Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Húsavíkurkaupstaður - Ný kosning í nefndir þegar nýr meirihluti tekur við í bæjarstjórn

Húsavíkurkaupstaður                                                                                21. nóvember 1996                       96110050

Sigurjón Benediktsson og Stefán Haraldsson                                                                                                      1001

Ketilsbraut 9

641 Húsavík

 

 

           Vísað er til erindis yðar, dagsett 19. nóvember 1996, þar sem í tilefni af myndun nýs meirihluta B- og D-lista er óskað eftir úrskurði ráðuneytisins annars vegar um hvort “nýr meirihluti” geti látið fara fram kosningu að nýju í nefndir á vegum bæjarstjórnar og hins vegar hvort “nýr meirihluti” geti óskað þess að kosnir séu nýir formenn óbreyttra nefnda.

 

           Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 kýs sveitarstjórn menn í nefndir, ráð og stjórnir eftir því sem fyrir er mælt í lögum og samþykkt um stjórn sveitarfélagsins og veitir þeim lausn frá störfum. Þá segir í 3. mgr. sömu greinar að sveitarstjórn kjósi nefndir til að fara með einstaka málaflokka á kjörtímabilinu.

 

           Ráðuneytið telur með hliðsjón af almennum ákvæðum 57. gr. sveitarstjórnarlaga að sveitarstjórn hafi heimild til að afturkalla umboð nefndar eða einstakra nefndarmanna, sem sveitarstjórnin hefur kjörið til trúnaðarstarfa á sínum vegum. Jafnframt skal þess getið að í sumum tilvikum getur sveitarstjórn verið skylt að afturkalla umboð nefnda eða einstakra nefndarmanna ef t.d. nefndin hefur ekki sinnt lögbundnu starfi sínu, sbr. álit félagsmálaráðuneytisins frá 28. september 1988 (um afturköllun hreppsnefndar Súðavíkurhrepps á umboði fulltrúa í hafnarnefnd).

 

           Lögð skal áhersla á að það er sveitarstjórn sem metur hvort ástæða er til að afturkalla umboð nefndar eða einstakra nefndarmanna m.a. þegar um er að ræða nefnd sem kosin er til að sinna verkefnum sem sveitarstjórnin ber ábyrgð á samkvæmt lögum.

 

           Með hliðsjón af framangreindu telur ráðuneytið að “nýr meirihluti” geti á fundi bæjarstjórnar Húsavíkurkaupstaðar ákveðið að afturkalla umboð nefnda eða einstakra nefndarmanna og kjósa í nefndir á nýjan leik.

 

           Hvað varðar kosningu nýrra formanna í óbreyttar nefndir er bent á að í 1. mgr. 54. gr. samþykktar um stjórn Húsavíkurkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 552/1987 segir að viðkomandi nefnd kjósi sér formann, varaformann og ritara, nema lög kveði á um annað. Með hliðsjón af því verður að telja að það sé í verkahring viðkomandi nefndar að ákveða hvort skipt verði um formann.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta