Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Austur-Eyjafjallahreppur - Kjörgengi fulltrúa sveitarfélags í stjórn heilsugæslu, málið framsent heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti til meðferðar

Vigfús Andrésson                                            8. maí 2001                            FEL01040013/1001

Berjanesi, Austur-Eyjafjallahreppi

861 Hvolsvöllur

 

 

 

 

Vísað er til erindis yðar dags. 2. apríl sl., þar sem vakin er athygli ráðuneytisins á því að annar fulltrúa Austur-Eyjafjallahrepps í stjórn heilsugæslustöðvarinnar í Vík í Mýrdal hefur haldið áfram setu í stjórninni þrátt fyrir að hafa flutt lögheimili sitt úr sveitarfélaginu um síðast liðin áramót. Er jafnframt óskað úrskurðar ráðuneytisins um gildi samnings sem stjórn heilsugæslustöðvarinnar hefur gert við Íslenska erfðagreiningu hf. um þátttöku í miðlægum gagnagrunni á heilbrigðissviði, á grundvelli samþykktar á stjórnarfundi sem haldinn var 28. mars sl.

           

Með bréfi dags. 4. apríl óskaði ráðuneytið eftir umsögn hreppsnefndar Austur-Eyjafjallahrepps um málið. Umsögnin barst í símbréfi 24. apríl sl. Þar er staðfest að viðkomandi stjórnarmaður hafi flutt lögheimili sitt úr sveitarfélaginu í desember 2000. Hafi hreppsnefnd verið ókunnugt um að hann hefði verið boðaður á fundi í stjórninni eftir þann tíma en að öðru leyti eru ekki gerðar athugasemdir við þær fullyrðingar sem fram koma í erindi yðar. Í fundargerð hreppsnefndar frá 11. apríl sl. kemur fram að nýr aðalmaður hefur verið kjörinn í stjórn heilsugæslustöðvarinnar.

 

Í fundargerð stjórnar heilsugæslu Víkurlæknishéraðs frá 28. mars sl. segir orðrétt:

 

"Aðalefni fundarins er samningur við Íslenska Erfðagreiningu (Í.E.), er kynntur var á fundi með starfsfólki og stjórn heilsugæslunnar á fundi í Vík í des. 2000. Samningur hefur verið lesinn yfir og ekki hafa verið gerðar athugasemdir við efni samningsins. Samningur er ræddur og fundur verður í Reykjavík á morgun á Hótel Sögu hvar samningur verður undirritaður milli Í.E. og heilsugæslunnar í Vík og samþykkir stjórn heilsugæslunnar að Helga Þorb. verði fulltrúi heilsugæslunnar í Vík við undirritun samnings og form. stjórnar falið að veita H.Þ. skriflegt umboð til undirritunar samnings."

 

Ráða má af þessari bókun að ekki hafi verið ágreiningur um málið í stjórninni, sem var fullskipuð á fundinum. Að auki sat hjúkrunarforstjóri heilsugæslustöðvarinnar fundinn.

 

Sú stjórnsýsluákvörðun sem óskað er úrskurðar ráðuneytisins um er fyrrgreind ákvörðun stjórnar heilsugæslu Víkurlæknishéraðs að gera samning við Íslenska Erfðagreiningu hf. um þátttöku heilsugæslustöðvarinnar í Vík í miðlægum gagnagrunni á heilbrigðissviði. Ákvörðun þessi er tekin á grundvelli 7. gr. laga nr. 139/1998 um gagnagrunn á heilbrigðissviði. Í 8. gr. sömu laga er sjúklingum tryggður réttur til að óska eftir því að upplýsingar um hann verði ekki fluttar í gagnagrunninn og er skylt að verða við slíkri beiðni.

 

Stjórn heilsugæslu Víkurlæknishéraðs er skipuð af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á grundvelli 21. gr. laga um um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990. Samkvæmt 2. gr. þeirra laga fer heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið með yfirstjórn heilbrigðismála. Stjórnsýslukærum vegna ákvarðana stjórna heilbrigðisstofnana ber því að beina til þess ráðuneytis. Er því ekki unnt að taka til greina kröfu yðar um að félagsmálaráðuneytið úrskurði um gildi þeirrar ákvörðunar sem þér hafið kært í máli þessu.

 

Varðandi kjörgengi fulltrúa sveitarstjórnar Austur-Eyjafjallahrepps í stjórn heilsugæslu Víkurlæknishéraðs telur ráðuneytið einnig að það sé hlutverk heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins að meta hvort fulltrúinn hafi glatað kjörgengi til setu í stjórninni við það að flytja úr sveitarfélaginu og hvaða áhrif seta hans á stjórnarfundum eftir flutninginn kunni að hafa á gildi ákvarðana stjórnarinnar frá þeim tíma. Eins og áður segir hefur nýr aðalmaður nú verið kjörinn af hálfu Austur-Eyjafjallahrepps en ekki liggur fyrir hvort heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur staðfest þá tilnefningu.

 

Eins og mál þetta er vaxið telur ráðuneytið því ljóst að framsenda ber heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu erindi yðar  til afgreiðslu.

 

 

F. h. r.

Berglind Ásgeirsdóttir (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

 

 

 

 

 

 

Afrit:

Austur-Eyjafjallahreppur

Stjórn heilsugæslu Víkurlæknishéraðs

 

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta