Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Úrskurður í máli nr. IRR16020223

 Ár 2016, 10. ágúst er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. IRR16020223

 

Kæra Kristins Guðna Jóhannssonar

á ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur

 

I.       Kröfur og kæruheimild

Þann 22. febrúar 2016 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra Kristins Guðna Jóhannssonar, kt. […] (hér eftir KGJ), vegna ákvörðunar Orkuveitu Reykjavíkur á álagningu vatnsgjalds vegna jarðarinnar Neðri Kverná.

Þess er krafist að ráðuneytið felli niður álögð vatnsgjöld Orkuveitu Reykjavíkur á jörðina Neðri Kverná.

Um kæruheimild vísast til 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.

 

II.          Málsatvik og  málsmeðferð

Forsaga málsins er sú að á árinu 1966 gerði Jóhann Ásmundsson (faðir KGJ) bóndi á Kverná samning við sveitarfélagið Eyrarsveit f.h. Vatnsveitu Grundarfjarðar. Samningurinn fól það í sér að afsalað var 1500 m² landspildu úr landi Kvernár ásamt vatnsréttindum úr landinu. Sem endurgjald var ákveðin peningagreiðsla, en í samningnum segir jafnframt:

Auk framangreinds áskilur seljandi sér að fá ókeypis notkun á vatni til jarðarinnar Kvenár um 2“ (tveggja tommu) leiðslu, sem kaupandi sér um tengingu á og lögn að lóðarmörkum frá dælustöð, seljanda að kostnaðarlausu.

Óumdeilt er að Orkuveita Reykjavíkur keypti Vatnsveitu Grundarfjarðar og yfirtók reksturinn þann 1. janúar 2016.

Með bréfi til ráðuneytisins, dags. 22. febrúar 2016, kærði KGJ álagningu Orkuveitu Reykjavíkur á vatnsgjaldi vegna jarðarinnar Neðri Kverná.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 24. febrúar 2016 og 29. mars 2016, var óskað eftir því við KGJ að hann sendi ráðuneytinu frekari gögn málsins, auk þess sem honum var gerð grein fyrir því að kæra vegna álagningar fráveitugjalds ætti ekki undir úrskurðarvald ráðuneytisins og honum leiðbeint í því sambandi.  Gögn bárust ráðuneytinu þann 12. maí 2016. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 23. maí 2016, var Orkuveitu Reykjavíkur gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna ásamt frekari gögnum, auk þess sem óskað var sérstaklega eftir því að Orkuveita Reykjavíkur legði fram samning Jóhanns Ásmundssonar og hreppsnefndar Eyrarsveitar f.h. Vatnsveitu Grundafjarðar frá árinu 1966. Þann 20. júní 2016 barst umsögn Orkuveitu Reykjavíkur ásamt fyrrgreindum samningi frá árinu 1966. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 21. júní 2016, var KGJ gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum Orkuveitu Reykjavíkur og bárust þau andmæli með bréfi, dags. 15. júlí 2016.

 

III.      Málsástæður og rök KGJ

Í kæru kemur fram að árið 1966 hafi Jóhann Ásmundsson bóndi á Neðri Kverná gert samning við sveitarfélagið Eyrarsveit, f.h. Vatnsveitu Grundarfjarðar um vatnstökuréttindi á jörð hans Neðri Kverná, gegn því að jörð hans ásamt jörðinni Kverná þar sem Þorsteinn Ásmundsson bóndi hafi búið, fengju frítt vatn.

Í byrjun árs 2006 hafi Orkuveita Reykjavíkur yfirtekið Vatnsveitu Grundarfjarðar með öllum kvöðum og skilyrðum, þ. á m. samning Jóhanns bónda á Neðri Kverná við Vatnsveitu Grundarfjarðar. Þrátt fyrir þetta hafi Orkuveita Reykjavíkur, árið 2011, hafið gjaldtöku vatns- og fráveitugjalda vegna jarðarinnar Neðri Kverná og krafið KGJ um greiðslu þeirra gjalda. Þessu hafi KGJ mótmælt, með vísan til samningsins frá árinu 1966, án nokkurs skilnings forsvarsmanna Orkuveitu Reykjavíkur. Þá bendir KGJ jafnframt á að Orkuveita Reykjavíkur hafi ekki veitt neina þjónustu á lögbýli hans, hvorki vegna vatns- né fráveitulagna, enda séu allar lagnir í eigu bóndans á Kverná.

Þá bendir KGJ einnig á það að Jóhann Ásmundsson bóndi á Neðri Kverná hafi notið að fullu þeirra vatnsréttinda sem samningur hans við Vatnsveitu Grundarfjarðar frá árinu 1966 kvað á um, meðan hann hafi starfaði sem bóndi. Afkomendur Jóhanns þeir KGJ og bróðir hans Ragnar hafi tekið við að honum látnum og notið sömu vatnsréttinda samkvæmt samningnum.

 

IV.       Málsástæður og rök Orkuveitu Reykjavíkur

Orkuveita Reykjavíkur mótmælir framkominni kæru og telur að fyrirtækinu beri engin skylda til að veita  jörðinni Neðri Kjarná vatn án endurgjalds.

Í umsögn Orkuveita Reykjavíkur kemur fram að vatnsgjald sé lagt á jörðina Neðri Kverná en ekki jörðina Kverná, enda njóti sú jörð ókeypis vatns á grundvelli samnings milli Jóhanns Ásmundssonar og hreppsnefndar Eyrarsveitar f.h. Vatnsveitu Grundarfjarðar. Með samningnum hafi þáverandi bóndi að Kverná afsalað sér tiltekinni landspildu auk vatnsréttindanna til hreppsnefndar Eyrarsveitar, f.h. Vatnsveitu Grundarfjarðar, gegn greiðslu og þess að fá ókeypis vatnsnotkun vegna jarðarinnar Kvernár sbr. 3. mgr. samningsins, sem sé svohljóðandi:

Auk framangreinds áskilur seljandi sér að fá ókeypis notkun á vatni til jarðarinnar Kvernár um 2" (tveggja tommu) leiðslu, sem kaupandi sér um tengingu á og lögn að lóðarmörkum frá dælustöð, seljanda að kostnaðarlausu.

Á grundvelli þessa hafi Jóhann Ásmundsson notið ókeypis vatns vegna jarðarinnar Kvernár, eingöngu. Sú túlkun hafi ekki verið lögð í framangreint orðalag að aðrar jarðir eða lönd skyldu njóta samsvarandi réttar heldur eingöngu jörðin Kverná sem ber landnúmerið 136632. Það sé af þeim sökum sem vatnsgjald sé lagt á jörðina Neðri Kverná sem beri landnúmerin 136635 og 136634.

Þá bendir Orkuveita Reykjavíkur jafnframt á það að vatnstaka þeirra á jörðinni Kverná hafi lagst af fyrir um þremur árum. Í staðinn sé nú tekið vatn úr landi Grundar sem sé aðliggjandi jörð. Sé það gert á grundvelli samnings, frá 10. desember 1997 við eiganda þeirrar jarðar. Það breyti því þó ekki að jörðin Kverná hafi áfram notið þeirra réttinda til ókeypis vatns sem jörðinni hafi verið tryggð með afsalinu frá 1966.

 

V.        Niðurstaða ráðuneytisins

Í stuttu máli lýtur ágreiningur í máli þessu að því hvort Orkuveitu Reykjavíkur sé heimil álagning og gjaldtaka vatnsgjalds á jörðinni Neðri Kverná.

Í 1. mgr. 109. gr. sveitarstjórnarlaga kemur fram að ráðherra hefur eftirlit með því að sveitarfélög gegni skyldum sínum samkvæmt lögunum og öðrum löglegum fyrirmælum. Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga er aðila heimilt að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir um rétt eða skyldu manna sem lúta eftirliti þess skv. 109. gr. laganna. Nánar tiltekið er skilyrði þess að aðili máls geti kært ákvörðun til ráðuneytisins það að um sé að ræða stjórnvaldsákvörðun samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga. Aðeins þær athafnir sveitarfélags sem framkvæmdar eru í skjóli stjórnsýsluvalds heyra undir framangreint ákvæði sveitarstjórnarlaga. Þær ákvarðanir sem ekki eru teknar í skjóli stjórnsýsluvalds teljast vera einkaréttarlegs eðlis og falla því ekki undir gildissvið stjórnsýslulaga. Einungis ákvarðanir sem sveitarfélag tekur í skjóli stjórnsýslulegs valds eru kæranlegar til ráðuneytisins.

Í fyrri úrskurðum ráðuneytisins á sviði sveitarstjórnarmála hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðun um gjaldtöku sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga. Hins vegar eru þeir samningar sem gerðir eru á grundvelli slíkrar ákvörðunar einkaréttarlegs eðlis og verði ágreiningi er varðar þá efnislega almennt ekki skotið til úrskurðar ráðuneytisins.

Í máli þessu liggur fyrir samningur frá árinu 1966 og lýtur ágreiningur aðila að því hvernig beri að túlka ákvæði hans. Slíkur ágreiningur fellur hvorki undir gildissvið stjórnsýslulaga né ákvæði sveitarstjórnarlaga heldur er um einkaréttarlegan ágreining að ræða. Eins og áður er fram komið tekur úrskurðarvald ráðuneytisins ekki til ágreinings er varðar efni einkaréttarlegra samninga og ber því að vísa málinu frá ráðuneytinu.

Ráðuneytið telur ekki tilefni til þess að taka mál þetta til formlegrar umfjöllunar á grundvelli 112. gr. sveitarstjórnarlaga.

 

Úrskurðarorð

Kæru Kristins Guðna Jóhannssonar á ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur á álagningu vatnsgjalds vegna jarðarinna Neðri Kverná er vísað frá ráðuneytinu.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta