Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Borgarbyggð - Umfjöllun bæjarráðs um tillögu um samgöngumál

Jenni R. Ólason                                                     17. mars 1997                                                    96120052

Kveldúlfsgötu 18                                                                                                                                        1001

310 Borgarnes

 

 

 

 

 

             Vísað er til erindis yðar til ráðuneytisins, dagsett 12. desember 1996, varðandi afgreiðslu bæjarstjórnar og forseta bæjarstjórnar á tillögu yðar á fundi bæjarstjórnar Borgarbyggðar þann 11. desember 1996 varðandi 20. lið fundargerðar bæjarráðs frá 19. nóvember sama ár.

 

             Ráðuneytið óskaði eftir umsögn bæjarstjórnar Borgarbyggðar með bréfi, dagsettu 9. janúar 1997. Bæjarstjóri óskaði þann 27. sama mánaðar eftir fresti til að skila umsögn bæjarstjórnar og var hann veittur. Umsögn bæjarstjórnar barst síðan ráðuneytinu með bréfi, dagsettu 26. febrúar 1997.

 

             Þann 24. febrúar 1997 barst ráðuneytinu jafnframt erindi yðar, dagsett 17. sama mánaðar, varðandi afgreiðslu máls þessa á fundi bæjarráðs Borgarbyggðar þann 28. janúar sl.

 

Málavextir og málsástæður:

 

             Á fundi bæjarráðs Borgarbyggðar þann 19. nóvember 1996 var lögð fram svohljóðandi tillaga:

             “Bæjarráð Borgarbyggðar samþykkir að óska nú þegar eftir viðræðum við yfirvöld samgöngumála um flutning þjóðvegar nr. 1 í Borgarnesi frá núverandi vegstæði í gegnum Borgarnes, niður fyrir byggðina í samræmi við gildandi aðalskipulag fyrir Borgarnes, með það að markmiði að flutningi vegarins sé lokið fyrir árið 2000.”

 

             Tillaga þessi var samþykkt með tveimur atkvæðum, en einn sat hjá.

 

             Fundargerð þessa fundar bæjarráðs var tekin fyrir á bæjarstjórnarfundi þann 11. desember 1996 og hún samþykkt samhljóða. Í fundargerð bæjarstjórnarfundarins er ekkert bókað sérstaklega um fyrrgreindan lið fundargerðar bæjarráðs.

 

             Í erindi yðar er tilgreint að á bæjarstjórnarfundinum hafi forseti bæjarstjórnar úrskurðað að ekki skyldu greidd atkvæði um þennan lið fundargerðarinnar. Þér hafið mótmælt þeim úrskurði og óskað eftir að vilji bæjarstjórnar yrði leiddur í ljós með beinni atkvæðagreiðslu. Í umræðu um málið hafi komið skýrt fram að fulltrúar meirihlutans í bæjarstjórn studdu úrskurð forseta. Niðurstaðan hafi því orðið sú að engin atkvæðagreiðsla fór fram um þetta mál sérstaklega. Með vísan til 60. gr. samþykktar um stjórn Borgarbyggðar og fundarsköp bæjarstjórnar teljið þér að bæjarstjórn hafi átt að greiða atkvæði um málið sérstaklega, þar sem bæjarstjórn skuli taka til endanlegrar afgreiðslu ályktanir nefndar, ráðs eða stjórnar ef þær hafi í för með sér aukin útgjöld.

 

             Í umsögn bæjarstjórnar Borgarbyggðar er tekið fram að umrædd tillaga hafi ekki varðað útgjöld úr bæjarsjóði heldur hafi einungis verið hvatning til yfirvalda samgöngumála um flutning á þjóðvegi nr. 1 framhjá Borgarnesi. Jafnframt kemur fram að það hafi verið venja í bæjarstjórninni að taka út úr fundargerðum bæjarráðs þau málefni sem hafa í för með sér útgjöld fyrir bæjarsjóð og bera upp sérstaklega. Eigi það sér stoð í 60. samþykkta um stjórn Borgarbyggðar og fundarsköp bæjarstjórnar og 65. gr. sveitarstjórnarlaga. Síðan segir orðrétt: “Með hliðsjón af framansögðu, hafnaði forseti bæjarstjórnar að taka tillöguna sérstaklega til atkvæðagreiðslu, en um það hafði hann forræði, sbr. 22. gr. samþykkta um fundarsköp Borgarbyggðar. Kærandi átti þess kost að bera synjun forseta undir bæjarstjórn, en gerði það ekki og því eðlilegt að ráðuneytið vísi máli þessu frá sér þegar af þeirri ástæðu. Verði ekki á það fallist, er það krafa bæjarstjórnar með hliðsjón af málavöxtum, að ákvörðun forseta bæjarstjórnar verði staðfest.”

 

             Í bréfi yðar frá 17. febrúar sl. er síðan vísað til ráðuneytisins ákvörðun formanns bæjarráðs frá fundi bæjarráðs þann 28. janúar sl. Á þeim fundi var lagt fram bréf ráðuneytisins frá 9. janúar 1997 og upplesið svarbréf til ráðuneytisins. Óskuðuð þér eftir að fá afrit af svarbréfinu en því var hafnað. Teljið þér þessa afgreiðslu brjóta í bága við 41. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986.

 

Niðurstaða ráðuneytisins:

 

             Í 22. gr. samþykktar um stjórn Borgarbyggðar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 535/1994 segir m.a. að forseti úrskurði um skilning á fundarsköpum, en skjóta megi úrskurði hans til úrlausnar bæjarstjórnar.

 

             Ráðuneytið telur ljóst samkvæmt gögnum málsins að þér hafið ekki formlega skotið umræddri ákvörðun forseta bæjarstjórnar til úrlausnar bæjarstjórnar, eins og heimild er til samkvæmt framansögðu. Þetta verður fyrst og fremst ráðið af fundargerð bæjarstjórnar frá 11. desember 1996, en hún var samþykkt samhljóða og án athugasemda. Þrátt fyrir það telur ráðuneytið rétt að taka fram eftirfarandi:

 

             Ráðuneytið telur ljóst að tillaga sú sem mál þetta snýst um verður ekki talin fela í sér bein útgjöld úr bæjarsjóði, enda er þar einungis gerð tillaga um að “óska nú þegar eftir viðræðum við yfirvöld samgöngumála um flutning þjóðvegar nr. 1 í Borgarnesi.” Því verður ekki talið að þessi liður fundargerðar hafi þurft sérstakt samþykki bæjarstjórnar með vísan til 3. mgr. 65. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Komi hins vegar síðar í ljós að nánar tilgreindra útgjalda sé þörf úr bæjarsjóði vegna slíkra framkvæmda ber að sjálfsögðu að afgreiða tillögur um það eftir þeim leiðum sem tilgreindar eru í 2. mgr. 60. gr. samþykktar um stjórn Borgarbyggðar og fundarsköp bæjarstjórnar og 3. mgr. 65. gr. sveitarstjórnarlaga.

 

             Hvað varðar síðara erindi yðar vill ráðuneytið taka fram að í 1. mgr. 41. gr. sveitarstjórnarlaga er skýrt tekið fram að sveitarstjórnarmenn hafa aðgang að bókum og skjölum sveitarfélagsins og óhindraðan aðgang að stofnunum þess og starfsemi. Sambærilegt ákvæði er að finna í 40. gr. samþykktar um stjórn Borgarbyggðar og fundarsköp bæjarstjórnar.

 

             Ráðuneytið telur með hliðsjón af framangreindum ákvæðum að skjal það, sem yður var neitað um afrit af á fundi bæjarráðs þann 28. janúar sl., hafi ekki verið þess eðlis að rétt hafi verið að neita yður um afrit af því. Um var að ræða skjal sem afgreitt var af bæjarráði með þeim hætti að vísa því til afgreiðslu bæjarstjórnar. Einfalt hefði verið að merkja það skjal sem drög og rita á það fyrirvara um að bæjarstjórn ætti eftir að samþykkja það.

 

F. h. r.

 

Sigríður Lillý Baldursdóttir (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

 

Ljósrit:  Bæjarstjórn Borgarbyggðar.

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta