Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Úrskurður í máli nr. SRN17090029

Ár 2019, þann 17. maí, er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r

í máli nr. SRN17090029

 

Kæra X

á stjórnsýslu

sveitarfélags

 

 

I. Kröfur, kæruheimild og kærufrestur

Þann 13. september 2017, barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra X, kt. 000000-0000, á stjórnsýslu X (hér eftir sveitarfélagið) vegna starfsloka hennar sem leikskólastjóra leikskólans X.

Krefst X þess að hin kærða ákvörðun verði úrskurðuð ólögmæt. Sveitarfélagið krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá en til vara að starfslokasamkomulagið verði talið lögmætt.

Kæran er fram borin á grundvelli 3. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og barst kæran innan kærufrests, sbr. 2. mgr. sama ákvæðis.

 

II.  Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum starfaði X sem leikskólastjóri leikskólans X í sveitarfélaginu. Þann 15. júní 2017 gekk sveitarfélagið frá starfslokasamningi við X en nokkur ágreiningur er milli málsaðila um aðdraganda þess. Í kæru kemur þannig fram að X líti svo á sem hún hafi verið þvinguð til samkomulags um starfslok. Með því að hafa verið þvinguð til að skrifa undir starfslokasamning telur X að í raun hafi henni verið sagt upp störfum með ólögmætum hætti. Af hálfu sveitarfélagsins er hins vegar vísað til þess að engin stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin þar sem X hafi boðist til að skrifa undir starfslokasamning.

Kæra X barst ráðuneytinu upphaflega þann 13. september 2017. Með bréfi ráðuneytisins dags. 27. september 2017 var X tilkynnt að ráðuneytið teldi ekki ástæðu til að taka erindi hennar til efnismeðferðar. Í kjölfarið leitaði X til umboðsmanns Alþingis sem ritaði ráðuneytinu bréf þann 12. febrúar 2018. Í kjölfar þess taldi ráðuneytið rétt að endurupptaka málið og tilkynnti X þar um með bréfi dags. 26. apríl 2018.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 5. júlí 2018, var sveitarfélaginu gefinn kostur á að koma að frekari gögnum og sjónarmiðum varðandi kæruna. Bárust þau gögn ráðuneytinu með bréfi sveitarfélagsins mótteknu 7. september 2018.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 18. september 2018, var X gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum sveitarfélagsins. Bárust þær athugasemdir ráðuneytinu með bréfi X mótteknu 22. október 2018.

 

III.      Sjónarmið X

Í kæru kemur fram að þann 15. júní 2017 hafi X fengið símtal frá sveitarstjóra þar sem hann hafi beðið hana um að hitta sig sem allra fyrst sama dag. Hafi erindi fundarins ekki verið rætt og X ekki verið boðið að taka með sér trúnaðarmann á fundinn. Hafi X talið að ræða ætti málefni leikskólans á fundinum. Þegar X mætti á fundinn hafi henni verið tilkynnt að fundurinn yrði á skrifstofu sveitarstjóra og skrifstofustjóri yrði einnig á fundinum. Greinir X frá því að í upphafi fundar hafi sveitarstjóri gert athugasemdir við starfsmannaveltu og sagt leikskólastjóra hafa mistekist að skapa stöðugleika auk þess sem liðsheild væri ekki nægilega sterk. Hafi sveitarstjóri boðið X að gera starfslokasamning sem hann hafi verið búinn að undirbúa. Hafi sveitarstjóri sagt að traust væri ekki lengur til staðar og skrifstofustjóri bætt við að þetta væri búið. Hafi X óskað eftir að fá að skoða samninginn til næsta dags og bera hann undir lögfræðing, en því hafi sveitarstjóri neitað. Kveðst X hafa spurt hvað myndi gerast ef hún neitaði að skrifa undir og hafi sveitarstjóri þá tekið fram önnur skjöl og sagt að þá yrði farið í harðari aðgerðir sem væru uppsögn á staðnum. Greinir X frá því að hún hafi ekki talið sig eiga annarra kosta völ en að skrifa undir starfslokasamkomulagið sem hún hafi og gert.

X kveðst líta svo á að starfslokasamkomulagið feli í sér ákvörðun um uppsögn enda hafi val hennar aðeins falist í því að undirrita það eða vera sagt upp störfum. Hafi X ekki átt frumkvæði að starfslokum, hafi ekki komið að því að rita uppsagnarbréf eða starfslokasamkomulag og hún hafi hvorki fengið umhugsunarfrest né ráðrúm til að leita sér aðstoðar. Þá hafi starf X ekki verið lagt niður og uppsögnin ekki verið hluti af málefnalegri skipulagsbreytingu. Telur X að skilyrði 2. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga séu því fyrir hendi.

X byggir á því að málsmeðferð í aðdraganda og við gerð starfsloksamnings hafi verið ólögmæt. Um starfssamband X og sveitarfélagsins fari eftir kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands  vegna félags stjórnenda leikskóla. Um uppsögn sé fjallað í gr. 1.5 í fylgiskjali 3. Þar segi að ef ástæða sé talin til að veita starfsmanni áminningu sé skylt að gefa honum fyrst kost á að tjá sig um málið. Óski starfsmaður þess skuli það gert í viðurvist trúnaðarmanns. Ef talið sé að fyrir liggi ástæður til uppsagnar sem rekja megi til starfsmannsins sjálfs sé skylt að áminna starfsmanninn fyrst skriflega og veita honum tíma og tækifæri til að bæta ráð sitt áður en gripið er til uppsagnar. Uppsögn skuli ávallt vera skrifleg og óski starfsmaður þess skuli rökstuðningur einnig vera skriflegur. Þá sé óheimilt að segja upp starfsmanni án málefnalegra ástæðna. Telur X að með hliðsjón af framangreindu svo og almennum skyldum sveitarfélagsins hefði verið eðlilegt, ef óánægja var með störf X og málefnalegar ástæður að baki, að ræða fyrst við X um það sem betur mætti fara og veita henni kost á að bæta sig í samræmi við þá skyldi sveitarfélagsins að gæta meðalhófs. Ef það myndi ekki skila árangri væri næsta skref að hefja áminningaferli þar sem gætt væri að andmælarétti og viðurvist trúnaðarmanns. Ef niðurstaða þess ferlis væri áminning og X myndi ekki bæta sig gæti komið til uppsagnar í kjölfar formbundins aðdraganda.

X vísar til þess að sveitarfélagið geti ekki komið sér undan lög- og samningsbundnu ferli með því að gefa starfsmanni afarkosti milli þess að rita undir starfsloksamning eða vera sagt upp á staðnum, enda brjóti það gegn réttmætisreglu stjórnsýsluréttar. Fram hafi komið hjá sveitarstjóra að X yrði sagt upp ef hún myndi ekki undirrita samkomulagið. Bendir X á að með því að fá ekki kost á því að fara yfir málið hafi verið brotið gegn V. kafla laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986, einkum 29. gr. Þá beri að hafa í huga að sveitarstjóri hafi verið í yfirburða stöðu enda hafi hann að eigin sögn haft vald til að segja X upp á staðnum. Þá sé sveitarstjóri að auki löglærður og hafi starfað sem hæstaréttarlögmaður. Telur X ljóst að ef hún hefði ekki undirritað samkomulagið heldur verið sagt upp hefði ekki verið gætt að málefnalegum ástæðum að baki uppsögn. Hafi ekki verið gætt að því að hafa trúnaðarmann viðstaddan, X hafi ekki verið áminnt áður en til uppsagnar kom og hafi ekki notið andmælaréttar. Sé slík uppsögn bersýnilega ólögmæt. Byggir X á því að starfslokasamningurinn hafi verið ígildi uppsagnar vegna þess hvernig málum hafi verið háttað. Sé hann því ólögmætur enda ekki verið gætt að lögbundnum aðdraganda. Bendir X á að heimildir stjórnvalda til að gera starfsloksamninga séu takmarkaðar við það að ekki sé gengið gegn lagareglum sem lúta að réttaröryggi starfsmanna. Verði ekki annað séð en að persónulegar skoðanir sveitarstjóra hafi ráðið úrslitum um starfslokin enda hafi engin athugun farið fram á meintum brotum X í starfi og henni ekki veittur kostur á að tjá sig um þau áður en ákvörðun var tekin um gerð starfslokasamningsins og hún þvinguð til undirritunar. Áréttar X að sveitarstjórnir séu bundnar af stjórnsýslulögum í samskiptum sínum við starfsmenn, þ.á.m. í tengslum við starfslok. Byggi aðdragandi starfslokasamningsins á ólögmætum grunni og ekki hafi verið gætt að andmælarétti X. Hafi málið þannig ekki verið að fullu upplýst áður en ákvörðun var tekin um gerð starfslokasamnings og þvinga X til að undirrita það. Með því hafi að auki verið gengið lengra en nauðsyn krafði. Hafi málsmeðferðin falið í sér brot gegn andmælareglunni, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, rannsóknarreglunni sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga og meðalhófsreglunni sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga. Séu þetta öryggisreglur stjórnsýslulaga og brot gegn þeim teljist alvarleg. Hafi málsmeðferðin miðast að því að komast hjá lög- og kjarasamningsbundinni málsmeðferð og fari auk þess gegn þeirri meginreglu stjórnsýsluréttar að óheimilt sé að undirbúningur og úrlausn máls miði að því að komast hjá því að fylgja lögboðinni málsmeðferð sem ætlað sé að tryggja réttaröryggi aðila.

Þá byggir X á því að sveitarstjóri hafi ekki haft valdheimildir til að taka ákvörðun um starfslokin. Samkvæmt 43. gr. samþykktar um stjórn sveitarfélagsins nr. 861 frá 17. september 2013 ráði sveitarstjórn forstöðumenn stofnana sveitarfélagsins að fenginni umsögn þeirrar fastanefndar sem fer með málefni stofnunarinnar og veiti þeim lausn frá starfi. Teljist leikskóli stofnun sveitarfélags og leikskólastjóri teljist forstöðumaður þeirrar stofnunar. Af því leiði að sveitarstjóra hafi verið óheimilt að segja X upp störfum og gera við hana starfslokasamning enda hefði ákvörðun þar um þurft að vera tekin af sveitarstjórn áður en hún kom til framkvæmda, jafnvel þótt málefnalegar ástæður hefðu verið fyrir uppsögn. Sé því ljóst að starfsloksamkomulagið sé ólögmætur gerningur sem sveitarstjóri hafi ekki haft vald til að gera. Sú staðreynd að ekki hafi verið leitað samþykkis frá sveitarstjórn áður en ákvörðunin var framkvæmd styðji enn frekar ólögmæti málsmeðferðarinnar. Bókun eftir á um samþykki hafi enga þýðingu.

Í andmælum sínum vísar X til þess að þegar hún var boðuð á fund þann 15. júní 2017 hafi verið búið að ákveða að segja henni upp störfum ef hún undirritaði ekki starfslokasamning. Hafi sveitarfélagið þannig verið búið að taka einhliða ákvörðun um starfslok X og líta beri á starfsloksamninginn sem ígildi uppsagnar. Hafi X verið þvinguð til að skrifa undir samninginn og á fundinum í raun ekki haft neina aðra kosti en starfslok. Þá beri aðeins að líta á starfslokasamninginn sem útfærsluatriði á greiðslum vegna starfslokanna. Þá áréttar X að hún hafi verið boðuð á fundinn með mjög stuttum fyrirvara án þess að hafa haft nokkra hugmynd um fundarefnið. Á fundinum hafi X síðan sætt þeirri hótun að annað hvort skrifaði hún undir starfslokasamninginn eða yrði sagt upp. Þá vísar X til þess að hún hafi ekki haft val um neitt annað en starfslok. Í því felist að tekin hafi verið stjórnvaldsákvörðun um starfslok hennar þótt ekki hafi verið farið að lögum, reglum og kjarasamningum við slíka ákvarðanatöku. Einnig vísar X til bókunar frá fundi sveitarstjórnar þann 7. september 2017, en af henni telur X ljóst að með boði um starfslokasamning hafi verið fylgt eftir ákvörðun sem tekin hafi verið af sveitarstjóra og hugsanlega einhverjum sveitarstjórnarmönnum. Þá beri bókunin einnig með sér að hvorki sveitarstjórn né sveitarstjóri hafi verið sátt með starfsemi og áherslur í X. Megi ætla að það hafi verið vilji sveitarstjórnar og sveitarstjóra að X léti af störfum. Þá áréttar X að stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin varðandi starfslok hennar þar sem henni hafi verið tilkynnt að ef hún gengist ekki undir starfslokasamning yrði henni sagt upp. Þá beri heiti samningsins með sér að starfslok hafi farið fram, en heiti hans sé „samningur vegna starfsloka“ en ekki „samningur um starfslok“. Einnig áréttar X að sveitarstjóri hafi hvorki haft löglegt umboð til að segja X upp störfum né bjóða henni starfslokasamning þar eð ekki hafi verið fjallað um lausn hennar frá störfum á vettvangi sveitarstjórnar.

 

IV.      Sjónarmið sveitarfélagsins

Sveitarfélagið greinir svo frá að það hafi ekki verið búið að ákveða að segja X upp störfum og engin ákvörðun hafi verið tekin um uppsögn. Aðeins hafi verið gerður samningur um starfslok. Vísar sveitarstjórn til bókunar á fundi sveitarstjórnar þann 7. september 2017 þar sem m.a. komi fram að sveitarstjórn staðfesti fyrirliggjandi starfslokasamning, auk þess sem sveitarstjóri hafi haft fullan stuðning sveitarstjórnar til að gera starfslokasamninginn. Þá mótmælir sveitarfélagið þeirri fullyrðingu að samningurinn hafi aðeins lotið að framkvæmd uppsagnar eftir að ákvörðun um hana hafði verið tekin. Bendir sveitarfélagið á að á fundinum hafi farið fram samningaviðræður um starfslok þar sem báðir aðilar hafi sett fram hugmyndir um kjör sem á endanum hafi orðið að gagnkvæmum samningi um starfslok. Þá hafi starfslok X orðið til með starfslokasamningi en engin stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin, enda sé aðdragandi slíkrar ákvörðunar allt annar en samnings um starfslok. Hefði verið tekin ákvörðun um uppsögn hefði um slíkt ferli farið eftir reglum stjórnsýslulaga. Þá sé til þess að líta að starfsmanni sveitarfélags verði ekki almennt sagt upp störfum nema að undangengnu broti í starfi og áminningu, skipulagsbreytingum eða öðrum slíkum ástæðum. Eigi það ekki við í tilviki X. Bókun sveitarstjórnar staðfesti að um hafi verið að ræða starfslokasamning með starfslokagreiðslum. Fyrirliggjandi samningur og atvik að baki skilmálum hans veiti þessu einnig stoð.

Sveitarfélagið telur að til að málið falli undir valdsvið ráðuneytisins þurfi skilyrði 3. mgr. 111. gr. að vera uppfyllt, þ.e. að stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin, ákvörðun hafi verið um uppsögn og hún eigi rætur að rekja til brota í starfi, vankunnáttu í starfi, óvandvirkni í starfi, til athafna í starfi eða utan sem þykja ósamrýmanlegar starfinu eða til annarra sambærilegra ráðstafana. Telur sveitarfélagið að kæran byggist á þeirri röngu forsendu að stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin um uppsögn eða X þvinguð til að undirgangast starfslokasamning. Sé sá málatilbúnaður rangur og hafi X ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð í málinu. Hafi X hvorki verið gert að sæta uppsögn né hún þvinguð til að skrifa undir starfslokasamning. Gerður hafi verið starfslokasamningur sem hafi verið efndur af hálfu sveitarfélagsins og X hafi móttekið greiðslur samkvæmt samningnum. Þá bendir sveitarfélagið á að þau atriði sem X vísar til varðandi starfslokin falli undir skilyrði þess að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Hafi X ekki gerst brotleg í starfi, ekki sýnt vankunnáttu í starfi, ekki óvandvirkni, ekki viðhaft neinar þær athafnir sem þykja ósamrýmanlegar starfi leikskólastjóra né heldur séu aðrar sambærilegar ástæður fyrir hendi. Telur sveitarfélagið að krafa X byggist á þeirri röngu forsendu að hún hafi sætt uppsögn. Einnig vísar sveitarfélagið til þess að kæran byggist á þeirri röngu atvikalýsingu að X hafi sætt þvingunum um að skrifa undir starfsloksamning. Hið rétta sé að sveitarstjóri hafi gert tillögu að kjörum starfslokasamnings þar sem boðin hafi verið kjör langt umfram það sem hefðbundið sé og margfalt umfram samningsbundinn uppsagnarfrest. X hafi ekki sætt þvingun um að skrifa undir samninginn og haft val um að ganga út af fundinum án þess að ganga að samningskjörum sem samkomulag náðist um.

Sveitarfélagið tekur fram að X hafi ekki verið sagt upp störfum heldur hafi verið gerður samningur um starfslok og rífleg starfslokakjör. Hafi sveitarstjóri haft heimild og umboð sveitarstjórnar til að semja um starfslok við X. Í fundargerð sveitarstjórnar frá 7. september 2017 sé því lýst hvernig sveitarstjóri hafi sótt fyrirfram umboð til samningsgerðar og sveitarstjórn hafi staðfest heimild sveitarstjóra með því að staðfesta samninginn sjálfan. Liggi þar með fyrir að sveitarstjóri hafi haft heimild til samningsgerðarinnar fyrir hönd sveitarfélagsins. Þá kemur fram að persónulegar skoðanir sveitarstjóra hafi ekkert haft að gera með þá stöðu sem uppi hafi verið í starfsemi leikskólans. Þá tekur sveitarfélagið fram að samið hafi verið um starfslok X á kjörum sem verið hafi niðurstaða samningaviðræðna. Bendir sveitarfélagið á að ef horft sé til kjara þeirra sem X naut samkvæmt starfslokasamningnum komi spánskt fyrir sjónir að X telji sig hafa verið þvingaða til að undirrita samkomulagið. Sé þannig hvergi í kæru vikið að því að samningskjör hafi verið ólögmæt eða ósanngjörn. Þá sé röng sú fullyrðing X að sveitarfélagið sé með samningnum að koma sér undan lögmætri málsmeðferð sem gildi þegar starfsmaður hefur brotið af sér í starfi. Hafi X ákveðið að semja um starfslok og greiðslur og því hafi ekki reynt á það í hvaða farveg málið hefði farið að öðrum kosti.

 

IV.      Niðurstaða ráðuneytisins

Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 fer um starfskjör, réttindi og skyldur starfsmanna sveitarfélaga eftir ákvæðum kjarasamninga og ráðningarsamninga. Um störf grunnskólakennara gilti á þeim tíma sem hin kærða ákvörðun var tekin ákvæði kjarasamnings Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands vegna Félags stjórnenda leikskóla. Um uppsagnir er þar fjallað í gr. 1.5 í fylgiskjali 3 með kjarasamningnum. Kemur þar eftirfarandi fram:

Ef ástæða er talin til að veita starfsmanni áminningu er skylt að gefa honum fyrst kost á að tjá sig um málið. Óski starfsmaður þess skal það gert í viðurvist trúnaðarmanns. Ef talið er að fyrir liggi ástæður til uppsagnar sem rekja megi til starfsmannsins sjálfs, er skylt að áminna starfsmanninn fyrst skriflega og veita honum tíma og tækifæri til að bæta ráð sitt áður en gripið er til uppsagnar. Uppsögn skal ávallt vera skrifleg og óski starfsmaður þess skal rökstuðningur einnig vera skriflegur. Óheimilt er að segja starfsmanni upp án málefnalegra ástæðna.

Líkt og fram kemur í 2. mgr. 109. gr. sveitarstjórnarlaga hefur ráðherra ekki eftirlit með ákvörðunum sveitarfélaga í starfsmannamálum, um gerð kjarasamninga eða stjórnsýslu sem fram fer á vegum sveitarfélaganna og öðrum stjórnvöldum á vegum ríkisins er með beinum hætti falið eftirlit með. Undantekningu frá því að ákvarðanir í starfsmannamálum falli ekki undir eftirlit ráðuneytisins er að finna í 3. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga. Kemur þar fram að þrátt fyrir 2. mgr. 109. gr. sé þó hægt að bera undir ráðherra samkvæmt þessari grein ákvörðun sveitarfélags um uppsögn starfsmanns, enda eigi hún rætur að rekja til brota hans í starfi, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, til athafna í starfi eða utan þess sem þykja ósamrýmanlegar starfinu eða til annarra sambærilegra ástæðna.

X byggir á því að málsmeðferð sveitarfélagsins hafi byggst á ólögmætum grundvelli og miðað að því að komast hjá lög- og kjarasamningsbundinni málsmeðferð. Byggir X á því að henni hafi í raun verið sagt upp störfum þar sem hún hafi verið þvinguð til að skrifa undir starfslokasamning. Sveitarfélagið vísar hins vegar til þess að starfslok X hafi orðið til með starfslokasamningi og engin stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin. Hafi X þannig ekki verið sagt upp störfum heldur undirgengist starfslokasamning,

Starfslokasamningur sá sem til umfjöllunar er var gerður þann 15. júní 2017, en af gögnum málsins liggur fyrir að X fór á fund sveitarstjóra þann dag. Kveðst X hafa verið boðuð til þess fundar með skömmum fyrirvara og hefur því ekki verið mótmælt af hálfu sveitarfélagsins. Þá liggur einnig fyrir bókun sveitarstjórnar frá 7. september 2017 þar sem fram kemur að málefni leikskólans X hafi verið fyrirferðarmikil undangengna mánuði og ekki ríkt full sátt um starfsemi og áherslur þar. Hafi málið verið rætt í sveitarstjórn og í beinu framhaldi af fundi sveitarstjórnar þann 14. júní 2017 hafi málið verið rætt þar sem einróma stuðningur hafi verið við áform sveitarstjóra um að bjóða X starfslokasamning. Telur ráðuneytið ljóst að á tilgreindum fundi þann 15. júní 2017 hafi ætlunin að verið að ræða fyrirhuguð starfslok X.

Ráðuneytið telur ljóst að þegar hinn tilgreindi fundur sveitarstjóra og X fór fram þann 15. júní 2017 hafi þegar verið tekin ákvörðun um starfslok X af hálfu sveitarfélagsins, enda beri að fallast á fullyrðingar X þess efnis að eina tilefni fundarins hafi verið fyrirhuguð starfslok hennar. Verði þannig á því byggt að aðrir kostir hafi ekki staðið X til boða en að undirrita samkomulag um starfslok, en vera gert að sæta uppsögn að öðrum kosti. Þá bera fyrirliggjandi gögn ekki annað með sér en að fyrirhuguð starfslok hafi verið að frumkvæði sveitarfélagsins en ekki X.

Það er mat ráðuneytisins að með því að ljúka ráðningarsambandi sveitarfélagsins við X með gerð starfslokasamnings þann 15. júní 2017 hafi sveitarfélagið í raun verið að stytta sér leið að settu marki með því að knýja X til að fallast á það að láta af störfum. Var sú háttsemi sveitarfélagsins ósamrýmanleg þeirri meginreglu stjórnsýsluréttar að óheimilt sé að undirbúningur og úrlausn máls miði að því að komast hjá því að fylgja lögboðinni málsmeðferð, sem ætlað er að tryggja réttaröryggi aðila. Í því sambandi bendir ráðuneytið á að gildandi kjarasamningar fela í sér samningsbundin réttindi sem samningsaðilar hafa sammælst um og þau réttindi verði ekki takmörkuð af öðrum. Hafi sveitarfélaginu þannig verið óheimilt að gera X að undirgangast starfsloksamning án þess að veita henni færi á að koma að skýringum með formlegum hætti vegna ástæðna starfslokanna. Að þessu virtu er það mat ráðuneytisins að X hafi mátt vera rétt að líta svo á sem í sveitarfélagið hafi í raun tekið ákvörðun að segja henni upp störfum á fundinum þann 15. júní 2017. Falli úrlausnarefnið þannig undir úrskurðarvald ráðuneytisins.

Líkt og fram kemur í gr. 1.5 í kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands vegna Félags stjórnenda leikskóla er óheimilt að segja starfsmanni upp störfum án þess að gefa honum fyrst kost á að tjá sig um málið auk þess sem fyrst er skylt að áminna starfsmanninn skriflega áður en honum er sagt upp störfum Þá er óheimilt að segja starfsmanni upp án málefnalegra ástæðna.

Líkt og rakið hefur verið er það mat ráðuneytisins að sveitarfélagið hafi í raun verið að stytta sér leið að settu marki með því að knýja X til að fallast á að undirgangast starfslokasamning. Við þá málsmeðferð sveitarfélagsins var í engu gætt fyrirmæla tilgreinds ákvæðis kjarasamningsins né heldur var gætt fyrirmæla stjórnsýslulaga um andmælarétt sbr. 13. gr., rannsóknarreglu sbr. 10. gr. eða meðalhófsreglu sbr. 12. gr. Var málsmeðferð sveitarfélagsins að þessu leyti í engu samræmi við þann tilgang framangreindra ákvæða að tryggja réttaröryggi X. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til þess sem rakið hefur verið er það mat ráðuneytisins að sú ákvörðun sveitarfélagsins að segja X upp störfum sem leikskólastjóra leikskólans X hafi verið ólögmæt.

Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur uppkvaðning úrskurðar dregist og er beðist velvirðingar á því.

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun X frá 15. júní 2017 um að segja X upp störfum sem leikskólastjóra leikskólans X er ólögmæt.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta