Ísafjarðarbær - Kjörgengi forstöðumanns Svæðisskrifstofu fatlaðra á Vestfjörðum til setu í félagsmálanefnd
Ísafjarðarbær 5. mars 2001 Tilvísun: FEL01020103/1001
Halldór Halldórsson, bæjarstjóri
Hafnarstræti 1, pósthólf 56
400 Ísafjörður
Vísað er til erindis yðar dags. 20. febrúar sl., þar sem óskað er álits ráðuneytisins á hæfi formanns félagsmálaráðs Ísafjarðarbæjar til setu í ráðinu, en hún er jafnframt framkvæmdastjóri Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra. Vísað er til þess að í bréfi ráðuneytisins til yðar dags. 18. október 2000 var fjallað um hæfi formannsins til að taka þátt í meðferð tiltekins máls en nú sé spurt um almennt hæfi hennar.
Í 42. gr. sveitarstjórnarlaga er að finna ákvæði sem takmarkar kjörgengi í nefndir á vegum sveitarfélags. Segir þar að starfsmenn fyrirtækja og stofnana sveitarfélags eru ekki kjörgengir í nefndir, ráð og stjórnir þeirra fyrirtækja eða stofnana sem þeir starfa hjá. Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Vestfjörðum fellur ekki undir fyrrgreint ákvæði, enda lýtur hún stjórn félagsmálaráðuneytisins. Þegar af þeirri ástæðu er ljóst að formaður félagsmálaráðs Ísafjarðarbæjar nýtur kjörgengis til setu í nefndinni samkvæmt fyrrgreindu ákvæði.
Um hæfi formanns félagsmálanefndar gilda því ákvæði 19. gr. sveitarstjórnarlaga, sem kveða á um skyldu sveitarstjórnarmanna til að víkja sæti við meðferð einstakra mála. Ef fyrir nefndina koma mál sem sérstaklega varða samskipti svæðisskrifstofunnar við Ísafjarðarbæ eða einstaka skjólstæðinga svæðisskrifstofunnar ber henni því væntanlega að víkja sæti við meðferð þeirra mála. Ekki kemur hins vegar fram í bréfi yðar að slík tilvik séu svo tíð að formaðurinn þurfi oft að víkja sæti. Ef um slíkt væri að ræða má segja að um almennt vanhæfi geti verið að ræða til setu í nefndinni, þ.e.a.s. ef hagsmunaárekstrar eru svo tíðir að formanninum sé í raun ókleift að gegna setu í ráðinu. Ráðuneytið telur hins vegar ljóst að ekki geti verið um slíkt að ræða í því máli sem hér er til umfjöllunar, enda eru málefni fatlaðra einungis einn af fjölmörgum málaflokkum sem undir félagsmálaráð heyra samkvæmt núgildandi samþykkt um stjórn Ísafjarðarbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar, nr. 173/1998.
Samkvæmt framansögðu er það álit ráðuneytisins að formaður félagsmálaráðs Ísafjarðarbæjar nýtur kjörgengis til setu í ráðinu, þrátt fyrir að gegna jafnframt starfi framkvæmdastjóra Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vestfjörðum.
F. h. r.
Ingi Valur Jóhannsson (sign.)
Guðjón Bragason (sign.)