Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Húsavíkurkaupstaður - Málsmeðferð hafnarstjórnar varðandi úthlutun lóða á hafnarsvæði

A&P Lögmenn sf.                                                  20. júlí 1998                                                       98030107

Tryggvi Gunnarsson hrl.                                                                                                                           1001

Borgartúni 24

105 Reykjavík

            

 

 

 

 

             Þann 20. júlí 1998 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

             Með erindi, dagsettu 27. mars 1998, kærði Tryggvi Gunnarson hrl., fyrir hönd Ólafs Sigurðssonar, Höfðabrekku 23, Óðins Sigðurðssonar, Laugarbrekku 18, og Sigurðar Kristjánssonar, Garðsbraut 51a, Húsavík, til félagsmálaráðuneytisins ákvörðun bæjarstjórnar Húsavíkurkaupstaðar frá 24. febrúar 1998 um úthlutun lóða á miðhluta hafnarsvæðis við Húsavíkurhöfn. Þess er krafist að hinni tilteknu ákvörðun verði breytt eða hún felld úr gildi, sbr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 og til hliðsjónar 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

             Með bréfum ráðuneytis, dagsettum 31. mars 1998, var bæjarstjórn og hafnarstjórn Húsavíkurkaupstaðar gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Umsögn bæjarstjórnar og hafnarstjórnar barst ráðuneytinu með sameiginlegri greinargerð frá Berglindi Svavarsdóttur hdl., dagsettri 16. apríl 1998. Jafnframt bárust frá bæjarstjóra Húsavíkurkaupstaðar minnispunktar frá Einari Gauti Steingrímssyni hdl. vegna kærunnar.

 

             Þann 20. maí 1998 barst ráðuneytinu bréf, dagsett 19. sama mánaðar, frá Óskari Sigurðssyni lögfr., f.h. Tryggva Gunnarsonar hrl., þar sem komið er á framfæri tilteknum sjónarmiðum vegna efnis greinargerðar Húsavíkurkaupstaðar.

 

I.          Málsatvik

 

             Málsatvik eru þau að bæjaryfirvöld í Húsavíkurkaupstað auglýstu til umsóknar tvær lóðir á miðhluta hafnarsvæðis á Húsavík samkvæmt deiliskipulagi sem samþykkt var í bæjarstjórn þann 20. janúar 1998. Annars vegar var um að ræða 447 m2 lóð og hins vegar 367 m2 lóð. Eftirtaldir aðilar sóttu um lóðirnar:

1.      Ingólfur Árnason og Gunnar Gunnarsson sóttu um 1/2 hluta af 367 m2 lóðinni og 1/3 hluta af 447 m2 lóðinni.

2.      Ólafur Sigurðsson sótti um 447 m2 lóðina.

3.      Sigurður Sigurðsson, Sigurður Kristjánsson og Arnar Sigurðsson sóttu um 447 m2 lóðina.

4.      Óðinn Sigurðsson sótti um 367 m2 lóðina.

5.      Norðursigling ehf. sótti um 447 m2 lóðina.

 

             Þann 11. febrúar 1998 var boðaður fundur í byggingarnefnd Húsavíkurkaupstaðar til að fjalla um fyrrgreindar umsóknir. Málið var þó aldrei rætt innan byggingarnefndar heldur fór formaður hafnarstjórnar fram á að það færi fyrir hafnarstjórnina. Þann 18. febrúar 1998 kom hafnarstjórn saman til fundar. Umsækjendur um lóðirnar komu á fundinn til viðræðna við hafnarstjórn um umsóknir sínar, hver í sínu lagi. Ákvað hafnarstjórn að fresta afgreiðslu úthlutunar og fela bæjarstjóra og byggingarfulltrúa að vinna ákveðna þætti í málinu fyrir næsta fund hafnarstjórnar.

 

             Að morgni 20. febrúar 1998 var boðað til fundar í hafnarstjórn en fundinn átti að halda sama dag kl. 11 árdegis. Var varamaður boðaður í stað eins aðalmanns í stjórninni. Á fundinum voru meðal annars teknar fyrir umsóknir um áðurgreindar lóðir. Niðurstaða fundarins var sú að hafnarstjórn gerði tillögu til bæjarstjórnar um að Norðursiglingu ehf. yrði úrhlutað 447 m2 lóðinni. Hafnarstjórn frestaði hins vegar afgreiðslu sinni á umsóknum um 367 m2 lóðina á meðan deiliskipulag svæðisins væri tekið til endurskoðunar.

 

             Á fundi bæjarstjórnar Húsavíkurkaupstaðar þann 24. febrúar 1998 var tillaga hafnarstjórnar frá 20. sama mánaðar samþykkt með eftirfarandi viðbót við bókun hafnarstjórnar: “Lóðarveiting taki gildi þegar skipulagsuppdráttur hefur verið auglýstur í Stjórnartíðindum.“

 

II.         Málsástæður kærenda.

 

             Kærendur telja tillögu hafnarstjórnar og síðar ákvörðun bæjarstjórnar Húsavíkurkaupstaðar um úthlutun lóða á miðsvæði hafnarsvæðisins byggja á óstaðfestu deiliskipulagi. Rökin eru þau að öll meðferð og framkvæmd deiliskipulagsins var unnin samkvæmt eldri skipulagslögum og ber því að fara eftir 18. gr. eldri skipulagslaga nr. 19/1964 um staðfestingu þess. Jafnframt telja kærendur ákvörðun um úthlutun umræddra lóða vera í andstöðu við gildandi aðalskipulag Húsavíkurkaupstaðar. Telja kærendur að tillaga hafnarstjórnar og ákvörðun bæjarstjórnar hafi af þessum sökum ekki lagastoð og brjóti þar af leiðandi í bága við þá meginreglu sem kveður á um lögbundna stjórnsýslu.

 

             Í kærunni kemur einnig fram að kærendur telja fund hafnarstjórnar frá 20. febrúar 1998 ólögmætan þar sem ekki hafi verið boðað til fundarins með lögmætum hætti því fundarboðunarfrestur hafi verið of skammur. Af þeim sökum séu ákvarðanir hafnarstjórnar frá þeim fundi ógildanlegar og ákvörðun bæjarstjórnar um staðfestingu á tillögum hafnarstjórnar geti því ekki talist lögmæt.

 

             Kærendur telja jafnframt samþykkt hafnarstjórnar frá 20. febrúar 1998 ógildanlega þar sem Arnar Sigurðsson, einn af aðalmönnum í hafnarstjórn, hafi ekki verið boðaður á umræddan fund. Í hans stað var varamaður hans, Hannes Höskuldsson, boðaður á fundinn þrátt fyrir að Arnar hefði ekki tilkynnt um forföll. Af þeim sökum telja kærendur ákvörðun bæjarstjórnar um staðfestingu á tillögum hafnarstjórnar ólögmæta og þar með ógildanlega.

 

             Í fjórða lagi benda kærendur á að Gunnar Bóasson, einn fulltrúa í hafnarstjórn, sé svili eins umsækjandans, Gunnars Gunnarssonar. Auk þess sé hann systursonur Jóns Árna Sigfússonar, sem rekur ferðaþjónustu í Mývatnssveit og verið hefur í samstarfi við Norðursiglingu ehf. Jafnframt er rakið í kærunni að Einar Njálsson bæjarstjóri sem jafnframt er hafnarstjóri sé þremenningur við Árna og Hörð Sigurbjarnarsyni hjá Norðursiglingu ehf.

 

III.        Málsástæður kærða.

            

             Krafa kærða er að kröfum kærenda verði vísað frá félagsmálaráðuneytinu. Til vara er þess krafist að kröfum kærenda verði hafnað og ákvörðun bæjarstjórnar látin standa óbreytt.

 

             Í greinargerð kærða er fyrst komið á framfæri eftirfarandi athugasemdum við málavexti:

“1.  Það er ekki rétt sem segir í kæru að “Á þessu svæði standa nú fimm hús eða beitningaskúrar“. Hið rétta er að á þeirri lóð er úthlutað var stendur ekkert hús eða beitningaskúr. Skúrar kærendanna, Óðins og Sigurðar, standa á annarri lóð og hafa ekki stöðuleyfi.

2.      Í kærunni segir að formaður hafnarstjórnar hafi farið fram á við byggingarnefnd að málið færi fyrir hafnarstjórn. Hið rétta er að lóðaúthlutun á hafnarsvæði hefur um árabil verið verkefni hafnarstjórnar og engin breyting varð á þeirri venju við afgreiðslu þessa máls.“

 

             Málsástæður eru síðan raktar með eftirfarandi hætti:

 

             “Kröfu sína um frávísun byggir kærði á því að mál þetta fjallar fyrst og fremst um skipulagsmál á hafnarsvæði Húsavíkur. Samkvæmt 3. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fer umhverfisráðherra með yfirstjórn skipulags- og byggingarmála. Samkvæmt 8. gr. s.l. kveður úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála upp úrskurði í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál. Samkvæmt eldri skipulags- og byggingarlögum fór umhverfisráðherra einnig með yfirstjórn þessa málaflokks. Samkvæmt 119. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 má kæra ýmis vafaatriði sem upp kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna. Í sérlögum má aftur á móti finna heimildir til að kæra tiltekin mál til annarra ráðuneyta sbr. skipulags- og byggingarlög. Þar sem sú meginregla gildir að sérstakar kæruheimildir ganga framar almennri kæruheimild þá gengur kæruheimild samkvæmt skipulags- og byggingarlögum framar hinni almennu kæruheimild 119. gr. sveitarstjórnarlaganna. ... Samkvæmt ofangreindu ber að vísa stjórnsýslukærunni frá félagsmálaráðuneytinu.

             Ef ekki verður fallist á þá kröfu kærða að vísa stjórnsýslukæru þessari frá félagsmálaráðuneytinu þá gerir kærði þá kröfu að kröfum kærenda verði alfarið hafnað og ákvörðun bæjarstjórnar látin standa. Rökin eru eftirfarandi:

...

Fundarboðun lögmæt þar sem allir mættu.

             Samkvæmt 2. mgr. 54. gr. samþykktar um stjórn Húsavíkurkaupstaðar nr. 552/1987 skal boða til fundar í síðasta lagi einum sólarhring fyrir fund. Kærði vísar til þess að allir boðaðir stjórnarmenn mættu á fundinn en þegar þannig háttar til verður ákvörðun sem tekin er á slíkum fundi ekki ógildanleg ... Enda er slík niðurstaða í samræmi við 83. gr. einkamálalaga nr. 91/1991.

Engin áhrif á efni ákvörðunar:

             Kærði telur að þótt aðalmaður hafi ekki verið boðaður á fund hafnarstjórnar þá teljist það ekki það verulegir ágallar að valdi ógildingu þeirrar ákvörðunar sem tekin var á þeim fundi. Umræddur aðalmaður var einn umsækjenda um umþrætta lóð. Varamaður hans tók þátt í undirbúningi málsins og hann, en ekki aðalmaðurinn, hefði hvort sem er setið þann fund sem ákvörðunin var tekin á. Það hafði því engin áhrif á niðurstöðu málsins að aðalmaðurinn var ekki boðaður.

Stjórnarmenn hæfir.

             Samkvæmt 2. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 fer um sérstakt hæfi sveitarstjórnarmanna eftir sveitarstjórnarlögum. Samkvæmt athugasemdum með frumvarpi til stjórnsýslulaga þótti ekki fært að að gera eins strangar kröfur til sveitarstjórnarmanna og gert er í II. kafla laganna vegna fámennis. Samkvæmt 45. gr. sveitarstjórnarlaga telst sveitarstjórnarmaður vanhæfur ef málið varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt megi ætla að viljaafstaða hans mótist að einhveju leyti þar af.

             Kærendur nefna að Gunnar Bóasson sé svili eins umsækjandans Gunnars Gunnarssonar. Afsaða kærenda væri skiljanleg ef Gunnari Gunnarssyni hefði verið úthlutuð lóðin en svo var ekki. Gunnar Bóasson greiddi honum ekki sitt atkvæði. Því er vísað á bug þeirri ályktun kærenda að viljaafstaða GB hafi á nokkurn hátt mótast af tengslum við GG. Aukinheldur telst svili ekki til náins venslamanns í skilningi sveitarstjórnarlaga. Svili fellur ekki einu sinni undir hæfisreglur 2. tl. 1. mgr. 3. gr stjórnsýslulaganna sem eru þó miklum mun strangari en hæfisreglur 45. gr. sveitarstjórnarlaga.

             Það að Gunnar Bóasson sé systursonur Jóns Árna Sigfússonar, sem rekur ferðaþjónustu í Mývatnssveit og hafi verið í samstarfi við Norðursiglingu ehf. geti á einhvern hátt valdið vanhæfi hans sem stjórnarmanns er gjörsamlega út í hött. Jón þessi er ekki aðili málsins og ef draga ætti öll möguleg og ómöguleg skyldmenni nefndarmanna inn í mál almennt af því að þau hefðu hugsanlega, kannski, einhvern tíma átt viðskipti við málsaðila eða myndu e.t.v. eiga þau í framtíðinni þá væri öll stjórnsýslan á Íslandi lömuð.

             Hvað varðar tengsl Einars Njálssonar við eigendur Norðursiglingar ehf. þá fellur þremenningur ekki undir hugtakið náinn venslamaður í 45. gr. sveitarstjórnarlaga sbr. það að hæfisreglur stjórnsýslulaganna ná ekki einu sinni til þess. Auk þess hefur hann ekki atkvæðisrétt á fundum hafnarstjórnar. Þeirri staðhæfingu kærenda að Einar Njálsson hafi mælt með umsókn Norðursiglingar ehf. er harðlega mótmælt og vísað á bug sem tilhæfulausri og órökstuddri.

             Almennt er talið að ákvörðun sé gild ef talið er sannað að áhrif og atkvæði hins vanhæfa nefndarmanns hafi ekki ráðið úrslitum máls. ... Gunnar Bóasson og Einar Njálsson voru ekki vanhæfir. Atkvæði Gunnars Bóassonar réð auk þess engum úrslitum þar sem atkvæðin féllu þannig að 4 nefndarmenn þ.á.m. hann, greiddu því atkvæði að lóðin var úthlutuð Norðursiglingu ehf. Það að einhver hafi beitt áhrifum sínum til að hafa áhrif á úrslit atkvæðagreiðslu eru órökstuddar dylgjur.

Niðurlag.

             Kærði telur að þótt félagsmálaráðuneytið telji einhverja annmarka á málsmeðferðinni sé um slíka minniháttar annmarka að ræða að þeir geti ekki valdið ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Húsavíkur.

             Að því er varðar málsmeðferðarreglur hefur sú regla verið lögð til grundvallar í íslenskum stjórnsýslurétti að stjórnvaldsákvörðun sé ógildanleg ef meðferð málsins verður m.a. talin haldin verulegum annmarka. Ef annmarki á meðferð máls telst almennt til þess fallinn að hafa áhrif á efni ákvörðunar telst hún einnig ógildanleg nema sannanlegt sé að annmarkinn hafi í raun ekki haft áhrif á efni ákvörðunarinnar. ...

             Annmarkinn verður því að vera verulegur sbr. td. SUA:1990:204 og 1991:31 eða annmarkinn verður að hafa haft áhrif á efni ákvörðunar. Lóðinni hefði verið úthlutað til sama aðila þótt aðalmaður hefði verið boðaður eða boðað til fundarins með sólarhrings fyrirvara o.s.fr.v.

             Með vísan til þess er að ofan greinir eru málsástæður kærenda ekki til þess fallnar að valda ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Húsavíkur.“

 

IV.       Niðurstaða ráðuneytisins.

 

             Í máli þessu er fjallað um atvik er áttu sér stað í tíð sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 og því koma sveitarstjórnarlög nr. 45/1998, sbr. bráðabirgðalög nr. 100/1998, ekki hér til skoðunar.

 

Gildi deiliskipulags á miðsvæði hafnarsvæðis:

 

             Það álitaefni hvort um staðfestingu á deiliskipulagi í bæjarstjórn skuli fara eftir núgildandi skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 eða skipulagslögum nr. 19/1964 fellur undir valdsvið umhverfisráðuneytis, sbr. 3. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Sama á við um ágreining málsaðila um gildi deiluskipulags Húsavíkurkaupstaðar og hvort nýting lóðanna brjóti í bága við gildandi aðalskipulag. Með vísan til framangreinds er þessum hluta málsins vísað frá félagsmálaráðuneytinu.

 

Umfjöllun um máli í hafnarstjórn og bæjarstjórn og boðun fundar í hafnarstjórn:

 

             Fyrst skal þess getið að ekki er gerð athugasemd við að málið hafi verið tekið af dagskrá byggingarnefndar og sett á dagskrá hafnarstjórnar, þar sem venja hefur verið hjá Húsavíkurkaupstað að hafnarstjórn fjalli um sambærileg mál á umræddu svæði.

 

             Sveitarfélög hafa sjálfsákvörðunarrétt í eigin málum, sbr. 78. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 1. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Jafnframt hafa sveitarstjórnir ákvörðunarvald um framkvæmd þeirra verkefna sem sveitarfélagið annast skv. 1. mgr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga.

 

             Í 1. mgr. 2. gr. hafnarreglugerðar fyrir Húsavíkurhöfn, sem sett er á grundvelli hafnalaga, segir svo: “Húsavíkurbær er eigandi hafnarinnar. Bæjarstjórn fer með stjórn hafnarmála undir yfirumsjón samgönguráðuneytisins.“ Af þessu leiðir að bæjarstjórn Húsavíkurkaupstaðar fer með fullt ákvörðunarvald um lóðaúthlutanir á hafnarsvæðinu, þ.m.t. umræddar lóðir. Hafnarstjórn tók því ekki endanlega stjórnvaldsákvörðun í máli þessu heldur var hún umsagnaraðili. Umsögn hennar var hins vegar lögð til grundvallar ákvörðunar bæjarstjórnar, en þó er ljóst af gögnum málsins, m.a. af fundargerð bæjarstjórnar Húsavíkurkaupstaðar frá 24. febrúar 1998, að bæjarstjórnin taldi sig ekki bundna af tillögu hafnarstjórnar.

 

             Til að annmarki á meðferð máls leiði til ógildingar stjórnvaldsákvörðunar, verður hann að vera verulegur. Ef annmarki á meðferð málsins telst almennt til þess fallinn að hafa áhrif á efni ákvörðunar, telst hún ógildanleg nema sannanlegt sé að annmarkinn hafi í raun ekki haft áhrif á efni ákvörðunar.

 

             Óumdeilt er í málinu að um boðun fundar í hafnarstjórn skuli fara eftir ákvæðum um fundarboðun V. kafla samþykktar um stjórn Húsavíkurkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 552/1987. Í 2. mgr. 54. gr. samþykktar segir svo: “Formaður nefndar boðar eða lætur boða fundi í nefnd með a.m.k. eins sólarhrings fyrirvara.“ Þegar boðunarfrestur er nákvæmlega tilgreindur í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum eins og gert er í samþykktinni verður boðun fundar að hafa borist fundarmanni innan frestsins. Er því ljóst af gögnum málsins að brotið var gegn 2. mgr. 54. gr. samþykktarinnar.

 

             Þrátt fyrir of skamman boðunarfrest fyrir fund í hafnarstjórn þann 20. febrúar 1998 kom það ekki í veg fyrir að allir boðaðir stjórnarmenn mættu á fundinn. Af fundargerð fundarins verður ekki ráðið að stjórnarmenn hafi gert athugasemd við boðun fundarins. Þegar aðstæður eru slíkar verður ekki talið að frávik frá reglum um fundarboðun leiði til þess að ákvörðun sem tekin er á þeim fundi teljist ógildanleg, enda tilgangur fundarboðunarfrests m.a. sá að gera nefndarmönnum kleift að mæta til fundar. Verður því ekki séð að þessi annmarki á boðun fundar hafnarstjórnar þann 20. febrúar 1998 hafi haft áhrif á efni ákvarðana er teknar voru á fundinum. Má í þessu sambandi benda á að umrætt mál var til umfjöllunar á fundi hafnarstjórnar þann 18. febrúar 1998 þar sem umsækjendur komu til viðræðna við hafnarstjórn. Voru því nefndarmenn vel að sér í málinu. Er niðurstaða ráðuneytisins því sú að samþykkt fundarins um tillögu til bæjarstjórnar um úthlutun umræddra lóða teljist ekki ógild. Af þessu leiðir að ákvörðun bæjarstjórnar um staðfestingu á tillögum hafnarstjórnar verður ekki talin ólögmæt af þessari ástæðu.

 

Aðalmaður í hafnarstjórn ekki boðaður:

 

             Samkvæmt 33. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er skylt að boða alla nefndarmenn til fundar. Ljóst er af gögnum málsins að það var ekki gert þegar boðað var til fundar í hafnarstjórn að morgni 20. febrúar 1998, því einn aðalmanna (Arnar Sigurðsson) var ekki boðaður heldur varamaður hans. Einnig er ljóst að Arnar Sigurðsson var einn af umsækjendum annarrar hinna umræddu lóða, en ekki kemur fram að það hafi verið ástæða þess að hann var ekki boðaður á fundinn þó leiða megi líkur að því.

 

             Í 1. mgr. 45. gr. sveitarstjórnarlaga segir svo: “Sveitarstjórnarmanni ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af. Honum er þó heimilt að gera stuttlega grein fyrir afstöðu sinni. Sveitarstjórn sker umræðulaust úr hvort mál er svo vaxið. Sveitarstjórnarmaður, sem hlut á að máli, má taka þátt í afgreiðslu um hæfi sitt. Sveitarstjórnarmanni, sem veit hæfi sitt orka tvímælis, ber að vekja athygli á því.“ Ákvæði þetta á einnig við um hæfi manna í nefndum á vegum sveitarfélaga, sbr. 5. mgr. 63. gr. sveitarstjórnarlaga.

 

             Með vísan til framangreinds hefði átt að boða Arnar Sigurðsson á fund hafnarstjórnar þann 20. febrúar 1998 og honum hefði verið skylt að sækja fundinn nema lögmæt forföll kæmu í veg fyrir það, sbr. 1. mgr. 55. gr. samþykktar um stjórn Húsavíkurkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar og 4. mgr. 63. gr. sveitarstjórnarlaga. Ekkert liggur fyrir í gögnum málsins um að Arnar Sigurðsson hafi tilkynnt að hann myndi ekki mæta á fund í hafnarstjórn þann 20. febrúar 1998.

 

             Ef nefndarmaður mætir á fund ber nefndinni að skera úr um hæfi hans til að taka þátt í umræðum og atkvæðagreiðslu um úthlutun lóðanna á fundinum, en það mál var eitt af þremur á dagskrá samkvæmt fundargerð. Ef Arnar hefði verið úrskurðaður vanhæfur hefði honum borið að yfirgefa fundarsalinn við umræður og afgreiðslu málsins.

 

             Meginreglan er sú að ekki er skylt að kalla til varamann ef nefndin er ályktunarhæf, sbr. 21. og 57. gr. samþykktar um stjórn Húsavíkurkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar og 1. mgr. 51. gr. sveitarstjórnarlaga, þrátt fyrir að vanhæfur nefndarmaður víki sæti í málinu. Í hafnarstjórn Húsavíkurkaupstaðar sitja fimm nefndarmenn og er hún því ályktunarhæf þegar a.m.k. þrír nefndarmenn mæta á fund.

 

             Af ofangreindu er ljóst að skylt var að boða Arnar Sigurðsson á umræddan fund þrátt fyrir að fyrirhugað væri að ræða um úthlutun lóðanna og hann væri einn af umsækjendum. Á þetta ekki síst við þar sem fleiri mál, er hafnarstjórn ber að fjalla um, voru til umræðu og afgreiðslu og einnig sökum þess að skv. 1. mgr. 45. gr. sveitarstjórnarlaga er vanhæfum nefndarmanni heimilt að gera stuttlega grein fyrir afstöðu sinni til málsins. Þessi háttur á boðun stjórnarmanna er því aðfinnsluverður.

 

             Ráðuneytið telur hins vegar ljóst að sá annmarki á meðferð málsins að Arnar Sigurðsson var ekki boðaður á fund hafnarstjórnar heldur varamaður hans, hafi ekki haft áhrif á efni ákvörðunar bæjarstjórnar Húsavíkurkaupstaðar í máli þessu. Er ákvörðunin því ekki ógild af þessari ástæðu. Ber að árétta að í samþykkt hafnarstjórnar fólst umsögn til bæjarstjórnar sem taldi sig ekki bundna af henni við afgreiðslu sína á

málinu.

 

Hæfi stjórnarmanna:

 

             Um hæfi fulltrúa í nefndum á vegum sveitarfélaga fer eftir 1. mgr. 45. gr., sbr. 5. mgr. 63. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986.

 

             Tengslum einstakra stjórnarmanna í hafnarstjórn Húsavíkurkaupstaðar við aðila málsins er lýst í II. kafla úrskurðar þessa um málsástæður kærenda.

 

             Í 1. mgr. 45. gr. sveitarstjórnarlaga segir m.a. svo: “Sveitarstjórnarmanni ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af.“

 

             Skyldmenni maka að öðrum lið til hliðar teljast að mati ráðuneytisins vera nánir venslamenn í skilningi 1. mgr. 45. gr. sveitarstjórnarlaga. Einstaklingur sem er giftur systkini maka nefndarmanns fellur þar undir enda yfirleitt um sameiginlega hagsmuni hjóna að ræða. Verður því að telja að málið varði nána venslamenn Gunnars Bóassonar svo sérstaklega að ætla megi að viljaafstaða hans hafi getað mótast að einhverju leyti þar af. Ráðuneytið telur þess vegna ljóst að Gunnar Bóasson hafi, sökum tengsla hans við Gunnar Gunnarsson, verið vanhæfur til þess að fjalla um umsóknirnar í hafnarstjórn og taka þátt í atkvæðagreiðslu um þær. Honum bar því að víkja sæti þegar fjallað var um umsóknirnar.

 

             Gunnar Bóasson er ennfremur systursonur Jóns Árna Sigfússonar. Ber að gæta þess að Jón Árni er ekki aðili málsins en hann rekur ferðaþjónustu í Mývatnssveit og hefur verið í samstarfi við Norðursiglingu ehf. Er því um að ræða óbeina hagsmuni Jóns Árna af því að Norðursigling ehf. væri úthlutað lóðinni. Verður ekki séð af gögnum málsins að Jón Árni eigi svo verulega og einstaklega ákveðna hagsmuni að gæta af lóðaúthlutun á hafnarsvæðinu til Norðursiglingar ehf. að það valdi vanhæfi systursonar hans, Gunnars Bóassonar, þrátt fyrir umrætt samstarf.

 

             Kærendur tilgreina að Einar Njálsson, bæjarstjóri, sé þremenningur við Árna og Hörð Sigurbjarnarsyni, sem sóttu um fyrir hönd Norðusiglingar ehf. Við túlkun á 1. mgr. 45. gr. sveitarstjórnarlaga er eins og áður segir höfð hliðsjón af skýringu á 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga. Þar eru vensl við aðila máls einungis talin ná til skyldleika að öðrum lið til hliðar. Er því hvorki nefndarmaður né sveitarstjórnarmaður talinn vanhæfur í málum er varða afa- eða ömmusystkini eða niðja þeirra. Verður því Einar Njálsson ekki talinn vanhæfur við umfjöllun á máli þessu, hvorki í hafnarstjórn né í bæjarstjórn.

 

             Í máli þessu kemur því til skoðunar hvort vanhæfi Gunnars Bóassonar til umfjöllunar um málið í hafnarstjórn, vegna tengsla hans við Gunnar Gunnarsson, valdi ógildi ákvörðunar bæjarstjórnar.

 

             Þó vanhæfur nefndarmaður taki þátt í meðferð máls í stjórnsýslunefnd, veldur það ekki ógildi á niðurstöðu nefndarinnar, ef talið er sannað að áhrif og atkvæði hins vanhæfa nefndarmanns hafi ekki ráðið úrslitum máls.

 

             Ljóst er af gögnum málsins að tillaga hafnarstjórnar um úthlutun lóða á hafnarsvæðinu var samþykkt með fjórum atkvæðum gegn einu. Kemur því fram að atkvæði Gunnars Bóassonar réð ekki úrslitum í atkvæðagreiðslunni um að gera veitingu stærri lóðarinnar til Norðursiglingar ehf. og frestun úthlutunar á minni lóðinni að tillögu til bæjarstjórnar. Jafnframt verður ekki ráðið af fundargerð hafnarstjórnar frá 20. febrúar 1998 að áhrif Gunnars Bóassonar hafi ráðið úrslitum málsins í nefndinni. Enn ber að ítreka að það var síðan bæjarstjórnin sem tók hina endanlegu ákvörðun og hefur í málinu ekki verið gerð athugasemd við meðferð hennar á málinu.

 

             Eftir umræður í bæjarstjórn, sbr. fundargerð frá 24. febrúar 1998, var niðurstaða hennar sú að sex bæjarfulltrúar samþykktu tillögu hafnarstjórnar með viðbótartillögu bæjarstjóra, en þrír sátu hjá.

 

             Með vísan til framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að vanhæfi Gunnars Bóassonar í hafnarstjórn geti ekki leitt til þess að ákvörðun bæjarstjórnar frá 24. febrúar 1998 verði talin ógild.

 

             Dregist hefur að kveða upp úrskurð í máli þessu vegna mikilla anna í ráðuneytinu, meðal annars vegna sveitarstjórnarkosninga í maí sl.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

             Hafnað er kröfu kærenda um að ógilt verði tillaga hafnarstjórnar frá 20. febrúar 1998 og ákvörðun bæjarstjórnar Húsavíkurkaupstaðar frá 24. febrúar 1998 um úthlutun lóðar til Norðursiglingar ehf.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

 

Afrit:   Bæjarstjórn Húsavíkurkaupstaðar

             Hafnarstjórn Húsavíkurkaupstaðar

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta