Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Skeiða- og Gnúpverjahreppur - Boðun varamanna, hæfi, fundarstjórn oddvita, undirritun fundargerðar

Jóhannes Eggertsson
4. október 2005
FEL05080033

Sléttabóli

801 Selfossi

Hinn 4. október 2005 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

Með bréfi, dags. 6. september 2005, kærðu Þrándur Ingvarsson, Ólafur Leifsson og Gunnar Örn

Marteinsson, fulltrúar A-lista í hreppsnefnd í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, tilteknar ákvarðanir oddvita

Skeiða- og Gnúpverjahrepps á hreppsnefndarfundi 6. september 2005, vegna máls Matthildar

Vilhjálmsdóttur hreppsnefndarmanns. Jafnframt barst ráðuneytinu erindi frá Jóhannesi Eggertssyni,

varamanni í hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps, dags. 6. september 2005, varðandi þá ákvörðun

oddvita að boða hann ekki á fund hreppsnefndar þann sama dag. Framangreindir fjórir aðal- og

varamenn í hreppsnefndinni eru hér eftir nefndir kærendur.

Framangreind erindi voru send til umsagnar oddvita Skeiða- og Gnúpverjahrepps, hér eftir nefndur

kærði, með símbréfi, dags. 23. september 2005, og barst umsögn kærða ráðuneytinu með bréfi, dags.

28. september 2005.

Þar sem efni framangreindra tveggja erinda til ráðuneytisins varða sömu atvik verða erindin tekin til

úrskurðar í einu lagi.

I. Málavextir

 

Mál þetta á sér þann aðdraganda að á fundi hreppsnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps þann 9. ágúst

2005 var samþykkt beiðni Matthildar Vilhjálmsdóttur um lausn frá störfum í hreppsnefndinni og

nefndum á hennar vegum frá og með 7. september 2005 til loka kjörtímabilsins.

Með bréfi, dags. 22. ágúst sl., óskað Þrándur Ingvarsson hreppsnefndarmaður eftir áliti ráðuneytisins

um hvort hreppsnefndarmaður gæti fallið frá lausnarbeiðni sinni eftir að hún hafi verið samþykkt af

hreppsnefnd. Í áliti félagsmálaráðuneytisins frá 30. ágúst sl. kemur fram að ráðuneytið telji „að heimilt

sé að bera fram á hreppsnefndarfundi tillögu þess efnis að samþykkt hreppsnefndar um að veita

Matthildi lausn frá og með 7. september 2005 verði felld úr gildi, enda fari sú afgreiðsla fram fyrir

þann dag“.

Reglulegur fundur hreppsnefndarinnar var haldinn þann 6. september 2005. Á þeim fundi var meðal

annars til umfjöllunar erindi Matthildar Vilhjálmsdóttur þar sem hún óskaði eftir að fá að draga til baka

lausnarbeiðni sína sem afgreidd hafði verið á hreppsnefndarfundi 9. ágúst 2005. Í fundargerð fundarins

þann 6. september sl. er eftirfarandi bókað um 8. lið á dagskránni:

„Erindi frá Matthildi E. Vilhjálmsdóttur dags. 11. ágúst þar sem hún óskar að fá að draga til baka

lausnarbeiðni sína sbr. erindi á hreppsnefndarfundi 9. ágúst. Fyrir lá afrit af svari

félagsmálaráðuneytis dags. 30. ágúst, við fyrirspurn Þrándar Ingvarssonar varðandi þetta mál. Í

svarinu kemur fram að ráðuneytið telur; ,,heimilt að bera fram á hreppsnefndarfundi tillögu þess

efnis að samþykkt hreppsnefndar um að veita Matthildi lausn frá og með 7. september 2005 verði

felld úr gildi, enda fari sú afgreiðsla fram fyrir þann dag.”

 

Matthildur vék af fundi við umfjöllun og afgreiðslu málsins vegna vanhæfis og tók Halla Sigríður

Bjarnadóttir sæti hennar á fundinum.

Þrándur lagði fram eftirfarandi tillögu fyrir sína hönd, Gunnars og Ólafs. ,,Við krefjumst þess að

afgreiðslu málsins verði frestað þar til meirihluti hreppsnefndar hefur kallað inn fyrsta varamann

L lista samkvæmt 22. grein um stjórn og fundarsköp Skeiða- og Gnúpverjahrepps.”

 

Oddviti bar upp tillöguna sem var felld með þremur atkvæðum L lista gegn þremur atkvæðum A

lista.

Oddviti lagði til að samþykkt hreppsnefndar frá 9. ágúst um lausn Matthildar verði felld úr gildi

að því er varðar setu í hreppsnefnd. Matthildi er veitt lausn frá setu í hreppsráði og nefndum á

vegum hreppsins.

Fulltrúar A lista viku af fundi.

Oddviti bar upp tillöguna og var hún samþykkt samhljóða.“

II. Málsástæður og lagarök kærenda

 

Í bréfi þriggja kærenda til ráðuneytisins er gerð sú krafa að afgreiðsla 8. liðar á fundi hreppsnefndar

Skeiða- og Gnúpverjahrepps þann 6. september 2005 verði úrskurðuð ólögmæt og að lagt verði fyrir

oddvita hreppsnefndar að boða til hreppsnefndarfundar þar sem beiðnin verði tekin fyrir að nýju.

Jafnframt verði lagt fyrir oddvita að boða 1. varamann L-lista til fundarins til afgreiðslu beiðninnar.

Vitna kærendur til forsögu málsins og bréfs félagsmálaráðuneytisins frá 30. ágúst sl. Í kjölfar viðbragða

ráðuneytisins hafi atvik málsins orðið þau að oddviti hreppsnefndar lýsti yfir að Matthildur

Vilhjálmsdóttir væri vanhæf til afgreiðslu beiðni hennar um að draga til baka lausnarbeiðni sína frá

störfum á vegum nefnda og ráða fyrir sveitarfélagið. Hafi oddviti byggt ákvörðunina á framangreindu

svarbréfi félagsmálaráðuneytisins. Í framhaldi af því hafi oddviti kallað inn 2. varamann L-lista á

umræddan hreppsnefndarfund þar sem fjallað var um áframhaldandi setu Matthildar í hreppsnefnd.

Þetta hafi oddviti framkvæmt einhliða og án atkvæðagreiðslu í hreppsnefnd. Fyrsti varamaður L-lista

hafi ekki verið boðaður til fundar þar sem oddviti taldi hann vanhæfan. Enginn úrskurður hafi verið

lagður fram því til rökstuðnings. Krafist hafi verið skýringa oddvita á afgreiðslu hans og beðið um að

svör hans yrðu bókuð en oddviti hafi ekki orðið við því.

Kærendur telja að fundur hreppsnefndar hafi verið ólögmætur þar sem brotið hafi verið gegn skýrum

ákvæðum samþykktar um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins um að boða 1. varamann til fundar skv.

22. gr., sbr. 39. gr. Jafnframt vísa þeir til 24. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, til rökstuðnings.

Ákvörðun oddvita um að lýsa 1. varamann vanhæfan sé án lagaheimildar og byggi í raun á ólögmætum

sjónarmiðum. Í 19. gr. sveitarstjórnarlaga er mælt fyrir um vanhæfisástæður sveitarstjórnarmanna. Ekki

verði séð að nokkrar þær ástæður séu fyrir hendi.

Á fundinum báru kærendur fram tillögu þar sem þess var krafist að afgreiðslu málsins yrði frestað þar

til meiri hluti hreppsnefndar hefði kallað inn 1. varamann L-lista. Var tillagan felld með þremur

atkvæðum L-lista.

Þá lýstu kærendur því yfir að þeir teldu hreppsnefnd óstarfhæfa samkvæmt samþykkt um stjórn og

fundarsköp Skeiða- og Gnúpverjahrepps og véku því næst af fundi. Telja þeir að þær samþykktir sem

gerðar voru í framhaldinu á fundinum séu ólögmætar.

Kærendur taka fram að þeir muni ekki undirrita fundargerð hreppsnefndarfundar frá 6. september sl.

þar sem þeir telji fundinn ólögmætan í kjölfar innkomu 2. varamanns L-lista á fundinn. Hvað þetta mál

varði sé fundargerð ekki rétt rituð.

Síðan segir svo í kærunni: „Athygli vekur að oddviti lýsti því yfir í viðtali við vefmiðilinn sudurland.net

að honum væri kunnugt um að 1. varamaður hafi myndað samstarfsamkomulag við minnihlutann.

Virðist því ákvörðun hans öðrum þræði byggja á þeim sjónarmiðum, án þess að þau styðjist við lög.“

 

Að lokum benda kærendur á að á heimasíðu sveitarfélagsins sé fundargerð hreppsnefndarfundarins frá

6. september sl. birt með nöfnum fulltrúa A-lista í hreppsnefnd þrátt fyrir að þeir hafi ekki undirritað

hana.

Í erindi kærandans Jóhannesar Eggertssonar til ráðuneytisins eru einnig gerðar athugasemdir við

ákvarðanir oddvita Skeiða- og Gnúpverjahrepps varðandi framangreint mál. Jóhannes er 1. varamaður

L-lista en var ekki boðaður á fund hreppsnefndar 6. september sl. til að taka sæti Matthildar

Vilhjálmsdóttur þegar erindi hennar yrði afgreitt. Í erindi Jóhannesar segir að oddviti hafi ákveðið að

„dæma“ hann sem 1. varamann vanhæfan upp á sitt eindæmi án þess að boða hann á fundinn eða að

bera það undir aðra sveitarstjórnarmenn. Þess í stað hafi hann boðað 2. varamann L-lista til

atkvæðagreiðslu um 8. lið fundarins. Fær kærandi ekki séð að nokkur vanhæfissjónarmið séu fyrir

hendi hvað hann varðar. Vísar hann þar til 19. gr. sveitarstjórnarlaga sem mælir fyrir um að

sveitarstjórnarmanni beri að víkja sæti við meðferð máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn

hans svo sérstaklega að almennt megi ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af. Slíku sé

ekki fyrir að fara í hans tilviki. Þá vísar hann til 24. gr. sveitarstjórnarlaga og 22. gr. samþykktar um

stjórn og fundarsköp Skeiða- og Gnúpverjahrepps um með hvaða hætti varamenn taki sæti fyrir

aðalmenn, en þar sé ótvírætt mælt fyrir um að varamenn taki sæti í þeirri röð sem þeir eru kosnir.

Að lokum segir svo í erindi Jóhannesar:

„Ef ákvörðun oddvita er lögleg, er því velt upp við hvaða lagabókstaf hefur oddviti stuðst? En það

treysti oddviti sér ekki að tjá fundinum en vitnaði í fullt af ónafngreindum löglærðum mönnum út í

bæ. En að öðru leyti studdist hann við álit frá félagsmálaráðuneytinu, dagsett 30. ágúst 2005. Er

þetta ekki síst íhugunarefni þar sem djúpur ágreiningur er í sveitarstjórn Skeiða- og

Gnúpverjahrepps og þar sem ég fylgi ekki oddvita að málum. Þykir mér það íhugunarefni ef hægt

er að lýsa þá vanhæfa sem ekki fylgja ráðamönnum þegar þeim hentar. Er heimilt að fara með

fundargerð óupplesna og óundirritaða af fundarstað? Þess skal getið að ég sat fundinn sem

áheyrandi.“

 

III. Málsástæður og lagarök kærða

 

Umsögn kærða barst ráðuneytinu 28. september sl. með bréfi dagsettu sama dag. Í umsögninni kemur

fram að oddviti hafi talið 1. varamann L-lista (Jóhannes Eggertsson) vanhæfan til að fjalla um málið á

grundvelli sömu ákvæða og Matthildur Vilhjálmsdóttir var álitin vanhæf, þar sem það hafi varðað hans

hagsmuni svo sérstaklega að almennt mætti ætla að viljaafstaða hans mótaðist þar af, sbr. 19. gr.

sveitarstjórnarlaga. Ljóst hafi verið að afgreiðsla hreppsnefndar á umræddu erindi Matthildar myndi

leiða í ljós hvort hún sæti áfram í hreppsnefnd eða hvort Jóhannes tæki sæti í hreppsnefndinni.

Með ákvörðun sinni um að kalla til 2. varamann hafi kærði talið sig vera að vinna á grundvelli 19. gr.

samþykktar um stjórn og fundarsköp Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Fulltrúar A-listans hafi mótmælti

ákvörðun kærða og lagt til við hreppsnefnd að málinu yrði frestað þar til 1. varamaður hefði verið

kallaður til fundar, sbr. heimild í 28. gr. sveitarstjórnarlaga. Hreppsnefnd hafi hins vegar staðfest

ákvörðun kærða með afgreiðslu tillögunnar.

Jafnframt kemur fram í umsögn kærða að í kærunni sé því haldið fram að A-listinn hefði óskað eftir að

fá svör kærða á fundinum 6. september sl. bókuð. Af því tilefni vísar kærði til ákvæða 31. gr.

sveitarstjórnarlaga og sams konar ákvæðis í samþykkt um stjórn og fundarsköp Skeiða- og

Gnúpverjahrepps. Eins og fundargerðin beri með sér hafi engar bókanir verið lagðar fram um þetta efni.

Hvað varðar þá fullyrðingu kærenda að hreppsnefnd hafi verið óstarfhæf er því mótmælt af hálfu kærða

að hreppsnefndarfundur geti orðið óstarfhæfur ef einstakir fulltrúar kjósi að yfirgefa hann. Er í því

sambandi vísað í 27. gr. sveitarstjórnarlaga og 22. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Skeiða- og

Gnúpverjahrepps. Umræddur hreppsnefndarfundur hafi verið löglega boðaður og enginn

hreppsnefndarfulltrúi hafði boðað forföll enda allir aðalmenn mættir til fundar. Enginn hafi gert

athugasemdir við fundarboð eða dagskrá. Eftir að fulltrúar A-listans gengu af fundi var meiri hluti

hreppsnefndar á fundinum áfram og lauk honum. Fundurinn hafi því verið lögmætur, sbr. 20. gr.

sveitarstjórnarlaga og 18. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

Í erindi kærenda til ráðuneytisins sé borin fram gagnrýni á skráningu fundargerðar án þess að getið sé

um efnisleg atriði, en einungis sagt að fundargerð sé ,,ekki rétt rituð“. Tekur kærði fram að engar

athugasemdir hafi komið fram við frágang fundargerðar. Slíkar athugasemdir hafi fulltrúar A-lista

vissulega getað sett fram við frágang fundargerðar ef þeir hefðu verið til staðar á fundinum eins og

þeim bar skylda til skv. 27. gr. sveitarstjórnarlaga. Í þessu samhengi er einnig vísað til ákvæða 23. gr.

sveitarstjórnarlaga og 32. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

Hvað varðar spurningu í erindi Jóhannesar Eggertssonar um hvort heimilt sé að fara með fundargerð

óupplesna og óundirritaða af fundarstað tekur kærði fram að fundargerðir hreppsnefndar séu jafnan

skráðar í tölvu og svo hafi verið á umræddum fundi. Venja hafi skapast um að lesa upp það sem bókað

er jafnóðum og niðurstaða liggur fyrir í einstökum málum. Þetta hafi verið gert á fundinum 6.

september sl. Venjan sé sú að fundarritari afriti fundargerð í lok fundar á disk og fari yfir á skrifstofu

hreppsins til að prenta út eintak til undirritunar. Í þetta sinn hafi hins vegar fáir verið eftir á fundi. Allar

bókanir hafi verið lesnar jafnóðum og einungis hafi verið eftir að prenta og undirrita fundargerðina.

Þeir fjórir hreppsnefndarfulltrúar sem sátu fundinn til enda hafi verið samþykkir því að fylgja

sveitarstjóra yfir á hreppsskrifstofuna þar sem gengið var frá fundargerðinni.

Frágangur fundargerðar hafi því fyllilega verið í samræmi við lög og reglur af hálfu þeirra sem sátu

fundinn til enda. Því til stuðnings er vísað til ákvæða 23. gr. sveitarstjórnarlaga og 32. gr. samþykktar

um stjórn og fundarsköp Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

Að lokum er í umsögn kærða tekið fram að af gefnu tilefni þyki brýnt að ráðuneytið úrskurði eða gefi

eftir atvikum álit á hæfi Jóhannesar Eggertssonar til þátttöku í afgreiðslu erindis Matthildar

Vilhjálmsdóttur, dags. 11. ágúst sl., þar sem hún óskar að fá að draga til baka lausnarbeiðni sína.

IV. Niðurstaða ráðuneytisins

 

Félagsmálaráðuneytið fer með málefni sveitarfélaga á grundvelli sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, og

skal hafa eftirlit með því að sveitarfélög gegni skyldum sínum samkvæmt þeim lögum og öðrum

löglegum fyrirmælum. Einnig skal ráðuneytið úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kunna að koma við

framkvæmd sveitarstjórnarmálefna, meðal annars um hvort sveitarstjórnir haldi fundi sína í samræmi

við lög. Ráðuneytið lítur svo á að í báðum fyrrgreindum erindum felist kæra í skilningi 103. gr.

sveitarstjórnarlaga og eru kærurnar komnar fram innan kærufrests sem er þrír mánuðir, sbr. 27. gr.

stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Hæfi 1. varamanns L-lista til að fjalla um 8. lið á dagskrá fundar hreppsnefndar 6. september

2005

 

Samkvæmt gögnum málsins er meginefni ágreinings aðila hvort Jóhannes Eggertsson, 1. varamaður Llista

í hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps, hafi verið vanhæfur til að sitja fund hreppsnefndar

þann 6. september sl. við afgreiðslu 8. liðar á dagskrá fundarins, þ.e. varðandi erindi Matthildar

Vilhjálmsdóttur um að samþykkt hreppsnefndar frá 9. ágúst sl. um lausn Matthildar yrði felld úr gildi

að því er varðaði setu í hreppsnefnd.

Í 1. og 2. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, er að finna eftirfarandi ákvæði varðandi hæfi

sveitarstjórnarmanna:

„Sveitarstjórnarmanni ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða

nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að

einhverju leyti þar af.

Sveitarstjórnarmenn eru ekki vanhæfir þegar verið er að velja fulltrúa til trúnaðarstarfa á vegum

sveitarstjórnar eða ákveða þóknun fyrir slík störf.“

 

Við mat á hugsanlegu vanhæfi er litið til aðildar sveitarstjórnarmannsins að því tiltekna máli sem er til

umfjöllunar. Meðal annars er almennt litið svo á að sveitarstjórnarmaður sem á erindi sjálfur fyrir

sveitarstjórn sé alltaf vanhæfur til að fjalla um málið í sveitarstjórninni. Einnig er litið til þess hvort

málið varði sveitarstjórnarmanninn svo sérstaklega að almennt megi ætla að viljaafstaða hans mótist að

einhverju leyti þar af. Þannig er það ekki talið ráða úrslitum við mat á hæfi hvort viðkomandi

sveitarstjórnarmaður hafi í raun haft hag eða ekki af ákvörðun sveitarstjórnar, heldur hvort ætla megi að

viljaafstaða hans mótist af tengslum hans við viðkomandi mál. Hins vegar er ljóst af ákvæðinu að séu

hagsmunir minni háttar er viðkomandi ekki vanhæfur.

Markmiðið með vanhæfisreglu 1. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga er að stuðla að málefnalegri

stjórnsýslu og að almenningur og málsaðilar geti treyst því að stjórnvald leysi úr málum á hlutlægan

hátt. Hefur verið litið svo á að virðing fyrir hinum almennu hæfisreglum í stjórnsýslunni sé nauðsynlegt

skilyrði fyrir eðlilegum samskiptum almennings og stjórnvalda og því trausti sem stjórnvöld verða að

njóta.

Ljóst er af gögnum málsins að hagsmunir Jóhannesar Eggertssonar vörðuðu það hvort hann myndi taka

sæti aðalmanns sem óskað hafði lausnar frá störfum í hreppsnefnd en síðar óskað eftir að ákvörðun um

lausn yrði dregin til baka. Þátttaka hans í atkvæðagreiðslu um hvort hreppsnefnd samþykkti að

Matthildur gæti dregið til baka lausnarbeiðni sína myndi því beinlínis varða aðstæður hans og

möguleika til að komast til frekari valda og áhrifa innan hreppsnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

Verður að telja undir þessum kringumstæðum að Jóhannes hafi haft svo sérstakra og verulegra

hagsmuna að gæta varðandi ákvörðun fyrrgreinds erindis Matthildar Vilhjálmsdóttur að hann teljist

vanhæfur til að fjalla um það mál í hreppsnefndinni.

Ákvörðun oddvita um boðun varamanns á fund hreppsnefndar 6. september 2005

 

Í 5. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, er gert ráð fyrir tiltekinni málsmeðferð í sveitarstjórn

þegar fjallað er um hæfi sveitarstjórnarmanns. Segir þar meðal annars:

„Sveitarstjórn sker umræðulaust úr um hvort mál er svo vaxið að einhver sveitarstjórnarmanna sé

vanhæfur. Sveitarstjórnarmaður sem hlut á að máli má taka þátt í atkvæðagreiðslu um hæfi sitt.“

 

Í máli þessu liggur fyrir að oddviti hreppsnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps tók þá ákvörðun fyrir

fund hreppsnefndar þann 6. september sl. að 1. varamaður L-lista, Jóhannes Eggertsson, væri vanhæfur

til að fjalla um erindi Matthildar Vilhjálmsdóttur. Var spurningin um hæfi hans ekki með sérstakri

tillögu lögð fyrir hreppsnefnd til umfjöllunar á þeim fundi. Á fundinum kom hins vegar til afgreiðslu

tillaga frá þremur hreppsnefndarmönnum um að afgreiðslu málsins yrði frestað þar til kallaður hefði

verið inn 1. varamaður L-lista. Var sú tillaga felld.

Ráðuneytið telur að þessi afgreiðsla hreppsnefndar á tillögu þremenninganna eins og hún var orðuð geti

ekki talist ígildi umfjöllunar hreppsnefndar um hæfi Jóhannesar Eggertssonar til afgreiðslu málsins í

samræmi við kröfu 5. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga.

Telur ráðuneytið ástæðu til að gera athugasemd, með vísan til 5. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga, við að

oddviti bar ekki undir hreppsnefnd með formlegum hætti hvort Jóhannes væri vanhæfur til að fjalla um

málið. Einhliða yfirlýsing oddvita um vanhæfi einstakra hreppsnefndarmanna á sér ekki stoð í

sveitarstjórnarlögum, enda er um að ræða sérreglu sem takmarkar úrskurðarvald oddvita um fundarsköp

hreppsnefndar.

Þrátt fyrir þennan ágalla á undirbúningi og meðferð málsins telur ráðuneytið ekki tilefni til að ógilda

ákvörðun hreppsnefndarinnar frá 6. september sl. varðandi erindi Matthildar Vilhjálmsdóttur, einkum

þegar hliðsjón er höfð af afgreiðslu hreppsnefndarinnar á tillögu fulltrúa A-lista undir 8. lið

dagskrárinnar um frestun fundar.

Ályktunarhæfi fundar hreppsnefndar 6. september 2005

 

Kærendur halda því fram að hreppsnefnd hafi orðið óstarfhæf eftir að hreppsnefnd felldi tillögu L-lista

um að 1. varamaður yrði kallaður til vegna vanhæfis Matthildar Vilhjálmsdóttur. Viku þeir því næst af

fundi og telja að samþykktir sem gerðar voru í framhaldinu á fundinum séu ólögmætar.

Ekki er ágreiningur í máli þessu um að löglega hafi verið boðað til fundar hreppsnefndar sem haldinn

var 6. september sl. og voru allir aðalmenn í hreppsnefnd mættir til fundar. Lýtur ágreiningsefni þetta

því að framvindu mála eftir að 8. liður dagskrár var tekinn fyrir.

Í 1. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, er eftirfarandi ákvæði: „Sveitarstjórn getur enga

ályktun gert nema meira en helmingur sveitarstjórnarmanna sé viðstaddur á fundi.“ Sams konar

ákvæði er að finna í 18. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Skeiða- og Gnúpverjahrepps, nr.

807/2002.

Af ákvæðum þessum leiðir að sveitarstjórnarfundur er lögmætur þótt sveitarstjórn sé ekki fullmönnuð á

fundinum ef meiri hluti sveitarstjórnarmanna er viðstaddur. Er þar af leiðandi ekki vafi að mati

ráðuneytisins á því að fundur hreppsnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps var ályktunarhæfur eftir að

þrír hreppsnefndarmenn viku af fundi þann 6. september sl. undir 8. lið dagskrárinnar, enda voru þá

eftir fjórir fulltrúar til að afgreiða málið, þrír aðalmenn og einn varamaður.

Er í þessu sambandi rétt að taka fram að ef sveitarstjórnarmenn eru ekki sáttir við fundarstjórn oddvita

eða ákvarðanir meiri hluta sveitarstjórnar eiga þeir kost á að láta bóka mótmæli og fylgja málinu síðan

eftir með því að óska eftir úrskurði félagsmálaráðuneytisins ef um vafaatriði er að ræða, sbr. 103. gr.

sveitarstjórnarlaga. Brotthvarf af fundi í mótmælaskyni er ekki í samræmi við sveitarstjórnarlög með

hliðsjón af skyldum sveitarstjórnarmanna sem fram koma í 27. gr. sveitarstjórnarlaga, sbr. og 22. gr.

samþykktar um stjórn og fundarsköp Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Má um þá niðurstöðu vitna til álita

félagsmálaráðuneytisins meðal annars frá 5. júlí 1996, 25. nóvember 1996 og 16. ágúst 2000.

Ritun og frágangur fundargerðar

 

Um ritun fundargerða sveitarstjórna er fjallað í 23. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, sbr. einnig 32.

gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

Ekki verður ráðið af gögnum málsins að aðila greini í stórum dráttum á um hvað fram fór á fundi

hreppsnefndarinnar hinn 6. september sl. Virðist þessi þáttur málsins hins vegar snúa að framsetningu,

meðferð og frágangi fundargerðar þess fundar.

Kærendur halda því fram í erindi sínu til ráðuneytisins að fundargerð sé ekki rétt rituð að hluta hvað

varðar 8. lið hennar. Rétt er í því sambandi að taka fram að ráðuneytið er í engri aðstöðu til að kveða

upp úrskurð um hvort bókun í fundargerð sé í samræmi við það sem fram fór á fundinum, enda var

fulltrúi þess ekki viðstaddur fundinn.

Skýrt er í 22. gr. sveitarstjórnarlaga að oddviti skal sjá um að fundargerðir séu skipulega færðar í

gerðabók sveitarstjórnar og að allar ályktanir og samþykktir séu rétt og nákvæmlega bókaðar. Sams

konar ákvæði er að finna í 19. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

Um ritun fundargerða er að öðru leyti fjallað í 23. gr. laganna og 32. gr. samþykktarinnar.

Í 3. mgr. 32. gr. samþykktarinnar er gert ráð fyrir að í lok fundar skuli fundargerð lesin upp og að allir

viðstaddir fundarmenn undirriti hana nema hreppsnefnd ákveði annað. Í 5. mgr. 32. gr. er síðan

sérstaklega tekið fram að hreppsnefndarmaður sem gera vill athugasemd við eitthvert atriði í

fundargerð geti undirritað fundargerðina með fyrirvara um það atriði. Að auki er

sveitarstjórnarmönnum í 31. gr. sveitarstjórnarlaga og 37. gr. samþykktarinnar tryggður réttur til að fá

bókaðar í fundargerð stuttar athugasemdir sínar um afstöðu til þeirra mála sem til umræðu eru.

Fundargerðir hreppsnefndarinnar eiga að vera helsta heimildin um það sem fram fer og um ákvarðanir á

hreppsnefndarfundum. Því er mjög mikilvægt að rétt og nákvæmlega sé fylgt ákvæðum

sveitarstjórnarlaga og samþykktar um stjórn og fundarsköp um ritun og afgreiðslu fundargerða. Er

ábyrgðin með 22. gr. sveitarstjórnarlaga sett á herðar oddvita að ákvæðunum sé fylgt en aðrir

hreppsnefndarmenn bera einnig ábyrgð á því enda er gert ráð fyrir að þeir undirriti að jafnaði

fundargerðirnar í lok fundar.

Með því að ganga af fundi hreppsnefndarinnar 6. september sl. hafa fulltrúar í minni hluta

hreppsnefndar brotið gegn skyldum sínum skv. 27. gr. sveitarstjórnarlaga. Jafnframt eiga þeir ekki

skilyrðislausa kröfu um að tekin sé upp afgreiðsla á fundargerð sem þegar hefur verið afgreidd að þeim

fjarstöddum. Ráðuneytið telur hins vegar að ef vafi kemur upp um hvort afgreiðslur hafi verið

nákvæmlega bókaðar beri oddvita og öðrum hreppsnefndarmönnum að leita leiða til að leysa það mál

og leiðrétta eins og kostur er.

Ljóst er að fulltrúar A-listans í hreppsnefndinni hefðu getað óskað eftir að fá bókaða stutta athugasemd

um afstöðu sína til málsins. Ekki verður hins vegar ráðið af gögnum málsins að slík beiðni hafi verið

sett fram eða að þess háttar beiðni hafi verið hafnað af oddvita.

Jafnframt er rétt í þessu sambandi að ítreka ákvæði 5. mgr. 32. gr. samþykktarinnar um að

hreppsnefndarmanni sé heimilt að undirrita fundargerð með fyrirvara um tiltekin atriði. Er því almennt

gert ráð fyrir skyldu hreppsnefndarmanna til að undirrita fundargerð hreppsnefndarfundar en að þeir

hafi jafnframt heimild til að koma athugasemdum sínum á framfæri með þeim hætti sem greinir í 5.

mgr. 32. gr. samþykktarinnar.

Í umsögn kærða er gerð grein fyrir venju sem myndast hefur um frágang fundargerða hreppsnefndar

Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Telur ráðuneytið að sú venja brjóti ekki í bága við ákvæði 23. gr.

sveitarstjórnarlaga eða 32. gr. samþykktarinnar, enda er í ferlinu gert ráð fyrir að frágangur

fundargerðar sé í samræmi við þau ákvæði.

Hins vegar telur ráðuneytið ástæðu til að gera athugasemd við framkvæmd á birtingu fundargerðar

fundarins frá 6. september sl. á heimasíðu sveitarfélagsins. Má af þeirri útgáfu ráða að fulltrúar Alistans

hafi undirritað fundargerðina en af ljósriti fundargerðarinnar og yfirlýsingum viðkomandi

hreppsnefndarmanna er ljóst að það hafa þeir ekki gert.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Hafnað er kröfu um að félagsmálaráðuneytið úrskurði ólögmæta afgreiðslu 8. dagskrárliðar á fundi

hreppsnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps þann 6. september 2005 og að lagt verði fyrir oddvita að

boða til hreppsnefndarfundar að nýju.

Fyrir hönd ráðherra

Sesselja Árnadóttir (sign.)

Guðrún A Þorsteinsdóttir (sign.)

4. október 2005 - Skeiða- og Gnúpverjahreppur - Boðun varamanna, hæfi, fundarstjórn oddvita, undirritun fundargerðar (PDF)




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta