Máli nr. IRR16090095
Ár 2017, þann 16. febrúar, er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r
í máli nr. IRR16090095
Kæra Ambassador
ehf.
á ákvörðun
Samgöngustofu
I. Kröfur og kæruheimild
Þann 8. september 2016 barst ráðuneytinu kæra Ambassador ehf., kt. 551009-2620, á ákvörðun Samgöngustofu (hér eftirnefnd SGS) frá 5. september 2016 um að synja beiðni Ambassador um endurnýjun haffærisskírteinis fyrir skipið Arctic Circle (hér eftir AC), sknr. 2920. Af kæru verður ráðið að Ambassador krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og haffærisskírteinið verði endurnýjað.
Kæruheimild er í 18. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012.
II. Málsatvik og málsmeðferð ráðuneytisins
Af gögnum málsins má ráða að við búnaðarskoðun AC þann 26. maí 2016 var gerð athugasemd við staðsetningu ratsjárloftneta á skipinu. Var athugasemdin færð í skoðunarskýrslu og skipaskrá og Ambassador þannig upplýst um hana. Í kjölfarið fékk AC útgefið tímabundið haffærisskírteini til hins 5. september 2016 og gefinn kostur á að bæta úr þeim athugasemdum sem gerðar voru við búnaðarskoðunina. Þann 5. september 2016 var gefið út haffærisskírteini sem gilti til hins 13. september 2016 en jafnframt var Ambassador tilkynnt að það yrði ekki endurnýjað fyrr en bætt hefði verið úr nokkrum atriðum er út af stóðu, þ.m.t. varðandi ratsjárloftnet. Er þar um ræða hinu kærðu ákvörðun í málinu.
Ákvörðun SGS var kærð til ráðuneytisins með tölvubréfi Ambassador mótteknu þann 8. september 2016.
Með bréfi ráðuneytisins dags. 15. september 2016 var SGS gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið með bréfi SGS mótteknu 11. október 2016.
Með bréfi SGS mótteknu 21. október 2016 bárust ráðuneytinu viðbótargögn frá SGS vegna málsins og þann 25. október 2016 bárust ráðuneytinu enn frekari gögn frá stofnuninni.
Með bréfi ráðuneytisins dags. 12. október 2016 var Ambassador kynnt umsögn SGS og gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna málsins. Með bréfi ráðuneytisins dags. 26. október 2016 var Ambassador send viðbótargögn þau er borist höfðu frá SGS. Bárust athugasemdir Ambassador ráðuneytinu með tölvubréfi félagsins mótteknu 1. nóvember 2016.
Með bréfi dags. 4. nóvember 2016 tilkynnti ráðuneytið Ambassador að gagnaöflun væri lokið og málið væri tekið til úrskurðar.
Með tölvubréfi þann 6. febrúar 2017 óskaði ráðuneytið eftir frekari upplýsingum frá SGS. Bárust þær ráðuneytinu með tölvubréfi SGS þann 9. febrúar 2017.
III. Málsástæður og rök Ambassador
Í kæru kemur fram að Ambassador kæri tvær ákvarðanir SGS. Í fyrsta lagi sé kærð ákvörðun SGS frá 5. september 2016 þar sem tilkynnt sé að haffæri AC verði ekki endurnýjað fyrr en bætt hafi verið úr nokkrum atriðum sem útaf standi, þ.m.t. athugasemd vegna ratsjárloftnets. Í öðru lagi sé kærð synjun SGS frá 5. september 2016 á leiðbeiningum til Ambassador þar sem fram kemur að það sé ekki hlutverk SGS að vera í ráðgjöf um tæknilegar úrlausnir í skipum.
Samkvæmt kæru er kröfugerð Ambassador í fjórum liðum. Í fyrsta lagi krefst Ambassador þess að veiting haffæris fyrir AC byggist ekki á takmörkunum sem byggi á órökstuddum kröfum um atriði sem ekki sé gerð krafa um samkvæmt þeim lögum og reglum sem um bátinn gilda. Í öðru lagi sé þess krafist að haffæri verði veitt til þess tíma að björgunarbúnaður þarfnist skoðunar samkvæmt reglum (október 2016). Eftir það verði haffæri veitt án athugasemda til eins árs í senn ef engar málefnalegar ástæður liggi til grundvallar synjun á útgáfu þess. Í þriðja lagi er þess krafist að við ákvörðun þessa og sem og aðrar íþyngjandi ákvarðanir á starfsemi Ambassador sé vísað til viðeigandi réttarheimilda. Í fjórða lagi er þess krafist að SGS sinni leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga í þeim störfum sem tengjast eftirliti með starfsemi Ambassador.
Í kæru vísar Ambassador til þess að félaginu hafi ekki verið gefinn kostur á að gæta andmælaréttar þótt ástæða hefði verið til. Ákvörðun SGS um að synja útgáfu haffærniskírteinis hafi afdrifarík áhrif á rekstur Ambassador þar sem engin viðskipti eigi sér stað ef fyrirtækið geti ekki sinnt grunnstarfsemi sinni sem sé hvalaskoðun. Þá sé lögmæti krafna SGS um úrbætur mjög óljóst. Krefjist SGS þess að radarloftnet verði hækkað þannig að það sé í meiri fjarægð frá farþegum á efri palli AC en nú er. Í ákvörðun SGS sé hvergi vísað til réttarheimilda heldur einungis upplýst um ákvörðun án viðeigandi rökstuðnings. Þá hafi SGS lýst því yfir að það sé ekki hlutverk stofnunarinnar að vera í ráðgjöf um tæknilegar úrlausnir í skipum.
Ambassador vísar til þess að samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga beri SGS að veita leiðbeiningar til félagsins. Hafi Ambassador ítrekað óskað eftir leiðbeiningum, skriflega og munnlega um í hvaða hæð radarskanninn þarf að vera til að stofna ekki heilsu farþega í hættu. Hafi SGS ekki svarað fyrirspurnum Ambassador. Þá skuli stjórnvald samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Veltir Ambassador því fyrir sér hvort þessu ákvæði hafi verið fylgt varðandi radarskannann og bendir á fyrirliggjandi upplýsingar frá WHO og svar SGS við ábendingu Ambassador. Telur Ambassador að ríkari kröfur séu gerðar til fyrirtækisins en annarra í sömu starfsgrein. Þá telur Ambassador að meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið beitt. Hafi ekki verið tekið tillit til verklagsreglna um notkun ratsjánna á bátnum þar sem öllum nauðsynlegum ráðstöfunum sé beitt til að koma í veg fyrir hugsanleg skaðleg áhrif af geislunum. Bendir Ambassador á að radarloftnetið á AC verði ekki fært ofar vegna þess hversu stórt það sé. Ef brugðist verði við beiðni SGS þurfi að kaupa nýjan skanner sem sé minni en sá sem er til staðar. Minni skanner geti aldrei orðið jafn öflugt öryggistæki og það sem nú er. Snúist starfsemi Ambassador um að farþegar njóti útsýnis yfir hafið. Hvalaskoðun sé almennt ekki framkvæmd án útsýnis og því sé undantekning að nota þurfi radarloftnet vegna takmarkaðs skyggnis. Hafi SGS verið upplýst um að sú verklagsregla sé í gildi í undantekningartilvikum að pallurinn sé rýmdur og aðgengi að honum lokað með keðjum. Upplýst hafi verið um tvö tilvik sl. sumar þar sem nota hafi þurft radarloftnetið vegna lélegs skyggnis. Farþegar séu almennt ekki utan dekks þegar þannig ber undir en í bæði skiptin hafi keðjurnar verið settar á til að tryggja að engin farþegi færi upp á dekkið. Telur Ambassador að ákvörðun SGS sé íþyngjandi og dragi úr öryggi skipsins og þar með áhafnar og farþega.
Í andmælum sínum ítrekar Ambassador að í ákvörðun SGS sé ekki vísað í nein lög, reglur eða önnur fyrirmæli sem styðji íþyngjandi kröfu SGS um að krefjast kostnaðarsamra aðgerða sem tengist ratsjárloftnetum skipsins. Núverandi loftnet sé mjög stórt og þungt og óframkvæmanlegt að hækka það líkt og krafist er. Til að bregðast við kröfu SGS þyrfti að fjárfesta í léttari og nettari búnaði sem yrði ekki jafn öflugur og sá búnaður sem nú er til staðar. Þá sé því ranglega haldið fram af SGS að Ambassador hafi ekki lagt fram gögn frá framleiðanda ratsjárloftnetanna sem sýni fram á að örbylgjugeislarnir sem þau varpi frá sér séu skaðlausir mönnum utan skilgreinds hættusvæðis. Þvert á móti hafi slík gögn verið lögð fram. Þá telur Ambassador að þau álit sem SGS vísar til ekki styðja óskýrar kröfur SGS. Hafi SGS hvorki tekið til greina röksemdir Ambassador sem byggi á handbók um þau tæki sem um ræðir né hafi stofnunin tekið mark á gögnum sem lögð hafi verið fram frá opinberum aðilum, s.s. kanadísku strandgæslunni og Alþjóða heilbrigðisstofnuninni (WHO). Þessi í stað álykti SGS sem svo að fyrst fram komi í áliti WHO að ekki sé búið að útiloka að geislun geti átt sér stað, þótt ekki hafi verið staðfest að svo sé, sé rétt að setja fram íþyngjandi kröfur án rökstuðnings. Þá bendir Ambassador á að aflað hafi verið gagna úr heildarlista með haffærisskírteini Andreu, sknr. 2787. Það sem þar komi fram stangist á við fullyrðingar SGS um að niðurstaðan hafi verið sú að gera kröfu um hækkun ratsjárloftnetsins. Þvert á móti komi fram ákvæði í haffærisskírteini þess skips sem séu nákvæmlega þau sem Ambassador hafi óskað efti að verði niðurstaðan í þessu máli. Í því haffærisskírteini sé ekkert sem bendi til að notkun efri radarskanna sé óheimil með farþega á stýrishúsþaki og engar kvaðir um hækkun radarskanna. Því sé rökstuðningi um sambærilegar kröfur hafnað sem röngum. Þá bendir Ambassador á að farþegar hafi ávallt verið látnir njóta vafans. Aldrei hafi staðið til að kveikja á neðra ratsjárloftneti með farþega á pallinum sem er aftan við loftnetin. Þess vegna gildi sú verklagsregla að rýma pallinn ef til þess kemur að kveikja þurfi á ratsjárloftnetinu. Þar með hafi ráðstafanir verið gerðar til að tryggja að farþegar séu ávallt langt fyrir utan skilgreint hættusvæði. Einnig ítrekar Ambassadir sjónarmið um að leiðbeiningarskyldu hafi ekki verið gætt.
Ambassador bendir á að þann 8. september 2016 hafi fyrirtækið lagt fram teikningu sem sýni hættusvæði núverandi staðsetningar ratsjárloftnetanna. Á þeirri teikningu megi sjá að hættusvæði neðra loftnetsins sé utan farþegapalls og þess hærra sé á mörkum farþegapallsins en ofan höfuðhæðar eins og krafist er af hálfu SGS. Teikningarnar séu unnar á grundvelli leiðbeininga frá framleiðanda ratsjárloftnetanna og hafi SGS ekki brugðist við innsendingu þeirra. Þá liggi ekkert fyrir um það af hálfu SGS hver staðsetning ratsjárloftenetanna eigi að vera. Þá ítrekar Ambassador að rannsóknarreglu stjórnsýslulaga hafi ekki verið fylgt. Bendir Ambassador á að SGS líti framhjá þeim þætti sem styður málstað fyrirtækisins um að ekki hafi tekist að sýna fram á að fólki stafi hætta af hefðbundnum ratsjárloftnetum eða geislum þeirra. Önnur framlögð gögn beri þess merki að SGS hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu áður en ákvörðun var tekin. Þá styðji svör systurstofnana SGS á Norðurlöndum ekki við kröfugerð SGS. Þá vísar Ambassador til þess að meðalhófs hafi ekki verið gætt. Bendir Ambassador á að fullnægjandi aðgerðir til að vernda hagsmuni farþega felist í því að ratsjá sé aldrei sett í gang þegar farþegar eru í grennd við hættusvæðið en ekki því hvort íþyngjandi kröfur séu gerðar en hæfilegur aðlögunartími gefinn til að uppfylla örokstuddar kröfur stjórnvalds.
IV. Ákvörðun og umsögn SGS
Ákvörðun SGS var kynnt Ambassador með tölvubréfi þann 5. september 2016. Þar kemur fram að SGS hafi yfirfarið umsókn Ambassador um haffæri. Ákveðið hafi verið að gefa út haffæri á AC sem gilti til og með 13. september 2016. Það haffæri yrði ekk endurnýjað fyrr en bætt hefði verið úr nokkrum atriðum er út af stæðu, þ.m.t. skoðunaratriði 3990 (ratsjárloftnet).
Í umsögn SGS kemur fram að við búnaðarskoðun AC þann 26. maí 2016 hafi verið gerð athugasemd við staðsetningu ratsjárloftneta og hún færð í skoðunarskýrslu og skipaskrá og Ambassador þannig upplýst um athugasemdina. Snúist ágreiningurinn um heimild og réttmæti kröfu SGS hvað varðar staðsetningu ratsjárloftneta á AC.
SGS annist stjórnsýslu er lúti að siglingamálum, þ.m.t. eftirlit með skipum. Hafi SGS eftirlit með því að starfsemi sem sætir eftirliti stofnunarinnar sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur eða samþykktir sem um viðkomandi starfsemi gilda, sbr. lög um SGS nr. 119/2012. Lög nr. 47/2003 gildi um öll íslensk skip. Samkvæmt 4. mgr. 1. gr. laganna séu farþegaflutningar í atvinnuskyni, þ.m.t. skoðunar- og veiðiferðir ferðamanna með skipum sem falla undir lögin, háðir leyfi SGS. Hvert skip skuli smíðað og búið á þann hátt að öryggi mannslífa sé tryggt eins og kostur er og með tilliti til þeirra verkefna sem því er ætlað á hverjum tíma. Þá sé markmið laganna að tryggja öryggi íslenskra skipa, áhafna þeirra og farþega. Í reglugerð nr. 463/1998 sé fjallað um leyfi til farþegaflutninga með skipum. Reglugerðin gildi innan íslenskrar lögsögu um öll íslensk skip sem flytja farþega í atvinnuskyni á sjó, ám eða vötnum án tillits til stærðar. Undir farþegaflutninga í atvinnuskyni falli m.a. skoðunar- og veiðiferðir með ferðamenn á skipum. Farþegaflutningar í atvinnuskyni með skipum sem reglugerðin gildir um séu háðir leyfi SGS. Meðal skilyrða slíks leyfis sé að framkvæmd hafi verið skoðun á skipinu í samræmi við lög um eftirlit með skipum og að sú skoðun hafi leitt í ljós að fullnægt sé ákvæðum laga um eftirlit með skipum og reglum settum samkvæmt þeim. Þá sé SGS heimilt að setja önnur sérstök skilyrði fyrir útgáfu leyfis í því skyni að auka öryggi skipsins, skipverja og farþega.
Á grundvelli laga um eftirlit með skipum gildi reglugerð nr. 1017/2003 um skoðanir á skipum og búnaði þeirra. Um útgáfu haffærisskírteina sé fjallað í 16. gr. laga um eftirlit með skipum og 21. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga um eftirlit með skipum geti SGS ef í ljós kemur að skip, búnaður eða örugg starfsemi sé ekki í samræmi við lögin, reglur, eða önnur fyrirmæli, fyriskipað að úr því skuli bætt þegar í stað eða innan ákveðins frests. Gögn frá framleiðendum ratsjárloftneta geri almennt fyrirvara um að ratsjárloftnet skuli sett upp fyrir ofan höfuðhæð vegna hættu á geislun. Vandfundin muni vera gögn frá framleiðendum ratsjárloftneta sem ekki geri slíkan fyrirvara. Ambassador hafi ekki lagt fram gögn frá framleiðanda ratsjárloftnetanna sem sýna fram á að örbylgjugeislarnir sem þau varpi sér séu skaðlausir mönnum. Í þeim gögnum frá framleiðanda sem Ambassador hafi lagt fram segi þvert á móti að aldrei megi horfa beint í ratsjárloftnetið.
SGS kveðst áður hafa átt við sambærilegt álitaefni, þ.e. staðsetningu ratsjárloftnets. Í því máli hafi útgerð skips mótmælt kröfu SGS um hækkun loftnetsins. Við rannsókn þess máls hafi SGS m.a. aflað álits frá umboðsaðila ratsjárloftnetsins. Niðurstaðan hafi verið sú að rétt væri að gera kröfu um hækkun ratsjárloftnetsins. Telur SGS ljóst að geislar frá ratsjárloftnetum séu ekki með öllu skaðlausir mönnum. Ávallt sé gert ráð fyrir því að rétt sé að skýla mönnum fyrir geislun frá ratsjárloftnetum þar sem líkur séu á skaðlegum áhrifum. Í ljósi markmiðs laga um eftirlit með skipum að tryggja öryggi farþega, fyrirmæla laganna um að hvert skip skuli búið út á þann hátt að öryggi mannslífa sé tryggt auk þess annarra framangreindra sjónarmiða, verði að telja að SGS sé rétt og skylt að gera kröfu um að ratsjárloftnet séu staðsett fyrir ofan höfuðhæð eða þannig að skaðlaus séu mönnum samkvæmt leiðbeiningum frá framleiðanda. Verði talið að vafi leiki á um hættu frá ratsjárloftnetum verði farþegar að fá að njóta vafans.
Hvað varðar leiðbeiningarskyldu stjórnvalda bendir SGS á að í henni felist að leiðbeina beri aðila máls um þær réttarreglur sem gilda í viðkomandi stjórnsýslumáli og um þau skilyrði sem þarf að uppfylla til að fá tiltekin leyfi útgefin af viðkomandi stjórnvaldi, t.d. hvað varðar skil á gögnum, hvar eyðublöð er að finna o.fl. Hægt sé að veita upplýsingar bæði skriflega og munnlega. Leiðbeiningarskylda stjórnvalda nái ekki það langt að SGS beri að aðstoða við gerð teikninga eða vera í rágjöf um tæknilegar útfærslur. Hlutverk SGS sé að yfirfara innsend gögn og samþykkja eða hafna. SGS leiðbeini um reglur og málsmeðferð sem gilda í þeim málum sem stofnunin fer með. Hafi Ambassador verið leiðbeint í samræmi við leiðbeiningarskyldu stjórnsýslulaga. Í gögnum málsins komi fram að í framkvæmd hafi verið fallist á að fyrirkomulag ratsjárloftneta sé teiknað inn á aðalfyrirkomulag skipsins og metið hvort geislunin geti verið varasöm fólki. Þá sé Ambassador leiðbeint frekar um að fyrirtækinu beri að senda til SGS teikningar til samþykktar nýju fyrirkomulagi ratsjárloftneta og handbækur með upplýsingum um uppsetningu þeirra leiki vafi á því að fólk geti orðið fyrir geislun frá þeim. Sé leiðbeiningarskyldunni þar fylgt. Hafi Ambassador frá upphafi verið gerð skýr grein fyrir að ljóst þyrfti að vera að staðsetning ratsjárloftnets myndi ekki skapa hættu fyrir fólk. Þá hafnar SGS sem órökstuddum fullyrðingum Ambassador um að rannsóknarreglu og jafnræðisreglu hafi ekki verið gætt. Beri gögn málsins með sér að rannsóknarregla stjórnsýsluréttarins hafi verið höfð í heiðri. Þá standist ekki fullyrðingar Ambassador um að gerðar séu ríkari kröfur til fyrirtækisins en annarra í sömu grein. Hvað varðar meðalhófsreglu bendir SGS á að sumarið 2016 hafi Ambassador fengið útgefið haffæri með því skilyrði að útsýnispallurinn yrði lokaður farþegum á meðan ratsjár væru í gangi. Þannig hafi fyrirtækið fengið svigrúm til að gera nauðsynlegar lagfæringar og skila inn þar til gerðum gögnum. Núgildandi haffæri bátsins sé skilyrt þannig að pallurinn verði lokaður farþegum enda komið inn á vetrartíma og meiri þörf á notkun ratsjár. Áréttar SGS að notkun ratsjárloftneta sé mikilvægur liður í öruggri siglingu. Telur SGS óforsvaranlegt að heimila notkun pallsins með því skilyrði að hann sé rýmdur í hvert sinn sem setja á ratsjánna í gang. Myndi slíkt grafa undan öryggi farþega.
Þá óskaði ráðuneytið með tölvubréfi þann 6. febrúar 2016 eftir frekari upplýsingum SGS vegna athugasemda Ambassador varðandi skráningu skipsins Andreu/2787. Var þess farið á leit að SGS upplýsti hvort tilvísun Ambassador í skráningu þess skips væri rétt sem og hvort um sambærilegt mál væri að ræða. Í svari SGS kemur fram að upplýsingar varðandi skráningu skipsins Andreu séu réttar en hins vegar séu málin ekki sambærileg. Þegar skipið Andrea hafi verið flutt til landsins hafi SGS gert athugasemdir við hæð neðra ratsjárloftnets skipsins og gert kröfu um að það yrði fært ofan við höfuðhæð. Það hafi hins vegar verið mat SGS að þrátt fyrir hækkun neðra ratsjárloftnets hafi það verið of lágt og gera yrði kröfu um að slökkt yrði á því þegar farþegar væru á brúarþaki. Þá sé hins vegar ennþá hægt að hafa kveikt á efra ratsjárloftneti og þannig ekki komin upp sú staða að alfarið verði slökkt á ratsjá. Í tilfelli AC séu bæði loftnetin staðsett það lágt að slökkva þyrfti alfarið á ratsjánum, þ.e. báðum loftnetum. Sé mikilvægt að halda því til haga að notkun ratsjár sé mikilvægur liður í öruggri siglingu skipsins. Til skýringa bendir SGS á að efra ratsjárloftnet AC sé staðsett í 2,17 m hæð sem er neðar en neðra ratsjárloftnet Andreu sem er í 2,40 m hæð. Radargeislinn í AC dreifist upp og niður miðað við 2,17 m hæð, þannig að geislinn frá ratsjárloftneti er lægri en 2,17 m t.d. í 5 m fjarlægð frá ratsjárloftnetinu og því mögulega í höfuðhæð. Geislinn frá neðra ratsjárloftneti sé enn lægri og því augljóslega í höfuðhæð. Geislinn frá neðra ratsjárloftneti í Andreu sé í 2,16 m hæð í nokkurri fjarlægð frá loftnetinu þar sem ætla má að farþegar standi. Þá bendir SGS á að AC hafi verið úthlutað farsviði B sem er mun víðara en farsvið Andreu sem hafi farsvið C. Væri með öllu óásættanlegt að AC sem hafi stærra farsvið væri heimil sigling með slökkt á ratsjám.
V. Niðurstaða ráðuneytisins
Til umfjöllunar er ákvörðun SGS frá 5. september 2015 um að synja beiðni Ambassador um endurnýjun haffærisskírteinis fyrir skipið AC, sknr. 2920. Var hin kærða ákvörðun tilkynnt Ambassador með tölvubréfi þann sama dag. Er hvorki að finna í ákvörðun SGS nánari rökstuðning fyrir henni né heldur leiðbeiningar um kæruheimild. Telur ráðuneytið rétt að benda SGS á að þegar um íþyngjandi ákvarðanir er að ræða sé það í samræmi við góða stjórnsýsluhætti að tilkynna þær aðilum máls með formlegum hætti þar sem þess er gætt að rökstuðningur ákvörðunar komi fram sem og leiðbeiningar um kæruheimild. Er þeim tilmælum beint til SGS að gæta betur að framangreindu í framtíðinni. Hins vegar telur ráðuneytið að framangreint hafi ekki áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Hvað varðar aðrar kröfur Ambassador sem greint hefur verið frá hér að framan telur ráðuneytið að kæruefnið einskorðist við þá ákvörðun SGS að synja um endurnýjun haffærisskírteinis fyrir AC. Aðrar kröfur Ambassador lúti að athugasemdum við málsmeðferð SGS við hina kærðu ákvörðun og mun ráðuneytið fjalla um þær í því ljósi.
Ráðuneytið telur ljóst af gögnum málsins að ágreiningsefnið sé hvort SGS er heimilt að gera kröfu um hækkun ratsjárloftneta skipsins AC á grundvelli öryggissjónarmiða. Vísar SGS þannig til þess að ratsjárloftnet verði að vera staðsett fyrir ofan höfuðhæð þannig að geisli lendi ekki á farþegum. Varði ágreiningurinn þannig réttmæti kröfu SGS hvað varðar staðsetningu ratsjárloftneta á AC. Er það krafa Ambassador að ákvörðun SGS verði felld úr gildi þar sem ákvörðunin byggist á órökstuddum kröfum auk þess sem ekki hafi verið gætt að þar til greindum ákvæðum stjórnsýslulaga við meðferð málsins af hálfu SGS. Hafa sjónarmið Ambassador verið rakin hér að framan.
Líkt og fram kemur í umsögn SGS annast stofnunin alla stjórnsýslu er lýtur að siglingamálum, þar með talið eftirlit með skipum. Hefur SGS eftirlit með því að starfsemi sem stofnunin hefur eftirlit með sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur eða samþykktir sem um viðkomandi starfsemi gilda, sbr. lög um SGS, stjórnsýslustofnun samgöngumála nr. 119/2012.
Um eftirlit með skipum gilda lög með því sama nafni nr. 47/2003. Samkvæmt 5. mgr. 1. gr. laganna eru farþegaflutningar í atvinnuskyni, þ.m.t. skoðunar- og veiðiferðir ferðamanna, með skipum sem lögin gilda um háðir leyfi SGS. Er markmið laganna m.a. að tryggja öryggi íslenskra skipa, áhafna þeirra og farþega, sbr. 6. mgr. 1. gr. laganna.
Um leyfi til farþegaflutninga með skipum er fjallað í reglugerð nr. 463/1998. Gildir reglugerðin innan íslenskrar lögsögu um öll íslensk skip sem flytja farþega í atvinnuskyni á sjó, ám eða vötnum án tillits til stærðar. Þar undir falla m.a. skoðunar- og veiðiferðir með ferðamenn á skipum í atvinnuskyni. Farþegaflutningar í atvinnuskyni með skipum sem falla undir reglugerðina eru háðir leyfi SGS. Meðal skilyrða slíks leyfis er að framkvæmd hafi verið skoðun á skipinu í samræmi við lög um eftirlit með skipum og að sú skoðun hafi leitt í ljós að fullnægt sé ákvæðum þeirra laga og reglum settum samkvæmt þeim. Þá er SGS heimilt að setja önnur skilyrði fyrir útgáfu leyfisins í því skyni að auka öryggi skipsins, skipverja og farþega.
Á grundvelli laga um eftirlit með skipum hefur verið sett reglugerð um skoðanir á skipum og búnaði þeirra nr. 1017/2003. Um útgáfu haffærisskírteina er fjallað í 16. gr. laganna og 21. gr. reglugerðarinnar. Segir í 1. mgr. 16. gr. laganna að að skoðunargerð lokinni úrskurði SGS hvort fullnægt er ákvæðum laga og reglna um smíði, búnað og örugga starfsemi skips og hvort útgáfa skírteina, áritun eða endurnýjun skírteina eigi sér stað. Samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laganna getur SGS ef í ljós kemur að skip, búnaður eða örugg starfsemi er ekki í samræmi við lögin, reglur eða önnur fyrirmæli fyrirskipað að úr því skuli bætt þegar í stað eða innan ákveðins frests.
Ráðuneytið tekur undir það með SGS að á grundvelli öryggissjónarmiða sé mikilvægt að ratsjárlofnet séu staðsett fyrir ofan höfuðhæð þannig að ekki sé hætta á að geislar geti lent á farþegum skips. Sé slíkt í samræmi við leiðbeiningar framleiðenda ratsjáa enda geri gögn frá þeim almennt fyrirvara um að ratsjárloftnet skuli sett upp fyrir ofan höfuðhæð vegna hættu á geislun. Tekur ráðuneytið undir það með SGS að ekki verði séð að fyrir liggi gögn frá framleiðanda ratsjárloftneta skipsins AC sem sýni fram á að örbylgjugeislarnir sem þau varpi frá sér séu skaðlausir mönnum. Ber þannig ávallt að gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir að farþegar geti orðið fyrir geislum frá ratsjárloftnetum.
Ráðuneytið áréttar að það er eitt af meginmarkmiðum laga um eftirlit með skipum að tryggja öryggi farþega og skal hvert skip búið á þann hátt að öryggi þeirra sé tryggt. Í því ljósi telur ráðuneytið að fallast beri á það með SGS að stofnuninni sé bæði rétt og skylt að gera þá kröfu að ratsjárloftnet séu staðsett fyrir ofan höfuðhæð þannig að tryggt sé að farþegum stafi ekki hætta af notkun þeirra. Þá áréttar ráðuneytið einnig að notkun ratsjár er mikilvægur öryggisþáttur í siglingu hvers skips.
Hvað varðar málsástæður Ambassador vísar ráðuneytið til þess að 3. mgr. 12. gr. laga um eftirlit með skipum felur í sér að ef í ljós kemur að skip, búnaður eða örugg starfsemi sé ekki í samræmi við lögin, reglur eða önnur fyrirmæli getur SGS fyrirskipað að úr því skuli bætt þegar í stað eða innan ákveðins frests. Þá segir í 1. mgr. 16. gr. laganna að skoðunargerð lokinni úrskurði SGS hvort fullnægt er ákvæðum laga og reglna um smíði, búnað og örugga starfsemi skips og hvort útgáfa skírteina, áritun eða endurnýjun skírteina eigi sér stað. Þrátt fyrir að hvergi í lögum eða reglugerðum sé minnst á staðsetningu eða hæð ratsjárloftneta er það mat ráðuneytisins að SGS geti á grundvelli eftirlitshlutverks stofnunarinnar og með vísan til öryggissjónarmiða, gert kröfu um að staðsetning slíkra loftneta sé með þeim hætti að þau séu skaðlaus farþegum samkvæmt leiðbeiningum frá framleiðanda. Í því sambandi bendir ráðuneytið á að hvert skip skuli búið á þann hátt að öryggi allra um borð sé tryggt. Beri eigendum skips þannig að hlíta hverjum þeim fyrirmælum sem gefin eru af SGS á grundvelli öryggissjónarmiða og tryggja með þeim hætti öryggi farþega.
Líkt og fram hefur komið liggur fyrir að við búnaðarskoðun AC þann 26. maí 2016 var gerð athugasemd við staðsetningu ratsjárloftneta á skipinu. Var athugasemdin færð í skoðunarskýrslu og skipaskrá og Ambassador þannig upplýst um hana. Í kjölfarið fékk AC útgefið tímabundið haffærisskírteini til hins 5. september 2016 og gefinn kostur á að bæta úr þeim athugasemdum sem gerðar voru við búnaðarskoðunina. Þann 5. september 2016 var gefið út haffæriskírteini sem gilti til hins 13. september 2016 en jafnframt var Ambassador tilkynnt að það yrði ekki endurnýjað fyrr en bætt hefði verið úr nokkrum atriðum er út af stóðu, þ.m.t. varðandi ratsjárloftnet. Af framangreindu telur ráðuneytið ljóst að Ambassador hafi verið gefinn kostur á að bæta úr framangreindu og gefinn til þess frestur samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga um eftirlit með skipum, en samkvæmt því ákvæði laganna getur SGS ef í ljós kemur að skip, búnaður eða örugg starfsemi þess sé ekki í samræmi við lögin, reglur eða önnur fyrirmæli fyrirskipað að úr því skuli bætt þegar í stað eða innan ákveðins frests. Var Ambassador því fullkunnugt um athugasemd SGS og telur ráðuneytið því að SGS hafi gætt að leiðbeiningarskyldu stofnunarinnar. Þá hafi legið fyrir með skýrum hætti að krafa SGS væri sú að ratsjárloftnet skuli staðsett fyrir ofan höfuðhæð þannig að farþegum stafi ekki hætta af notkun þeirra. Þá telur ráðuneytið einnig að við meðferð málsins hafi SGS gætt að fyrirmælum 10. gr. stjórnsýslulaga og öll nauðsynleg gögn og upplýsingar hafi legið fyrir áður en ákvörðun var tekin. Hvað varðar tilvísun Ambassador til meðalhófsreglu bendir ráðuneytið á að fyrirtækið fékk útgefið tímabundið haffærisskírteini með því skilyrði að útsýnispallurinn yrði lokaður farþegum á meðan ratsjár væru í gangi. Gilti það hafærisskírteini frá lokum maí til byrjun september 2016 og Ambassador þannig gefið nægt svigrúm til að verða við fyrirmælum SGS. Þá telur ráðuneytið að fallast beri á það með SGS að á grundvelli öryggissjónarmiða sé ekki hægt að fallast á það með Ambassador að til álita geti komið að heimila notkun pallsins með því skilyrði að hann sé rýmdur í hvert sinn sem setja á ratsjána í gang. Verður ekki séð að unnt sé að tryggja öryggi farþega á fullnægjandi hátt með þeim hætti.
Hvað varðar tilvísun Ambassador til skipsins Andreu liggur fyrir að þar er ekki um sambærileg mál að ræða. Hvað það varðar vísar ráðuneytið til umfjöllunar SGS hér að framan sem barst ráðuneytinu þann 9. febrúar sl.
Með vísan til alls þess sem rakið hefur verið er það niðurstaða ráðuneytisins að SGS sé heimilt að gera kröfu um staðsetningu ratsjárloftneta um borð í skipinu AC. Beri að tryggja að engum um borð í skipinu geti stafað hætta af notkun þeirra á grundvelli öryggissjónarmiða. Með vísan til þeirra ákvæða laga um eftirlit með skipum sem vísað hefur verið til sé SGS bæði rétt og skylt að krefjast þess að ratsjárloftnet séu staðsett fyrir ofan höfuðhæð og beri Ambassador að hlýta fyrirmælum SGS hvað það varðar. Verði ekki séð af gögnum málsins að unnt sé að tryggja öryggi farþega skipsins AC með öðrum hætti. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest.
Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur uppkvaðning úrskurðar dregist og er beðist velvirðingar á því.
Úrskurðarorð:
Staðfest er ákvörðun Samgöngustofu frá 5. september 2016 um að synja beiðni Ambassador um endurnýjun haffærisskírteinis fyrir skipið Arctic Circle, sknr. 2920.