Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

X - Málsmeðferð við uppsögn skólastjóra tónlistarskóla

A        19. ágúst 1998                                            98060081

                                                                                                                                                              16-1603

 

 

 

 

 

 

             Þann 19. ágúst 1998 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

             Með erindi, dagsettu 10. júlí 1998, óskuðu A, hreppsnefndarfulltrúi, og B, hreppsnefndarfulltrúi, eftir úrskurði félagsmálaráðuneytisins varðandi ýmis atriði tengd málsmeðferð við uppsögn skólastjóra Tónlistarskóla sveitarfélagsins X.

 

             Erindið var sent til umsagnar meirihluta hreppsnefndar sveitarfélagsins X með bréfi, dagsettu 6. ágúst 1998. Umsögn barst ráðuneytinu með bréfi, dagsettu 13. sama mánaðar.

 

I.                Málavextir.

 

             Á fundi hreppsráðs sveitarfélagsins X þann 18. júní 1998 var borin upp tillaga um að segja C upp störfum sem skólastjóra Tónlistarskóla sveitarfélagsins X. Var sú ákvörðun samþykkt með tveimur atkvæðum gegn einu. Sama dag var þessi ákvörðun tilkynnt kæranda með bréfi undirrituðu af sveitarstjóra fyrir hönd sveitarfélagsins. Í bréfinu segir meðal annars: “Samþykktin, sem samþykkt var 2:1, tekur þegar gildi.“ Ennfremur var auglýst laus staða forstöðumanns tónlistarskólans í Morgunblaðinu þann 21. júní 1998. Hreppsnefndin fjallaði síðan um málið á fundi sínum þann 23. júní 1998.

 

II.         Málsástæður kæranda.

 

             Í erindinu er óskað eftir að ráðuneytið úrskurði um eftirfarandi atriði:

“1.   Hvort hreppsráði var heimilt að segja skólastjóra Tónlistarskóla sveitarfélagsins X, C, upp störfum þann 18. júní sl. sbr. sveitarstjórnarlög, gr.nr. 39 og 56, Samþykkt hreppsins, gr.nr. 52 og 64 og Skipulagsskrá fyrir Tónlistarskóla sveitarfélagsins X frá 10. maí 1994 gr.nr. 11.

2.          Hvort lagalega rétt hafi verið staðið að því hvernig málið var lagt fyrir hreppsnefnd þann 23. júní sl., þar sem málið var ekki sérstakur dagskrárliður. Sbr. sveitarstjórnarlög, gr.nr. 49 og Samþykkt hreppsins, gr.nr. 15, mgr. 1, og 60.

3.   Hvort það hafi verið lagalega rétt að afhenda C uppsagnarbréf strax þann 18. júní og auglýsa stöðu “forstöðumanns“ tónlistarskólans í Morgunblaðinu þann 21. júní, þ.e. áður en hreppsnefnd hafði haft tækifæri til að fjalla um uppsögnina eða tillöguna, sem fól í sér tilurð þessarar nýju stöðu.

4.      Ef úrskurður ráðuneytisins í einhverjum ofangreindra liða er sá að ekki hafi verið farið að lögum, er þá samþykkt hreppsnefndarfundarins 23. júní sl. um málið lögmæt?“

 

             Í greinargerð í erindinu kemur fram að kærendur telja að þar sem ágreiningur hafi verið í hreppsráði og skipulagsskrá tónlistarskólans hafi enn verið í fullu gildi, hafi hreppsráð ekki haft heimild til að taka fullnaðarákvörðun um ráðningu og uppsögn skólastjóra. Slíkt skuli vera í höndum hreppsnefndar í samráði við skólanefnd tónlistarskólans. Slík mál sem hér um ræðir þurfi að koma sem sérstakt mál frá hreppsráði til hreppsnefndar og það nægi ekki að það komi fyrir hreppsnefndina sem hluti af fundargerð hreppsráðs. Einnig að bíða hefði þurft eftir samþykkt hreppsnefndar um málið áður en C hafi verið afhent uppsagnarbréf og áður en auglýst hafi verið ný staða. Auglýst hafi verið ný stjórnunarstaða sem koma hafi átt í stað annarrar sem hreppsnefnd átti að ráða í og því hafi hreppsnefndin átt að fjalla um hina nýju stöðu áður en hún hafi verið auglýst. Í framhaldi af þessu sé málsmeðferðinni það ábótavant að í raun sé samþykkt hreppsnefndarinnar ekki gild.

 

III.        Málsástæður kærða.

 

             Um málsástæður kæranda segir meðal annars svo í umsögn meirihluta hreppsnefndarinnar:

             “1. Í bréfi minnihluta hreppsnefndar sveitarfélagsins X er í fyrsta lagi byggt á því að hreppsráð sveitarfélagsins X hafi ekki verið heimilt að segja C upp starfi hennar sem skólastjóra Tónlistarskóla sveitarfélagsins X. Er byggt á því að þessa ákvörðun hafi átt að taka af hreppsnefnd sveitarfélagsins X. Áður hefur verið vikið að því að hin endanlega ákvörðun um uppsögn C var tekin af hreppsnefnd sveitarfélagsins X á opnum hreppsnefndarfundi þann 23. júní 1998. Verður því ekki annað séð en að formlega hafi verið staðið rétt að þessari ákvarðanatöku.

             Það skal sérstaklega á það bent, að í þeim lagagreinum sem minnihluti hreppsnefndar sveitarfélagsins X byggir á í bréfi sínu, kemur ekkert fram um það hvernig eigi að standa að uppsögn starfsmanna hreppsins. Í tilvitnuðum greinum sveitarstjórnarlaga og skipulagsskrá Tónlistarskóla sveitarfélagsins X er fjallað um ráðningu starfsmanna hreppsins, en hins vegar er þar ekki fjallað um uppsögn starfsmanna. Þótt gert sé ráð fyrir því sem meginreglu að það stjórnvald sem ráði til starfa skuli leysa starfsfólk frá störfum, þá er stjórnvaldi heimilt að fjalla um þá ákvörðun á fleira en einu stjórnsýsustigi að því gefnu að hin endanlega ákvörðun verði tekin af réttu stjórnvaldi.

             Hreppsráði sveitarfélagsins X var því heimilt að fjalla um uppsögn C á fundi ráðsins, enda var það eðlileg ráðstöfun þar sem jafnframt var til umfjöllunar á fundi hreppsráðsins tillaga um verulega breytingu á rekstri og fyrirkomulagi Tónlistarskóla sveitarfélagsins X. Sú ákvörðun sem tekin var á fundi hreppsráðsins var hins vegar ekki endanleg, enda bar hreppsnefnd sveitarfélagsins X að taka hina endanlegu ákvörðun sbr. 39. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Verður því ekki séð að þetta atriði valdi ógildi ákvörðunarinnar.

             2. Minnihluti sveitarfélagsins X byggir í öðru lagi á því sem ógildingarástæðu að uppsögn C hafi ekki verið sérstakur dagskrárliður á fundi hreppsnefndar sveitarfélagsins X þann 23. júní 1998.

             Eins og fram kemur í greinargerð sveitarfélagsins X vegna stjórnsýslukæru  C var fundargerðar hreppsráðs sveitarfélagsins X getið í fundarboði til hreppsráðsfundar (sic.). Þá fylgdi fundarboði jafnframt endurrit af fundargerð hreppsráðs sveitarfélagsins X.

             Í bréfi minnihluta hreppsnefndar sveitarfélagsins X er byggt á því að skylt hafi verið að geta uppsagnar C í dagskrá sem sérstaks dagskrárliðs og er í því skyni vísað til 15. gr. samþykkta hreppsins. Varðandi þetta skal sérstaklega áréttað að einungis er mælt fyrir um skyldu til þess að taka á dagskrá ráðningu starfsmanna hreppsins en ekki uppsögn þeirra. Komist ráðuneytið hins vegar að því að tilgreina hefði átt málið á dagskrá, þá verður ekki annað séð en að þrátt fyrir þetta hafi uppsögn C verið tekin fram með nægilega tilgreindum hætti í dagskrá ásamt fundarboði. Verður því ekki séð að þetta atriði valdi ógildi ákvörðunarinnar.

             3. Í þriðja lagi er í bréfi minnihluta hreppsnefndar sveitarfélagsins X byggt á því að ólöglegt hafi verið að afhenda C uppsagnarbréf hennar áður en hreppsnefnd tók hina endanlegu ákvörðun og jafnframt að ólöglegt hafi verið að auglýsa stöðu forstöðumanns Tónlistarskóla sveitarfélagsins X áður en hreppsnefndin tók hina endanlegu ákvörðun.

             Varðandi þetta skal sérstaklega áréttað að það var eðlileg og réttmæt ráðstöfun að auglýsa stöðu forstöðumanns Tónlistarskóla sveitarfélagsins X eftir fund hreppsráðs enda var brýnt að ráða sem fyrst í hina nýju stöðu forstöðumanns Tónlistarskóla sveitarfélasins X áður en undirbúningur undir nýtt skólaár hæfist. Auglýsingin var svo birt í annað sinn eftir endanlega afgreiðslu hreppsnefndar sveitarfélagsins X. Ekki verður því séð að þetta atriði eigi að valda ógildi ákvörðunarinnar.

             Hvað varðar bréf til C sem dagsett er 18. júní 1998 verður að telja það eðlilega ráðstöfun af hálfu sveitarfélagsins X að senda C upplýsingar um afgreiðslu hreppsráðsins. Hið endanlega uppsagnarbréf var svo sent C þann 24. júní 1998 eftir afgreiðslu hreppsnefndar sveitarfélagsins X á málinu. Ekki verður séð að óheimilt sé lögum samkvæmt að senda bréf með þessum hætti, enda var hér um að ræða löglega afgreiðslu hreppsráðs þótt sú ákvörðun væri ekki endanleg, sbr. 39. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Þessi málsástæða minnihluta hreppsnefndar sveitarfélagsins X getur því ekki valdið ógildi ákvörðunar hreppsnefndar sveitarfélagsins X.

             4. Hér að framan hefur verið fjallað um þær þrjár málsástæður sem minnihluti hreppsnefndar sveitarfélagsins X byggir á í bréfi sínu til ráðuneytisins og telur að eigi að valda ógildi ákvörðunar hreppsnefndar sveitarfélagsins X frá 23. júní 1998. Á þá skoðun minnihlutans verður ekki fallist og hafa hér að framan verið rakin sjónarmið meirihluta hreppsnefndar sveitarfélagsins X varðandi þessar þrjár málsástæður minnihlutans. Er það skoðun meirihluta hreppsnefndar sveitarfélagsins X að ekkert sé athugavert við framangreinda málsmeðferð og að samþykkt hreppsnefndarinnar sé því gild.

             Komist ráðuneytið hins vegar að því að málsmeðferðinni hafi að einhverju leyti verið áfátt, er byggt á því að ekki geti verið um svo verulega ágalla að það valdi ógildi ákvörðunarinnar. Í því sambandi skal bent á það að athugasemdir minnihluta hreppsnefndarinnar snúa eingöngu að formsatriðum, en það er meginregla að mikið þarf út af að bera, svo að stjórnsýsluákvörðun verði talin ógild vegna formságalla. Verður því ekki talið að þau atriði sem minnihluti hreppsnefndar sveitarfélagsins X byggir á í bréfi sínu séu svo alvarleg, ein eða öll saman, að þau geti valdið ógildingu ákvörðunar hreppsnefndar sveitarfélagsins X frá 23. júní 1998 þó rétt væru.“

 

IV.       Niðurstaða ráðuneytisins.

 

             Samkvæmt skipulagsskrá fyrir Tónlistarskóla sveitarfélagsins X var skólinn stofnaður árið 1987. Í skipulagsskránni kemur fram að það er hreppsnefnd sem ræður skólastjóra og var C ráðin til starfans með ráðningarsamningi það ár.

 

             Með samþykkt um stjórn sveitarfélagsins X og fundarsköp hreppsnefndar nr. Y, sem tók gildi að loknum sveitarstjórnarkosningum í maí 1998, var sett á fót hreppsráð í sveitarfélaginu. Í 1. mgr. 52. gr. samþykktarinnar segir meðal annars að hreppsráð fari ásamt sveitarstjóra með framkvæmda- og fjármálastjórn sveitarfélagsins og í 2. mgr. segir meðal annars að hreppsráð geri tillögur til hreppsnefndar um afgreiðslu einstakra mála sem það fær til meðferðar. Jafnframt segir í 2. mgr. að hreppsráði sé þó heimil fullnaðarafgreiðsla mála sem ekki varða verulega fjárhag sveitarsjóðs eða stofnana hans, enda sé ekki ágreiningur milli hreppsráðsmanna eða við sveitarstjóra um slíka afgreiðslu.

 

             Í 1. mgr. 72. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 og 1. mgr. 56. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er svohljóðandi ákvæði: “Sveitarstjórn ræður starfsmenn í helstu stjórnunarstöður hjá sveitarfélagi og stofnunum þess og veitir þeim lausn frá starfi.“ Í 2. mgr. sömu greina er gert ráð fyrir að um ráðningu annarra starfsmanna fari eftir ákvæðum í samþykkt um stjórn sveitarfélags.

 

             Af framangreindum ákvæðum telur ráðuneytið ljóst að það var hlutverk hreppsnefndar sveitarfélagsins X að taka ákvörðun um uppsögn á skólastjóranum. Hreppsráð hafði heimild til að fjalla um málið, en hafði einungis heimild til að gera tillögu til hreppsnefndar um breytingar á fyrirkomulagi á rekstri tónlistarskólans og þar með uppsögn á skólastjóranum. Jafnframt skal á það bent að ágreiningur var um afgreiðslu málsins í hreppsráði. Málið var tekið fyrir í hreppsnefnd þann 23. júní 1998, en þá var eins og áður segir fyrst unnt að taka hina endanlegu ákvörðun.

 

             Eins og fyrr greinir er í 72. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 og 1. mgr. 56. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 gert ráð fyrir að sveitarstjórn ráði tiltekna starfsmenn og veiti þeim lausn frá störfum. Í ljósi þess ákvæðis og 15. gr. samþykktar um stjórn sveitarfélasins X og fundarsköp hreppsnefndar Y verður að telja eðlilegt að slík mál séu sérstakur dagskrárliður á sveitarstjórnarfundi, enda þótt byggðarráð hafi áður fjallað um málið. Einnig er eðlilegt að tilgreina sem sérstakan dagskrárlið slík mál sem fyrirfram er vitað að hljóta muni mikla umfjöllun í sveitarstjórn, en sú var raunin varðandi breytingar á skipulagi tónlistarskóla í sveitarfélaginu X og uppsögn skólastjórans.

 

             Umræddum skólastjóra var með bréfi frá 18. júní 1998 tilkynnt að uppsögn hans hefði verið samþykkt af hreppsráði og að sú samþykkt tæki gildi þá þegar, sbr. orðalag bréfsins. Af bréfinu má því ráða að uppsögninni hafi verið ætlað að taka gildi með samþykkt hreppsráðs og enginn fyrirvari var í bréfinu um að hreppsnefnd ætti eftir að fjalla um málið. Samkvæmt áðursögðu gat uppsögnin ekki tekið gildi fyrr en hreppsnefnd hafði tekið hina endanlegu ákvörðun. Það verða því að teljast aðfinnsluverð vinnubrögð af hálfu sveitarfélagsins að tilkynna skólastjóranum með þessum hætti um samþykkt hreppsráðs frá 18. júní 1998.

 

             Áður hefur verið fjallað um að málið hafi ekki hlotið endanlega afgreiðslu fyrr en með samþykkt hreppsnefndar þann 23. júní 1998. Það verða að teljast aðfinnsluverð vinnubrögð að auglýsa lausa stöðu forstöðumanns tónlistarskóla í dagblöðum þann 21. júní 1998, þ.e. áður en ákvörðun í málinu hafði verið tekin af þar til bæru stjórnvaldi.

 

             Til þess að gallar á meðferð máls leiði til ógildingar ákvörðunar verða gallarnir að vera verulegir. Í úrskurði þessum er fundið að vinnubrögðum varðandi meðferð umrædds máls hjá sveitarfélaginu X, en að mati ráðuneytisins eru þessir ágallar ekki svo miklir að þeir leiði til ógildingar ákvörðunar hreppsnefndar frá 23. júní 1998.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

             Hafnað er kröfu um að félagsmálaráðuneytið ógildi samþykkt hreppsnefndar sveitarfélagsins X um að segja C upp störfum sem skólastjóra Tónlistarskóla sveitarfélagsins X.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

Samrit:  B.

 

Afrit:  Meirihluti hreppsnefndar sveitarfélagsins X.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta