Fljótsdalshérað - Hæfi nefndarmanna í skipulags- og byggingarnefnd, veittar leiðbeiningar um málsmeðferð
Fljótsdalshérað
5. janúar 2005
FEL04120064/1001
Eiríkur B. Björgvinsson, bæjarstjóri
Lyngási 12
700 EGILSSTÖÐUM
Vísað er til erindis bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs, dags. 27. desember 2004, þar sem óskað er eftir
því að ráðuneytið láti í té álit sitt á hæfi tveggja nefndarmanna í skipulags- og byggingarnefnd
sveitarfélagsins.
Á fundi bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs sem haldinn var 1. desember 2004 beindi bæjarfulltrúi Blista
Framsóknarflokks fyrirspurn til forseta bæjarstjórnar um hæfi tveggja nefndarmanna í
skipulags- og byggingarnefnd sveitarfélagsins. Umræddir nefndarmenn eru jafnframt starfsmenn
fyrirtækja sem tengjast byggingarframkvæmdum á Fljótsdalshéraði og taldi viðkomandi
bæjarfulltrúi hugsanlegt að hagsmunir fyrirtækja sem þeir vinna fyrir gætu rekist á við hagsmuni
annars fyrirtækis sem sótt hefur um úthlutun byggingarlóðar í sveitarfélaginu á grundvelli áður
veitts vilyrðis.
Af þessu tilefni telur ráðuneytið rétt að veita eftirfarandi leiðbeiningar:
Um hæfi sveitarstjórnarmanna gilda ákvæði 19. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, með síðari
breytingum, og 23. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Fljótsdalshéraðs, nr. 1062/2004.
Umrædd ákvæði eiga einnig við um hæfi fulltrúa í nefndum sveitarfélaga, sbr. 2. mgr. 47. gr.
sveitarstjórnarlaga. Í 1. mgr. 19. gr. laganna segir að sveitarstjórnarmanni beri að víkja sæti við
meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann svo sérstaklega að almennt má ætla að
viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af. Markmiðið með reglunni er að stuðla að
málefnalegri stjórnsýslu og að almenningur og málsaðilar geti treyst því að stjórnvald leysi úr
málum á hlutlægan hátt. Hefur verið litið svo á að virðing fyrir hinum almennu hæfisreglum í
stjórnsýslunni sé nauðsynlegt skilyrði fyrir eðlilegum samskiptum almennings og stjórnvalda og
því trausti sem stjórnvöld verða að njóta.
Í 5. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga segir að sveitarstjórnarmanni sem veit hæfi sitt orka tvímælis
beri að vekja athygli á því. Ráðuneytið leggur áherslu á þá ábyrgð sem lögð er á herðar
sveitarstjórnarmanna í þessu efni. Sveitarstjórn eða nefnd skal síðan án umræðu skera úr um
hvort mál er svo vaxið að einhver sveitarstjórnarmanna sé vanhæfur. Sveitarstjórnarmaður eða
nefndarmaður sem hlut á að máli má taka þátt í atkvæðagreiðslu um hæfi sitt, sbr. niðurlag 5.
mgr. 19. gr. Skal sveitarstjórnarmaður sem er vanhæfur við úrlausn máls yfirgefa fundarsal
sveitarstjórnar við meðferð og afgreiðslu málsins, sbr. 6. mgr. 19. gr. laganna.
Ráðuneytið telur rétt að benda á úrskurð ráðuneytisins frá 16. apríl 1998 varðandi
Öxarfjarðarhrepp sem sendist hjálagt með bréfi þessu. Þar taldi ráðuneytið ljóst að umfjöllun
sveitarstjórnar um málefni sem eingöngu varðaði tiltekið fyrirtæki snerti tvo sveitarstjórnarmenn
svo sérstaklega að ætla hefði mátt að viljaafstaða þeirra hefði mótast að einhverju leyti þar af.
Annar sveitarstjórnarmaðurinn var starfsmaður fyrirtækisins en hinn framkvæmdastjóri þess.
Ekki var talið nægjanlegt að sveitarstjórnarfulltrúarnir sátu hjá við atkvæðagreiðslu um málið,
heldur hafi þeim borið að víkja af fundi.
Tekið skal fram að ráðuneytið telur ekki unnt að fullyrða af þeim gögnum sem send voru með
erindi bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs til ráðuneytisins að nákvæmlega sömu sjónarmið og rakin eru
í umræddum úrskurði eigi við varðandi það mál sem er tilefni erindisins. Það er verkefni
skipulags- og byggingarnefndar sveitarfélagsins að skera úr um hæfi einstakra nefndarmanna ef
vafi kann að leika á um hæfi þeirra. Niðurstöðu nefndarinnar má síðan skjóta til ráðuneytisins á
grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga þegar hún liggur fyrir.
Með vísan til framangreinds er ljóst að 19. gr. sveitarstjórnarlaga ber með sér að sveitarstjórnum
og nefndum sveitarfélags er sjálfum ætlað að skera úr um það hvort einhver sveitarstjórnarmanna
eða nefndarmanna sé vanhæfur í tilteknu máli. Skjóta má þeirri ákvörðun til ráðuneytisins skv.
103. gr. laganna. Ráðuneytið beinir því til bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs að hún tryggi að gætt
verði ákvæða 19. gr. sveitarstjórnarlaga og þeirra sjónarmiða sem hér hafa verið nefnd að því er
varðar hugsanlegt vanhæfi þeirra nefndarmanna í skipulags- og byggingarnefnd sveitarfélagsins
sem hlut eiga að máli.
F. h. r.
Guðjón Bragason (sign.)
G.Dýrleif Kristjánsdóttir (sign.)