Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Úrskurður í máli nr. SRN17120015

Ár 2018, þann 13. júlí, er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. SRN17120015

 

Kæra X

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

 

I. Kröfur, kæruheimild og kærufrestur

Þann 5. desember 2017, barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra kæranda (hér eftir nefndur X), kt. 000000-0000, á ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 5. september 2017 um að synja umsókn hans um mótframlag úr hendi Reykjavíkurborgar vegna daggæslu dóttur X hjá dagforeldri.

Af kæru verður ráðið að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og fallist verði á umsókn X.

Kæran er fram borin á grundvelli 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og barst kæran innan kærufrests, sbr. 2. mgr. sama ákvæðis.

 

II.  Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sótti X um mótframlag úr hendi Reykjavíkurborgar vegna daggæslu dóttur hans hjá dagforeldri. Þar sem X átti lögheimili í Svíþjóð taldi Reykjavíkurborg að ekki væru skilyrði til að fallast á umsókn hans og var henni því synjað. Með bréfi X mótteknu 5. desember 2017 kærði X ákvörðun Reykjavíkurborgar til ráðuneytisins.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 9. janúar 2018, var Reykjavíkurborg gefinn kostur á að koma að frekari gögnum og sjónarmiðum varðandi kæruna. Bárust þau gögn ráðuneytinu með bréfi Reykjavíkurborgar mótteknu 25. janúar 2018.

Með tölvubréfi ráðuneytisins, dags. 7. febrúar 2018, var X gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum Reykjavíkurborgar. Engar athugasemdir bárust.

 

III.      Sjónarmið X

Í kæru kemur fram að frá því í júlí 2015 hafi X unnið hjá íslensku fyrirtæki. Frá því X hóf þar störf hafi hann greitt skatta af tekjum sínum og fullt útsvar til Reykjavíkurborgar á þeim forsendum að síðasta lögheimili hans áður en hann flutti til Svíþjóðar hafi verið í Reykjavík. Kveðst X engu fá um það ráðið hvert hann greiði skatta og finnist það bæði óeðlilegt og óréttlátt að hann fái ekki að njóta þeirra gæða og mannréttinda sem aðrir útsvarsgreiðendur Reykjavíkurborgar eigi rétt á. Kveðst X hafa aðsetur í Reykjavík og stefni á að flytja lögheimili sitt til Íslands fyrir áramót.

 

IV.      Sjónarmið sveitarfélagsins

Í ákvörðun Reykjavíkurborgar kemur fram að með umsókn X, dags. 17. ágúst 2017, hafi hann óskað eftir mótframlagi úr hendi Reykjavíkurborgar vegna daggæslu dóttur hans hjá dagforeldri. Í umsókn X komi fram að hann og fjölskylda hans séu með skráð lögheimili í Svíþjóð en til standi að flytja það til Íslands á næstunni. Þá komi fram að fjölskylda X þiggi enga styrki fyrir dagvistun frá tryggingakerfinu í Svíþjóð heldur hafi þau aðeins fengið þaðan greiðslur vegna fæðingarorlofs. Einnig komi fram í umsókn X að hann hafi greitt útsvar til Reykjavíkurborgar frá því um mitt ár 2015 og telji X það ekki standast að hann hafi ekki fullan aðgang að velferðarkerfinu fyrir sig og fjölskyldu sína.

Í 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um niðurgreiðslu vegna daggæslu sé fjallað um skilyrði sem þurfi að uppfylla til að eiga rétt á niðurgreiðslu vegna gæslu barns hjá dagforeldri. Í 1. mgr. 3. gr. komi fram það skilyrði að skráð lögheimili barns í þjóðskrá og föst búseta þess skuli vera í Reykjavík. Í 4. mgr. 3. gr. a komi fram sú undanþága frá lögheimilisskilyrðinu að foreldrar barna sem eru tímabundið án kennitölu og lögheimilis eða þau skráð utangarðs í þjóðskrá geti fengið niðurgreidda daggæslu í Reykjavík. Það sé skilyrði að foreldrar og barn séu með fasta búsetu í Reykjavík samkvæmt skilgreiningu lögheimilislaga nr. 21/1990 og gera megi ráð fyrir að lögheimili verði í Reykjavík þegar það verður fengið. Í reglunum séu ekki tilgreindar frekari undanþágur frá lögheimilisskilyrði 3. gr. Það tilvik sem hér um ræði falli ekki undir framangreinda undanþágu 4. mgr. 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um niðurgreiðslu vegna daggæslu. Hafi skylda umsækjanda til að greiða útsvar til Reykjavíkurborgar engin áhrif þar á, enda fari um slíkt eftir öðrum lögum og reglum. Séu því ekki skilyrði til að fallast á umsókn X og sé henni því synjað.

Í umsögn Reykjavíkurborgar kemur fram að í gildi sé reglugerð um daggæslu barna í heimahúsum nr. 907/2005 sem sett hafi verið með stoð í lögum um félagsþjónustu nr. 40/1991. Lög um félagsþjónustu hafi það að markmiði samkvæmt 1. gr. laganna að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar. Með íbúa sveitarfélags sé átt við hvern þann sem á lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi, sbr. 1. mgr. 13. gr. Mælt sé fyrir um það í 42. gr. reglugerðarinnar að sveitarstjórn sé heimilt að greiða niður kostnað við daggæslu og skuli sveitarstjórn þá setja reglur þar um. Þannig sé ekki um að ræða skyldu sveitarfélags til niðurgreiðslu slíks kostnaðar heldur aðeins heimild. Enn fremur sé um að ræða málefni sem löggjafinn hafi ákveðið að sveitarfélög séu sjálfráð um. Réttur sveitarfélaga til að ráða sjálf málefnum sínum sé tryggður í 1. mgr. 1. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 38/2011 og 78. gr. stjórnarskrárinnar. Af þessu leiði að ef ákveðið sé að niðurgreiða daggæslu geti sveitarstjórn ákveðið hvaða sjónarmið ráði því hvenær réttur til niðurgreiðslu stofnast.

Þá kemur fram í umsögninni að borgarráð hafi samþykkt reglur um niðurgreiðslu vegna daggæslu með lögmætum hætti. Umræddar reglur byggi á hlutlægum og málefnalegum viðmiðum. Til að geta átt rétt til niðurgreiðslu sé gerð sú krafa að viðkomandi hafi skráð lögheimili í borginni. Ekki sé óalgengt að réttindi sem sveitarfélög veita séu bundin við þá sem eiga þar lögheimili og væri varla hægt að ætlast til þess að borgin greiddi niður gjöld íbúa annarra sveitarfélaga þó að þeir hefðu aðsetur í borginni. Í 3. gr. reglnanna sé fjallað um skilyrði sem uppfylla þarf til að eiga rétt á niðurgreiðslu vegna gæslu barns hjá dagforeldri. Í 1. mgr. 3. gr. a komi fram það skilyrði að skráð lögheimili barns og föst búseta þess sé í Reykjavík. Í 4. mgr. 3. gr. a komi fram sú undanþága frá lögheimilisskilyrðinu að foreldrar barna sem eru tímabundið án kennitölu og lögheimilis eða þau skráð utangarðs í þjóðskrá geti fengið niðurgreidda daggæslu í Reykjavík. Sé það þá skilyrði að foreldrar og barn séu með fasta búsetu í Reykjavík samkvæmt skilgreiningu lögheimilislaga og gera megi ráð fyrir að lögheimili verði í Reykjavík þegar það verði fengið. Ekki séu í tilgreindar í reglunum frekari undanþágur frá lögheimilisskilyrði 3. gr. Fyrir liggi að tilvik X falli ekki undir tilgreinda undanþágu 4. mgr. 3. gr. a reglna um niðurgreiðslu vegna daggæslu. Hafi skylda X til að greiða útsvar til Reykjavíkurborgar engin áhrif þar á enda fari um slíkt eftir öðrum lögum og reglum.

 

IV.      Niðurstaða ráðuneytisins

Í 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga segir að aðila máls sé heimilt að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir um rétt eða skyldu manna sem lúta eftirliti þess skv. 109. gr. laganna. Af athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögunum er ljóst að einungis svonefndar stjórnvaldsákvarðanir verða bornar undir ráðuneytið með stjórnsýslukæru. Vísar orðalagið „ákvarðanir um rétt eða skyldu manna“ til 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Með stjórnvaldsákvörðun er átt við ákvörðun stjórnvalds í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga sem tekin er í skjóli stjórnsýsluvalds og er beint milliliðalaust út á við að tilteknum aðila eða aðilum og með henni kveðið á bindandi hátt um rétt eða skyldur þeirra í ákveðnu og fyrirliggjandi máli.

Um félagsþjónustu sveitarfélaga er fjallað í lögum nr. 40/1991. Samkvæmt 1. gr. laganna er markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laganna er með íbúa sveitarfélags átt við hvern þann sem á lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi. Um daggæslu barna í heimahúsum gildir reglugerð nr. 907/2005 sem sett er með heimild í 34. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 42. gr. reglugerðarinnar er sveitarstjórn heimilt að greiða niður kostnað við daggæslu í heimahúsum. Í slíkum tilvikum skal sveitarstjórn setja reglur þar um. Hefur Reykjavíkurborg samþykkt slíkar reglur um niðurgreiðslu barna hjá dagforeldrum. Í 3. gr. a reglnanna er fjallað um skilyrði sem þarf að uppfylla til að eiga rétt á niðurgreiðslu til dagforeldris vegna daggæslu. Kemur þar fram að skilyrði niðurgreiðslu til lækkunar daggæslugjalda sé að skráð lögheimili barns í þjóðskrá og föst búseta þess sé í Reykjavík. Í ákvæðinu kemur fram sú undanþága að foreldrar barna sem eru tímabundið án kennitölu og lögheimilis eða þau skráð utangarðs í þjóðskrá geti fengið niðurgreidda daggæslu í Reykjavík. Sé það skilyrði að foreldrar og barn séu með fasta búsetu í Reykjavík samkvæmt skilgreiningu lögheimilislaga nr. nr. 21/1990 og að gera megi ráð fyrir að lögheimili verði í Reykjavík þegar það verði fengið.

Fyrir liggur að Reykjavíkurborg synjaði umsókn X um mótframlag úr hendi Reykjavíkurborgar vegna daggæslu dóttur hans. Byggði Reykjavíkurborg synjunina á því að X og dóttir hans ættu ekki lögheimili í Reykjavík og undanþágutilvik 3. gr. a reglna Reykjavíkurborgar um niðurgreiðslur vegna barna hjá dagforeldrum ættu ekki við. Væru því ekki skilyrði til að fallast á umsókn X.

Ráðuneytið telur að þegar sveitarfélag setur ívilnandi reglur til hagsbóta fyrir íbúa þess sé sveitarfélaginu heimilt að mæla svo fyrir að uppfylla þurfi ákveðin skilyrði til að eiga rétt samkvæmt hinum ívilnandi reglum. Reglur Reykjavíkurborgar um niðurgreiðslur vegna barna hjá dagforeldrum feli í sér slíkar ívilnandi reglur og eru reglurnar settar samkvæmt heimild í 42. gr. reglugerðar um daggæslu barna í heimahúsum. Hins vegar þurfi að gæta þess að slík skilyrði séu málefnaleg og í samræmi við meginreglur stjórnsýslulaga. Er það mat ráðuneytisins að reglur Reykjavíkurborgar um niðurgreiðslur vegna barna hjá dagforeldrum og þau skilyrði sem koma fram í 3. gr. a reglnanna og rakin voru hér að framan séu málefnaleg og hafi Reykjavíkurborg verið heimilt að setja tilgreind skilyrði fyrir niðurgreiðslunum. Þá séu skilyrðin einnig í samræmi við meginreglur stjórnsýslulaga. Þar sem fyrir liggur að X og dóttir hans voru með skráð lögheimili í Svíþjóð á þeim tíma sem hin kærða ákvörðun var tekin og þar sem einnig liggur fyrir að undanþága 3. gr. a reglnanna á ekki við í tilviki X, hafi Reykjavíkurborg verið rétt að synja umsókn X um mótframlag úr hendi Reykjavíkurborgar vegna daggæslu dóttur hans. Þá telur ráðuneytið að fallast beri á það með Reykjavíkurborg að skylda X til greiða útsvar til Reykjavíkurborgar geti ekki haft áhrif á niðurstöðu málsins enda fari um slíkt eftir öðrum lögum og reglum. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur uppkvaðning úrskurðar dregist og er beðist velvirðingar á því.

 

Úrskurðarorð

Synjað er kröfu X um að fella úr gildi ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 5. september 2017 um að synja umsókn hans um mótframlag úr hendi Reykjavíkurborgar vegna daggæslu dóttur hans hjá dagforeldri.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta