Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Mál nr. IRR12040047

Ár 2012, þann 1. nóvember, er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. IRR 12040047

Kæra E

á

ákvörðun Vegagerðarinnar

 

I.      Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru  móttekinni 3. apríl 2012 kærði E, kt. xxxxxx-xxxx, Y, ákvörðun Vegagerðarinnar frá 15. mars 2012 um að hafna umsókn hennar um að nýta atvinnuleyfi G, kt. xxxxxx-xxxx, til leigubifreiðaaksturs í allt að þrjú ár eftir andlát leyfishafa, en G lést þann 7. janúar 2012. Af kæru verður ráðið að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Kæruheimild er í 4. gr. laga um leigubifreiðar nr. 134/2001. Barst kæran ráðuneytinu innan þriggja mánaða kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.      Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti.

Þann 7. janúar 2012 lést G, kt. xxxxxx-xxxx. Var hann skráður til heimilis að Z. Var hann skráður einhleypur á dánarvottorði og tvær dætur hans lögerfingjar. Hafði G leyfi til leigubifreiðaksturs samkvæmt lögum um leigubifreiðar nr. 134/2001. Með bréfi til Vegagerðarinnar dags. 9. mars 2012 óskaði E eftir því að hún fengi heimild til að nýta atvinnuleyfi G í allt að þrjú ár eftir andlát hans á grundvelli 9. gr. reglugerðar nr. 397/2003. Samkvæmt ákvæðinu getur Vegagerðin heimilað eftirlifandi maka leyfishafa að nýta atvinnuleyfi hans í allt að þrjú ár eftir andlát leyfishafa, sbr. ákvæði 8. mgr. 9. gr. laga um leigubifreiðar. Samkvæmt reglugerðarákvæðinu skoðast eftirlifandi sambýlismaður eða sambýliskona sem eftirlifandi maki hafi sambúðin staðið yfir í a.m.k. tvö ár samfleytt samkvæmt Þjóðskrá. Byggði E kröfu sína á því að hún væri eftirlifandi sambýliskona G og lagði fram tvær yfirlýsingar máli sínu til stuðnings.

Með bréfi Vegagerðarinnar dags. 15. mars 2012 var beiðni E hafnað. Var á því byggt af hálfu Vegagerðarinnar að orðalag ákvæðis 9. gr. reglugerðar nr. 397/2003 væri skýrt. Til að sambýliskona gæti hlotið sama rétt og maki þyrftu aðilar að hafa verið í skráðri sambúð í a.m.k. tvö ár samfleytt samkvæmt Þjóðskrá. Taldi Vegagerðin að skilyrði þetta væri ekki uppfyllt samkvæmt fyrirliggjandi gögnum enda yrðu yfirlýsingar um sambúð ekki lagðar að jöfnu við opinbera skráningu sambúðar hjá Þjóðskrá.

Ákvörðun Vegagerðarinnar var kærð til ráðuneytisins með tölvubréfi E þann 3. apríl 2012.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 4. apríl 2012 var Vegagerðinni gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið með bréfi Vegagerðarinnar dags. 12. apríl 2012.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 16. apríl 2012 var E gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna málsins. Engar athugasemdir bárust.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III.    Málsástæður og rök E

E virðist fyrst og fremst byggja á því að hafa verið í sambúð með G þegar hann lést. Í fyrirliggjandi gögnum er vísað til þess að E og G hafi verið í sambúð í um 40 ár og verið gift hluta þess tíma. Eftir að E og G hafi skilið hafi þau tekið upp sambúð á ný en ekki skráð hana hjá Þjóðskrá af persónulegum ástæðum. Liggi fyrir staðfestingar tveggja votta sem votti langan sambúðartíma E og G.

 

IV.    Ákvörðun og umsögn Vegagerðarinnar

Í hinni kærðu ákvörðun er vísað til þess að samkvæmt 9. gr. reglugerðar nr. 397/2003, sbr. 8. mgr. 9. gr. laga um leigubifreiðar, sé Vegagerðinni heimilt að leyfa eftirlifandi maka leyfishafa að nýta atvinnuleyfi hans í allt að þrjú ár eftir andlát hans. Eftirlifandi sambýlismaður eða sambýliskona skoðist sem eftirlifandi maki hafi sambúðin staðið yfir samfleytt í a.m.k. tvö undangengin ár samkvæmt Þjóðskrá. Er á það bent að á vottorði sýslumanns er varðar andlát G sé hjúskaparstaða hans á dánardegi tilgreind sem einhleypur. Hafi lögheimili hans verið skráð að Z. Hafi E lagt fram tvær yfirlýsingar þar sem tilgreindir aðilar staðfesti að E og G hafi verið í sambúð a.m.k. sl. fjögur ár og búið saman á lögheimili E að Y. Taldi Vegagerðin orðalag 9. gr. reglugerðar nr. 397/2003 skýrt og að sambýliskona gæti þannig aðeins talist maki í skilningi laganna ef hún hefði verið í skráðri sambúð samfleytt í a.m.k. tvö undangengin ár samkvæmt Þjóðskrá. Hafi skilyrði laganna ekki verið uppfyllt samkvæmt þeim gögnum sem legið hafi fyrir. Taldi Vegagerðin að vegna hins skýra orðalags reglugerðarákvæðisins væri ekki heimilt að leggja framlagðar yfirlýsingar um sambúð að jöfnu við opinbera skráningu sambúðar í Þjóðskrá. Taldi Vegagerðin að ekki yrði hjá því komist að hafna beiðni E.

Í umsögn Vegagerðarinnar er vísað til þess sem fram kemur í hinni kærðu ákvörðun og rakið hefur verið hér að framan. Er á það bent að hjúskaparstaða G sé tilgreind einhleypur á dánardegi og lögheimili hans skráð að Z. Lögheimili E sé hins vegar skráð að Y. Sé orðalag 9. gr. reglugerðar nr. 397/2003 skýrt um það hverjir geti talist eftirlifandi makar í skilningi reglugerðarinnar og því sé ekki unnt að fallast á umsókn E enda geti hún ekki talist maki í skilningi reglugerðarinnar.

E haldi því fram að hún og G hafi verið í sambúð að Y sl. fjögur ár. Hafi svo verið verði ekki annað séð en að E og leyfishafa hefði verið í lófa lagið að ganga frá skráningu sambúðar sinnar í Þjóðskrá með fullnægjandi hætti kysu þau að njóta þeirra réttinda sem slíku sambúðarformi fylgir. Verði E að bera hallann af því af hafa ekki sinnt þessu. Telur Vegagerðin ekki heimilt að líta til þeirra yfirlýsinga sam lagðar hafi verið fram af hálfu E um að sambúð hafi verið fyrir hendi vegna hins skýra orðalags reglugerðarákvæðisins. Hefði það verið vilji ráðherra að líta mætti til annarra gagna en skráningar í Þjóðskrá megi ætla að sérstaklega hefði verið getið um slíkt í skilgreiningu reglugerðarinnar á því hverjir gætu talist falla undir hugtakið eftirlifandi maki. Bendir Vegagerðin á að í þeim tilvikum sem slíkt hafi ótvírætt verið vilji löggjafans hafi þess verið sérstaklega getið, sbr. t.d. 2. ml. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum þar sem sérstaklega sé tekið fram að með óvígðri sambúð í lögunum sé átt við sambúð tveggja einstaklinga sem skráð sé í Þjóðskrá eða sem ráða megi af öðrum ótvíræðum gögnum, enda eigi sambúðarfólk barn saman, eigi von á barni saman eða hafi búið saman samfleytt í a.m.k. tvö ár.

 

V.    Niðurstaða ráðuneytisins

Til umfjöllunar er sú ákvörðun Vegagerðarinnar að synja umsókn E um að nýta atvinnuleyfi G til leigubifreiðaaksturs í allt að þrjú ár eftir andlát hans. Samkvæmt 8. mgr. 9. gr. laga um leigubifreiðar nr. 134/2001 er heimilt að leyfa eftirlifandi maka leyfishafa að nýta atvinnuleyfi hans í allt að þrjú ár eftir andlát leyfishafa með þar til greindum takmörkunum. Samkvæmt 9. gr. reglugerðar nr. 397/2003 sem sett er með stoð í lögunum skoðast eftirlifandi sambýlismaður eða sambýliskona sem eftirlifandi maki hafi sambúðin staðið yfir í a.m.k. tvö ár samfleytt samkvæmt þjóðskrá. Byggist ákvörðun Vegagerðarinnar á því að þar sem skilyrði reglugerðarinnar um skráningu sambúðar þeirra E og G hjá þjóðskrá hafi ekki verið uppfyllt hafi borið að synja umsókn E.

Eftir að kæra E kom til meðferðar ráðuneytisins hefur reglugerðarákvæði því sem synjun Vegagerðarinnar byggðist á verið breytt á þann veg að önnur ótvíræð gögn geta komið í stað skráningar sambúðar hjá þjóðskrá, sbr. reglugerð nr. 856/2012. Þá er heimilt að leggja að jöfnu yfirlýsingu umsækjanda um sambúðina staðfesta af tveimur einstaklingum sem lýsa því yfir að þeir séu kunnugir högum umsækjanda. Er þannig ekki lengur gerð skýlaus krafa um skráningu sambúðar hjá þjóðskrá líkt og áður. Í ljósi þessarar reglugerðarbreytingar og með vísan til þeirrar meginreglu að fjalla beri um mál á tveimur stjórnsýslustigum er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki verði hjá því komist að fella hinu kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir Vegagerðina að taka umsókn E til meðferðar á ný.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun er felld úr gildi.

Lagt er fyrir Vegagerðina að taka umsókn E til meðferðar á ný.

Fyrir hönd ráðherra

 

 

Bryndís Helgadóttir                                                                                     Brynjólfur Hjartarson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta