Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Grindavíkurkaupstaður - Skipti á fulltrúa sveitarfélagsins í stjórn Hitaveitu Suðurnesja

Grindavíkurkaupstaður                                                         25. júní 1999                                                            99050026

Einar Njálsson                                                                                                                                                                  1001

Víkurbraut 42

240 Grindavík

 

 

 

          Með bréfi, dags. 10. maí 1999, óskaði bæjarstjórn Grindavíkurkaupstaðar eftir áliti félagsmálaráðuneytisins á bréfi forstjóra Hitaveitu Suðurnesja, dags. 14. apríl 1999. Nánar tiltekið er óskað álits ráðuneytisins á eftirfarandi atriðum:

 

          a) rétti Hitaveitu Suðurnesja til að taka ekki tillit til samþykktar bæjarstjórnar Grindavíkurkaupstaðar varðandi afturköllun umboðs sitjandi stjórnarmanns Hitaveitunnar og varamanns hans og nýjar tilnefningar í þeirra stað.

          b) heimild bæjarstjórnar Grindavíkurkaupstaðar til að afturkalla umboð sitjandi stjórnarmanns og tilnefna nýjan.

 

I.        Málavextir:

 

          Á fundi sínum hinn 14. apríl 1999 samþykkti bæjarstjórn Grindavíkurkaupstaðar að afturkalla umboð sitjandi stjórnarmanns sveitarfélagsins og varmanns hans í stjórn Hitaveitu Suðurnesja, með vísan til þess að nýr meirihluti hefði verið myndaður í bæjarstjórn Grindavíkurkaupstaðar og samkvæmt heimild í 4. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Var ákvörðun þessi tilkynnt forstjóra hitaveitunnar með bréfi dags. 16. apríl 1999, og var þess jafnframt óskað að nýjum fulltrúum yrðu framvegis send fundarboð og önnur gögn sem stjórnarmönnum eru send.

 

          Með bréfi dags. 6. maí 1999 svaraði forstjóri hitaveitunnar fyrrgreindu bréfi Grindavíkurkaupstaðar. Kemur þar fram að Hitaveita Suðurnesja hafi leitað lögfræðiálits á því hvort bæjarstjórn væri heimilt að skipta um fulltrúa með þeim hætti sem fyrr er lýst. Með vísan til þess álits segir í bréfinu að hitaveitan geti ekki, að svo stöddu a.m.k., tekið tillit til samþykktar bæjarstjórnar Grindavíkurkaupstaðar frá 14. apríl, þar sem Grindavíkurkaupstað hafi skv. lögfræðiálitinu verið óheimilt að víkja fulltrúa sínum úr stjórn hitaveitunnar, nema til komi afsögn sitjandi stjórnarmanns.

 

          Fyrrgreindri niðurstöðu vill Grindavíkurkaupstaður ekki una og hefur því óskað eftir áliti ráðuneytisins um hvort sveitarfélaginu hafi verið heimilt að skipta um fulltrúa sinn í stjórn hitaveitunnar og jafnframt um rétt Hitaveitu Suðurnesja til þess að taka ekki tillit til samþykktar bæjarstjórnar þess efnis.

 

II.      Málsrök aðila:

          Um Hitaveitu Suðurnesja gilda lög nr. 100/1974 og reglugerð nr. 89/1990. 7. gr. laganna er svohljóðandi:

          "Stjórn Hitaveitu Suðurnesja skal skipuð níu mönnum. Iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra skipa hvor einn fulltrúa í stjórnina og einn til vara. Keflavík-Njarðvík-Hafnir skipa þrjá fulltrúa í stjórnina og þrjá til vara. Önnur sveitarfélög, sem aðilar eru að fyrirtækinu, skipa hvert einn fulltrúa í stjórnina og einn til vara. Fulltrúar sveitarfélaganna skulu skipaðir til fjögurra ára og hefst kjörtímabil þeirra 1. ágúst næstan eftir almennar sveitarstjórnarkosningar en lýkur 31. júlí fjórum árum síðar. Fulltrúar ríkissjóðs skulu skipaðir til eins árs í senn frá aðalfundi til aðalfundar. Stjórnin skiptir með sér verkum. Við afgreiðslu mála skal að jafnaði viðhafa hlutfallslega atkvæðagreiðslu, miðað við eignarhlutfall skv. 2. gr., enda komi fram ósk að minnsta kosti eins stjórnarmanns þar um, og þarf þá 60% atkvæða til að mál teljist samþykkt. Undirskrift meiri hluta stjórnar bindur fyrirtækið."

 

          6. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, hljóðar svo, en ákvæðið er óbreytt frá eldri sveitarstjórnarlögum, nr. 8/1986.:

          "Þá kýs sveitarstjórn fulltrúa í nefndir, ráð og stjórnir sem sveitarfélag á aðild að samkvæmt viðkomandi samþykktum eða lögum."

 

          Í athugasemdum með frumvarpinu segir eftirfarandi:

          "Sveitarfélög hafa með sér samvinnu um framkvæmd ýmissa verkefna og eiga jafnframt aðild að tilteknum verkefnum samkvæmt lögum. Í slíkum tilvikum kjósa sveitarstjórnirnar skv. 6. mgr. fulltrúa í nefndir og stjórnir verkefnanna, til dæmis fulltrúa í stjórn byggðasamlags, fulltrúa í stjórn heilsugæslustöðvar o.s.frv. Um fjölda þeirra fulltrúa sem sveitarstjórnin kýs fer eftir ákvæðum í lögum, samstarfssamningum eða samþykktum viðkomandi félags eða samlags."

 

          Óumdeilt er í málinu að kjör fulltrúa í stjórn Hitaveitu Suðurnesja fellur undir tilvitnað ákvæði 6. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga.

 

          Heimild sína til að skipta um fulltrúa í stjórn hitaveitunnar telur Grindavíkurkaupstaður vera að finna í 4. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Ákvæðið hljóðar svo:

          "Sveitarstjórn er heimilt að skipta um fulltrúa í nefndum hvenær sem er á kjörtímabili nefndar, svo sem þegar nefndarmenn njóta ekki lengur trausts meiri hluta þeirra sem sæti eiga í sveitarstjórn. Enn fremur er fulltrúum í nefndum heimilt að segja af sér nefndarstörfum hvenær sem er á kjörtímabilinu."

 

          Hið tilvitnaða ákvæði er nýmæli og kemur fram í greinargerð með lögunum að heimildin sé talin nauðsynleg til þess að stuðla að betri starfsemi og skilvirkni í stjórnsýslu sveitarfélaga. Eigi heimildin ekki einungis við þegar fulltrúar njóti ekki lengur trausts meirihluta sveitarstjórnar, heldur einnig ef nefndarmenn sinna ekki verkefnum sínum.

 

          Eins og áður segir tilkynnti forstjóri Hitaveitu Suðurnesja Grindavíkurkaupstað þá afstöðu sína í bréfi, dags. 6. maí 1999, að hitaveitan teldi að bæjarstjórn hefði ekki lagaheimild til þess að víkja manni sem hún hefði tilnefnt úr stjórn hitaveitunnar. Er í bréfinu m.a. vísað til álits Lagastofnunar Háskóla Íslands frá árinu 1992, þar sem segir um ákvæði laga nr. 100/1974:

          "Ákvæðin sem hér um ræðir heimila engar undantekningar og getur sveitarfélag til dæmis ekki skipað stjórnarmann til skemmri tíma en fjögurra ára, en með þessu hefur væntanlega verið stefnt að því að tryggja festu í störfum stjórnar fyrirtækisins og fyrirbyggja ör mannaskipti í henni. Sveitarfélag getur heldur ekki vikið manni, sem það hefur tilnefnt, úr stjórn fyrirtækisins nema fyrir því séu eftir atvikum ástæður, sem gætu heimilað brottvikningu opinbers starfsmanns úr stöðu eftir reglum III. kafla laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 38/1954, en nærtækt er að byggja á þeim í þessum efnum með lögjöfnun."

 

          Ennfremur fylgir bréfi forstjórans lögfræðileg álitsgerð Ásgeirs Jónssonar hdl. sem hitaveitan telur taka af allan vafa um að réttarstaða stjórnarmanna í Hitaveitu Suðurnesja hafi ekkert breyst frá því fyrrgreind álitsgerð lagastofnunar var gerð, þrátt fyrir tilkomu 4. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga.

 

III.     Álit ráðuneytisins:

          Við kosningu fulltrúa í nefndir, ráð og stjórnir samkvæmt 6. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga gildir almennt sú regla að fara skal eftir þeim lögum eða samþykktum sem gilda um viðkomandi stjórnvald. Ráðuneytið telur að þessi regla gildi ekki einvörðungu um fjölda þeirra fulltrúa sem sveitarstjórn tilnefnir, heldur einnig varðandi kjörtímabil og önnur þau atriði sem máli kunna að skipta, að því marki sem viðkomandi lög eða samþykktir kveða á um þau atriði. Í 7. gr. laga nr. 100/1974 kemur fram að fulltrúar sveitarfélaga í stjórn Hitaveitu Suðurnesja skulu kjörnir til fjögurra ára. Kjörtímabil hefst hinn 1. ágúst, næstan eftir almennar sveitarstjórnarkosningar og lýkur 31. júlí fjórum árum síðar. Fulltrúar iðnaðar- og fjármálaráðuneytis eru hins vegar skipaðir til eins árs í senn.

          Ekki er vikið að því í lögum nr. 100/1974 við hvaða aðstæður er heimilt að víkja kjörnum fulltrúa úr stjórn hitaveitunnar, en í 4. tl. 2. mgr. 16. gr. reglugerðar fyrir Hitaveitu Suðurnesja, nr. 89/1990, kemur fram að eignaraðilar skuli á aðalfundi tilnefna nýja fulltrúa í stjórn hitaveitunnar. Almennt gildir sú regla hér á landi að til að brottvikning sé heimil verði að koma fram gildar ástæður, s.s. að viðkomandi fulltrúi hafi misst kjörgengi sitt, sbr. 3. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga, eða að hann sinni ekki því starfi sem honum hefur verið falið að gegna, sbr. t.d. úrskurð félagsmálaráðuneytisins frá 28. september 1988, ÚFS 1986-89, bls. 62. Ekki hefur verið haldið fram í máli þessu að um neitt slíkt hafi verið að ræða, heldur hafi ástæða brottvikningar eingöngu verið sú, að myndaður hafi verið nýr meirihluti í bæjarstjórn Grindavíkurkaupstaðar.

          Með hliðsjón af öllu framansögðu er niðurstaða ráðuneytisins því sú, að afdráttarlaust orðalag sérákvæðis 7. gr. laga nr. 100/1974 gangi framar almennu ákvæði 4. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga. Var Grindavíkurkaupstað því óheimilt, eins og atvikum var háttað í máli þessu, að afturkalla einhliða umboð fulltrúa síns og varamanns hans í stjórn Hitaveitu Suðurnesja.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta