Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Úrskurður í máli nr. SRN17090038

Ár 2018, þann 11. apríl, er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli SRN17090038

 

Kæra X

á ákvörðun

Þjóðskrár Íslands

 

 

I.         Kröfur, kæruheimild og kærufrestir

Með kæru sem barst ráðuneytinu þann 18. september 2017 kærði X hdl. (hér eftir kærandi) f.h. X, ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 15. júní 2017 um að synja beiðni kæranda um að færa lögheimili X á síðasta þekkta lögheimili hans á Íslandi. Krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lagt verði fyrir Þjóðskrá Íslands að færa lögheimili X aftur til Íslands.

Um kæruheimild vísast til 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og er kæran fram komin innan lögmælts kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. sömu laga.

 

II.        Ákvörðun Þjóðskrár Íslands

Hin kærða ákvösarðun er svohljóðandi:

„Vísað er í bréf þitt dags. 2. júní sl., sem skipaður lögráðamaður X. Í bréfi þínu er krafist að Þjóðskrá Íslands færi lögheimili X aftur á síðasta þekkt lögheimili í Reykjavík. Jafnframt er vísað til tölvusamskipta og símtala við þig sem hafa átt sér á tímabilinu apríl sl., til dagsins í dag. Á meðal gagna sem Þjóðskrá Íslands hefur undir höndum er skipunarbréf útgefið af Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Þar kemur m.a. fram að þú hafi verið skipaður lögráðamaður fyrir X í eitt ár og fellur sviptingin úr gildi þann 4. apríl 2017.

Þann 7. nóvember 2016 barst Þjóðskrá Íslands tilkynning um flutning X til Svíþjóðar. Tilkynningin barst Þjóðskrá Íslands frá skráningarskrifstofu Skatteverket í Södertalje og miðaðist flutningur hans til Svíþjóðar frá Íslandi við 27. október 2016. Á grundvelli þessarar flutningstilkynningar breytti Þjóðskrá Íslands lögheimilisskráningu hans og skráði lögheimili hans í Svíþjóð. Á flutningstilkynningunni frá Svíþjóð kemur fram að X hafi fengið kennitölu í Svíþjóð.

Þjóðskrá Íslands skrifaði Skatteverket í Södertalje bréf dags. 5. apríl 2017 og fór fram á það að þau myndu afturkalla skráningu X í Svíþjóðar þar sem hann hefði ekki haft heimild til þess að tilkynna um flutning sinn sjálfur. Þann 9. maí sl., barst Þjóðskrá Íslands svarbréf frá Skatteverket í Södertalje dags. 4. maí sl., þar sem hafnað var beiðni Þjóðskrár Íslands um afturkalla skráningu X til Svíþjóðar.

Þjóðskrá Íslands starfar samkvæmt lögum nr. 54/1962 um þjóðskrá og almannaskráningu. Jafnframt sér Þjóðskrá Íslands um skráningu lögheimilis hér á landi í samræmi við lög um lögheimili nr. 21/1990 og lög um tilkynningar aðsetursskipta nr. 73/1952. Meginreglan í lögheimilislögum er að einstaklingur á lögheimili þar sem hann hefur fasta búsetu sbr. 1. mgr. 1. gr. lögheimili. Maður telst hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Í 1. mgr. 5. gr. laga um tilkynningar aðsetursskipta segir að maður, sem kemur erlendis frá til búsetu eða dvalar hér á landi, skal tilkynna viðkomandi sveitarstjórn aðsetur sitt innan 7 daga frá komu til landsins.

Í gildi er samningur um almannaskráningu, milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar. Samkvæmt 1. gr. samningsins nær hann til einstaklinga sem skráðir eru búsettir í einu aðlidarríki og hafa í hyggju að flytja, eða hafa þegar flutt, til einhvers hinna ríkjanna. Samkvæmt 2. lið 2. gr. samningsins ákveða hlutaðeigandi skráningaryfirvöld í innflutningsríkinu hvort einstaklingur skuli skráður búsettur í því ríki og því beri að skrá viðkomandi sem búsettan og úthluta honum kennitölu svo fljótt sem unnt er. Ákvörðun um það hvort einstaklingur skuli samkvæmt samningnum talinn búsettur í innflutningsríkinu skal tekin á grundvelli laga þess ríkis um innflutning sbr. 3. gr. samningsins.

Norrænu ríkin skiptast á grunnupplýsingum og eru Norðurlöndin eitt skráningarsvæði hvað almannaskráningu varðar. Þannig skal tryggt að engin geti átt lögheimili samtímis í tveimur norrænu ríkjanna. Hvert ríki tekur ákvörðun um skráningu lögheimilis hjá sér á grundvelli eigin löggjafar. Í samræmi við Norðurlandasamninginn um almannaskráningu, sem Alþingi heimilaði ríkisstjórn Íslands að staðfesta 2. júní 2006 og sem öðlaðist gildi 1. janúar 2007, bar Þjóðskrá Íslands að skrá X með lögheimili í Svíþjóð þar eð ljóst þætti að X tilkynnti um breytta lögheimilisskráningu frá Íslandi til Svíþjóðar á sínum tíma og yfirvöld í Svíþjóð senda Þjóðskrá Íslands alltaf tilkynningu þegar Íslendingur skráir lögheimili sitt í Svíþjóð og hættir þ.a.l. að eiga lögheimili á Íslandi. Samkvæmt 4. gr. lögheimilislaga getur enginn átt lögheimili á fleiri en einum stað.

Með hliðsjón af því sem segir að ofan er beiðni þinni um að skrá lögheimili X á Íslandi hafnað enda verður ofangreint bréf sænskra skráningaryfirvalda ekki skilið á anna hátt en að þau telji hann vera með fasta búsetu í Svíþjóð og ber því að vera með lögheimili þar.

Það liggur fyrir að Þjóðskrá Íslands hefur að óskað eftir því við Skatteverket í Södertalje afturkalli skráningu X til Svíþjóða en því hefur verið hafnað. Er þér því leiðbeint að hafa beint samband við Skatteverket í Södertalje og hlutast til við fá þau til að endurskoða ákvörðun sína.

 

III.      Málsatvik og málsmeðferð

Forsaga málsins er að mestu rakin í hinni kærðu ákvörðun og vísast til þess sam þar kemur fram. Liggur þannig fyrir að kærandi var lögráðamaður X, en samkvæmt því sem fram kemur í kæru hefur X um árabil verið sviptur lögræði og dvalið í sérstöku húsnæðisúrræði á vegum Reykjavíkurborgar. Í nóvember 2016 fór X til Svíþjóðar að því er fram kemur í kæru í þeim tilgangi að fara í sérstakt úrræði á vegum Reykjavíkurborgar. Í kjölfarið fluttist lögheimili X til Svíþjóðar sbr. tilkynning sem barst Þjóðskrá Íslands þann 7. nóvember 2016. Þann 4. apríl 2017 rann lögræðissvipting X út en kærandi hafði þá lagt fram kröfu um framlengingu lögræðissviptingarinnar. Greinir kærandi frá því að við meðferð þess máls hafi komið í ljós að lögheimili X hafi verið flutt til Svíþjóðar án hans vitundar. Í kjölfarið hafi verið hlutast til um að Þjóðskrá Íslands flytti lögheimili X aftur til Íslands. Þann 5. apríl 2017 fór Þjóðskrá Íslands þess á leit við Skatteverket í Södertalje í Svíþjóð að skráning X þar yrði afturkölluð þar sem hann hefði ekki haft heimild til að tilkynna sjálfur um flutning sinn. Svarbréf barst Þjóðskrá Íslands þann 9. maí 2017 þar sem beiðni stofnunarinnar var hafnað. Með bréfi kæranda þann 2. júní 2017 fór hann þess á leit við Þjóðskrá Íslands að lögheimili X yrði fært aftur á síðasta skráð lögheimili hans á Íslandi. Með ákvörðun Þjóðskrár Íslands þann 15. júní 2017 var þeirri beiðni synjað.

Ákvörðun Þjóðskrár Íslands var kærð til ráðuneytisins með bréfi kæranda mótteknu þann 18. september 2017.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 25. september 2017 var Þjóðskrá Íslands gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið ráðuneytinu með bréfi stofnunarinnar  mótteknu 27. október 2017.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 15. nóvember 2017 var kæranda kynnt umsögn Þjóðskrár Íslands og gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna málsins. Engar athugasemdir bárust.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 11. janúar 2018 var kæranda tilkynnt að málið væri tekið til  úrskurðar.

 

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Í kæru kemur fram að fyrir mistök hafi lögheimili X verið flutt til Svíþjóðar. Hins vegar ætti lögheimili hans enn að vera í Reykjavík þar sem kærandi hafi aldrei samþykkt flutninginn. Séu afleiðingar þess að lögheimili X færist frá Reykjavík til Svíþjóðar mjög alvarlegar fyrir X. Í fyrsta lagi missi X réttinn til þeirrar þjónustu sem hann sækir í Svíþjóð. Í þessu samhengi bendir kærandi á að úrræðið sé veitt á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, en þar sé í 12. gr. kveðið á um skyldu sveitarfélaga til að sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum. Þá segi í 13. gr. laganna að með íbúa sveitarfélags sé átt við hvern þann sem lögheimili á í viðkomandi sveitarfélagi. Því geri breyting á lögheimilisskráningu X að verkum að hann neyðist til að flytja úr úrræðinu enda missi hann rétt til þjónustunnar við þann gerning. Í öðru lagi falli allar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins niður við flutning lögheimilisins. Í þriðja lagi missi íslenskir dómstólar lögsögu yfir málefnum X við lögheimilisflutninginn. Hafi það þá þýðingu að lögræðissvipting X verði ekki framlengd með mjög alvarlegum afleiðingum fyrir hann. Veikindi X séu með þeim hætti að fái hann lögræði sitt til baka, eins og við blasi þegar íslenskir dómstólar geti ekki framlengt sviptinguna, skapist aðstæður sem kunni að vera X lífshættulegar enda hafi hann ekki burði til að annast eigin hagsmuni.

Kærandi telur að X uppfylli öll skilyrði fyrir að hafa lögheimili skráð í Reykjavík, sbr. 1. gr. lögheimilislaga, enda sé ljóst að X dvelji aðeins um stundarsakir í Svíþjóð og í beinum tengslum við veikindi hans. Ef ekki væri fyrir flókin veikindi X hefði hann ekki þörf fyrir að fara tímabundið í það úrræði sem hann dveljist í. Sé um að ræða tilraun sem sé komin til að frumkvæði félagsráðgjafa X hjá Reykjavíkurborg sem hafi það að markmiði að aðstoða hann við að kljást við flókna samsetningu veikinda hans, m.a. sökum þess að neysla X á fíkniefnum hafi haft veruleg áhrif á möguleika hans til að taka við og nýta þá þjónustu sem hann hefur notið í búsetuúrræði sínu hingað til. Sé því uppfyllt skilyrði 2. mgr. 1. gr. laga um lögheimili. Þess utan uppfylli X skilyrði 3. mgr. sama ákvæðis enda megi jafna dvöl X í Svíþjóð til þeirra sérstöku tilvika sem fjallað er um í ákvæðinu. Það úrræði sem X sæki tímabundið í Svíþjóð sé í eðli sínu athvarf fyrir einstaklinga sem kljást við erfið veikindi og fela í sér ákveðna þjálfun í vinnu og námi sem væntingar standi til að hjálpi X að standa á eigin fótum í framtíðinni. Úrræðið falli því undir fleiri ein eitt tilvik sem nefnt er í ákvæðinu, sem vinnuhæli, athvarf og jafnvel heimavistarskóla, en í öllu falli undir annað húsnæði sem jafna megi til þessa. Forsendur Þjóðskrár Íslands tilgreini að í gildi sé samningur um almannaskráningu milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar. Samkvæmt 1. gr. samningsins nái hann til einstaklinga sem skráðir eru búsettir í einu aðildarríki og hafi í hyggju að flytja, eða hafi þegar flutt, til einhvers hinna ríkjanna. Samkvæmt 2. lið 2. gr. samningsins ákveði hlutaðeigandi skráningaryfirvöld í innflutningsríkinu hvort einstaklingur skuli skráður búsettur í því ríki og því beri að skrá viðkomandi sem búsettan og úthluta honum kennitölu svo fljótt sem unnt er. Ákvörðun um hvort einstaklingur skuli samkvæmt samningnum talinn búsettur í innflutningsríkinu skuli tekin á grundvelli laga þess ríkis um innflutning, sbr. 3. gr. samningsins. Hafnar kærandi þessum málatilbúnaði. X hafi aldrei tekið ákvörðun um að flytja til Svíþjóðar í skilningi samningsins. Sé það mat kæranda að ekki sé líku við að jafna að annars vegar flytja frá einu landi til annars og hins vegar að þiggja sérhannað úrræði sem byggist á flóknum veikindum einstaklings sem jafnframt sé tímabundin ráðstöfun. Með sömu rökum mætti halda því fram að menn flyttu á sjúkrahús, í fangelsi eða heimavistarskóla. Ákvæði íslenskra laga, sem rakin hafi verið, geri ráð fyrir því að undir þessum kringumstæðum eigi menn lögheimili á Íslandi. Gangi íslensk lög framar þjóðréttarlegum skuldbindingum hvað þetta varðar. Þess utan falli samningurinn ekki að þeim málsatvikum sem um ræðir enda hafi X aldrei haft í hyggju að flytja til Svíþjóðar í skilningi 1. gr. samningsins. Er það afstaða kæranda að skráningaryfirvöld í Svíþjóð hafi misskilið tilgang veru X þar í landi. Í bréfi Skatteverket til Þjóðskrár Íslands frá 4. maí 2017 komi fram að það sé skilningur stofnunarinnar að X hafi ætlað sér varanlega búsetu í Svíþjóð en um það hafi ekki verið að ræða. Þá hafi X ekki haft gerhæfi til að færa lögheimili sitt enda lögræðissviptur á þeim tíma sem flutningurinn átti sér stað. Alltaf hefði þurft samþykki kæranda fyrir flutningnum.

 

V.        Umsögn Þjóðskrár Íslands

Í umsögn Þjóðskrár Íslands er forsaga málsins rakin. Kemur þar fram að stofnuninni hafi borist flutningstilkynning þann 7. nóvember 2016 frá Skatteverket í Södertalje þar sem tilkynnt var um flutning X til Svíþjóðar frá og með 27. október 2016. Á grundvelli þessa hafi lögheimilisskráningu X verið breytt. Í kjölfarið hafi kærandi freistað þess að fá lögheimili X fært aftur til Íslands og hafi Þjóðskrá Íslands þann 5. apríl sl. farið þess á leit við Skatteverket í Södertalje að skráning X í Svíþjóð yrði afturkölluð. Í svari Skatteverket hafi komið fram að X hefði tilkynnt um varanlegan flutning til Svíþjóðar og ætlun hans væri að stunda þar nám. Því ætti lögheimili hans að vera þar skráð jafnvel þótt hann hafi skipaðan lögráðamann. Hafi X komið í eigin persónu í þjónustuver í Södertalje, framvísað vegabréfi og tilkynnt um flutninginn. Þá komi fram í svarbréfinu að kærandi geti kært umrædda ákvörðun til „Processgrupp“. Hafi kæranda verið kynnt framangreint svarbréf.

Þjóðskrá Íslands vísar til þess að stofnunin starfi samkvæmt lögum nr. 54/1962 um þjóðskrá og almannaskráningu. Jafnframt sjái Þjóðskrá Íslands um skráningu lögheimilis hér á landi í samræmi við lög um lögheimili nr. 21/1990 og lög um tilkynningar aðsetursskipta nr. 73/1952. Meginreglan í lögheimilislögum sé að einstaklingur eigi lögheimili þar sem hann hefur fasta búsetu, sbr. 1. mgr. 1. gr. lögheimilislaga. Maður teljist hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Í 1. mgr. 5. gr. laga um tilkynningar aðsetursskipta segi m.a. að maður, sem kemur erlendis frá til búsetu eða dvalar hér á landi, skuli tilkynna viðkomandi sveitarstjórn aðsetur sitt innan sjö daga frá komu til landsins.

Í gildi sé samningur um almannaskráningu milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar, sem Alþingi heimilaði ríkisstjórn Íslands að staðfesta 2. júní 2006 og öðlast hafi gildi 1. janúar 2007. Samkvæmt 1. gr. samningsins nái hann til einstaklinga sem skráðir eru búsettir í einu aðildarríki og hafa í hyggju að flytja eða hafa þegar flutt til einhvers hinna ríkjanna. Samkvæmt 2. lið 2. gr. samningsins ákveða hlutaðeigandi skráningaryfirvöld í innflutningsríkinu hvort einstaklingur skuli skráður búsettur í því ríki og því beri að skrá viðkomandi sem búsettan og úthluta honum kennitölu svo fljótt sem unnt er. Ákvörðun um það hvort einstaklingur skuli samkvæmt samningnum talinn búsettur í innflutningsríkinu skal tekin á grundvelli laga þess ríkis um innflutning, sbr. 3. gr. samningsins. Þá kemur fram í umsögninni að norrænu ríkin skiptist á grunnupplýsingum og séu Norðurlöndin eitt skráningarsvæði hvað almannaskráningu varðar. Þannig skuli tryggt að enginn geti átt lögheimili samtímis í tveimur norrænu ríkjanna. Hvert ríki taki ákvörðun um skráningu lögheimilis hjá sér á grundvelli eigin löggjafar. Í samræmi við Norðurlandasamninginn um almannaskráningu hafi Þjóðskrá Íslands borið að skrá X með lögheimili í Svíþjóð þar eð ljóst hafi verið að hann tilkynnti um breytta lögheimilisskráningu frá Íslandi til Svíþjóðar á sínum tíma. Þá sendi yfirvöld í Svíþjóð Þjóðskrá Íslands alltaf tilkynningu þegar Íslendingur skrái lögheimili sitt í Svíþjóð og hætti þ.a.l. að eiga lögheimili á Íslandi. Samkvæmt 4. gr. lögheimilislaga geti enginn átt lögheimili á fleiri en einum stað.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið hafi beiðni kæranda um að færa lögheimili X aftur á síðasta þekkt lögheimili hans á Íslandi verið synjað enda verði bréf sænskra skráningaryfirvalda ekki skilið á anna hátt en þann að þau hafi talið X vera með fasta búsetu í Svíþjóð og beri því að vera með lögheimili þar. Fyrir liggi að Þjóðskrá Íslands hafi óskað eftir því við Skatteverket í Södertalje að skráning X í Svíþjóð yrði afturkölluð en því hafi verið hafnað. Af þeim sökum hafi Þjóðskrá Íslands ekki talið að stofnunin gæti brugðist frekar við þar sem ákvörðunarvaldið hafi verið hjá sænskum yfirvöldum. Hafi kæranda því verið leiðbeint um að hafa samband við Skatteverket í Södertalje og hlutast um að fá þau til að endurskoða ákvörðun sína, sbr. kæruleiðir sem sem bent hafi verið á af þeirra hálfu.

 

VI.      Niðurstaða ráðuneytisins

Til umfjöllunar er ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 15. júní 2017 um að synja beiðni kæranda um að færa lögheimili X aftur á síðasta þekkt lögheimili hans á Íslandi. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lagt verði fyrir Þjóðskrá Íslands að færa lögheimili X aftur til Íslands.

Samkvæmt 1. gr. laga um þjóðskrá og almannaskráningu nr. 54/1962 annast Þjóðskrá Íslands almannaskráningu samkvæmt lögunum. Er meginmarkmiðið með almannaskráningu samkvæmt lögunum að skráning á hverjum tíma sé rétt og lögum samkvæmt. Byggist almannaskráning á þeim gögnum sem talin eru upp í 4. gr. laganna. Samkvæmt lögunum er það eitt af hlutverkum Þjóðskrár Íslands að sjá til þess að lögheimili einstaklinga séu rétt skráð samkvæmt lögum um lögheimili nr. 21/1990.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lögheimilislaga er lögheimili manns sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. telst maður hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.

Fyrir liggur að þann 7. nóvember 2016 barst Þjóðskrá Íslands tilkynning um lögheimilisflutning X til Svíþjóðar frá og með 27. október 2016. Í kjölfarið skráði Þjóðskrá Íslands lögheimili X í Svíþjóð. Í kæru er til þess vísað að ástæða þess að X fór til Svíþjóðar hafi verið sú að dvelja þar í sérstöku úrræði á vegum Reykjavíkurborgar líkt og rakið hefur verið. Af hálfu kæranda er á því byggt að lögheimili X hafi verið ranglega skráð í Svíþjóð þar sem skráningaryfirvöld þar hafi misskilið tilgang og veru X þar í landi, en aldrei hafi staðið til af hálfu X að flytja til Svíþjóðar. Þá hafi X ekki haft gerhæfi til að færa lögheimili sitt þar sem hann hafi verið lögræðissviptur á þeim tíma sem það var gert og samþykki kæranda hafi ekki legið fyrir. Að öðru leyti vísast um málsástæður kæranda til þess sem rakið var hér að framan.

Líkt og fram hefur komið er í gildi samningur um almannaskráningu milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, sem Alþingi heimilaði ríkisstjórn Íslands að staðfesta 2. júní 2006. Öðlaðist samningurinn gildi 1. janúar 2007. Samkvæmt 1. gr. samningsins nær hann til einstaklinga sem skráðir eru búsettir í einu aðildarríki og hafa í hyggju að flytja, eða hafa þegar flutt, til einhvers hinna ríkjanna. Samkvæmt 2. lið 2. gr. samningsins ákveða skráningaryfirvöld í innflutningsríkinu hvort einstaklingur skuli skráður búsettur í því ríki. Samkvæmt 3. gr. samningsins skal ákvörðun um það hvort einstaklingur skuli samkvæmt samningnum talinn búsettur í innflutningsríkinu tekin á grundvelli laga þess ríkis. Eru umrædd lönd þannig eitt skráningarsvæði hvað almannaskráningu varðar og skal þannig tryggt að einstaklingur geti ekki átt lögheimili samtímis í tveimur ríkjanna.

Ráðuneytið tekur undir það með Þjóðskrá Íslands að á grundvelli tilgreinds samnings um almannaskráningu hafi stofnuninni verið rétt að skrá lögheimili X í Svíþjóð þegar tilkynning þess efnis barst Þjóðskrá Íslands þann 7. nóvember 2016, enda ákveði skráningaryfirvöld í innflutningsríkinu hvort einstaklingur skuli skráður búsettur í því ríki. Af sömu ástæðum hafi Þjóðskrá einnig verið rétt að synja beiðni kæranda þess efnis að lögheimili X yrði flutt á ný til Íslands, enda lá fyrir með bréfi Skattverket í Södertalja frá 4. maí 2017 að sú stofnun hafði synjað beiðni Þjóðskrár Íslands um að afturkalla lögheimilisskráningu X í Svíþjóð. Telur ráðuneytið að fallast beri á það með Þjóðskrá Íslands að stofnunin hafi ekki getað brugðist frekar við erindi kæranda þar sem ákvörðunarvald um lögheimilisskráningu X í Svíþjóð hafi verið hjá sænskum yfirvöldum. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest. Telji kærandi hins vegar að ekki hafi borið að skrá lögheimili X í Svíþjóð verði þeirri ákvörðun aðeins hnekkt með því að beita þeim kæruleiðum sem bent var í svarbréfi Skatteverket í Södertalje til Þjóðskrár Íslands þann 4. maí 2016 og kæranda voru kynntar af hálfu stofnunarinnar.

 

Úrskurðarorð

Staðfest er ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 15. júní 2017 um að synja beiðni X um að færa lögheimili hans aftur á síðasta þekkta lögheimili hans á Íslandi


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta