Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Úrskurður í máli nr. SRN17060110

Ár 2017, þann 29. desember, er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. SRN17060110

 

Kæra X

á ákvörðun

Samgöngustofu

 

I.      Kröfur og kæruheimild

Þann 26. júní 2017 barst ráðuneytinu kæra X (hér eftir kærandi) vegna ákvörðunar Samgöngustofu (hér eftir nefnd SGS) í máli nr. 18/2017 frá 27. mars 2017 vegna kvörtunar á þjónustu Icelandair (hér eftir IA) í flugi félagsins frá Washington til Keflavíkur þann 17. júní 2016. Fór kærandi fram á skaðabætur úr hendi IA vegna tjóns sem hún kveðst hafa orðið fyrir þar sem farsími hennar hefði glatast í fluginu. Með ákvörðun Samgöngustofu var kröfu kæranda um bætur úr hendi IA hafnað. Krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að IA verði gert að bæta henni allt tjón sem hún hafi orðið fyrir þar sem síminn glataðist í fluginu.

Ákvörðun SGS er kærð til ráðuneytisins á grundvelli 3. mgr. 126. gr. c laga um loftferðir nr. 60/1998.

 

II.        Kæruefni og ákvörðun SGS

Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að kærandi kom með flugi IA frá Washington til Keflavíkur þann 17. júní 2016. Kveðst kærandi hafa glatað nýjum Iphone síma í sætisvasa þegar hún fór frá borði. Hafi kæranda ekki verið heimilað að fara aftur um borð til að leita að símanum en verið bent á upplýsingaborð. Hafi síminn ekki fundist og fer kærandi fram á skaðabætur vegna þess tjóns sem hún hafi orðið fyrir þar sem síminn hafi glatast.

Hin kærða ákvörðun er svohljóðandi:

  1. Erindi

    Þann 23. september sl. barst Samgöngustofu (SGS) kvörtun frá X, hér eftir kvartandi, vegna glataðs Iphone síma. Kvartandi kom með flugi Icelandair (IA) þann 17. júní sl. frá Washington til Keflavíkur. Að sögn kvartanda gleymdi hún nýjum Iphone síma sínum í sætisvasa þegar hún fór frá borði. Kvartanda var ekki heimilað að fara aftur um borð til að leita að símanum en var bent á upplýsingaborð. Síminn fannst ekki. Kvartandi fer fram á skaðabætur frá IA vegna þess tjóns sem hún hafi orðið fyrir vegna þess að síminn hafi glatast. Að sögn kvartanda hefur hún engar upplýsingar eða svör fengið eftir að hún tilkynnti um tap símans.

     

  2. Málavextir og bréfaskipti

    Samgöngustofa sendi IA kvörtunina til umsagnar þann 23. september sl. Þann 28. september sl. barst umsögn IA þar sem fram kemur að farþegi þurfi farseðil til að vera fluttur samkvæmt lögum, og að hann þurfi brottfararspjald samkvæmt reglum til þess að fá aðgang að haftasvæði og að tilteknu flugi. Af öryggisástæðum sé flugliðum óheimilt að hleypa farþegum um borð eftir að þeir hafa farið frá borði, enda ber flugrekanda skylda til að vernda vélina og koma í veg fyrir óheimilaðan aðgang samkvæmt reglum um flugvernd. Það sé bæði tekið fram í flutningsskilmálum Icelandair sem og Evrópureglugerðinni um réttindi flugfarþega að flugrekandi sé ekki ábyrgur fyrir handfarangri (unchecked baggage) nema taskan týnist vegna vanrækslu flugrekanda, sem ekki hafi verið tilfellið þar sem farþeginn hafi týnt símanum sjálf. Flugliðar Icelandair hafi farið í einu og öllu eftir settum reglum í þessu tilviki og því sé saknæmisskilyrði ákvæðis loftferðalaga ekki uppfyllt. Tjónið megi eingöngu rekja til eigin sakar farþegans.

    Þá kemur einnig fram í umsögn IA að ef munir finnist um borð í vélum Icelandair séu þeir sendir rakleiðis til deildarinnar hjá lögreglunni í Leifsstöð sem sér um að hýsa tapaða/fundna muni.

    Þann 28. september sl. sendi Samgöngustofa kvartanda umsögn IA til athugasemda. Kvartandi kvaðst ætla leita til lögfræðings til að koma frekari athugasemdum á framfæri. Þann 3. mars sl. ítrekaði Samgöngustofa við kvartanda hvort hann hygðist koma á framfæri athugasemdum. Kvartandi hefur ekki komið frekari athugasemdum á framfæri við Samgöngustofu.

     

  3. Forsendur og niðurstaða Samgöngustofu

Neytendur flugþjónustu eða aðrir sem hagsmuna hafa að gæta sem telja að flugrekandi, flytjandi, ferðaskrifstofa eða umboðsmaður framangreindra aðila hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt lögum um loftferðir nr. 60/1998 (loftferðalög) eða reglugerðum settum á grundvelli þeirra geta beint kvörtun til Samgöngustofu, sbr. 1. mgr. 126. gr. c loftferðalaga. Stofnunin tekur málið til skoðunar í samræmi við ákvæði laganna og stjórnsýslulaga og sker úr ágreiningi með ákvörðun, sbr. 3. mgr. 126. gr. c og 140. gr. loftferðalaga, ef hann verður ekki jafnaður með öðrum hætti. Sú ákvörðun er bindandi.

Um ábyrgð flytjanda á farangri er fjallað í 104. gr. loftferðalaga. Samkvæmt 1. mgr. 104. gr. ber flytjandi ábyrgð á tjóni sem verður ef innritaður farangur glatast, skemmist eða eyðileggst ef tjónsatburðurinn á sér stað í loftfari, eða meðan innritaður farangur er í vörslum flytjanda, starfsmanna hans eða umboðsmanna. Ekki er um það deilt í málinu að sími kvartanda var í óinnrituðum farangri.

Í 2. mgr. 104. gr. loftferðalaga kemur fram að flytjandi er ábyrgur fyrir tjóni á óinnrituðum farangri, þar með töldum persónulegum eigum, ef tjón má rekja til sakar hans, starfsmanna hans eða umboðsmanna.

Ákvæði 1. mgr. 104. gr. loftferðalaga mælir þannig fyrir um hlutlæga ábyrgð flytjanda á tjóni sem innritaður farangur kann að verða fyrir, á meða 2. mgr. 104. gr. loftferðalaga mælir fyrir um sakarábyrgð á tjóni sem verða kann á óinnrituðum farangri.

IA hefur mótmælt því að starfsmenn hans hafi sýnt af sér saknæma háttsemi sem rekja megi tjónið til. Þannig hafi þeir farið eftir settum flugverndarreglum þegar þeir meinuðu kvartanda að fara aftur um borð í flugvélina.

Samgöngustofa bendir á að þegar samningur kemst á  milli flugrekanda og farþega um flutning, skuldbindur flugrekandi sig til þess að koma farþega á tiltekinn áfangastað. Í tengslum við slíkan flutning gilda fjölmargar reglur, bæði á flugvelli sem og um borð í flugvél á meðan á flutningi stendur, s.s. á sviði flugverndar, tollgæslu og öryggismála. IA hefur sagt að höfnun flugliða á því að hleypa kvartanda um borð hafi byggst á flugverndarreglum. Ekki hefur verið sýnt fram á í málinu að sú höfnun hafi verið óréttmæt.

Á grundvelli almennra skaðabótareglna þarf að liggja fyrir orsakasamband á milli tjóns og athafna þess sem ber sakarábyrgð. Þannig er það meginregla í íslenskum rétti að sá sem verður fyrir tjóni þurfi að sýna fram á að háttsemi þess sem hann beinir kröfu sinni að hafi orsakað tjón hans.

Með vísan til framangreinds er það mat Samgöngustofu að ekkert liggi fyrir um að höfnun flugliða á því að hleypa kvartanda aftur um borð hafi orsakað tjón kvartanda.

Með vísan til framangreinds er kröfum kvartanda á hendur IA hafnað.

Ákvörðunarorð:

                              Kröfu kvartanda um bætur úr hendi Icelandair er hafnað.

 

III.      Málsástæður kæranda og IA, umsögn SGS og meðferð málsins í ráðuneytinu

Kæran barst ráðuneytinu með tölvubréfi þann 26. júní 2017. Krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að IA verði gert að bæta henni allt tjón sem hún hafi orðið fyrir þar sem sími hennar glataðist í flugi á vegum félagsins.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi gleymt nýjum Iphone 6s í sætisvasa þegar hún ferðaðist með flugi IA frá Washington til Keflavíkur þann 17. júní 2016. Hafi hún setið í sæti 31F. Er til þess vísað að um sé að ræða dýran síma sem kærandi hafi lagt mikið á sig til að eignast og tjónið því bæði mikið og tilfinningalegt.

Kærandi mótmælir þeim rökstuðningi sem fram kemur í hinni kærðu ákvörðun. Er á það bent að engin gögn séu lögð fram eða vísað til gildandi reglna sem styðji eða varpi ljósi á þá fullyrðingu IA að réttmætt hafi verið eða skylt að meina kæranda að snúa aftur til flugvélarinnar til að ná þar í verðmætar eigur sínar heldur sé kærandi látinn bera sönnunabyrði fyrir því að synjun starfsmanna IA hafi verið ólögmæt. Geti þessi niðurstaða ekki staðist enda fráleitt að leggja sönnunarbyrðina um slík atriði á farþega en ekki flugrekstraraðila og starfsmenn hans. Af hálfu SGS sé tekið undir órökstuddar fullyrðingar kæranda um að starfsmönnum félagsins hafi borið skylda til að hindra óheimilan aðgang kæranda að vélinni þegar hún óskaði eftir því að fá að snúa aftur til sætis síns til að ná í símann. Þurfi að vísa til lagareglna sem skilgreini heimilaðan aðgang farþega að viðkomandi flugvél og inn á viðkomandi haftasvæði og hvenær farþegar séu komnir út af slíkum svæðum. Óumdeilt sé að viðkomandi farþegi hafi verið með brottfararspjald sem heimilaði honum aðgang að umræddu flugi og flugvél. Mörg dæmi séu um að fólk sem gleymir hlutum í sætum sínum fari til baka að sætunum ef það hefur gleymt verðmætum og sé það látið óátalið. Skýra þurfi nánar hvenær farþega sé heimilað að snúa aftur til sætis og þá með vísan til skýrra lagareglna. Kanna verði hvenær svo nefnt Air Transport Agreement (ATA), sem heimilar farþega aðgang að flugvél, falli formlega úr gildi og hvenær flugi eða fartíma í skilningi 29. gr. loftferðalaga teljist formlega lokið. Telur kærandi að miða beri við að farþegi fái eðlilegt svigrúm til að yfirgefa vélina og taka með sér farangur sinn. Jafnframt beri að veita farþega eðlilegt svigrúm til að snúa til baka ef hann uppgötvar að hann hafi gleymt verðmætum og tæmingu flugvélar sé enn ólokið og brottfararspjald enn í gildi. Þegar farþega sé meinað að gæta mikilvægra hagsmuna sinna beri IA að rökstyðja það með vísan til ótvíræðra lagareglna að slíkt bann sé lögmætt. Ekki sé reynt að svara þessum álitaefnum í ákvörðun SGS. Þá sé IA ekki látið bera sönnunarbyrðina fyrir þessum atriðum og standist sú niðurstaða engan veginn.

Kærandi telur það rangt hjá SGS að þegar bótaskylda byggist á sök en ekki hlutlægri ábyrgð verði að sýna fram á að háttsemi og aðgerðir viðkomandi aðila hafi orsakað tjón. Bendir kærandi á að samkvæmt íslenskum skaðabótarétti, bæði innan og utan samninga, geti skaðabótaskylda ekki eingöngu byggst á skaðabótaskyldri háttsemi og verknaði heldur einnig á athafnaleysi þegar fyrir liggur skylda til athafna. Bendir kærandi hvað þetta varðar á ákvæði 36. gr. loftferðalaga. Af því ákvæði megi vera ljóst að áhafnarmeðlimum og þeim sem aðstoðuðu við umrætt flug hafi borið að sýna farþegum og farangri umhyggjusemi og rækta starfsskyldur sínar af samviskusemi. Í þessu felist skylda til að aðstoða farþega af fremsta megni við að endurheimta verðmæti sín sem farþeginn hefur gleymt ef þess er farið á leit áður en að affermingu vélar er lokið og flugverjar og aðstoðarmenn þeirra enn við störf. Þegar skaðabótaskylda innan samninga, sérstaklega þjónustusamninga, er metin sé við sakarmat jafnframt litið til bonus pater mælikvarðans, en hann feli í sér að við mat á því hvenær saknæmur og bótaskyldur verknaður eða athafnaleysi er til staðar verði að líta til þess hvað ætla megi að góður eða gegn flugliði hefði gert í þeirri aðstöðu sem til skoðunar er. Þegar sá mælikvarði er notaður megi ljóst vera að góður og gegn flugverji hefði lagt sig fram við að gæta öryggis farþegans og farangurs hans að því marki sem mögulegt er án óeðlilega mikillar fyrirhafnar eða hættu fyrir viðkomandi starfsmann. Hefði hann þannig annað hvort getað skotist sjálfur inn í vélina til að sækja umræddan síma eða hringt eitt símtal og beðið samstarfsmenn sína í flugvélinni um að gera það. Við úrlausn málsins verði að gera ríkar kröfur til flugrekstraraðila og starfsmanna þeirra til að ekki skapist slæmt fordæmi fyrir sinnu- og ábyrgðarleysi gagnvart farþegum og verðmætum þeirra. Hafi starfsmönnum IA borið að liðsinna kæranda við að endurheimta verðmæti hennar sem hún gat vísað á. Algengt sé að farþegar gleymi farangri í sætum sínum og geti þessir hlutir oft verið verðmætir eða mikilvægir. Sé það lögboðinn hluti af starfsskyldum starfsmanna að koma í veg fyrir að farþegar skaðist með þessum hætti ef það er unnt með fyrirhafnarlausum hætti. Engu breyti þó byggt væri á því að kæranda hefði verið óheimilt að fara aftur til flugvélarinnar þar sem áhöfn vélarinnar og öðrum þjónustuaðilum á vegum IA hafi borið samkvæmt skýrum lagaákvæðum að aðstoða kæranda undir þessum kringumstæðum til að endurheimta verðmætin, annað hvort með því að fara sjálfir í vélina og sækja símann eða hafa samband við áhöfnina til að tryggja að farið yrði í sætisvasann til að sækja hann og koma þannig í veg fyrir að síminn hyrfi eins og síðan hafi gerst.

Kæran var send SGS til umsagnar með bréfi ráðuneytisins dags. 28. júní 2017.

Umsögn SGS barst ráðuneytinu með bréfi dags. 20. júlí 2017. Í umsögninni bendir SGS á að flugrekandi þurfi að fylgja viðeigandi reglum sem kunni að gilda á þeim stað og tíma sem um ræðir. Hafi IA vísað til þess að flugverndarreglur hafi meinað kæranda að fara aftur um borð. Reglugerð um flugvernd nr. 750/2016 hafi innleitt gildandi Evrópureglur á sviði flugverndar. Fjalli Evrópureglur um flugvernd m.a. um aðgang að loftförum og samkvæmt þeim beri að tryggja að óviðkomandi sé ekki heimill aðgangur að loftförum. Um vernd loftfars og leit í loftfari eftir að ferð lýkur sé sérstaklega fjallað í óbirtum ákvörðunum á sviði flugverndar. Telur SGS að ekkert hafi komið fram í málinu sem bendi til þess að það verklag IA að meina kæranda að fara aftur um borð í flugvélina hafi ekki verið í samræmi við gildandi flugverndarreglur. Telur SGS að IA hafi ekki borið að hleypa kæranda aftur um borð ef slíkt stangaðist á við reglur félagsins og að félagið hafi ekki brotið lagareglur eða sýnt af sér saknæma háttsemi í því sambandi. Þá ítrekar SGS að jafnvel þótt IA hafi borið að hleypa kæranda aftur inn í vélina liggi ekkert fyrir um að sími hennar hefði fundist.

SGS vísar til þess að í 2. mgr. 104. gr. loftferðalaga komi fram að flytjandi sé ábyrgur fyrir tjóni á óinnrituðum farangri, þar með töldum persónulegum eigum, ef tjón má rekja til sakar hans, starfsmanna hans eða umboðsmanna. Bótagrundvöllur ákvæðisins sé sakarreglan. Almenna reglan sé sú að það hvíli á tjónþola að sanna að tjóni sé valdið með skaðabótaskyldum hætti. Ef skilyrðum um bótagrundvöll er ekki fullnægt komi ekki til skaðabótaábyrgðar. Er það mat SGS að ekki hafi verið sýnt fram á sök IA í málinu og því ómögulegt að ákvarða skaðabótaábyrgð IA enda ekkert sem sýni fram á að sími kæranda hefði fundist þó svo henni hefði verið hleypt aftur um borð í vélina. Þá kemur fram í umsögn SGS að ekki sé mælt fyrir um hlutlæga ábyrgð flytjanda á tjóni sem óinnritaður farangur kann að verða fyrir heldur er byggt á því að flugrekandi eða starfsmenn hans sýni af sér sök. Sé það skilyrði skaðabótaábyrgðar að orsakatengsl séu milli háttsemi og þess tjóns sem bóta er krafist fyrir, hvort sem um er að ræða hlutlæga ábyrgð eða sakarábyrgð. Þá verði tjónþoli einnig að sýna fram á það hafi verið hin saknæma háttsemi sem valdið hafi tjóninu. Í málinu hafi hvorki verið sýnt fram á saknæma háttsemi starfsmanna IA né að sú háttsemi að meina kæranda að fara aftur um borð í vélina hafi orsakað það tjón sem kærandi kveðst hafa orðið fyrir. Hvað varðar skaðabótaábyrgð á grundvelli athafnaleysis telur SGS að slíkt komi aðeins til álita í þeim tilvikum þar sem athöfn hefði komið í veg fyrir tjón eða takmarkað umfang þess. Við mat á þessu yrði sakarreglunni beitt með venjulegum hætti. Þá telur SGS að tilvísun kæranda til 36. gr. loftferðalaga eigi ekki við í málinu.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 28. júní 2017 var IA gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum vegna málsins. Bárust þær athugasemdir ráðuneytinu með bréfi IA mótteknu þann 1. ágúst 2017.

Í athugasemdum IA kemur fram að skýrt komi fram í lögum að sýna þurfi fram á saknæma háttsemi flytjanda svo skaðabótaskylda stofnist vegna tjóns á óinnrituðum farangri, sbr. 2. mgr. 104. gr. loftferðalaga. Telur IA ósannað að sýnt hafi verið fram á slíka saknæma háttsemi í málinu og að meint tjón megi fyrst og fremst rekja til mistaka farþegans sem skildi hinn óinnritaða farangur eftir þegar hún yfirgaf loftfarið. Strangar kröfur séu gerðar til flugrekanda þegar kemur að öryggisreglum og flugvernd. Sé gerð krafa um að flugrekendur setji sér skýrar öryggis- og verklagsreglur í því skyni að tryggja öryggi farþega. Ein þeirra verklagsreglna sem gildi í störfum flugliða IA sé sú að enginn fái aðgang að loftfari þegar því hafi verið lent og farþegar eru á leið út eða þegar loftfarið hefur verið tæmt. IA sé eftirlitsskyldur aðili samkvæmt 2. gr. reglugerðar um flugvernd. Beri félaginu að setja sér flugverndaráætlun sem lögð sé fram til SGS. Slíkar öryggisreglur hljóti ávallt að teljast sérreglur gagnvart öðrum almennum reglum er varða þjónustu við farþega um borð. IA fylgi jafnframt strangri tímaáætlun hvað varðar lendingar og brottfarir frá þeim flugvöllum sem félagið flýgur til. Hafi félagið því mikla hagsmuni af því að geta tæmt flugvélar sínar sem fyrst til að halda tímaáætlun og koma í veg fyrir sektargreiðslur. Ef farþegum væri í sjálfsvald sett að koma aftur inn í flugvélar eftir að þeir hafa farið frá borði myndi það augljóslega setja allar tímaáætlanir úr skorðum. Telur IA að ekki hafi verið sýnt fram á að starfsmenn félagsins hafi sýnt af sér saknæma háttsemi sem leiddi til tjóns kæranda. Þvert á móti hafi flugliðar IA farið í einu og öllu að þeim verklagsreglum sem þeim hafi borið að fara eftir með öryggi farþega að leiðarljósi. Verði kærandi að bera hallann af þeim mistökum sínum að hafa gleymt farsíma um borð í vél IA.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 15. ágúst 2017 var kæranda kynnt umsögn SGS og athugasemdir IA og gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna málsins. Bárust þær athugasemdir ráðuneytinu með bréfi kæranda mótteknu 8. september 2017.

Í athugasemdum kæranda er tekið fram að SGS láti hjá líða í umsögn stofnunarinnar að ein af málsástæðum kæranda hafi verið sú að þó lagt yrði til grundvallar að réttmætt hafi verið að meina kæranda um aðgang að flugvélinni hafi það undir öllum kringumstæðum verið skylda starfsmanna Icelandair sem flugverja í skilningi 36. gr. loftferðalaga að aðstoða kæranda sem farþega við að endurheimta verðmæti í stað þess að vísa þeim frá. Ítrekar kærandi framangreinda málsástæðu. Tekur kærandi undir það með SGS að fara beri eftir reglum sem gilda um umferð farþega um haftasvæði en bendir á að ekkert hafi fram komið í málinu sem réttlæti það að kærandi hafi sem skimaður farþegi haft fullan rétt til umferðar um haftasvæði en verið stöðvaður með þeim hætti sem gert var. Jafnframt hafi kærandi bent á það að flugliðum og öðrum starfsmönnum IA hafi borið að veita henni aðstoð við að gæta hagsmuna sinna við enduröflun verðmæta sem verið hafi umtalsverð. Tilvísun SGS til reglugerðar nr. 750/2016 hafi enga þýðingu við úrlausn málsins enda vísi SGS ekki til einstakra ákvæða sem styðji við niðurstöðu stofnunarinnar eða réttlæti háttsemi og athafnaleysi IA. Enn síður hafi þýðingu óbirtar ákvarðanir á sviði flugverndar sem hafi ekkert lagagildi. Umrædd reglugerð sé viðamikil og fjalli fyrst og fremst um aðra aðila og önnur atriði en þau sem þetta mál lúti að. Þau ákvæði sem snúi að farþegum og haftasvæðum gefi engar leiðbeiningar um það hvenær farþegi megi snúa aftur til loftfars eða ekki. Þó sé óumeilt að þeir farþegar sem hafa brottfararspjald í tiltekið flug og hafi verið skimaðir hafi heimild til aðgangs að haftasvæðum við brottför og lendingu. Hvar takmarkanir liggja sé hins vegar ekki skilgreint nákvæmlega í lögum eða greinargerðum. Víðast sé hins vegar framkvæmdin sú að farþegar sem eru að lenda hafa aðgang að öllum opnum rýmum flugvalla og séu þessi rými yfirleitt afmörkuð þannig að farþegar komi að sérútbúnum hliðum eða dyrum sem einungis sé hægt að fara út um en ekki til baka. Á Keflavíkurflugvelli séu þessar dyr við inngang að fríhöfn og farangursbeltum en fram að því geti farþegar farið óhindrað um flughöfnina. Verði að ganga út frá því að þar séu mörk haftasvæðis. Kærandi hafi verið innan þessara marka og því hafi reglur um haftasvæði ekki átt að takmarka heimild hans til að snúa til baka að loftfarinu. Hafi ekki verið sýnt fram á hvaða ákvæðum hafi verið byggt á við neitun um aðgang að loftfarinu. Hljóti sönnunarbyrði um tilvist reglna á þessu sviði að vera hjá þeim sem tekur sér það vald að hindra kæranda í því að endurheimta verðmæti sín. Slík háttsemi sé almennt ólögmæt og bótaskyld og því beri þeim sem gerist sekur um slíka háttsemi að sanna það, m.a. með tilvísun til skýrra lagaákvæða að viðkomandi hafi vald til slíkrar stöðvunar. Burtséð frá þessum takmörkunum ítrekar kærandi að flugliðum og starfsmönnum IA hafi borið skylda til að aðstoða hana við að endurheimta verðmæti sín.

Varðandi orsakatengsl telur kærandi ljóst að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ef kærandi eða flugliðar hefðu farið strax að vitja símans þegar upp komst að hann hefði orðið eftir hefði kærandi endurheimt símann. Byggist það á því að engin dæmi séu um að farþegar á leið frá borði fari í allra augsýn á milli sætisvasa á leið sinni út í leit að verðmætum. Því verði að telja yfirgnæfandi líkur á því að þeir sem finni símann séu annað hvort þeir sem sjá um að þrífa vélina eða þeir farþegar sem komi í vélina í næstu flugum. Verði að ganga út frá því að ef kærandi hefði fengið aðgang að vélinni eða aðstoð flugliða við að sækja símann á þeim tíma sem þess var óskað hefði síminn verið endurheimtur. Síminn hafi ekki skilað sér, hvorki til IA né í tapað/fundið þjónustu Keflavíkurflugvallar. Það tjón sem hafi orðið sé komið til vegna þess að starfsmenn IA hafi ekki liðsinnt kæranda með þeim hætti sem þeim var skylt samkvæmt 36. gr. loftferðalaga. Mótmælir kærandi túlkun SGS á ákvæðinu. Vísi ákvæðið til umhyggjuskyldu gagnvart öllum mönnum sem eru í flugfarinu, bæði farþegum og öðrum. Þá mótmælir kærandi umsögn SGS og telur stofnunina ganga erinda IA og verja gerðir flugfélagsins af meiri krafti og fyrirhöfn en félagið geri sjálft.

Hvað varðar athugasemdir IA mótmælir kærandi því að ekki hafi verið sýnt fram á sök starfsmanna félagsins. Vissulega hafi það verið mistök af hálfu kæranda að gleyma símanum en málið snúist ekki um það heldur um það hvort starfsmönnum IA hafi borið að hleypa kæranda um borð eða fara sjálfir í sætisvasa og sækja símann til að fyrirbyggja tjón af völdum þessara mistaka. Bendir kærandi á að með sök í skaðabótarétti sé átt við háttsemi eða athafnaleysi sem sé ólögmætt og hafi leitt til tjóns. Kærandi hafi rakið það með ítarlegum hætti að starfsmenn IA hafi með ólögmætum athöfnum eða athafnaleysi valdið því að kærandi hafi orðið fyrir tjóni. Beri IA ábyrgð á tjóninu á grundvelli sakarreglunnar og almennum reglum um ábyrgð vinnuveitenda á tjóni sem starfsmenn þeirra valda. Þá bendir kærandi á að IA vísi til reglugerðar um flugvernd nr. 985/2011. Sé sú reglugerð brottfallin og í dag gildi reglugerð um flugvernd nr. 750/2016. Sé ekkert í þeirri reglugerð sem styðji við málatilbúnað IA. Séu einu efnislegu rök IA þau að félagið hafi mikla hagsmuni af að halda tímaáætlunum og því sé ekki hægt að verða við óskum farþega um að snúa aftur til vélar til að endurheimta verðmæti sem gleymst hafi. Séu þessar röksemdir haldlausar. Í fyrsta lagi liggi ekkert fyrir sem gefi ástæðu til að ætla að það hefði tafið afgreiðslu vélarinnar ef kærandi hefði fengið að snúa til baka og endurheimta símann eða flugliðar hefðu sinnt þeirri skyldu að aðstoða kæranda við að endurheimta hann, annað hvort með því að fara sjálfir til vélarinnar og sækja símann í viðkomandi sætisvasa eða hringja eitt símtal og biðja þá flugverja sem voru í vélinni að taka símann í sínar vörslur og koma honum til kæranda eða í tapað/fundið. Verði að gera þá kröfu til IA að félagið sýni farþegum þá tillitsemi að gefa þeim nokkrar mínútur til að endurheimta umtalsverð verðmæti sem þeir hafa skilið eftir þó það kunni að seinka afgreiðslu vélar, en áréttað sé að ekki verði séð að slík aðstoð við farþega eigi að valda seinkun á afgreiðslu vélanna.

Með bréfi til aðila þann 25. september 2017 var tilkynnt að málið væri tekið til úrskurðar.

 

IV.       Niðurstaða ráðuneytisins

Til umfjöllunar er ákvörðun Samgöngustofu þess efnis að synja kröfu kæranda um bætur úr hendi IA, en kærandi krafðist bóta þar sem farsími hennar hefði glatast um borð í flugvél IA á leið frá Washington til Keflavíkur. Krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og IA verði gert að bæta allt það tjón sem hún hafi orðið fyrir.

Um ábyrgð flytjanda á farangri er fjallað í 104. gr. loftferðalaga nr. 60/1998. Samkvæmt 2. mgr. 104. gr. er flytjandi ábyrgur fyrir tjóni á óinnrituðum farangri, þar með töldum persónulegum eigum, ef tjón má rekja til sakar hans, starfsmanna hans eða umboðsmanna. Er þannig ljóst að sök einhverra þeirra sem vísað er til í ákvæðinu er skilyrði þess að til bótaskyldu stofnist af hálfu flytjanda samkvæmt ákvæðinu.

Af hálfu kæranda er byggt á því að tjón hennar megi rekja til þess að henni hafi verið meinað að fara aftur um borð til að sækja símann eftir að lent var í Keflavík, eða að starfsmönnum IA hafi borið að hafa samband við áhafnarmeðlimi og biðja þá um að koma símanum til kæranda. Að öðru leyti vísast til málsástæðna kæranda sem raktar voru hér að framan. Af hálfu IA er til þess vísað að starfsmenn félagsins hafi farið eftir settum flugverndarreglum þegar kæranda var meinað að fara aftur um borð og því mótmælt að um saknæma háttsemi hafi verið að ræða.

Líkt og fram kemur í umsögn SGS innleiðir reglugerð um flugvernd nr. 750/2016 gildandi Evrópureglur á sviði flugverndar. Er þar m.a. fjallað um aðgang að loftförum og ber að tryggja að óviðkomandi sé ekki heimill aðgangur að þeim. Þá kemur fram í umsögn SGS að um vernd loftfars og leit í loftfari eftir að ferð lýkur sé sérstaklega fjallað í óbirtum ákvörðunum á sviði flugverndar. Hvað þetta varðar bendir ráðuneytið á að reglugerð um flugvernd er sett með heimild í 2. mgr. 70. gr. og 70. gr. d sbr. 145. gr. loftferðalaga. Samkvæmt h-lið 1. mgr. 70. gr. d er ráðherra m.a. heimilt að setja reglugerð um framkvæmd flugverndar og önnur atriði sem talin eru upp í ákvæðinu. Samkvæmt 2. mgr. 70. gr. d er ráðherra heimilt að birta aðeins að hluta eða öllu leyti efni reglugerðar samkvæmt h-lið þeim einstaklingum sem starfs síns vegna þurfa að hafa vitneskju um efni hennar, enda varði efni reglugerðarinnar beina flugverndarhagsmuni og öryggi og leynd leiði af þjóðréttarlegum skuldbindingum á sviði flugverndar.

Í hinni kærðu ákvörðun er tekið fram að flugrekandi þurfi að fylgja viðeigandi reglum sem gildi í tengslum við flutning farþega, bæði á flugvelli og um borð í flugvél, s.s. á sviði flugverndar og öryggismála. Af hálfu IA er til þess vísað að flugliðum félagsins sé óheimilt að hleypa farþegum aftur um borð í flugvél eftir að þeir hafa yfirgefið hana og synjunin á því að meina kæranda um slíkt því byggst á flugverndarreglum. Er það mat ráðuneytisins að fallast beri á það með SGS að ekkert það sé fram komið í málinu sem bendi til annars en að sú ákvörðun hafi verið réttmæt og í samræmi við flugverndarreglur. Þá telur ráðuneytið einnig að fallast beri á það með SGS að ekki sé sýnt fram á sök starfsmanna IA í málinu. Í því sambandi bendir ráðuneytið á að ekki verður séð að orsakasamband sé milli þess að meina kæranda að fara aftur um borð og þess að sími hennar glataðist. Hinu sama gildir um þá málsástæðu kæranda að starfsmönnum IA hafi annað hvort borið að sækja símann sjálfir eða hafa samband við áhafnarmeðlimi og biðja þá um að koma símanum til kæranda. Verður ekki séð að unnt sé að slá því föstu að með því hefði síminn fundist, enda liggur fyrir að síminn skilaði sér hvorki til IA né í tapað/fundið þjónustu Keflavíkurflugvallar. Af þessu leiðir að ekkert liggur fyrir um að tjón kæranda megi rekja til sakar starfsmanna IA sem er skilyrði bótaábyrgðar samkvæmt 2. mgr. 104. gr. loftferðalaga. Hvað varðar tilvísun kæranda til 36. gr. loftferðalaga telur ráðuneytið að það ákvæði eigi ekki við í málinu, enda geti það í engu breytt því skilyrði 2. mgr. 104. gr. að sök þurfi að vera fyrir hendi svo að til bótaábyrgðar flytjanda stofnist vegna tjóns á óinnrituðum farangri

Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun er staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta