Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Úrskurður í máli nr. SRN18090001

Ár 2019, þann 27. febrúar, er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. SRN18090001

Kæra X

á ákvörðun

Samgöngustofu

 

I.      Kröfur og kæruheimild

Þann 1. september 2018 barst ráðuneytinu kæra X, kt. 000000-0000 (hér eftir nefndur X), á ákvörðun Samgöngustofu (hér eftir nefnd SGS) frá 12. júní 2018 um að synja umsókn X um atvinnuleyfi til aksturs leigubifreiðar. Af kæru verður ráðið að X krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og honum veitt umbeðið leyfi.

Kæruheimild er í 4. gr. laga um leigubifreiðar nr. 134/2001.

 

II.        Málsatvik og málsmeðferð ráðuneytisins

Af gögnum málsins má sjá að X lagði fram umsókn um atvinnuleyfi til aksturs leigubifreiðar fyrir úthlutun sem fram fór í apríl 2018. Með ákvörðun SGS þann 12. júní 2018 var þeirri umsókn synjað.

Ákvörðun SGS var kærð til ráðuneytisins með bréfi X mótteknu þann 1. september 2018.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 18. september 2018 var SGS gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið með bréfi SGS mótteknu 8. október 2018.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 24. október 2018 var X kynnt umsögn SGS og gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna málsins. Bárust þær athugasemdir ráðuneytinu með bréfi X mótteknu þann 11. nóvember 2018.

 

III.      Málsástæður og rök X

Í kæru mótmælir X því að hann hafi ekki nægilega reynslu til að fá úthlutað leyfi til aksturs leigubifreiðar. Kveðst X vera með mikla reynslu í farþegaflutningum frá því hann lauk meiraprófi árið 1982. Kveðst X hafa unnið við leiguakstur í talsverðum mæli á árunum 1982 til 1996 auk þess að vinna við akstur hópferðabifreiða hjá Landleiðum, Kynnisferðum, Teiti Jónassyni og Strætó BS, en þar hafi X starfað frá júní 2013 til júní 2017 í fullu starfi. Á árunum 1982 til 1996 hafi X verið í afleysingum á leigubílum um helgar og einnig í lengri tíma í einu. Kveðst X hafa starfað hjá Steindóri bifreiðastöð, BSR, Bæjarleiðum og Hreyfli fyrir hina ýmsu leyfishafa. Bendir X á að á þeim tíma hafi skráning með afleysingum verið mjög fátækleg þar sem engar tölvur hafi verið til staðar og ekki mjög formfast hvernig afleysingaleyfi voru veitt. Hafi X verið bent á að sanna megi aksturstíma með skattframtölum en það sé ekki mögulegt þar sem skattaskýrsla segi ekkert um aksturstíma heldur aðeins hugsanlegar tekjur. Þá sé ógerningur að leggja í þá vinnu að grafa upp skattaskýrslur frá þessum tíma þar sem þær séu ekki til í rafrænu formi. Kveðst X lauslega áætlað hafa um 2000 daga reynslu við leiguakstur á tilgreindu 14 ára tímabili að ótöldum akstri hópferðabifreiða.

Í andmælum sínum bendir X á að ætla megi að reglur um úthlutun séu settar með tilliti til þess að fá sem reynslumesta bílstjóra til atvinnuaksturs. Áréttar X sjónarmið þau sem fram koma í kæru um reynslu hans. Telur X það ekki vera í anda laganna að sniðganga reynslu hans og mótmælir því að reynsluleysi geti talist ástæða synjunar.

 

IV.      Ákvörðun og umsögn SGS

Í ákvörðun SGS kemur fram að skilyrði til að fá úthlutað atvinnuleyfi séu tilgreind í lögum um leigubifreiðar nr. 134/2001, sbr. reglugerð nr. 397/2003. Hafi SGS farið yfir umsókn X með tilliti til laga og reglna. Uppfylli X ekki skilyrði um starfsreynslu við akstur leigubifreiðar samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar og fái því ekki úthlutað atvinnuleyfi að þessu sinni. Þá kemur fram í ákvörðun SGS að í apríl 2018 hafi verið úthlutað 25 atvinnuleyfum til leiguaksturs.

Í umsögn SGS kemur fram að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga um leigubifreiðar nr. 134/2001 fari SGS með framkvæmd mála er varðar leigubifreiðar. Undir starfssvið stofnunarinnar falli m.a. útgáfa atvinnuleyfa. Í 6. gr. reglugerðar um leigubifreiðar nr. 397/2003, sbr. 8. gr. laga nr. 134/2001, sé fjallað um úthlutunarreglur þær sem gilda þegar gefin eru út atvinnuleyfi til leiguaksturs. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar veiti SGS að öllum skilyrðum uppfylltum atvinnuleyfi á takmörkunarsvæðum á grundvelli starfsreynslu við akstur leigubifreiðar. Samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar sé starfsreynsla metin á grundvelli dagafjölda, þ.e. fjölda daga sem umsækjandi hefur starfað við akstur leigubifreiðar sem afleysingabílstjóri. Sá umsækjandi sem hafi flesta daga í starfsreynslu sé fyrstur í röðinni til að hljóta úthlutun atvinnuleyfis. Í apríl 2018 hafi farið fram úthlutun á 25 atvinnuleyfum til leiguaksturs. Þeir sem fengu úthlutað leyfum hafi verið með frá 1100 dögum upp í 1350 daga metna í starfsreynslu. X hafi verið með 221 dag metinn í starfsreynslu þegar úthlutun fór fram. Í dag sé X með 333 daga metna miðað við þá akstursheimild sem hann hafi til 2. október 2018 að meðtöldum þeim dögum sem enn eru óunnir. Hafi X samkvæmt framangreindu ekki náð sama dagafjölda í starfsreynslu og þeir 25 umsækjendur sem fengu úthlutun og hafi honum því verið synjað um útgáfu atvinnuleyfis til leiguaksturs.

 

V.        Niðurstaða ráðuneytisins

Um atvinnuleyfi til aksturs leigubifreiða, veitingu þeirra og skilyrði sem þarf að uppfylla er fjallað í lögum um leigubifreiðar nr. 134/2001. Í 5. gr. laganna er fjallað um skilyrði fyrir atvinnuleyfi og þau talin upp í 1. mgr. ákvæðisins. Í 3. mgr. 5. gr. kemur síðan fram að ráðherra geti í reglugerð kveðið nánar á um skilyrði fyrir atvinnuleyfi og akstri forfallabílstjóra. Um veitingu atvinnuleyfa er fjallað í 6. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins er atvinnuleyfi samkvæmt 5. gr. skilyrði þess að viðkomandi sé heimilt að taka að sér eða stunda leigubifreiðaakstur, sbr. þó 9. gr. laganna. Séu atvinnuleyfi gefin út af SGS hvort sem er á takmörkunarsvæðum eða utan þeirra. Um takmörkun á fjölda leigubifreiða er fjallað í 8. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. þess ákvæðis setur ráðherra í reglugerð, að fengnum tillögum SGS, nánari reglur um fjölda leigubifreiða á ákveðnum svæðum að fenginni umsögn sveitarstjórna, héraðsnefnda og félaga leigubifreiðastjóra. Segir þar einnig í 3. mgr. að þar sem takmörkun á fjölda leigubifreiða hafi verið ákveðin skuli umsækjandi fullnægja skilyrðum 5. gr. og sitji hann að jafnaði fyrir við úthlutun leyfa hafi hann stundað leigubifreiðaakstur í a.m.k. eitt ár. Samkvæmt lokamálslið 3. mgr. 8. gr. skal takmörkun þessi framkvæmd með útgáfu atvinnuleyfa samkvæmt lögunum.

Á grundvelli laga um leigubifreiðar hefur verið sett reglugerð um leigubifreiðar nr. 397/2003. Í 4. gr. reglugerðarinnar er fjallað um takmörkunarsvæði. Kemur þar m.a. fram að hámarksfjöldi atvinnuleyfa á takmörkunarsvæði I sé 580 atvinnuleyfi. Þá kemur fram í ákvæðinu að takmörkun sé framkvæmd með útgáfu atvinnuleyfa svo sem hámarkstala segir til um. Um úthlutunarreglur er fjallað í 6. gr. reglugerðarinnar. Segir þar m.a. í 1. mgr. að SGS veiti að uppfylltum öllum skilyrðum atvinnuleyfi á takmörkunarsvæðum á grundvelli starfsreynslu við akstur leigubifreiðar.

Líkt og fram hefur komið sótti X um atvinnuleyfi til aksturs leigubifreiðar á takmörkunarsvæði I en hámarksfjöldi atvinnuleyfa á því svæði er 580. Þegar umsókn X var til meðferðar hjá SGS voru til úthlutunar 25 laus atvinnuleyfi. Var það niðurstaða SGS að reynsla X hafi ekki verið nægjanleg til úthlutunar þar sem hann hafi ekki verið einn þeirra umsækjenda sem voru með mestu starfsreynsluna. Hafi X á þeim tíma sem úthlutun fór fram verið með 221 dag metinn í starfsreynslu en þeir sem fengu úthlutað leyfum hafi verið með frá 1100 dögum upp í um 1350 daga. Af fyrirliggjandi gögnum má sjá að sú reynsla sem X hefur fengið metna nær allt aftur til ársins 1990.

Það er mat ráðuneytisins að þau sjónarmið sem ákvörðun SGS byggist á séu í samræmi við þau ákvæði laga um leigubifreiðar og reglugerðar um leigubifreiðar sem rakin hafa verið og gilda um veitingu og úthlutun atvinnuleyfa til aksturs leigubifreiða á takmörkunarsvæðum. Af gögnum málsins verði þannig ráðið að X hafi ekki verið einn þeirra 25 umsækjenda sem voru með mestu starfsreynsluna. Hafi niðurstaða SGS því byggt á málefnalegum sjónarmiðum.

Með þessum athugasemdum er það mat ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun Samgöngustofu frá 12. júní 2018 um að synja umsókn X um atvinnuleyfi til aksturs leigubifreiðar.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta