Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Broddaneshreppur - Ákvörðun um skólaakstur, vanhæfi

Torfi Halldórsson og Unnur Þorgrímsdóttir
6. október 2005
FEL05080029

Broddadalsá

510 Hólmavík

Hinn 6. október 2005 var í félagsmálaráðuneyti kveðinn upp svofelldur

ú r s k u r ð u r

Með erindi, dagsettu 21. ágúst 2005, kærðu Torfi Halldórsson og Unnur Þorgrímsdóttir, hér eftir

nefnd kærendur, þá ákvörðun hreppsnefndar Broddaneshrepps, hér eftir nefnd kærði, sem tekin

var á fundi 18. ágúst 2005, um að semja við Hólmavíkurhrepp um skólaakstur frá Broddadalsá til

Hólmavíkur.

Krafa kærenda er að hin kærða ákvörðun verði lýst ólögmæt.

Með bréfi, dags. 23. ágúst 2005, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Broddaneshrepps um málið.

Umsögnin barst með bréfi, dags. 27. ágúst 2005, og var send kærendum með bréfi, dags. 31.

ágúst 2005. Athugasemdir kærenda bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 4. september 2005.

I. Málavextir.

 

Málavextir koma fram í fundargerðum Broddaneshrepps og öðrum gögnum málsins.

Á fundi hreppsnefndar Broddaneshrepps, þann 31. ágúst 2004, var samþykkt með öllum

atkvæðum að ráða Torfa Halldórsson skólabílstjóra í þrjár ferðir á dag milli Broddadalsá og

Hólmavíkur á 91 kr./km.

Sumarið 2005 leitaði oddviti hreppsnefndar Broddaneshrepps til sveitarstjóra Hólmavíkurhrepps

og fór þess á leit við sveitarstjórann hvort Hólmavíkurhreppur gæti tekið við skólaakstri fyrir

sveitarfélagið. Þann 10. ágúst 2005 gerði sveitarstjórinn tilboð í aksturinn sem var tekið.

Skólaaksturinn var tekinn fyrir á fundi hreppsnefndar Broddaneshrepps 18. ágúst 2005. Þar var

gerð svofelld bókun: „Skólaakstur Broddadalsá – Hólmavík. Komið er tilboð frá sveitarstjóra

Hólmavíkurhrepps um að sjá um akstur fyrir börnin á Broddadalsá sem sækja skóla til

Hólmavíkur. Tilboðið er upp á kr. 58.00 pr. km. Hreppsnefndin samþykkti að taka tilboðinu og

jafnframt að sjá um greiðslu á gæslu fyrir H. þegar þörf er á og fæðið fyrir hann í skólaselinu.

Ákveðið var að bjóða Torfa Halldórssyni að ganga inn í tilboðið á akstrinum ef hann vildi.

Undir bókunina ritaði fullskipuð hreppsnefnd, fimm manns, fjórir aðalmenn og einn varamaður

sem sat fundinn í stað Unnar Þorgrímsdóttur sem vék af fundi.

II. Sjónarmið kærenda.

 

Sjónarmið kærenda koma fram í kæru, dags. 21. ágúst 2005, og í athugasemdum við umsögn

hreppsins, dags. 4. september 2005.

Kærendur benda á að ekki liggi fyrir samþykkt í fundargerðabók Broddaneshrepps um þá

tilhögun sem fram kom á fundi nefndarinnar 18. ágúst 2005 og að ekkert samband hafi verið haft

við foreldra um breytingar sem í vændum væru á fyrirkomulagi skólaakstursins. Benda kærendur

á að á fundi hreppsins 31. ágúst 2004 hafi Torfi Halldórsson verið ráðinn skólabílstjóri á leiðinni

Broddadalsá-Hólmavík, þrjár ferðir á dag, á 91 kr./km, og hafi honum ekki verið sagt upp.

Þá benda kærendur á að við samþykkt tilboðs sveitarstjóra Hólmavíkurhrepps um skólaaksturinn

á fundi hreppsnefndar Broddaneshrepps þann 18. ágúst 2005 hafi hreppsnefndarfulltrúinn

Gunnhildur Halldórsdóttir, systir Torfa Halldórsson, greitt atkvæði á fundinum. Þá hafi Jón

Stefánsson, en hann og Torfi Halldórsson eru systkinasynir, sem einnig eigi sæti í hreppsnefnd,

setið fundinn og greitt atkvæði. Kærendur telji að bæði Gunnhildur og Jón hafi verið vanhæf til

að taka þátt í afgreiðslu málsins.

Í athugasemdum kærenda, dags. 4. september 2005, við umsögn kærða kemur fram að ástæða

þess að ekki sé hægt að samnýta bíla til skólaaksturs sé sú að þau sætti sig ekki við að vekja

börnin kl. 6.15 á morgnana ef þau fari beina leið milli Broddadalsá og Hólmavíkur án viðkomu á

öðrum bæjum. Þá skipti máli að snjómokstur hefjist ekki á Hólmavík fyrr en kl. 7.00, en skólabíll

Hólmavíkurhrepps sé vanbúinn að fara þess leið ef eitthvað er að færð. Kærendur leggja áherslu

á að þær kostnaðartölur sem Hólmavíkurhreppur taki fyrir aksturinn miðist við „eins lélega

þjónustu og hægt er“, sem sé sú að skólabílinn sæki börnin á morgnana og komi með þau heim

seinni part dags. Það sé ekki ásættanlegt að börnin þurfi að vakna kl. 6.15 og komist ekki heim

fyrr en kl. 17.00 á daginn. Kærði taki ekki mið af því hvað sé best fyrir börnin. Sú hugsun að

þau, þ.e. kærendur, séu eingöngu að hugsa um tekjur sínar af akstrinum en ekki velferð barnanna

sæmi ekki oddvita og hreppsnefnd. Meðan fyrirkomulag skólaaksturs hafi verið þrjár ferðir á

dag, 91 kr./km, hafi aldrei komið fram óánægja með það í hreppsnefnd. Hefði verið ætlunin að

breyta þessu hefði verið vænlegra að halda fund um málið í sumar og finna lausn sem allir geti

verið sáttir við.

Þá benda kærendur á að varðandi vistun og gæslu fyrir börn í Hólmavíkurskóla þá geti

hreppsnefnd Broddaneshrepps ekki ráðstafað börnum í slíka gæslu án samráðs við foreldrana.

Þá vísa kærendur því á bug sem rangri staðhæfingu að yngsta barn kærenda hafi oft farið með

bílnum að sækja eldri systkini sín, en þarna fari oddvitinn vísvitandi með ósannindi.

Hvað varðar ráðningu Torfa Halldórssonar sem skólabílstjóra þá hafi hann verið ráðinn 31. ágúst

2004 og ekki tilgreint að ráðningin gilti eingöngu veturinn 2004–2005. Ráðningin sé því í fullu

gildi.

Loks taka kærendur fram að sameiningaviðræður sem nú standi yfir geti ekki snert þetta mál

enda um tvö óskyld mál að ræða. Þá geti oddviti hreppsins ekki borið við fjárskorti

sveitarfélagsins og skorið niður þjónustu í einum málaflokki, þ.e. skólaakstri, en fjárhagsstaða

Broddaneshrepps sé góð og hafi hreppurinn efni á því að veita íbúunum viðeigandi þjónustu.

III. Málsrök kærða.

 

Málsrök kærða koma fram í umsögn Broddaneshrepps um kæruna, dags. 27. ágúst 2005.

Kærði tekur fram að þar sem aðeins tveir nemendur úr Broddaneshreppi hafi átt að fara í 1.–8.

bekk grunnskóla haustið 2004 hafi verið samið við Hólmavíkurhrepp um að þeir nemendur færu

í grunnskólann á Hólmavík, auk systur þeirra sem fór í 9. bekk skólans. Þrátt fyrir vilja

hreppsnefndar hafi ekki tekist að samnýta bíla til skólaaksturs veturinn 2004–2005 og hafi bíllinn

sem flutti nemendurna úr Broddaneshreppi orðið að aka hluta leiðarinnar 5–10 mínútum á eftir

skólabíl sem flutti nemendur úr Hólmavíkurhreppi í sama skóla. Þá tekur kærði fram að veruleg

óánægja hafi verið vegna mikils kostnaðar við skólaaksturinn síðastliðinn vetur og því hafi

aksturinn verið endurskipulagður til að draga úr kostnaði. Hreppsnefndin telji að sér beri að fara

vel með þá fjármuni sem ráðstafað sé til reksturs sveitarfélagsins, þar á meðal til skólaaksturs.

Þegar ljóst hafi verið hversu miklu munaði á raunverulegum kostnaði Broddaneshrepps á akstri

skólabarna á eigin bíl eða þegar börnum var ekið „í verktöku“ hafi oddvitinn leitað eftir því hvort

Hólmavíkurhreppur vildi taka að sér að flytja einnig börn úr Broddaneshreppi með sínum

börnum sömu leið í sama skólann. Hafi hreppsnefnd Hólmavíkurhrepps samþykkt að taka að sér

flutning barnanna fyrir 58 kr./km, en fyrir aksturinn síðastliðinn vetur hafi Broddaneshreppur

orðið að greiða 91 kr./km.

Þá bendir kærði á að nú séu í gangi viðræður um sameiningu sveitarfélaga í Strandasýslu og að

ætla megi að Broddaneshreppur og Hólmavíkurhreppur verði eitt sveitarfélag eftir

sveitarstjórnarkosningar vorið 2006. Hreppsnefnd Broddaneshrepps hafi því talið að sjálfsagt

væri að vinna sameiginlega að flutningi skólabarnanna næsta vetur og þar af leiðandi hafi það

verið samþykkt einróma á fundi hreppsnefndar 18. ágúst 2005 að taka boði Hólmavíkurhrepps

um skólaaksturinn enda væri annað sóun á fjármagni.

Kærði tekur fram að eftir að starfrækslu Broddanesskóla hafi lokið vorið 2004 hafi skólanefnd

Broddanesskóla ekki neitt um málið að segja, enda hefði skólanefndin öll verið vanhæf að mati

kærenda, utan einn maður. Eins og fram hafi komið á síðasta hausti töldu foreldrarnir

nauðsynlegt að börn þeirra væru flutt í skólann á öðrum bíl en börnin í Hólmavíkurhreppi og hafi

hreppsnefndin orðið við því. Vitað sé að kærendur séu á móti því að breyta akstrinum nú enda

verulegir fjármunir í húfi fyrir þau að missa af þeim tekjum sem skólaaksturinn hafi veitt þeim

síðastliðinn vetur. Nú liggi fyrir að kostnaður af akstrinum verði um 1.432.600 kr. ef

Hólmavíkurhreppur annast aksturinn en 3.077.620 kr. að óbreyttu fyrirkomulagi þar sem

kærendur sjái um aksturinn.

Þá bendir kærði á að þegar Torfi Halldórsson hafi verið ráðinn til skólaakstursins haustið 2004

hafi sú ráðning tekið til vetrarins 2004–2005 og telji hreppsnefndin að ráðningu Torfa hafi lokið í

júní 2005. Á hinn bóginn hafi þau mistök verið gerð við bókun samþykktarinnar í

fundargerðabók á sínum tíma að ekki var tekið sérstaklega fram að átt hefði verið við veturinn

2004–2005. Bókun næsta fundar þar á undan, þ.e. 20. júní 2004, taki þó af allan vafa um þetta,

og er vísað til fundargerðar því til sannindamerkis.

Kærði tekur fram að í Hólmavíkurskóla sé rekin vistun og gæsla yngri barna. Því telji kærði ekki

ástæðu til að aka nema tvær ferðir á dag, þ.e. að morgni og eftir að kennslu lýkur á daginn. Þá

segir svo í umsögn kærða að vitað sé að yngsta barnið, sem sótt hafi verið um hádegið

síðastliðinn vetur, hafi oft farið með bílnum þegar systkini þess voru sótt skömmu eftir að barnið

kom heim, en hvíldust ekki heima eins og kærendur, foreldrar þess, telja að nauðsynlegt sé.

Hvað varði vanhæfi bendir kærði á að þó svo að Gunnhildur og Jón yrðu talin vanhæf, þá hafi

það verið þrír hreppsnefndarmenn sem voru samþykkir þeirri tillögu sem til afgreiðslu var um

skólaaksturinn. Rekur kærði ástæður þess að ómögulegt hafi verið að kalla til fleiri varamenn, en

þann sem sat fundinn, þar sem einn þeirra, Torfi Halldórsson, væri augljóslega vanhæfur, einn

hafi ekki viljað starfa sem varamaður þetta kjörtímabil, einn varamaður starfi í Kópavogi og búi

syðra, þótt hann eigi lögheimili í hreppnum, og einn sem kosinn var varamaður sé fluttur úr

hreppnum.

IV. Niðurstaða ráðuneytisins.

A. Reglur laga um grunnskóla, um skólanefnd og samráð við foreldra/foreldraráð.

 

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga um grunnskóla, nr. 66/1995, skal skólanefnd vera í hverju

skólahverfi. Skal skólanefnd sjá um að öll skólaskyld börn í skólahverfinu njóti lögboðinnar

fræðslu og fylgjast með framkvæmd náms og kennslu í skólahverfinu. Fulltrúar kennara,

skólastjóra og foreldra eiga rétt til setu á skólanefndarfundum með málfrelsi og tillögurétt, sbr. 4.

mgr. 13. gr. grunnskólalaga. Skólanefnd starfar ekki lengur í Broddaneshreppi eftir að

grunnskólahaldi var hætt í sveitarfélaginu.

Í grunnskólalögum er mikið lagt upp úr samráði við foreldra. Þannig er starfsmönnum skóla skylt

að efla samstarf skóla og heimila, meðal annars með því að miðla fræðslu um skólamál til

foreldra og veita upplýsingar um starfið í skólanum, sbr. 15. gr. grunnskólalaga. Jafnframt skal

starfa foreldraráð við hvern grunnskóla, sbr. 16. gr. laganna.

B. Réttarreglur um skólaakstur.

 

Um skólaakstur er fjallað í grunnskólalögum, nr. 66/1995. Í 1. mgr. 4. gr. laganna er kveðið á um

að í strjálbýli skuli miðað við heimanakstur nemenda þar sem því verði við komið en ekki

heimavist. Í athugasemdum við greinina í frumvarpi til grunnskólalaga kemur einungis fram að

sveitarfélög kosti og beri ábyrgð á skipulagi skólaaksturs og að mikilvægt sé að nemendum sé

ekki ofgert með löngum akstursleiðum eða löngum tíma í skólabíl.

Engin reglugerð er nú í gildi um skólaakstur, en svo virðist sem sveitarstjórnum hafi um langt

skeið verið talið heimilt að ákveða hvaða fyrirkomulag skólaaksturs hentaði best í hverju

sveitarfélagi. Þar sem lög, þar með talin gildandi grunnskólalög, nr. 66/1995, kveða ekki á um

annað verður ekki séð að hægt sé að skylda sveitarfélög til að haga skólaakstri sínum með

tilteknum hætti. Svigrúm sveitarfélaga hlítir þó ákveðnum takmörkunum með hliðsjón af

hagsmunum barna, einkum þeirra yngstu. Ber skólayfirvöldum að hafa til hliðsjónar meginreglu

barnaréttar um að leitast skuli við að komast að þeirri niðurstöðu sem samrýmist best

hagsmunum barnsins, sbr. einnig ákvæði 3. gr. Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi

barnsins, svo og markmið barnaverndarlaga um að tryggja að börn búi við viðunandi aðstæður.

Við afmörkun inntaks og útfærslu þjónustunnar ber þannig meðal annars að taka mið af

mismunandi þörfum barna, til dæmis eftir aldri og þroska.

Ákvörðun sveitarstjórnar um tilhögun skólaaksturs er stjórnvaldsákvörðun, sbr. 1. gr.

stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Auk ákvæða grunnskólalaga sæta ákvarðanir sveitarstjórnar um

tilhögun skólaaksturs því takmörkunum samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, svo

sem jafnræðisreglu 11. gr. laganna, sem og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar, meðal

annars um málefnaleg sjónarmið við töku ákvarðana.

C. Niðurstaða um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar.

Inngangur.

 

Í stjórnsýslukæru krefjast kærendur þess að ákvörðun hreppsnefndar Broddaneshrepps um

skólaakstur, sem tekin var á fundi þann 18. ágúst 2005, verði úrskurðuð ólögmæt. Um

kæruheimild vísast til 103. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, og er kæran fram komin innan

tilskilins kærufrests skv. 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Um röksemdir kærenda fyrir því að hin kærða ákvörðun um skólaakstur veturinn 2005–2006,

sem tekin var á fundi hreppsnefndar Broddaneshrepps 18. ágúst 2005, sé ólögmæt vísast til kafla

II í úrskurði þessum, en þær eru í stuttu máli þessar: Engin skýr samþykkt liggi fyrir í

fundargerðabók Broddaneshrepps um að Hólmavíkurhreppur taki við skólaakstri fyrir

Broddaneshrepp, samráð hafi skort við foreldra um breytingu á skólaakstri, tveir

hreppsnefndarfulltrúar hafi verið vanhæfir, fyrirkomulag skólaaksturs sem fólst í hinni kærðu

ákvörðun hafi ekki tekið ekki nægilegt mið af hagsmunum barna, heldur hafi sparnaðarsjónarmið

ráðið för, óásættanlegt sé að börnin þurfi að vakna kl. 6.15 að morgni og komi ekki heim fyrr en

kl. 17.00 og hreppsnefndin geti ekki ákveðið að börn fari í gæslu í skóla án samráðs við foreldra.

Loks hafi samningi við Torfa Halldórsson um skólaaksturinn ekki verið sagt upp.

Um athugasemdir Broddaneshrepps vísast til III. kafla í úrskurði þessum, en þær eru í

aðalatriðum eftirfarandi: Nauðsynlegt hafi verið að endurskoða skólaaksturinn til að lækka

kostnað við hann, jafnframt því sem hreppurinn telur sig veita börnunum viðeigandi þjónustu.

Afstaða foreldranna hafi verið skýr, þ.e. vitað var að Torfi og Unnur væru á móti því að breyting

yrði gerð á akstrinum. Þegar Torfi hafi verið ráðinn til að aka börnum sínum í skólann haustið

2004 hafi verið miðað við veturinn 2004–2005 og augljóst að hvorugur aðilinn hefði viljað gera

bindandi samkomulag til margra ára. Þau mistök hafi hins vegar verið gerð við bókun

samþykktarinnar á fundi hreppsnefndar 31. ágúst 2004 að ekki hafi verið tekið sérstaklega fram

að allir hreppsnefndarmenn hefðu verið með veturinn 2004–2005 í huga. Í bókun fundarins á

undan, þ.e. 20. júní 2004, hafi þetta hins vegar komið skýrt fram.

Um samning milli aðila um skólaakstur.

 

Ráðuneytið lítur svo á að samningur milli Torfa Halldórssonar og Broddaneshrepps um

skólaaksturinn hafi falið í sér verktakasamning en ekki vinnusamning Torfa við hreppinn.

Ráðuneytið bendir í því sambandi á að Torfi tók að sér akstur á eigin bifreið gegn föstu

kílómetragjaldi. Ráðuneytið gengur út frá því að ef um vinnusamning milli aðila væri að ræða

lægi slíkur samningur fyrir í málinu og að greitt hafi verið fyrir samkvæmt tímagjaldi. Gerð

verktakasamnings einstaklings við sveitarfélag flokkast ekki undir sveitarstjórnarmálefni og

fjallar ráðuneytið því ekki um hvort samningur kærða við Torfa er enn í gildi, sbr. 1. mgr. 103.

gr. sveitarstjórnarlaga.

Um meint vanhæfi.

 

Kærandi heldur því fram að tveir hreppsnefndarmenn séu það skyldir Torfa Halldórssyni að

varði vanhæfi þeirra til að taka þátt í afgreiðslu málsins.

Um er að ræða hreppsnefndarmennina Gunnhildi Halldórsdóttur, sem er systir Torfa

Halldórssonar, og Jón Stefánsson, en hann og Torfi Halldórsson eru systkinasynir.

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu vék Unnur Þorgrímsdóttir, annar kærenda, af fundi þar

sem hin kærða ákvörðun var tekin og í hennar stað sat fundinn varamaðurinn Steinunn

Hákonardóttir.

Um hæfi sveitarstjórnarmanna segir svo í 1. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga:

Sveitarstjórnarmanni ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann

eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að

einhverju leyti þar af.

Meginmarkmið með reglunni er að stuðla að málefnalegri stjórnsýslu hjá sveitarfélögum og

tryggja réttaröryggi borgaranna. Við túlkun ákvæðisins verður að hafa í huga að tilgangur þess er

að draga úr hættu á að ómálefnaleg sjónarmið hafi áhrif á afgreiðslu mála í sveitarstjórn og að

almenningur og þeir sem hlut eiga að máli geti treyst því að sveitarstjórnarmenn sýni

óhlutdrægni í störfum sínum.

Við mat á því hvort sveitarstjórnarmaður er vanhæfur er litið til þess hversu náið hann tengist

viðkomandi máli og hvort þátttaka hans í afgreiðslu máls geti valdið efasemdum út á við.

Hæfisreglur sveitarstjórnarlaga eru nokkuð vægari en þær reglur sem um það efni gilda skv. II.

kafla stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum, nr.

37/1993, og í athugasemdum með frumvarpinu er varð að sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998,

kemur fram að vegna fámennis í sumum sveitarfélögum á Íslandi sé nauðsynlegt að hæfisreglur á

sveitarstjórnarstigi séu nokkuð vægari en samkvæmt stjórnsýslulögum (Alþt. 1992–1993, Adeild,

bls. 3284 og Alþt. 1997–1998 A-deild, bls. 1973). Í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr.

3521/2002 sem snerist um vanhæfi í fámennu sveitarfélagi segir svo: „Í því ljósi tel ég ekki loku

fyrir það skotið að við beitingu 1. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaganna sé meðal annars heimilt að

líta til þess hvort sveitarfélag sé það fámennt að nauðsyn beri til að gera þar vægari kröfur, t.d. í

tengslum við skýringu á hugtakinu „venslamenn“ í 1. mgr. 19. gr., heldur en ef ákvæði II. kafla

stjórnsýslulaganna hefðu átt við. Ég tek þó fram að þrátt fyrir að í einhverjum tilvikum kunni að

vera heimilt við skýringu á 1. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaganna að líta til þess hvort

viðkomandi sveitarfélag er mjög fámennt verður ávallt að hafa í huga orðalag ákvæðisins og þá

óskráðu meginreglu sem það hvílir á.

Eins og áður er fram komið er einn hreppsnefndarmaður systir aðila máls, annars kærenda, og

annar hreppsnefndarmaður tvímenningur við sama aðila.

Ljóst er að Broddaneshreppur er fámennt sveitarfélag, með 53 íbúa. Framangreind sjónarmið um

vægari hæfiskröfur vegna vensla í fámennu sveitarfélagi geta því átt við um Broddaneshrepp. Á

hinn bóginn ber til þess að líta að sveitarstjórn er ályktunarhæf ef meira en helmingur

sveitarstjórnarmanna er viðstaddur á fundi, sbr. 1. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga. Það þýðir,

hvað Broddaneshrepp varðar, að nægilegt hefði verið að þrír hreppsnefndarmenn, aðalmenn

og/eða varamenn, hefðu setið fundinn þar sem hin kærða ákvörðun var tekin. Ekki verður annað

séð af gögnum málsins en að mögulegt hefði verið að ályktunarhæf hreppsnefnd

Broddaneshrepps sæti fundinn þann 18. ágúst 2005. Með því móti hefði mátt komast hjá vanhæfi

í málinu þótt hreppsnefnd yrði ekki fullskipuð við afgreiðslu málsins.

Með framangreint í huga telur ráðuneytið þá niðurstöðu óhjákvæmilega að Gunnhildur

Halldórsdóttir, systir Torfa Halldórssonar, hafi verið vanhæf til að taka þátt í afgreiðslu

skólaaksturs á fundi hreppsnefndar Broddaneshrepps þann 18. ágúst 2005.

Hvað Jón Stefánsson varðar, tvímenning við Torfa Halldórsson, telur ráðuneytið að þrátt fyrir

fámenni í sveitarfélaginu hafi, eins og áður kom fram, verið unnt að skipa ályktunarhæfa

sveitarstjórn án hans. Verður því ekki séð að sérstök sjónarmið um að fámenni í sveitarfélaginu

eigi að hafa þýðingu við mat á hæfi Jóns Stefánssonar í máli þessu, sbr. álit umboðsmanns

Alþingis í máli nr. 3521/2002. Telst hann því einnig vanhæfur.

Með hliðsjón af framangreindu er niðurstaða ráðuneytisins sú að hreppsnefndarmennirnir

Gunnhildur Halldórsdóttir og Jón Stefánsson hafi verið vanhæf til að taka þátt í afgreiðslu um

skólaakstur á fundi hreppsnefndar 18. ágúst 2005, sbr. 1. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga og álit

umboðsmanns Alþingis í máli nr. 3521/2002, og hefðu því átt að víkja af fundi þegar afgreiðsla

um það málefni átti sér stað á fundinum, sbr. 6. mgr. sömu greinar. Einnig er það niðurstaða

ráðuneytisins að þessi annmarki á málsmeðferð hreppsnefndar leiði til þess að ógilda beri

ákvörðun hreppsnefndar Broddaneshrepps frá 18. ágúst 2005 um fyrirkomulag skólaaksturs í

hreppnum. Hreppsnefndinni ber því að taka málið fyrir á nýjan leik með því að kalla til

varamenn eftir því sem unnt er og sjá þannig til þess að a.m.k. þrír hæfir hreppsnefndarfulltrúar

taki þátt í afgreiðslu umrædds máls, sbr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga.

Um aðrar málsástæður kærenda.

 

Hvað varðar aðrar málsástæður kærenda, en að framan greinir, tekur ráðuneytið fram:

Varðandi þá málsástæðu kærenda að engin samþykkt sé fyrir því í fundargerðabók

Broddaneshrepps að sveitarstjórn Hólmavíkurhrepps tæki við skólaakstrinum fyrir

Broddaneshrepp telur ráðuneytið að efni ákvörðunarinnar, sem tekin var á hreppsnefndarfundi

18. ágúst 2005, komi nægilega skýrt fram í fundargerð, enda er hér um hina kærðu ákvörðun að

ræða sem kærendur nefna „afgreiðslu“ í kæru sinni. Einnig er það mat félagsmálaráðuneytis að

oddvita hafi verið heimilt, sem framkvæmdastjóra sveitarfélags, að kanna hvort unnt væri að

finna ódýrari leið til að aka börnum í skólann, en hér er um nýja akstursleið að ræða, þar sem

kennt var í Broddanesskóla síðastliðinn vetur.

Að öðru leyti tekur ráðuneytið fram að í ljósi þeirra takmörkuðu reglna sem um skólaakstur gilda

verður ekki séð að hið umdeilda fyrirkomulag, með akstri barna úr Broddaneshreppi snemma að

morgni og heim síðdegis, sé byggt á ólögmætu sjónarmiði eða feli í sér ólögmæta mismunun.

Ráðuneytið tekur þrátt fyrir það undir með kærendum að æskilegra hefði verið með hagsmuni

yngsta barnsins í huga að það gæti fengið skólaakstur fyrr á daginn, í stað þess að þurfa að

dveljast í Hólmavíkurskóla þar til síðdegis þegar skóla eldri barnanna ljúki. Eðlilegt er að hafa

samráð um þetta við forelda, enda aðeins ein fjölskylda í sveitarfélaginu sem málið varðar. Á

hinn bóginn telur ráðuneytið að ekki hafi verið sýnt fram á að aðbúnaður í skóladvöl að loknum

skólatíma sé ekki viðunandi. Það er í sjálfu sér málefnalegt og þar með lögmætt sjónarmið að

leita leiða sem fela í sér sparnað fyrir sveitarsjóð meðan veitt er lögbundin þjónusta. Um nánara

inntak þjónustunnar ræður mat hvers sveitarfélags. Ráðuneytinu er ekki heimilt að taka slíkt mat

til endurskoðunar, en ítrekar meginreglu barnaréttar að leitast skuli við að komast að þeirri

niðurstöðu sem best samrýmist hagsmunum barnsins, svo og markmið barnaverndarlaga um að

börnum séu tryggðar viðunandi uppeldisaðstæður, sbr. 2. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun hreppsnefndar Broddaneshrepps frá 18. ágúst 2005 um að semja við Hólmavíkurhrepp

um skólaakstur frá Broddanesá til Hólmavíkur er ógild. Hreppsnefnd ber að taka málið fyrir á ný

til löglegrar meðferðar.

Fyrir hönd ráðherra

Guðjón Bragason (sign.)

Þorgerður Benediktsdóttir (sign.)

6. október 2005 - Broddaneshreppur - Ákvörðun um skólaakstur, vanhæfi (PDF)




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta