ gefur sér fyrir framkvæmd skráningar um að vatnsréttindi sem aðskilin hafa verið frá jörðum hafi lóðaréttindi eigi sér ekki lagastoð.

Kærandi mótmælir því sem fram kemur í umsögn ÞÍ um að fyrirkomulag og framkvæmd við skráningu feli ekki sér hættu á ósamræmi við skráningu eignarheimilda í þinglýsingarbókum annars vegar og fasteignaskrám hins vegar. Bendir kærandi á Hæstaréttardóm nr. 22/2015 þar sem vísað sé til þess að þinglýstar heimildir um sölu á vatnsréttindum hafi ekki skilað sér inn í opinberar skrár og veðbækur, þrátt fyrir lagalegan áskilnað um að slíkt eigi að framkvæma. Í þessu máli hafi ÞÍ stofnað vatnsréttindi á lóð sem ekki er skráð eign kæranda og vísi til þess að kæranda hafi farist fyrir að skrá eignarhald sitt. Ómöguleiki hafi staðið í vegi fyrir því að unnt hafi verið að stofna og skrá umrædda lóð þar sem aðrir eigendur séu skráðir fyrir henni en eignarnámið beindist að. Sé það ástæða þess að kæranda hafi ekki verið unnt að þinglýsa heimildum. Þrátt fyrir það hafi ÞÍ ákveðið að færa öll vatnsréttindi inn á umrædda lóð sem kærandi hafi ekki skráðar heimildir yfir. Gerir kærandi athugasemdir við afstöðu og framkvæmd ÞÍ og telur eðlilegra að stofnunin hefði sinnt rannsóknarskyldu og kynnt sér málavexti áður en ákvörðun var tekin. Bendir kærandi á að eftir að ákvörðun ÞÍ lá fyrir hafi kærandi óskað eftir endurskoðun en ekki hafi verið á það fallist. Greinir kærandi frá því að fyrirtækið fái enn greiðslu og innheimtuseðla um fasteignagjöld vegna virkjana vegna ósamræmis í skráningu. Þá mótmælir kærandi fullyrðingum ÞÍ varðandi það að núverandi skráningarform sé það nákvæmasta og öruggasta og vísar til fyrri umfjöllunar varðandi hættu á ósamræmi í skráningu. Bendir kærandi á að ekki komi fram nein rök af hálfu ÞÍ með hvaða hætti samræmi verði tryggt milli fasteignabóka sýslumanns og fasteignaskrár.

 

IV.      Umsögn og ákvörðun Þjóðskrár Íslands

Í ákvörðun ÞÍ kemur fram að á grundvelli dóms Hæstaréttar í máli nr. 22/2015 frá 8. október 2015 hafi vatnsréttindi kæranda í Fljótsdalshreppi og á Fljótsdalshéraði verið skráð í fasteignaskrá í samræmi við 2. og 3. gr. laga nr. 6/2001. Vegna skráningar vatnsréttindanna á Fljótsdalshéraði hafi í þessum tilgangi verið stofnuð lóð úr landi Laugavalla og beri hún landnúmerið 223696. Vatnsréttindi séu skráð sem vatnsorkuréttindi með fastanúmerið 235-7931. Í ljósi þess að ákvörðun um eignarnám landsins hafi ekki verið þinglýst muni eigendur þeirrar jarðar sem lóðin er tekin úr (eigendur Laugavalla) verða skráðir sem eigendur fasteignarinnar og tilheyrandi réttinda í fasteignaskrá. Kærandi sé skráður sem gjaldandi vegna vatnsorkuréttindanna í álagningarskrá sveitarfélaganna. Hvað varðar skráningu og mat vatnsréttinda í Fljótsdalshreppi hafi þau verið skráð sem vatnsorkuréttindi á fastanúmerið 231-8082 á lóðinni Valþjófsstaður, lóð A2216731, sem er í eigu kæranda. Þá séu meðfylgjandi matsvottorð fasteignanna.

Í umsögn ÞÍ kemur fram stofnunin fari með yfirstjórn fasteignaskráningar samkvæmt 1. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001. Samkvæmt 2. gr. laganna beri ÞÍ að meta hverja fasteign til verðs eftir því sem næst verður komist á hverjum tíma  og samkvæmt 4. gr. skuli fasteignaskráning fela í sér nýjustu upplýsingar hverju sinni. Samkvæmt 21. gr. geti ÞÍ hvenær sem stofnunin telur þörf á látið endurskoða upplýsingar sem liggja fyrir um einstakar fasteignir.

Samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 22/2015 frá 8. október 2015 beri að skrá vatnsréttindi sem skilin hafa verið frá landareignum í fasteignaskrá. Ágreiningur kæruefnis varði því fyrst og fremst hvort vatnsréttindi kæranda vegna Kárahnjúkavirkjunar hafi verið skráð með réttum hætti í fasteignaskrá. Samkvæmt dómi Hæstaréttar hafi því verið slegið föstu að framkvæmd skráningar og mats fari eftir lögum nr. 6/2001 þegar komi að vatnsréttindum, hvort sem þau tilheyri jörðum eða hafi verið skilin frá þeim. Hafi skráningin verið með ýmsu móti, ýmist þannig að réttindi hafi hvorki verið skráð né metin, þau hafi eingöngu verið skráð eða bæði skráð og metin. Fatsmótuð stjórnsýsluframkvæmd hafi því ekki verið til staðar samkvæmt niðurstöðum dómsins.

Hvað varðar þá málsástæðu kæranda að um endurmat hafi verið að ræða getur ÞÍ þess að tilkynningar ÞÍ hafi verið annars vegar um frummat vatnsréttindanna skv. 1. mgr. 30. gr. laga nr. 6/2001 og hins vegar endurmat á skráðu matsverði réttindanna fyrir árið 2016 skv. 1. mgr. 32. gr. a sömu laga. Hafi sú tilhögun verið í samræmi við ákvæði laga nr. 6/2001 þar sem skýrt sé kveðið á um það í 4. ml. 1. mgr. 32. gr. að þær matsgerðir sem framkvæmdar eru á tímabilinu júní til desember ár hvert skuli bæði taka til skráðs matsverðs (frummats) og fyrirhugaðs matsverðs (endurmats). Hafi þetta verið staðfest með úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 15/2016. Ákvörðun ÞÍ hafi verið um endurmat skráðs matsverðs skv. 1. mgr. 32. gr. a sem sæti réttilega kæru til nefndarinnar að hennar mati. Ekki hafi hins vegar verið gerðar athugasemdir matsfjárhæðir endurmatsins heldur hafi kæran snúið að skiptingu matsfjárhæðar endurmats sem og að framkvæmd þess. Hafi ágreiningur málsins fyrst og fremst snúist um hvort vatnsréttindi kæranda hafi verið skráð með réttum hætti í fasteignaskrá og að kröfu um slíkt bæri að beina til ÞÍ, sbr. 21. gr. laganna. Tekur ÞÍ undir að kæruefnið varði ekki matið sem slíkt enda sé ekki ágreiningur um matsgrunn eða fasteignamatið sem slíkt. Því sé hafnað fullyrðingum kæranda þess efnis að um sé að ræða annmarka á málsmeðferð. Þá fellst ÞÍ ekki á fullyrðingar kæranda um að ÞÍ hafi tekið öll vatnsréttindi Kárahnjúkavirkjunar og skipt þeim upp til hægðarauka á milli Fljótsdalshéraðs og Fljótsdalshrepps án þess að skiptingin hafi verið rökstudd. Hafi skiptingin verið gerð með hliðsjón af uppruna réttindanna og staðsetning þeirra verið í samræmi við landfræðilega skiptingu. Hvað varðar þá kröfu kæranda að skylt sé að skrá vatnsréttindin sem sérstaka eind í fasteignaskráningu þeirra jarða sem réttindin stafa frá sé þess að geta að vatnsréttindin hafi verið skilin frá umræddum jörðum og hafi því ekki þau tengsl við jarðir sem vísað er til í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2001. Af forsendum dóms Hæstaréttar í máli nr. 22/2015 og 4. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 406/1978, telur ÞÍ ljóst að skrá skuli og meta sérstaklega vatnsréttindi sem ekki fylgja ákveðinni fasteign.

Hvað varðar skráningu og mat vatnsréttinda sem tilheyra þjóðlendu liggi fyrir að skráning ÞÍ í fasteignaskrá vegna vatnsorkuréttinda í Fljótsdalshreppi hafi tekið mið af því að á sama hátt færi með vatnsréttindi innan og utan þjóðlendna og þar með hvort réttindin hafi verið skilin frá landeign eða ekki. Ekki sé um að ræða neinar sérreglur sem þjóðlendulög feli í sér varðandi skráningu og mat fasteigna og því skuli fara eftir þeim almennu reglum sem gildi við skráningu og mat eigna. Varðandi þá málsástæðu að skýran lagagrundvöll skorti fyrir því að vatnsréttindin hafi verið aðskilin frá viðkomandi jörð vísar ÞÍ til dóms Hæstaréttar frá 14. maí 2009 í máli nr. 562/2008, sbr. einnig dómur í máli nr. 22/2015. Í forsendum fyrri dómsins hafi efni 1. mgr. 16. gr. vatnalaga nr. 15/1923 verið rakið fyrir þá breytingu sem gerð var á ákvæðinu með lögum nr. 132/2011. Þar komi fram að löggjafinn hafi ekki litið svo á að vatnsréttindi sem væru látin af hendi án þess að land fylgdi væru sjálfstæð eign. Þannig yrði skylda til skráningar aðskilinna vatnsréttinda í fasteignaskrá ekki leidd af stöðu þeirra sem sjálfstæðrar fasteignar í skilningi laga nr. 6/2001. Þá komi fram í forsendum dómsins að með hinni sérstöku reglu 1. mgr. 16. gr. vatnalaga hafi verið ákveðið að vatnsréttindi sem skilin væru frá landeign skyldu engu að síður lúta sömu reglum og fasteignir í stað þess að fara eftir reglum sem gilda um óbein eignarréttindi í fasteign annarra. Í máli nr. 22/2015 hafi verið lagt til grundvallar að það væri enn vilji löggjafans að vatnsréttindi sem skilin hefðu verið frá landeignum skyldi skrá í fasteignaskrá. Því hafi Hæstiréttur í samræmi við fyrirmæli 1. ml. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 6/2001 fallist á að skrá skyldi vatnsréttindi kæranda í Jökulsá á Dal í fasteignaskrá. Á grundvelli dómsins hafi ÞÍ tekið ákvörðun um að skrá og meta vatnsréttindi kæranda í Fljótsdalshreppi til fasteignamats.

ÞÍ vísar til þess að á grundvelli dómanna hafi borið að leggja til grundvallar að fara eigi með umrædd vatnsorkuréttindi með sama hætti og eftir sömu reglum og gildi um fasteignir. Samkvæmt því sé það mat ÞÍ að ekki sé hægt að fallast á það með kæranda að skráning á eignarhaldi vatnsorkuréttindanna eigi að koma fram sem undireining þeirra jarða sem vatnsréttindin tilheyrðu áður. Vatnsréttindin hafi verið framseld kæranda til eignar og séu ekki lengur hluti af þeim jörðum sem þau tilheyrðu áður og tengist ekki lengur þeirri nýtingu eða starfsemi sem fram fari á viðkomandi landeignum. Umrædd vatnsréttindi séu nú nýtt til umfangsmikillar og verðmætrar raforkuframleiðslu. Vatnsréttindi hafi þó náttúruleg tengsl við þær jarðir sem þau fylgdu. Því megi segja að skráning á þeim forsendum geti komið til greina rétt eins og á einstökum eindum fasteigna sem séu í eigi annars en viðkomandi lands, sbr. lóðarleigusamningar. Þó sé það mat ÞÍ að skráning og nýting vatnsréttinda hvíli á þeirri forsendu að þau hafi lóðarréttindi. Vatnsréttindin séu m.ö.o. einungis arðbær þar sem virkjunin sjálf er, sbr. 4. mgr. 5. gr. reglugerðar um fasteignaskráningu og fasteignamat. Slíkri fasteign fylgi hinn raunverulegi réttur til að nýta tiltekin vatnsréttindi. Því hafi það verið mat ÞÍ að skráning á þeim grunni hafi verið rétti kosturinn í stöðunni.

Það er mat ÞÍ að með fyrrgreindu fyrirkomulagi skapist ekki hætta á ósamræmi milli skráningar og eignarheimilda í þinglýsingabókum annars vegar fasteignaskrám hins vegar. Fullt samræmi sé þar á milli ef rétt sé staðið að skráningu upplýsinga um eignarhald og nýtingarétt vatnsréttinda í þinglýsingabókum sem kærandi sem eigandi samkvæmt óþinglýstri eignarnámsgerð hljót að bera ábyrgð á að sé ger. Með núverandi fyrirkomulagi fasteignaskráningar sé eigendum aðskilinna fasteignaréttinda ómögulegt að veðsetja réttindi sín á fasteign séu þeir ekki þinglýstir eigendur. Sama staða sé uppi í þessu máli þar sem kæranda sé ekki mögulegt að setja að veði eða ráðstafa vatnsréttindum á þeim jörðum þaðan sem þau eiga uppruna sinn, þar sem kærandi sé ekki þinglýstur eigandi þeirra eigna. Með núverandi fyrirkomulagi gæti kærandi hins vegar gert slíkar ráðstafanir þar sem vatnsréttindin séu skráð á lóð í eigu kæranda. Þá rekur ÞÍ þá vinnu sem hófst árið 2000 við samræmingu fasteignabóka sýslumanns við fasteignaskrá ÞÍ. Tekur ÞÍ m.a. fram að með því að skrá kæranda sem eiganda vatnsréttinda á þeim jörðum þaðan sem þau eiga uppruna sinn í fasteignaskrá væri í raun verið að skrá tvenns konar eigendur mismunandi réttinda að sömu fasteign, þvert á fyrr greinda skráningaraðila. Þá væri ekki að finna sérgreint veðandlag fyrir þau réttindi í fasteignabókum sýslumanna fyrir þessi sérstöku vatnsréttindi. Með því væri búið að skapa misræmi á milli eigendaskráningar fasteignaskrár annars vegar og þinglýsingabóka sýslumanns hins vegar.

 

V.        Niðurstaða ráðuneytisins

Til að byrja með telur ráðuneytið rétt að víkja stuttlega að kærufresti, en samkvæmt 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal kæra borin fram innan þriggja mánaða frá því aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar. Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. skal kæru þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að áskvörðun var tilkynnt aðila. Fyrir liggur að hin kærða ákvörðun var tekin þann 28. desember 2015 en kæran barst ráðuneytinu þann 23. desember 2016, sem er innan ársfrests 2. mgr. 28. gr. Í hinni kærðu ákvörðun var ekki að finna leiðbeiningar um kæruheimild, auk þess sem kæran var fyrst til meðferðar hjá Yfirfasteignamatsnefnd en var vísað frá nefndinni með úrskurði þann 30. nóvember 2016. Í því ljósi er það mat ráðuneytisins að afsakanlegt verði að telja að kæran hafi ekki borist fyrr og verður hún því tekin til meðferðar.

Þá telur ráðuneytið rétt að afmarka kæruefnið nánar, en samkvæmt kæru er aðalkrafa kæranda sú að ákvörðun ÞÍ um endurmat vatnsréttinda og annarra réttinda sem nýtt eru vegna Kárahnjúkavirkjunar verði felld úr gildi. Varakrafa kæranda er sú að sá hluti ákvörðunar ÞÍ sem lýtur að endurmati og framkvæmd endurmats vatnsréttinda sem nýtt eru vegna Kárahnjúkavirkjunar verði felld úr gildi. Með úrskurði yfirfasteignamatsnefndar þann 30. nóvember 2016 var vísað frá nefndinni kæru Landsvirkjunar vegna mats vatnsréttinda og annarra réttinda sem nýtt eru vegna Kárahnjúkavirkjunar. Í forsendum úrskurðarins kemur m.a. fram að ágreiningur málsins varði fyrst og fremst það hvort vatnsréttindi kæranda hafi verið skráð með réttum hætti í fasteignaskrá. Væri ekki séð að ágreiningur um tilhögun og framkvæmd skráningar í fasteignaskrá félli undir ákvæði 1. mgr. 32. gr. a laga nr. 6/2001 enda varðaði slíkt ekki endurmat matsverðs í skilningi ákvæðisins. Af framangreindu og með vísan til fyrirliggjandi gagna telur ráðuneytið þannig ljóst að afmarka beri umfjöllun ráðuneytisins við þann þátt málsins sem lýtur að því hvort vatnsréttindi kæranda hafi verið skráð með réttum hætti í fasteignaskrá og þá ákvörðun ÞÍ frá 28. desember 2015 sem lýtur að þeim þætti málsins. Sé þeim þætti málsins réttilega beint að ráðuneytinu á grundvelli hinnar almennu kæruheimildar 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Líkt og fram kemur í umsögn ÞÍ fer stofnunin með yfirstjórn fasteignaskráningar samkvæmt 1. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001. Samkvæmt 2. gr. laganna beri ÞÍ að meta til verðs eftir því sem næst verður komist á hverjum tíma. Samkvæmt 4. gr. laganna skal fasteignaskráning fela í sér nýjustu upplýsingar hverju sinni og samkvæmt 21. gr. getur ÞÍ, hvenær sem stofnunin telur þörf á, látið endurskoða upplýsingar sem liggja fyrir um einstakar fasteignir. Þá liggur fyrir að samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 8. október 2015 í máli nr. 22/2015 skal skrá vatnsréttindi sem hafa verið skilin frá landeignum í fasteignaskrá. Í dóminum er því slegið föstu að framkvæmd skráningar og mats fari eftir lögum um skráningu og mat fasteigna þegar kemur að vatnsréttindum, hvort sem þau tilheyra jörðum eða hafa verið frá þeim skilin. Um aðdraganda hinnar kærðu ákvörðun, samskipta kæranda og ÞÍ sem og málsástæðna kæranda vísast til fyrri umfjöllunar.

Ráðuneytið tekur undir það með ÞÍ að ekki sé tilefni til að gera athugasemd við skiptingu vatnsréttinda vegna Kárahnjúkavirkjunar enda hafi skiptingin verið gerð með hliðsjón af uppruna réttindanna og hafi staðsetning þeirra verið í samræmi við landfræðilega skiptingu réttindanna. Þá getur ráðuneytið ekki fallist á það með kæranda að skylt hafi verið að skrá vatnsréttindin sem sérstaka eind í fasteignaskráningu þeirra jarða sem réttindin stafa frá. Er þá til þess að líta að vatnsréttindin hafa verið skilin frá umræddum jörðum og hafa því ekki lengur þau tengsl við þær jarðir sem kveðið er á um í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2001. Telur ráðuneytið ljóst að af Hæstaréttardómi í máli nr. 22/2015, sbr. og einnig 4. mgr. 5. gr. reglugerðar um fasteignaskráningu og fasteignamat nr. 406/1978, verði þannig ekki annað ráðið en að skrá skuli og meta sérstaklega vatnsréttindi sem ekki fylgja ákveðinni fasteign. Hafi skráning réttindanna verið í samræmi við framangreint. Þá telur ráðuneytið einnig að fallast beri á það með ÞÍ að á sama hátt fari með vatnsréttindi innan og utan þjóðlendna, þ.e. að líta beri til þess hvort réttindin hafi verið skilin frá landeign eða ekki. Sé ekki að finna í þjóðlendulögum neinar sérreglur varðandi skráningu og mat fasteigna og því skuli fara eftir hinum almennu reglum sem gilda um skráningu og mat eigna, sbr. ákvæði laga nr. 6/2001.

Hvað varðar þá málsástæðu kæranda að lagagrundvöll skorti fyrir því að umrædd vatnsréttindi hafi verið skilin frá viðkomandi jörðum tekur ráðuneytið undir þau sjónarmið sem fram koma í umsögn ÞÍ varðandi skráningu vatnsréttinda í fasteignaskrá, sbr. tilvísun ÞÍ til Hæstaréttardóms í máli 562/2008 frá 14. maí 2009, sbr. og einnig dóm Hæstaréttar í máli nr. 22/2015. Í seinni dóminum hafi þannig verið lagt til grundvallar að það væri vilji löggjafans að vatnsréttindi sem hefðu verið skilin frá landeignum skyldu skráð í fasteignaskrá og því skyldi skrá vatnsréttindi kæranda í Jökulsá á Dal í skránna. Hafi ÞÍ verið rétt og skylt á grundvelli dóms Hæstaréttar að fara með umrædd vatnsorkuréttindi á sama hátt og eftir sömu reglum og gilda um skráningu og mat fasteigna. Er það mat ráðuneytisins að af framangreindu leiði að ekki sé hægt að fallast á það með kæranda að skráning á eignarhaldi vatnsorkuréttindanna eigi að koma fram sem undireining þeirra jarða sem vatnsréttindin tilheyrðu áður en þau voru skilin frá þeim. Er þannig til þess að líta að vatnsréttindin hafa verið framseld kæranda til eignar og eru ekki lengur hluti af hinum tilgreindu jörðum sem þau tilheyrðu áður og tengjast því ekki lengur þeirri nýtingu eða starfsemi sem fram fer á viðkomandi jörðum. Þrátt fyrir að ljóst megi vera að vatnsréttindin sem um ræðir hafi náttúruleg tengsl við þær jarðir sem þau fylgdu upphaflega beri engu að síður að fallast á það með ÞÍ að skráning og nýting vatnsréttinda hvíli á þeirri forsendu að þau hafi lóðarréttindi. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 406/1978 séu vatnsréttindi þannig einungis arðbær þar sem virkjunin sjálf er og slíkri fasteign fylgi hinn raunverulegi réttur til að nýta vatnsréttindin. Því beri að fallast á það með ÞÍ að rétt hafi verið að skrá réttindin á þeim grundvelli. Þá beri að fallast á það með ÞÍ að ekki verði séð að með fyrr greindu fyrirkomulagi skapist hætta milli skráningar og eignarheimilda í þinglýsingarbókum annars vegar og skráningar í fasteignaskrám hins vegar. Unnt sé að tryggja fullt samræmi þar á milli ef rétt er að staðið við skráningu upplýsinga um eignarhald og nýtingarrétt vatnsréttinda. Þá tekur ráðuneytið undir þau sjónarmið sem fram koma í umsögn ÞÍ þess efnis að ef kærandi væri skráður í fasteignaskrá sem eigandi vatnsréttinda á þeim jörðum þar sem vatnsréttindin eiga uppruna sinn væri í raun verið að skrá tvenna eigendur mismunandi réttinda að sömu fasteign, og væri slíkt ekki í samræmi við þá framkvæmd sem tíðkast og rétt verður talin með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið. Af því leiði að fallast beri á það með ÞÍ að núverandi skráningarfyrirkomulag vatnsréttinda kæranda við Kárahnjúka sé rétta leiðin miðað við stöðu réttindanna.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það mat ráðuneytisins að fallast beri á það með ÞÍ að rétt hafi verið að skrá vatnsréttindi kæranda á Kárahnjúkasvæðinu með þeim hætti sem gert var í ákvörðun ÞÍ þann 28. desember 2015, og hafi skráningin verið í samræmi við fyrirmæli laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001. Þykir því rétt að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu og er beðist velvirðingar á því.

 

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 28. desember 2015 um skráningu vatnsréttinda vegna Kárahnjúkavirkjunar.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta