Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Úrskurður í máli nr. SRN17040689

Ár 2017, þann 7. september, er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli SRN17040689

 

Kæra X

á ákvörðun

Þjóðskrár Íslands

 

I.         Kröfur, kæruheimild og kærufrestir

Með kæru sem barst ráðuneytinu þann 24. janúar 2017 kærði X, kt. 000000-0000 (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 20. janúar 2017 um að skrá sameiginlegt lögheimili kæranda og Y, kt. 000000-0000, að .., Reykjavík.

Um kæruheimild vísast til 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og er kæran fram komin innan lögmælts kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. sömu laga.

Af kæru verður að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

 

II.        Ákvörðun Þjóðskrár Íslands

Hin kærða ákvörðun er svohljóðandi:

„Með vísun í tölvupóstsamskipti milli X og Þjóðskrár Íslands vegna skráningu á sameiginlegu lögheimili hjóna.

Þann 7. nóvember 2016 barst Þjóðskrá Íslands hjónavígsluskýrsla frá Siðmennt þar sem tilkynnt er um hjónavígslu X og Y. Á skýrslunni er ekki tilgreint sameiginlegt heimilisfang hjóna. Til þess að unnt var að ljúka skráningu á hjúskap í þjóðskrá var sendur tölvupóstur þann 9. nóvember 2016 á þau netföng hjóna sem tilgreind voru á skýrslunni og óskað eftir upplýsingum um sameiginlegt lögheimili. Samdægurs barst svar frá X þar sem segir „okkar sameiginlegt lögheimili er í … Reykjavík“. Í kjölfar veittra upplýsinga var lögheimili Y flutt frá … að … og hjúskapur skráður í þjóðskrá.

Eitt af meginhlutverkum Þjóðskrár Íslands er að annast almannaskráningu sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 54/1962, um þjóðskrá og almannaskráningu. Almannaskráning byggir á þeim gögnum sem talin eru upp í liðum 1-7. sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna. Í 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna segir að almannaskráning byggist m.a. á tilkynningum um aðsetursskipti, skv. lögum nr. 73/1952. Þá byggist almannaskráning á upplýsingum sem Þjóðskrá Íslands aflar sér sjálf með eftirgrennslan eða berast á einn eða annan hátt eftir því sem þörf krefur og heimildir leyfa sbr. 7. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 54/1962. Í tilfellum þar sem upplýsingar liggja ekki fyrir eða einstaklingur tilkynnir ekki sjálfur þá leitar stofnunin eftir upplýsingum á skriflegan máta og er þá ekki krafa um að fyllt séu út þar til gerð eyðublöð. Gögn á rafrænu formi teljast fullnægjandi sem skrifleg gögn sbr. 36. gr. stjórnsýslulaga 36/1993.

Samkvæmt upplýsingum frá ykkur sbr. tölvupóst dags. 9. nóvember 2016 til stofnunarinnar er tilgreint um sameiginlegt lögheimili að ... Til samræmis við hlutverk Þjóðskrár Íslands sbr. ofangreint þá var skráningu Y breytt, Reykjavík sbr. 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. lögheimilislaga nr. 21/2001.

Með hliðsjón af framansögðu hafnar Þjóðskrá Íslands beiðni þinni um leiðréttingu á lögheimili Y.

 

III.      Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum barst Þjóðskrá Íslands þann 7. nóvember 2016 hjónavígsluskýrsla frá Siðmennt þar sem tilkynnt var um hjónavígslu kæranda og Y. Á skýrslunni var ekki tilgreint sameiginlegt lögheimili þeirra eftir hjúskap. Til að unnt væri að skrá hjúskapinn í þjóðskrá sendi Þjóðskrá Íslands þeim tölvubréf þann 9. nóvember 2016 þar sem óskað var eftir upplýsingum um sameiginlegt lögheimili. Þann sama dag barst stofnuninni tölvubréf frá kæranda þar sem fram kom að sameiginlegt lögheimili væri að … Reykjavík. Í kjölfarið var lögheimili Y flutt þangað og hjúskapur skráður í þjóðskrá. Í kjölfarið áttu sér stað nokkur tölvupóstsamskipti milli kæranda og Þjóðskrár Íslands þar sem kærandi óskaði eftir því að lögheimili Y yrði leiðrétt. Var þeirri beiðni kæranda synjað með ákvörðun Þjóðskrár Íslands dags. 20. janúar 2017 og er það hin kærða ákvörðun.

Ákvörðun Þjóðskrár Íslands var kærð til ráðuneytisins með tölvubréfi kæranda mótteknu þann 24. janúar 2017.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 24. janúar 2017 var Þjóðskrá Íslands gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið ráðuneytinu með bréfi stofnunarinnar  mótteknu 7. febrúar 2017.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 13. júní 2017 var kæranda kynnt umsögn Þjóðskrár Íslands og gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna málsins. Bárust ráðuneytinu í kjölfarið nokkur tölvubréf frá kæranda án þess þó að þar kæmu fram efnislegar athugasemdir.

 

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í kæru koma ekki fram ákveðin sjónarmið eða málsástæður. Lítur ráðuneytið svo á að líta beri til þeirra athugasemda sem fram koma í samskiptum hans við Þjóðskrá Íslands og fela í sér afstöðu hans til kæruefnisins. Liggi þannig fyrir að kærandi óski þess að lögheimili þeirra hjóna verði skráð eins og þau voru fyrir hjúskap, þ.e. að lögheimili kæranda sé að … en lögheimili Y að ... Geti Þjóðskrá Íslands ekki þvingað fram lögheimilisbreytingar gegn vilja hjónanna, en þeir hafi ekki tilkynnt um breytingar á lögheimili til stofnunarinnar. Telur kærandi að Þjóðskrá Íslands hafi ekki farið að lögum við lögheimilisskráninguna.

 

V.        Umsögn Þjóðskrár Íslands

Í umsögn Þjóðskrár Íslands kemur fram að stofnunin annist almannaskráningu hér á landi samkvæmt 1. gr. laga um þjóðskrá og almannaskráningu nr. 54/1962. Almannaskráning byggist á gögnum sem talin eru upp í 1. mgr. 4. gr. laganna. Í 1. tl. 1. mgr. 4. gr. komi fram að almannaskráning byggist m.a. á tilkynningum um aðsetursskipti samkvæmt lögum nr. 73/1952. Almannaskráning byggi einnig á upplýsingum sem Þjóðskrá Íslands afli með eftirgrennslan eða upplýsingum sem berist á einn eða annan hátt eftir því sem þörf krefur og heimildir leyfa, sbr. 7. tl. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 54/1962. Í tilvikum þar sem upplýsingar liggja ekki fyrir eða einstaklingar tilkynna ekki sjálfir leiti stofnunin eftir upplýsingum á skriflegan máta.

Í 1. mgr. 7. gr. lögheimilislaga nr. 21/1990 segi að hjón eigi sama lögheimili. Hafi þau sína bækistöðina hvort samkvæmt 1. gr. skuli lögheimili þeirra vera hjá því hjóna sem hefur börn þeirra hjá sér. Ef börn hjóna eru hjá þeim báðum eða hjón eru barnlaus skuli þau ákveða á hvorum staðnum lögheimili þeirra skuli vera, ella ákveði Þjóðskrá Íslands það. Samkvæmt framangreindu ákvæði beri hjónum að hafa sameiginlegt lögheimili. Einungis sé veitt undanþága frá sameiginlegu lögheimili hjóna hér á landi ef þau hafa slitið samvistum, sbr. 2. mgr. 7. gr. lögheimilislaga. Ekki hafi komið fram í samskiptum við kæranda að um slíkt sé að ræða. Í tölvubréfi frá kæranda, dags.9. nóvember 2016, hafi hann tilgreint að sameiginlegt lögheimili hans og Y væri að .. Reykjavík. Hafi lögheimili Y því verið skráð þar svo hægt væri að skrá hjúskapinn í þjóðskrá. Hafi ekki verið tilkynnt um annað sameiginlegt lögheimili til stofnunarinnar og sé lögheimili þeirra því enn skráð að .. Í ljósi ákvæðis lögheimilislaga um sameiginlegt lögheimili hjóna telji Þjóðskrá Íslands sér ekki heimilt að breyta lögheimilisskráningu þeirra á þann hátt að þeir séu skráðir á sitt hvort lögheimilið. Þá bendir Þjóðskrá Íslands á að stofnunin fari með eftirlitsskyldu varðandi lögheimilisskráningu einstaklinga í þjóðskrá. Geti stofnunin ekki að beiðni aðila látið lögheimilisskráningu í þjóðskrá óafskipta sé hún ekki í samræmi við gildandi lög.

 

VI.       Niðurstaða ráðuneytisins

Til umfjöllunar er ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 20. janúar 2017 um að skrá sameiginlegt lögheimili kæranda og Y að … Reykjavík.

Líkt og fram kemur í 1. gr. laga um þjóðskrá og almannaskráningu nr. 54/1962 annast Þjóðskrá Íslands almannaskráningu hér á landi. Byggist almannaskráning á gögnum sem talin eru upp í 1. mgr. 4. gr. laganna. Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 4. gr. byggist almannaskráning m.a. á tilkynningum um aðsetursskipti samkvæmt lögum nr. 73/1952. Samkvæmt 7. tl. 1. mgr. 4. gr. byggist almannaskráning einnig á upplýsingum sem Þjóðskrá Íslands aflar með eftirgrennslan eða með upplýsingum sem stofnuninni berast á einn eða annan hátt eftir því sem þörf krefur og heimildir leyfa.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. lögheimilislaga nr. 21/1990 skulu hjón eiga sama lögheimili. Hafi þau sína bækistöðina hvort samkvæmt 1. gr. laganna skal lögheimili þeirra vera hjá því hjóna sem hefur börn þeirra hjá sér. Ef börn hjóna eru hjá þeim báðum eða hjón eru barnlaus skulu þau ákveða á hvorum staðnum lögheimili þeirra skal vera, annars ákveður Þjóðskrá Íslands það. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. lögheimilislaga skulu hjón sem slitið hafa samvistir eiga sitt lögheimilið hvort. Liggur þannig fyrir að hjónum ber að hafa skráð sameiginlegt lögheimili nema því aðeins að undanþága 2. mgr. 7. gr. eigi við.

Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að þann 7. nóvember 2016 barst Þjóðskrá Íslands hjónavígsluskýrsla frá Siðmennt þar sem tilkynnt var um hjónavígslu kæranda og Y Á þeirri skýrslu komu ekki fram upplýsingar um hvar skrá skyldi sameiginlegt lögheimili þeirra eftir hjúskap. Var Þjóðskrá Íslands því bæði skylt og rétt sem eftirlitsskyldum aðila með lögheimilisskráningu í þjóðskrá að kalla eftir upplýsingum um sameiginlegt lögheimili þeirra. Bárust þær upplýsingar Þjóðskrá Íslands með tölvubréfi kæranda þann 9. nóvember 2016 þar sem fram kom að sameiginlegt lögheimili kæranda og Y væri að .. Reykjavík. Í kjölfarið var lögheimili Y flutt þangað og hjúskapurinn skráður í þjóðskrá.

Það er mat ráðuneytisins að framangreind lögheimilisskráning sé í samræmi við skýlaus fyrirmæli 1. mgr. 7. gr. lögheimilislaga þess efnis að hjónum beri að eiga sama lögheimili, enda liggur ekkert fyrir um að undanþáguákvæði 2. mgr. 7. gr. kunni að eiga við. Ber því að fallast á það með Þjóðskrá Íslands að stofnuninni sé ekki heimilt að breyta lögheimilisskráningu kæranda og Y á þann hátt að þeir séu skráðir á sitt hvort lögheimilið. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

 

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun er staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta