Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Úrskurður í máli nr. SRN17110031

Ár 2018, þann 10. júlí, er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. SRN17110031

Kæra X

á ákvörðun

sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu

 

I.      Kröfur og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru móttekinni 13. nóvember 2017 kærði X (hér eftir nefndur X), kt. 000000-0000, ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu (hér eftir nefndur sýslumaður) frá 18. október 2017 um að synja umsókn hans um endurnýjun ökuskírteinis. Af kæru verður ráðið að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Kæruheimild er í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

II.      Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins sótti X um endurnýjun ökuskírteinis til sýslumanns þann 10. ágúst 2017 en fyrra skírteini hans rann út þann 12. ágúst 2017. Var umsókn X synjað með ákvörðun sýslumanns þann 18. október 2017. Vísaði sýslumaður til þess að vafamál væri hvort X gæti ekið bifreið örugglega og væri það mat sýslumanns að X fullnægði ekki heilbrigðisskilyrðum umferðarlaga nr. 50/1987 og reglugerðar um ökuskírteini nr. 830/2011. Í kjölfarið sendi X erindi til ráðuneytisins sem var móttekið þann 13. nóvember 2017. Taldi ráðuneytið á þeim tíma að af erindi X mætti ráða að hann væri að kæra ákvörðun sýslumanns um að skylda hann til að gangast undir ökupróf, en engin frekari gögn fylgdu kæru X. Var það niðurstaða ráðuneytisins að um væri að ræða ákvörðun sem teldist liður í meðferð máls og væri ekki kæranleg til ráðuneytisins. Var X bent á það að leggja fram kæru kæmi til þess að umsókn hans um ökuskírteini yrði synjað. Þann 11. apríl 2018 bárust ráðuneytinu frekari gögn frá X, þ.á m. ákvörðun sýslumanns frá 18. október 2017 um að synja umsókn X um endurnýjun ökuskírteinis. Var málið þá tekið til meðferðar sem kæra á þeirri ákvörðun.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 12. apríl 2018 var sýslumanni gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið með bréfi embættisins mótteknu 27. apríl 2018.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 3. maí 2018 var X gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum sýslumanns. Bárust þær athugasemdir ráðuneytinu með bréfi X mótteknu 25. maí 2018.

Með bréfi til X dags. 12. júní 2018 tilkynnti ráðuneytið að gagnaöflun væri lokið og málið væri tekið til úrskurðar.

 

III.    Málsástæður og rök X

Í bréfi X mótteknu 13. nóvember 2017 kvartar hann yfir því að hafa verið þvingaður í próf í aksturshæfni vegna umsóknar hans um endurnýjun ökuskírteinis. Telur X að ekki hafi verið ástæða til að láta hann undirgangast próf í aksturshæfni. Í bréfi X frá 11. apríl 2018 greinir X frá því að hann uppfylli öll skilyrði til að fá ökuskírteini sitt endurnýjað. Í athugasemdum X mótteknum 25. maí 2018 mótmælir hann skýrslu prófdómara þar sem fram komi að hann geti ekki ekið bifreið örugglega

 

IV.    Ákvörðun og umsögn sýslumanns

Í ákvörðun sýslumanns kemur fram að lagt hafi verið fyrir X að gangast undir próf í aksturshæfni samkvæmt 15. gr., sbr. 4. gr., reglugerðar um ökuskírteini. Hafi sýslumanni borist erindi frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu ásamt lögregluskýrslu frá 21. maí 2017 vegna tilkynningar til lögreglu um hugsanlega ölvaðan ökumann. Hafi það verið mat lögreglu að kanna þyrfti hvort umræddur ökumaður, þ.e. X, væri fær um að stjórna ökutæki örugglega. Hafi verið farið með X til héraðslæknis sem gefið hafi út læknisvottorð dags. 20. maí 2017. Þar hafi komið fram að vafamál væri hvort X væri fær um að aka bifreið örugglega. Þá hafi verið talið að X yrði að sanna hæfni sína til aksturs í prófi. Hafi lögreglu og lækni borið saman um að ástand X væri með þeim hætti að hann gæti ekki ekið bifreið nema að hann sannaði hæfni sína til aksturs með prófi. Hafi X lagt fram læknisvottorð dags. 23. maí 2017 en þar komi ekkert það fram sem bendi til að X geti ekið ökutæki örugglega. Í kjölfarið hafi sýslumaður lagt fyrir X að undirgangast próf í aksturshæfni og hafi X farið í slíkt próf 3. október 2017. Í athugasemdum prófdómara komi fram að prófið hafi verið í samræmi við ítrekuð afskipti lögreglu, þ.e. rásandi aksturslag og snögghemlun að ástæðulausu. Þá komi þar fram að athygli X hafi verið mjög lítil við aksturinn og prófdómari þurft að forða árekstri. Hafi prófdómari verið sammála héraðslækni og teldi það vafamál að X gæti ekið bifreið örugglega.

Þá kemur fram í ákvörðun sýslumanns að samkvæmt 1. ml. 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga megi enginn stjórna bifreið eða bifhjóli nema hann hafi til þess gilt ökuskírteini útgefið af sýslumanni í umboði ríkislögreglustjóra. Samkvæmt 1. ml. 5. mgr. 51. gr. umferðarlaga megi endurnýja ökuskírteini að loknum gildistíma enda fullnægi hlutaðeigandi enn skilyrðum til að fá ökuskírteini útgefið. Umrædd skilyrði séu tilgreind í 48. gr. laganna og í b-lið 2. mgr. sé skilyrði um að umsækjandi sjái og heyri nægilega vel og sé að öðru leyti hæfur andlega og líkamlega til að geta stjórnað ökutæki örugglega, sbr. og 2. mgr. reglugerðar um ökuskírteini nr. 830/2011. Samkvæmt 4. gr. reglugerðar um ökuskírteini beri sýslumanni að kanna hvort umsækjandi fullnægi heilbrigðisskilyrðum. Í tilviki X liggi fyrir gögn frá lögreglu, héraðslækni og athugasemdir prófdómara vegna prófs í aksturshæfni sem sýslumaður hafi gert X að undirgangast á grundvelli laganna. Þá beri læknisvottorð heimilislæknis ekki með sér að X geti ekið bifreið örugglega. Með hliðsjón af tilgreindum gögnum þar sem fram komi að vafamál sé hvort X geti ekið bifreið örugglega sé það mat sýslumanns að hann fullnægi ekki heilbrigðisskilyrðum umferðarlaga og reglugerðar um ökuskírteini. Af þeim sökum synji sýslumaður umsókn X um endurnýjun ökuskírteinis.

Í umsögn sýslumanns kemur fram að lögregla hafi ítrekað haft afskipti af akstri X. Þá hafi lögregla ítrekað óskað eftir því að héraðslæknir kanni hvort X uppfylli heilbrigðisskilyrði umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. reglugerð nr. 830/2011 og viðauka III við reglugerð um lágmarkskröfur um andlega og líkamlega hæfni til að stjórna vélknúnu ökutæki. Í bréfi sýslumanns til Frumherja dags. 24. júlí 2017 sé rökstudd sú ákvörðun sýslumanns að óska eftir því að X undirgengist próf í aksturshæfni. Í athugasemdum vegna þess prófs komi fram að prófdómari sé sammála héraðslækni og telji vafamál að X geti ekið bifreið örugglega. Leggi prófdómari til að ökuréttindi X verði afturkölluð. Með vísan til fyrirliggjandi gagna sé það mat sýslumanns að X uppfylli ekki heilbrigðisskilyrði og því sé honum synjað um útgáfu ökuskírteinis.

 

V.    Niðurstaða ráðuneytisins

Samkvæmt 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 má enginn stjórna bifreið eða bifhjóli nema hann hafi til þess gilt ökuskírteini. Samkvæmt 5. mgr. 51. gr. umferðarlaga er heimilt að endurnýja ökuskírteini að loknum gildistíma enda fullnægi hlutaðeigandi enn skilyrðum til að fá ökuskírteini útgefið. Um skilyrði til þess að öðlast ökuskírteini er fjallað í 2. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Samkvæmt b-lið 2. mgr. 48. gr. er það skilyrði sett að umsækjandi sjái og heyri nægilega vel og sé að öðru leyti nægilega hæfur andlega og líkamlega.  Þá kemur einnig fram í 3. mgr. 1. tl. 3. mgr. 2. gr. reglugerðar um ökuskírteini nr. 830/2011 að umsækjandi skuli uppfylla lágmarksskilyrði reglugerðarinnar  um andlegt og líkamlegt heilbrigði til að geta stjórnað ökutæki örugglega. Samkvæmt 4. mgr. reglugerðar um ökuskírteini kannar sýslumaður hvort umsækjandi fullnægi heilbrigðisskilyrðum. Samkvæmt ákvæðinu byggir sýslumaður á heilbrigðisyfirlýsingu eða læknisvottorði við þá könnun en getur þó krafist þess að frá lækni eða öðrum sérfræðingi verði fengin yfirlýsing eða ítarlegri upplýsingar, svo og að umsækjandi að öðru leyti taki þátt í læknisfræðilegri rannsókn til að skorið verði úr um hvort gefa megi út ökuskírteini eða það skuli skilyrt á einhvern hátt. Í því sambandi getur sýslumaður krafist þess að umsækjandi þreyti próf í aksturshæfni samkvæmt 15. gr.

Fyrir liggur að X sótti um að fá ökuskírteini sitt endurnýjað með umsókn til sýslumanns dags. 10. ágúst 2017, en fyrra skírteini hans rann út þann 12. ágúst 2017. Hafði sýslumaður þá með bréfi þann 24. júlí 2017 gert X að þreyta próf í aksturshæfni, en af gögnum málsins má ráða að á þeim tíma hafi komið til álita af hálfu sýslumanns að afturkalla ökuréttindi X. Telur ráðuneytið að sýslumanni hafi verið rétt að láta X þreyta slíkt próf, sbr. heimild í  1. mgr. 4. gr. reglugerðar um ökuskírteini, enda hafi fyrirliggjandi gögn gefið fullt tilefni til þess.

Meðal fyrirliggjandi gagna er vottorð héraðslæknis dags. 20. maí 2017. Þar kemur fram að héraðslæknir telji vafa leika á því að X sé fær um að aka bifreið örugglega. Er þar mælst til þess að X sanni hæfni sína til aksturs í prófi. Í athugasemdum prófdómara frá 3. október 2017 kemur fram að hann sé sammála héraðslækni og telji vafamál að X geti ekið bifreið örugglega. Leggur prófdómari þar til að ökuréttindi X verði afturkölluð. Þá liggja einnig fyrir gögn frá lögreglu þar sem fram kemur að vafi leiki á því hvort X sé fær um að stjórna ökutæki örugglega.

Það er mat ráðuneytisins, með vísan til fyrirliggjandi gagna, að fallast beri á það mat sýslumanns að X fullnægi ekki heilbrigðisskilyrðum umferðarlaga og reglugerðar um ökuskírteini. Hafi sýslumanni því verið rétt að synja umsókn X um endurnýjun ökuskírteinis. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 18. október 2017 um að synja umsókn X um endurnýjun ökuskírteinis

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta