Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Mál nr. IRR16050012

Ár 2016, þann 29. nóvember, er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. IRR16050012

 

Kæra [A]
á ákvörðun
Samgöngustofu

 

I.      Kröfur og kæruheimild

Þann 2. maí 2016 barst ráðuneytinu kæra [A] (hér eftir nefndur [A]), […], á ákvörðun Samgöngustofu (hér eftir nefnd SGS) frá 5. febrúar 2016 um að synja umsókn [A] um endurnýjun D og F skírteina samkvæmt reglugerð um köfun. Krefst [A] þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og orðið verði við umsókn hans. Einnig krefst [A] þess að fá útgefin G réttindi samkvæmt sömu reglugerð. Þá gerir [A] frekari kröfur sem raktar verða í kaflanum um málsástæður og rök [A] en þar sem þær lúta ekki með beinum hætti að hinni kærðu ákvörðun verða þær ekki raktar frekar hér.

Kæruheimild er í 18. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012.

 

II.        Málsatvik og málsmeðferð ráðuneytisins

Af gögnum málsins má ráða að í apríl 2015 sótti [A] um C, D, F og G skírteini samkvæmt 12. gr. reglugerðar um köfun nr. 535/2001. Var þeirri umsókn synjað af hálfu SGS þann 8. maí 2015 á þeim forsendum að PADI réttindi [A] væru útrunnin. Í kjölfarið átti [A] í samskiptum við SGS og fékk útgefið C skírteini. Eftir áframhaldandi samskipti [A] og SGS var umsókn [A] um D og F skírteini synjað með ákvörðun SGS þann 5. febrúar 2016.

Ákvörðun SGS var kærð til ráðuneytisins með tölvubréfi [A] mótteknu þann 2. maí 2016.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 4. maí 2016 var SGS gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið með bréfi SGS mótteknu 15. júní 2016.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 16. júní 2016 var [A] kynnt umsögn SGS og gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna málsins. Bárust þær athugasemdir ráðuneytinu með tölvubréfi [A] mótteknu 27. júní 2016.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 28. júní 2016 var SGS gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum vegna málsins. Bárust þau sjónarmið ráðuneytinu með bréfi SGS mótteknu 11. júlí 2016.

Með tölvubréfi ráðuneytisins dags. 11. júlí 2016 voru [A] kynnt sjónarmið SGS og gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna málsins. Bárust þær athugasemdir ráðuneytinu með tölvubréfi [A] mótteknu 11. ágúst 2016.

Með bréfi dags. 1. september 2016 tilkynnti ráðuneytið [A] að gagnaöflun væri lokið og málið væri tekið til úrskurðar.

 

III.      Málsástæður og rök [A]

Í kæru krefst [A] þess í fyrsta lagi að endurútgefin verði atvinnuköfunarréttindi C, D, F og G í samræmi við umsókn hans. Í öðru lagi krefst [A] þess að málsmeðferð á máli hans verði rannsökuð af opinberum aðilum í þeim tilgangi að aðrir þeir sem lendi í sambærilegri málsmeðferð njóti lögbundins réttar síns til atvinnu og félagafrelsis. Í þriðja lagi krefst [A] þess að samtökunum PADI verði gert að fara eftir eigin ákvæðum í því kennslukerfi og námsskrá sem samtökin hafa lagt fram til samþykktar og endurnýjuð félagsaðild [A]. Að öðrum kosti verði samtökin ekki lengur talin til aðila að lögbundnu kennslukerfi og námsskrá samkvæmt SGS. Í fjórða lagi krefst [A] þess að samtökin PADI uppfæri námsskrá sína og kennslukerfi til samþykktar SGS í samræmi við reglugerðir og lög á Íslandi. Í fimmta lagi krefst [A] þess að farið verði með löglegum hætti yfir lög og reglugerðir er varða atvinnuköfun á Íslandi og unnið heildrænt að endurbótum. Í sjötta lagi krefst [A] þess að endurbætur verði gerðar á starfsemi SGS er lúta að málefnum kafara með þeim hætti að þar finnist þekking á lögum og atvinnuköfun sem teljist fullnægjandi til að sinna lögboðnu eftirlitshlutverki stofnunarinnar.

[A] bendir á að í ákvörðun SGS frá 5. febrúar 2016 komi ranglega fram að ekki liggi fyrir gögn sem sýni að [A] hafi PADI réttindi eða sambærileg. Þau réttindi hafi fylgt með umsókn [A]. Af hálfu SGS sé á því byggt að réttindin séu útrunnin. Sé hvorki heimild samkvæmt íslenskum lögum eða reglugerðum um köfun né heldur samkvæmt kennslukerfi umræddra samtaka til að láta réttindi renna út. Sé um að ræða misskilning af hálfu SGS. Í lögum um köfun nr. 31/1996 séu engin ákvæði til stuðnings þess að réttindi til köfunar geti runnið út og sé slík ákvæði ekki heldur að finna í reglugerð um köfun nr. 535/2001. Í tveimur ákvæðum reglugerðarinnar sé skýrt kveðið á um hvað þurfi til að fá hin íslensku réttindi útgefin, annars vegar í 5. gr. og hins vegar í a-lið 11. gr. Þá komi fram í 14. gr. reglugerðarinnar það skilyrði að sá sem fái leyfi til kennslu skuli hafa lokið prófum frá viðurkenndum aðila. Hafi [A] skilað inn gögnum þar að lútandi. Hins vegar sé ekkert tilgreint um félagsaðild í því ákvæði líkt og byggt sé á af hálfu SGS, þ.e. að synja [A] um réttindin þar sem hann sé ekki félagi í PADI. Einu ákvæði félagsaðildar sé að finna í sjálfu kennslukerfinu og námsskrá. Þá telur [A] að ekki séu bein tengsl milli félagsaðildar og réttinda í þeim skilningi að réttindi falli úr gildi falli félagsaðildin úr gildi. Þá sé í hinni kærðu ákvörðun ranglega skilgreint hvað teljist atvinnuköfun. Merki atvinnuköfun í lögunum, sbr. 2. gr. þeirra, allar þær athafnir sem falli undir og séu liður í atvinnustarfsemi kafarans eða annarra aðila. Einnig teljist það vera atvinnuköfun ef athöfnin sé liður í skipulagðri þjónustustarfsemi til verndar almannahagsmunum. Útgáfa D, F og G réttinda teljist því atvinnuköfun samkvæmt lögunum.

[A] vísar til þess að hann sé handhafi lögbundinna atvinnuköfunarréttinda og séu þau til staðar hjá SGS. Hafi [A] sótt um endurnýjun og fari SGS ekki eingöngu fram á að hann framvísi gögnum sem kveðið er á um í 11. gr. reglugerðar um köfun heldur þurfi [A] einnig að sýna fram á að hann sé félagsmaður í PADI. Sé hvergi kveðið á um slíkt í lögum og telur [A] það brot á 74. gr. stjórnarskrárinnar að skylda hann til slíkrar félagsaðildar. Þá sé synjun SGS einnig brot á stjórnarskrárbundnum rétti [A] samkvæmt 75. gr. stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi.

[A] telur einnig að umsókn hans hafi verið ranglega afgreidd og ætti SGS samkvæmt lögum að fara fram á það við PADI að þeir endurnýji félagsaðild [A] og uppfæri námsskrá í samræmi við breytingar sem samtökin hafi sent út til starfandi kennara. Að öðrum kosti falli löggilding sú sem samtökin hafi fengið úr gildi enda hafi þau hvorki farið eftir lögum né námsskrá og kennslukerfi. Sé nauðsynlegt að námsskrá og kennslukerfi liggi fyrir hjá stofnuninni í þeirri mynd sem farið er eftir við umrædda atvinnustarfsemi til að hægt sé að rannsaka slys með hliðsjón af námsskrá og verklagi.

[A] vísar til þess að hann telji málsmeðferð SGS ófaglega og andmælaréttur hans sé að engu hafður. Þá uppfylli tilkvaddur ráðgjafi SGS ekki ákvæði 2. gr. reglugerðar nr. 762/2012 um breytingu reglugerðar nr. 535/2001. Þá hafi upplýsingaflæði til [A] verið hindrað. Eins hafi engin prófanefnd komið að málinu auk þess sem hún sé ekki starfandi í samræmi við gildandi lög og reglugerðir. Að lokum vísar [A] til þess í kæru að réttindi þau sem sótt hafi verið um séu einungis tengd PADI að því leiti að samkvæmt lögum þurfi [A] að sýna fram á að hann hafi lokið tilskyldum prófum, sem hann og geri sbr. framlögð prófskírteini. Að öðru leyti þykir ekki ástæða til að rekja frekar athugasemdir [A] í kæru.

Í athugasemdum [A] frá 27. júní 2016 óskar hann eftir nánari útskýringum SGS á staðhæfingum þess efnis að réttindi hans séu fallin úr gildi. Telur [A] sig hafa vísað með fullnægjandi hætti til laga og reglugerða í kæru.

Í athugasemdum [A] frá 11. ágúst 2018 bendir hann á að misskilnings virðist gæta hjá SGS um mun á réttindum annars vegar og félagsaðild í samtökum PADI hins vegar. Hið rétta sé að hvorki í lögum né í kennslukerfi sem notað er til stuðnings fullyrðinum SGS sé heimild til að svipta menn kennsluréttindum. Hins vegar sé heimild í kennslukerfinu til að neita kennurum með réttindin um félagsaðild, en slík aðild sé svo skilyrði þess að kennarar gefi út áhugamannaskírteini undir nafni PADI. Bendir [A] á að það kennslukerfi sem lagt var fram til Siglingamálastofnunar á sínum tíma af hálfu PADI sé eina löggagnið sem nota megi við mat málsatvika. Sé ekki við [A] að sakast heldur PADI sem hvorki viðhaldi lagalegri skyldu sinni til að færa til samþykktar uppfærslur á kennslukerfi né heldur fari samtökin sjálf eftir eigin forskrift. Í máli þessu beri að krefjast þess að PADI fari eftir kennslukerfinu og veita [A] félagsaðild ef hann óskar þess eða að öðrum kosti að fella úr gildi fyrri samþykkt um löggildingu samtakanna hér á landi á þeim forsendum að lögum sé ekki fylgt eftir af þeirra hálfu. Þá beri að áminna samtökin um að færa til samþykktar síðari tíma breytingar. Þá bendir [A] á að sem handhafi innlendra réttinda gæti hann stundað kennslu án útgáfu skírteinis frá PADI og farið með ferðamenn auk þess að framkvæma aðra minni háttar starfsemi. Þá fjallar [A] í athugasemdum sínum um aflagningu prófanefndar og lögmæti þess að ráða tilgreindan einstakling sem verktaka. Er ekki ástæða til að rekja þær athugasemdir [A] frekar. Eins gerir [A] margvíslegar athugasemdir við vinnubrögð SGS í málefnum hans. Telur [A] að bæði hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga sem og hafi andmælaréttur hans ekki verið virtur. Þá hafi jafnræðisregla stjórnsýslulaga einnig verið brotin þar sem sjá þurfi til þess að fyrirtæki og félagasamtök fari sjálf eftir kennslukerfinu. Eins hafi upplýsingaskylda ekki verið virt. Að öðru leyti þykir ekki ástæða til að rekja athugasemdir [A] frekar.

 

IV.      Ákvörðun og umsögn SGS

Í ákvörðun SGS kemur fram að D og F réttindi teljist til áhugaréttinda um köfun. Séu D réttindi ætluð til kennslu í áhugaköfun og F réttindi séu ætluð til leiðsöguköfunar með ferðamenn. Í 4. mgr. 14. gr. reglugerðar um köfun komi fram að sá sem fær leyfi til kennslu í áhugaköfun skuli hafa lokið prófi frá viðurkenndum aðila. Í 12. gr. reglugerðarinnar komi fram að D skírteini veiti réttindi til kennslu áhugaköfunar. F skírteini heimili leiðsögu og yfirborðsköfun til þeirra sem hafi réttindi sem PADI divemaster eða sambærileg réttindi. Feli þetta í sér að til þess að öðlast F eða D réttindi þurfi viðkomandi að sýna fram á að hann uppfylli kröfur hins viðurkennda aðila. PADI sé viðurkenndur aðili í þeim skilningi. Áréttað sé að námsefni og kennslukerfi PADI þróist án sérstakrar aðkomu SGS. Þeir sem hafi kennsluréttindi hjá PADI eða önnur sambærileg réttindi frá viðurkenndum alþjóðlegum köfunarsamtökum hafi reglur þeirra og kennslukerfi í heiðri. Þar sem ekki liggi fyrir gögn sem sýni fram á að [A] hafi réttindi frá PADI eða sambærileg réttindi frá viðurkenndum alþjóðlegum köfunarsamtökum sé umsókn [A] um D og F skírteini samkvæmt 12. gr. reglugerðar nr. 535/2001 synjað.

Í umsögn SGS frá 10. júní 2016 kemur fram að stofnunin telji kjarna málsins vera þann að ekki sé heimilt að veita [A] D og F skírteini nema hann hafi í gildi réttindi frá viðurkenndum aðila. Þá er á það bent að [A] hafi fengið afhent C skírteini sem upphaflega hafi verið synjað um. Þá hafi [A] verið gert ljóst að SGS féllist ekki á að líta bæri á kennslukerfi PADI sem lögformlegt gagn. Þá hefði SGS hvorki forsendur né heimildir til að grípa til sérstakra aðgerða gagnvart PADI vegna málsins. Eftir nokkur samskipti hafi [A] verið tilkynnt að SGS myndi ekki aðhafast frekar vegna PADI enda væri ekki heimild til þess.

Í athugasemdum SGS frá 14. júlí 2016 kemur fram að áhugaköfun hér á landi sé í höndum viðurkenndra aðila. Hér á landi hafi PADI hlotið slíka viðurkenningu. Til að hljóta réttindi til kennslu í áhugaköfun eða réttindi í leiðsögu- og yfirborðsköfun skuli umsækjandi sýna fram á að hann uppfylli kröfur hins viðurkennda aðila. Telur SGS ljóst að [A] hafi ekki heimild frá PADI til kennslu. Þá hafi komið fram að námsefni og kennslukerfi viðurkenndra aðila þróist án sérstakrar aðkomu SGS. Gert sé ráð fyrir að þeir sem hafi kennsluréttindi frá PADI eða sambærilegum viðurkenndum aðila hafi reglur þeirra og kennslukerfi í heiðri. Væri talið nægjanlegt að hafa áður uppfyllt kröfur viðurkennds aðila til að fá heimild til kennslu áhugaköfunar fæli það í sér að engin trygging væri fyrir að handhafi slíks leyfis kenndi samkvæmt uppfærðu kennslukerfi. Þvert á móti telji [A] að eldri kerfi hafi verið viðeigandi löggagn og kenna bæri áhugaköfun eftir því. Þá kemur fram í athugasemdum SGS að með bréfi ráðuneytisins dags. 10. júní 2015 hafi SGS verið tilkynnt að prófanefnd kafara yrði ekki skipuð á ný þar sem lagastoð skorti. Í kjölfarið hafi SGS tekið að sér umrædd verkefni og notið aðstoðar þar til greinds aðila sem verktaka. Þá hafi jafnframt verið leitað til fyrrum fulltrúa prófanefndar kafara. Hafi aðeins verið um að ræða samtal, í samræmi við rannsóknarregluna, um hvernig bæri að skilja tiltekin ákvæði reglugerðar um köfun, en ekki hafi verið um umsögn að ræða. Afstaða [A] gagnvart þeim skilningi hafi legið ljós fyrir. Ákvörðun í málinu hafi verið tekin af SGS og þar sé að finna þau sjónarmið sem byggt er á. Telur SGS að [A] hafi ávallt verið gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Telur SGS ljóst að tilgangur reglugerðar um köfun sé m.a. að tryggja að þeir sem fái útgefin leiðsögu- eða kennsluréttindi í áhugaköfun séu handhafar gildra réttinda frá viðurkenndum aðila. Þar sem [A] hafi ekki getað sýnt fram á slíkt hafi umsókn hans um D og F skírteini verið synjað.

 

V.        Niðurstaða ráðuneytisins

Um köfun gilda lög með sama nafni nr. 31/1996. Samkvæmt 4. gr. laganna gefur SGS út köfunarskírteini til þeirra sem uppfylla skilyrði laganna og reglugerða settum á grundvelli þeirra. Skulu skírteinin rituð á þar til gerð eyðublöð og gilda til fimm ára í senn. Atvinnuköfun er skilgreind í 1. mgr. 2. gr. laganna. Er með atvinnuköfun átt við allar þær athafnir sem falla undir og eru liður í atvinnustarfsemi kafarans eða annarra aðila. Einnig telst það vera atvinnuköfun ef athöfnin er liður í skipulagðri þjónustustarfsemi til verndar almannahagsmunum. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. merkir áhugaköfun samkvæmt lögunum allar þær athafnir sem teljast til köfunar samkvæmt lögunum en falla ekki undir ákvæði 1. mgr. 2. gr. um atvinnuköfun. Um skilyrði til að stunda atvinnuköfun er síðan fjallað í 3. gr. laga um köfun. Er eitt skilyrðanna að hafa gilt atvinnuköfunarskírteini útgefið af SGS, sbr. 4. tl. 1. mgr.

Á grundvelli laga um köfun hefur verið sett reglugerð um köfun nr. 535/2001 með síðari breytingum. Þar segir í 5. gr. að sá sem vill stunda atvinnuköfun skuli hafa lokið prófi í atvinnuköfun með fullnægjandi árangri frá aðila viðurkenndum af SGS. Samkvæmt 11. gr. reglugerðarinnar gefur SGS út atvinnuköfunarskírteini. Um flokkun og gildistíma atvinnuköfunarskírteina er fjallað í 12. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. veitir D skírteini réttindi til kennslu til áhugaköfunar. F skírteini heimilar hins vegar leiðsögu- og yfirborðsköfun með ferðamenn til þeirra sem hafa réttindi sem PADI divemaster eða sambærileg réttindi frá viðurkenndum alþjóðlegum köfunarsamtökum, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 762/2012 um breytingu á reglugerð nr. 535/2001 um köfun. Samkvæmt sömu breytingareglugerð eru G skírteini síðan fyrir aðra köfun en A-F skírteini taka til, sbr. 1. mgr. 12. gr. reglugerðar um köfun. Gildir atvinnuköfunarskírteini til fimm ára í senn og eftir þann tíma getur viðkomandi sótt um nýtt skírteini til SGS.

Um námsskrá og prófanefnd er fjallað í 14. gr. reglugerðar um köfun. Samkvæmt 3. mgr. þess ákvæðis skal sá sem fær leyfi til kennslu í áhugaköfun hafa lokið prófum frá viðurkenndum aðila.

Líkt og fram hefur komið var það niðurstaða SGS að synja umsókn [A] um endurnýjun D og F skírteinis samkvæmt 12. gr. reglugerðar um köfun. Byggðist niðurstaða SGS á því að til að öðlast D eða F réttindi þyrfti viðkomandi að sýna fram á að hann uppfyllti kröfur hins viðurkennda aðila, sbr. 3. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar. Væri PADI viðurkenndur aðili í þessum skilningi. Þar sem ekki lægju fyrir gögn sem sýndu fram á að [A] hefði réttindi frá PADI eða sambærileg réttindi frá viðurkenndum alþjóðlegum köfunarsamtökum væri umsókn hans synjað. Þá liggur fyrir að [A] hafði áður fengið útgefið C skírteini samkvæmt 12. gr. reglugerðarinnar.

Til að byrja með tekur ráðuneytið fram að kröfur [A] eru margvíslegar og voru þær raktar  hér að framan. Er þar m.a. um ræða kröfu um að PADI verði gert að fara eftir eigin ákvæðum í því kennslukerfi og námsskrá sem samtökin hafi lagt fram til samþykktar og þau endurnýji félagsaðild [A]. Þá krefst [A] þess að PADI uppfæri námsskrá sína og kennslukerfi til samþykktar SGS og að farið verði yfir lög og reglugerðir er varða atvinnuköfun á Íslandi, sem og að endurbætur verði gerðar á starfsemi SGS er lúta að málefnum kafara.

Hvað þessar tilgreindu kröfur [A] varðar tekur ráðuneytið fram að þær varða ekki stjórnvaldsákvarðanir sem sæta kæru til ráðuneytisins á grundvelli kæruheimildar stjórnsýslulaga. Eina stjórnvaldsákvörðunin sem tekin hefur verið af SGS varðar synjun stofnunarinnar á að verða við umsókn [A] um D og F skírteini samkvæmt 12. gr. reglugerðar um köfun. Er það sú ákvörðun sem sætir kæru til ráðuneytisins og mun umfjöllun ráðuneytisins því einskorðast við þá ákvörðun og þau laga- og reglugerðarákvæði sem liggja þeirri ákvörðun til grundvallar. Mun ráðuneytið því hvorki fjalla um athugasemdir [A] er lúta að námsskrá og kennslukerfi PADI í úrskurði þessum né heldur um þá kröfu [A] að félagsaðild hans að PADI verði endurnýjuð. Í því sambandi bendir ráðuneytið á að PADI er ekki stjórnvald og ákvarðanir samtakanna því ekki stjórnvaldsákvarðanir sem sæta kæru til ráðuneytisins. Hins vegar mun ráðuneytið kanna hvort tilefni geti verið til að taka athugasemdir [A] hvað þetta varðar til meðferðar sem kvörtun á grundvelli almenns eftirlitshlutverks ráðuneytisins.

Líkt og fram hefur komið var það niðurstaða SGS að synja umsókn [A] um endurnýjuð D og F skírteini þar sem hann uppfyllti ekki kröfur PADI sem hins viðurkennda aðila, sbr. 3. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar, en samkvæmt því ákvæði skal sá sem fær leyfi til kennslu í áhugaköfun hafa lokið prófum frá viðurkenndum aðila.

Ráðuneytið telur að gera þurfi greinarmun á því hvort um er að ræða umsókn um D skírteini eða umsókn um F skírteini samkvæmt 12. gr. reglugerðar um köfun. D skírteini veitir þannig réttindi til kennslu áhugaköfunar. Samkvæmt 3. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar skal sá sem fær leyfi til kennslu í áhugaköfun hafa lokið prófum frá viðurkenndum aðila. Sé hins vegar sótt um F skírteini sem heimilar leiðsögu- og yfirborðsköfun með ferðamenn verði slík réttindi aðeins veitt þeim sem hafa réttindi sem PADI divemaster eða sambærileg réttindi frá viðurkenndum alþjóðlegum köfunarsamtökum, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 762/2012 um breytingu á 12. gr. reglugerðar nr. 535/2001.

Það er mat ráðuneytisins að við umsókn um D skírteini samkvæmt 12. gr. reglugerðar um köfun verði ekki gerð sú krafa að umsækjandi sýni fram á að hann hafi réttindi frá PADI eða sambærileg réttindi frá viðurkenndum alþjóðlegum köfunarsamtökum. Sé engin slík skilyrði að finna í reglugerð nr. 535/2001. Hins vegar skal sá sem fær réttindi til kennslu í áhugaköfun hafa lokið prófi frá viðurkenndum aðila líkt og áskilið er í 3. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar. Þar sem fyrir liggur að [A] hefur lokið slíku prófi og uppfyllir auk þess önnur skilyrði laga og reglugerðar um köfun er það mat ráðuneytisins að fella beri úr gildi þann hluta ákvörðunar SGS sem lýtur að synjun á útgáfu D skírteinis til handa [A]. Er því lagt fyrir SGS að verða við umsókn [A] um D skírteini.

Hvað varðar F skírteini telur ráðuneytið hins vegar að ákvæði 12. gr. reglugerðarinnar um slík skírteini verði ekki skilið á annan hátt en þann að þar sé það gert að skilyrði að viðkomandi hafi réttindi sem PADI divemaster eða sambærileg réttindi frá viðurkenndum alþjóðlegum köfunarsamtökum. Við umsókn um F skírteini nægi því ekki að sýna fram á að umsækjandi hafi lokið prófum frá viðurkenndum aðila líkt og þegar um D skírteini er að ræða. Telur ráðuneytið að ljóst megi vera af gögnum málsins að [A] sé hvorki handhafi réttinda sem PADI divemaster né sé hann með sambærileg réttindi frá viðurkenndum alþjóðlegum köfunarsamtökum. Því hafi SGS verið rétt að synja umsókn [A] um F skírteini. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest að þessu leyti.

Þá hefur ráðuneytið yfirfarið málsmeðferð SGS og telur að hún hafi að öllu leyti verið í samræmi við fyrirmæli stjórnsýslulaga. Hafi málið þannig verið fullrannsakað af hálfu SGS og [A] hafi ávallt verið gefinn kostur á að tjá sig við meðferð málsins. Þá verði ekki séð að mál [A] hafi fengið aðra afgreiðslu en sambærileg mál.

Hvað varðar kröfu [A] um að fá útgefið G skírteini samkvæmt 12. gr. reglugerðar um köfun verður ekki séð að um þá kröfu hans hafi verið fjallað af hálfu SGS. Telur ráðuneytið því að vísa beri þeirri kröfu [A] til meðferðar SGS enda sé meginreglan sú að fjalla beri um mál á tveimur stjórnsýslustigum sé kæruheimild fyrir hendi.

Ráðuneytið biðst velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefur á úrlausn málsins.

 

Úrskurðarorð:

Hinni kærðu ákvörðun er breytt á þann veg að felld er úr gildi ákvörðun Samgöngustofu frá 5. febrúar 2016 um að synja umsókn [A] um endurnýjun D skírteinis samkvæmt 12. gr. reglugerðar um köfun nr. 535/2001. Er lagt fyrir SGS að verða við umsókn [A] þar um.

Ákvörðun Samgöngustofu um að synja umsókn [A] um endurnýjun F skírteinis er hins vegar staðfest. Umsókn [A] um G skírteini er vísað til meðferðar Samgöngustofu.  


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta