Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Blönduóssbær - Tilnefning fulltrúa á aðalfund einkahlutafélags, skylt að vísa máli til bæjarstjórnar vegna ágreinings í bæjarráði

Blönduósbær                                                 13. október 2003               FEL03090015/1001/GÓH

Jóna Fanney Friðriksdóttir, bæjarstjóri

Húnabraut 6

540 BLÖNDUÓSI

 

Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dags. 1. september 2003, þar sem óskað er eftir áliti ráðuneytisins á þeirri ákvörðun að fela bæjarfulltrúa sem jafnframt er stjórnarformaður Félagsheimilisins Blönduóss ehf. að fara með atkvæðisrétt sveitarfélagsins á aðalfundi félagsins 28. september 2003. Vegna annríkis í ráðuneytinu hefur ekki reynst unnt að svara erindinu fyrr en nú.

 

Af  gögnum málsins má ráða að Félagsheimili Blönduóss ehf. sé einkahlutafélag í 99,86% eigu Blönduóssbæjar og 0.14% í eigu Leikfélags Blönduóss. Á fundi bæjarráðs Blönduóssbæjar 28. ágúst sl. var samþykkt með tveimur atkvæðum gegn einu að fela Jóhönnu G. Jóhannsdóttur bæjarfulltrúa og stjórnarformanns Félagsheimilis Blönduóss ehf. að fara með atkvæðisrétt sveitarfélagsins á aðalfundi félagsins.

 

Í 40. gr. sveitastjórnarlaga nr. 45/1998 er m.a. fjallað um kosningar í stjórnir sem sveitarfélög eiga aðild að, en þar segir:

 

„Sveitastjórn kýs fulltrúa í nefndir, ráð og stjórnir eftir því sem fyrir er mælt í lögum og samþykkt um stjórn sveitarfélagsins og veitir þeim lausn frá störfum [?]

Kosningar í byggðarráð, nefndir, ráð og stjórnir skulu vera leynilegar og bundnar hlutfallskosningar ef þess er óskað.[?]

Þá kýs sveitarstjórn fulltrúa í nefndir, ráð og stjórnir sem sveitarfélag á aðild að samkvæmt viðkomandi samþykktum eða lögum.“

 

Samkvæmt samþykktum Félagsheimilis Blönduóss ehf. er æðsta vald félagsins í höndum lögmætra hluthafafunda, sbr. lög um einkahlutafélög. Í 13. gr. samþykktarinnar kemur fram að eitt atkvæði fylgi hverri krónu í hlutafé. Hluthafar geta með skriflegu umboði veitt umboðsmönnum heimild til að sækja hluthafafund og fara með atkvæðisrétt sinn. Að öðru leyti er ekki kveðið á um setu hluthafa á aðalfundum félagsins.

 

Í samþykkt um stjórn Blönduóssbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 303/1988 er í 48. gr. kveðið á um það að bæjarstjórn kjósi fulltrúa í bæjarráð, aðrar nefndir, ráð og stjórnir samkvæmt ákvæðum laga, reglugerða og samþykktarinnar. Slíkar kosningar skulu vera leynilegar, bundnar hlutfallkosningar, ef einhver bæjarfulltrúi óskar þess. Að öðru leyti er ekki að finna reglur í samþykktinni sem lúta að meðferð atkvæðisréttar vegna hlutafjáreignar bæjarins í Félagsheimili Blönduóss. Það leiðir hins vegar af eðli máls, fyrrgreindri samþykkt bæjarfélagsins, samþykktum Félagsheimilis Blönduóss ehf. að bæjarstjórn kýs fulltrúa til að fara með atkvæðisrétt á fundum félagsins í skjóli hlutafjáreignar bæjarins. Það leiðir jafnframt af 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga að val fulltrúa fer fram með leynilegri og bundinni hlutfallskosningu ef þess er óskað. Er þannig ekkert því til fyrirstöðu að einum bæjarfulltrúa sé falið að fara með öll atkvæði bæjarins á aðalfundi félagsins, samanber til hliðsjónar úrskurð félagsmálaráðuneytisins varðandi Húsavíkurkaupstað frá 3. mars 1997 (ÚFS 1997:27).

 

Ráðuneytið telur hins vegar rétt að benda á að samkvæmt 3. mgr. 39. gr. sveitstjórnarlaga nr. 45/1998 er heimilt að fela byggðaráði fullnaðarákvörðun mála sem eigi varða verulegan fjárhag sveitarfélagsins eða stofnanna hans, enda sé eigi ágreiningur innan ráðsins eða við framkvæmdastjóra um ákvörðunina. Af gögnum málsins má ráða að ágreiningur hafi verið í bæjarráði um meðferð atkvæðisréttar á aðalfundi Félagsheimilis Blönduóss ehf. Þar af leiðandi var bæjarráði óheimil fullnaðarafgreiðsla málsins og bar að vísa því til bæjarstjórnar til endanlegrar ákvörðunar.

 

 

F. h. r.

Guðjón Bragason (sign.)

Guðmundur Ómar Hafsteinsson (sign.)

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta