Samningsgerð á grundvelli ákvörðunar umhverfisráðs fyrir staðfestingu bæjarstjórnar. Fullnaðarafgreiðsla
Arngrímur Vídalín Baldursson
18. desember 2006
FEL06100055/1001
Melum
621 Dalvík
Með erindi, dags. 18. október 2006, sneri Arngrímur Vídalín Baldursson, hér eftir nefndur
málshefjandi, sér til félagsmálaráðuneytis vegna athugasemda hans við vinnubrögð bæjarstjórnar
Dalvíkurbyggðar á fundi þann 17. október 2006 þegar tekin var ákvörðun um íbúaþing þann 21.
október 2006. Erindið var sent Dalvíkurbyggð til umsagnar með bréfi ráðuneytisins, dags. 25.
október 2006. Umsögn Dalvíkurbyggðar, dags. 2. nóvember 2006, barst ráðuneytinu þann 3.
sama mánaðar og var send málshefjanda með bréfi, dags. 7. nóvember 2006. Athugasemdir
málshefjanda bárust ráðuneytinu þann 15. sama mánaðar með bréfi hans, dags. 9. nóvember
2006.
I. Málavextir.
Vinna við aðalskipulag Dalvíkurbyggðar hefur staðið yfir í nokkur misseri. Á þessu ári var
ráðinn verktaki, tímabundið, sem vann að tilteknum þáttum í undirbúningi við að gera tillögur að
verndunarsvæðum o.fl.
Í samstarfssamningi meirihluta bæjarstjórnar Dalvíkurbyggðar er kveðið á um að halda íbúaþing
til stuðnings aðalskipulagsgerðinni og skapa íbúum þannig vettvang til að koma að því málefni.
Á fundi umhverfisráðs Dalvíkurbyggðar þann 4. október 2006 var gerð svofelld bókun:
„4. Íbúaþing 21. október í Dalvíkurskóla, kynning.
Formaður ráðsins kynnti fyrir ráðsmönnum fyrirkomulag íbúaþingsins og hvatti alla íbúa
Dalvíkurbyggðar til að mæta og taka þátt í umræðum um framtíðarsýn sveitarfélagsins.
Fyrir fundinum liggur verksamningur við Alta ehf. um ráðgjafarþjónustu vegna íbúaþings í
Dalvíkurbyggð. Umhverfisráð leggur til að samningurinn verði samþykktur og íbúaþing verði
haldið.
Kostnaður færist á lið 09-22-432-1 við endurskoðun fjárhagsáætlunar.“
Á fundi bæjarstjórnar Dalvíkurbyggðar þann 17. október 2006 staðfesti bæjarstjórn
framangreinda ákvörðun umhverfisráðs frá 4. október 2006. Bókunin um lið 4 í bókun
umhverfisráðs frá fundi 4. október 2006 er svohljóðandi:
„Umhverfisráð frá 04.10.2006, 117. fundur.
Bæjarstjórnarfulltrúar kynntu sér teikningar er varða fundargerðina.
Til máls tóku:
? Arngrímur V. Baldursson, sem óskar eftir að fært verði til bókar að hann gerir alvarlegar
athugasemdir við vinnubrögð vegna 4. liðar fundargerðarinnar er varðar ákvörðunarferli
og verksamning um Íbúaþing Dalvíkurbyggðar 21. október 2006.“ ... „4. liður
samþykktur með 5 atkvæðum, Jóhann Ólafsson og Arngrímur V. Baldursson sitja hjá.“
II. Sjónarmið málshefjanda.
Í erindi sínu til ráðuneytisins vísar málshefjandi til liðar nr. 4 í fundargerð umhverfisráðs frá 4.
október 2006. Þegar sú fundargerð hafi verið tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar 17. október 2006
hafi hann óskað eftir að fært yrði til bókar að hann gerði alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð
er varðaði ákvörðunarferli og verksamning um íbúaþing Dalvíkurbyggðar 21. október 2006,
samanber nánar tilvitnun í umrædda fundargerð í málavaxtalýsingu hér að framan.
Málshefjandi tekur fram að athugasemdir sínar eigi rætur að rekja til þess að framangreind bókun
frá fundi umhverfisráðs frá 4. október 2006 sé það fyrsta sem lagt er fyrir bæjarstjórn
Dalvíkurbyggðar á fundi 17. október 2006 um íbúaþingið sem búið sé að auglýsa að verði haldið
þann 21. október 2006. Umræddur verksamningur beri það einnig með sér að byrjað hafi verið
að vinna eftir honum þann 3. október 2006, en undirskrift hans er dagsett þann 16. sama
mánaðar. Finnist honum nokkuð seint að sjá verksamninginn fyrst þegar hann hafi komið til
staðfestingar bæjarstjórnar 14 dögum efir að vinna eftir samningnum hófst.
Þá tekur málshefjandi fram að bæjarstjórnin hafi svarað athugasemdum sínum á þá leið að ekkert
óeðlilegt væri við þessa afgreiðslu málsins „en erfitt væri að vinna með jafnáhuglausu fólki og
„háttvirtum bæjarfulltrúa Arngrími V. Baldurssyni“ sem hefði einskis spurt um íbúaþingið og
aldrei gert athugasemdir“. Bæjarstjórinn hafi jafnframt tekið fram að haldinn hefði verið fundur
þann 12. september sl. þar sem fólk hefði getað komið með athugasemdir. Í því sambandi tekur
málshefjandi fram að fundurinn sem haldinn var 12. september hafi ekki verið opinber
bæjarstjórnarfundur og því ekki verið ákvörðunarbær í þessum efnum enda til hans boðað á
ófullnægjandi hátt. Bæjarstjórinn hefði sent honum sms-boð en staðkunnugir viti að slík sending
sé ófullnægjandi vegna sambandsleysis við heimili sitt.
Málshefjandi rekur að á fundi bæjarráðs 11. október árið 2006 hafi vakið athygli hans að liður
fyrir þjónustukaup hafi hækkað verulega. Þegar hann hafi spurt hver væri ástæða fyrir þeirri
hækkun hafi bæjarstjórinn svarað að það væri vegna kostnaðar við íbúaþing. Hann hafi þá svarað
bæjarstjóranum svo að hann hefði enga heimild til að halda þetta íbúaþing og ráðstafa fé til þess.
Málshefjandi ítrekar að honum finnist seint að taka ákvörðun þann 17. október 2006 um að halda
íbúaþing þann 21. október sem þegar hafi verið auglýst og farið var að vinna eftir þann 3.
október 2006.
Í bréfi málshefjanda til ráðuneytisins, dags. 9. nóvember 2006, sem fól í sér viðbrögð hans við
umsögn bæjarstjóra í máli þessu, ítrekar málshefjandi framangreind sjónarmið sín. Af því sem
fram kemur í því bréfi skal nefnt að málshefjandi leggur áherslu á að það hafi fyrst verið fjallað
„opinberlega“ um íbúaþingið á fundi bæjarstjórnar 17. október 2006. Á þeim fundi hafi einnig
komið fram að bæjarstjórinn taldi að ákvörðun um íbúaþingið hefði verið tekin í umhverfisráði.
Þá tali bæjarstjórinn enn um fund sem haldinn var 12. september 2006 sem ekki var boðað til á
viðunandi hátt og hafi bæjarstjórinn beðið hann afsökunar á því.
III. Sjónarmið Dalvíkurbyggðar.
Bæjarstjóri Dalvíkurbyggðar rekur nokkuð forsögu þeirrar ákvörðunar bæjarstjórnar, sem tekin
var á fundi þann 17. október 2006, um að staðfesta ákvörðun umhverfisráðs um íbúaþing sem
tekin var á fundi ráðsins þann 4. október sl.
Vinna við aðalskipulag Dalvíkurbyggðar hafi hafist fyrir nokkrum misserum. Á yfirstandandi ári
hafi verið ákveðið að efla þá vinnu, meðal annars með því að ráða tímabundið verktaka sem
vinna skyldi að tilteknum þáttum við undirbúning aðalskipulagsins, svo sem að gera tillögur að
verndunarsvæðum o.fl. Þá hafi verið áhugi á því að halda íbúaþing til stuðnings
aðalskipulagsgerðinni og skapa íbúum þann vettvang til að koma að málinu, enda sé það í
samræmi við samstarfssamning meirihluta bæjarstjórnar.
Á fundi umhverfisráðs þann 6. september 2006 kynnti arkitekt, sem heldur utan um
aðalskipulagsgerðina, megináfanga aðalskipulagsvinnunnar og forsendur. Einnig hafi á þeim
fundi verið fjallað um stefnumótun bæjarstjórnar sem yrði byggð á niðurstöðu íbúaþings.
Þann 12. september sl. hafi verið haldinn kynningarfundur um íbúaþing í safnaðarheimili
Dalvíkurkirkju. Fundinn sátu fulltrúar í umhverfisráði, skipulagshöfundurinn, embættismenn
Dalvíkurbyggðar og kjörnir fulltrúar í sveitarstjórn og varamenn. Bæjarstjóri boðaði kjörna
fulltrúa „í hasti“ þegar í ljós kom tveimur dögum fyrir fundinn að fyrir misskilning höfðu
bæjarfulltrúar ekki verið boðaðir. Var það gert með sms-skilaboðum og símtölum. Á fundi
þessum, sem hátt á þriðja tug manna sóttu, kom fram að starfsmenn fyrirtækisins Alta ehf. væru
það uppteknir fyrir áramót að laugardagurinn 21. október væri eini lausi dagurinn fyrir íbúaþing í
Dalvíkurbyggð. Nauðsynlegt hefði verið að halda íbúaþingið á laugardegi til þess að tryggja að
sem flestir íbúar hefðu möguleika á að sækja þingið, enda væri þingið betra eftir því sem fleiri
gætu sótt það. Mikill hugur hafi verið í fólki að halda íbúaþingið um haustið og því ákveðið á
fundinum að kanna hvort það gæti ekki tekist. Niðurstaðan á fundinum var sú að „stefna á“
laugardaginn 21. október.
Drög að samningi bárust frá fyrirtækinu Alta ehf. og á þeim samningi byggði umhverfisráð
tillögu sína á fundi þann 20. september 2006 um viðbótarfjárframlag við endurskoðun
fjárhagsáætlunar þar sem sú fjárveiting, sem ætluð var til aðalskipulagsins á árinu 2006, myndi
ekki nægja fyrir þeim viðbótarkostnaði sem fyrirséður væri vegna íbúaþingsins. Fjallað var um
framangreinda tillögu umhverfisráðs á fundi bæjarráðs þann 10. október 2006 við yfirferð
bæjarráðs á tillögum vegna endurskoðunar á fjárhagsáætlun fyrir árið 2006.
Bæjarstjóri, sviðsstjóri umhverfis- og tæknisviðs og fjármála- og stjórnsýslustjóri komu að
endurskoðun þeirra draga sem Alta ehf. sendi inn og fyrir lágu endanleg samningsdrög fyrir fund
umhverfisráðs þann 4. október 2004.
Þar sem bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar hafði fundað 3. október 2006, og heldur fundi á
hálfsmánaðar fresti, leið hálfur mánuður frá samþykki umhverfisráðs þar til bæjarstjórnin gat
staðfest samninginn við Alta ehf.
Að lokum tekur bæjarstjóri Dalvíkurbyggðar fram í umsögn sinni að tilefni erindis málshefjanda
er sagt vera ummæli bæjarstjóra á fundi bæjarstjórnar þann 17. október sl. Af því tilefni telur
bæjarstjórinn rétt að fram komi að þau ummæli séu mjög færð í stílinn í meðförum málshefjanda.
Á fundinum hafi bæjarstjóri útskýrt þá atburðarás sem áður sé rakin og bæjarfulltrúinn hefði
getað kynnt sér. Þá hafi bæjarstjórinn á fundinum 17. október samsinnt því áliti minnihluta
bæjarstjórnar að æskilegra hefði verið að bæjarstjórn hefði getað staðfest samninginn við Alta
ehf. um vinnu við íbúaþingið fyrr. Þess hefði þó ekki verið kostur þar sem atburðarásin hafi verið
sú sem lýst er, meðal annars að fundur umhverfisráðs þann 4. október hafi verið haldinn daginn
eftir „síðasta fund“ bæjarstjórnar þann 3. október.
IV. Niðurstaða ráðuneytisins.
Mál þetta er tekið til athugunar á grundvelli eftirlitshlutverks ráðuneytisins með því að
sveitarstjórnir fari að lögum í störfum sínum, sbr. 102. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998.
Í 2. mgr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, segir:
„Sveitarstjórn hefur ákvörðunarvald um nýtingu tekjustofna sveitarfélagsins og um framkvæmd
þeirra verkefna sem sveitarfélagið annast, að svo miklu leyti sem ekki eru settar um það reglur í
löggjöf.“
Þá segir í 2. mgr. 44. gr. laganna:
„Í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð getur sveitarstjórn
ákveðið í samþykkt sveitarfélagsins, sbr. 10. gr. þessara laga, að fela nefnd, ráði eða stjórn
sveitarfélagsins fullnaðarafgreiðslu mála sem ekki varða verulega fjárhag sveitarfélagsins nema
lög eða eðli máls mæli sérstaklega gegn því.“
Samkvæmt þessu er ljóst að ef fela á nefndum eða ráðum, svo sem umhverfisráði í þessu tilviki,
fullnaðarafgreiðslu mála sem ekki varða verulega fjárhag sveitarfélagsins þá þarf slíkt að vera
ákveðið í samþykktum sveitarfélagsins. Í samþykkt um stjórn Dalvíkurbyggðar og fundarsköp
bæjarstjórnar, nr. 352/2006, er ekki að finna slík ákvæði er taki til valdsviðs umhverfisráðs.
Verður því að telja að ekki sé fyrir hendi heimild til handa ráðinu til fullnaðarafgreiðslu mála.
Ágreiningur málsaðila snýst um framgang málsins í Dalvíkurbyggð eftir að umhverfisráð gerði
þá bókun á fundi sínum 4. október 2006 sem áður hefur verið rakin.
Af þeirri bókun má ráða að umhverfisráð hafi einungis lagt til við bæjarstjórn að samningurinn
yrði samþykktur. Ljóst er að samningurinn var ekki undirritaður og þá formlega samþykktur fyrr
en á fundi bæjarstjórnar þann 17. október 2006 þar sem fullnaðarafgreiðsla málsins fór fram í
samræmi við sveitarstjórnarlög, nr. 45/1998, og samþykkt Dalvíkurbyggðar. Engu að síður telur
málshefjandi að hafist hafi verið handa við að vinna eftir samningnum að loknum áðurnefndum
fundi umhverfisráðs þann 4. október og hefur því ekki verið mótmælt af hálfu kærða. Þrátt fyrir
að sú hafi verið raunin þá varð samningurinn ekki formlega bindandi fyrir sveitarfélagið fyrr en
með ákvörðun bæjarstjórnar enda hefur umhverfisráð ekki umboð til að binda sveitarfélagið með
þeim hætti. Hefur Dalvíkurbyggð útskýrt framkvæmd þessa svo að bæjarstjórn fundi einungis á
14 daga fresti en hún hafi fundað þann 3. október sl. og því hafi ekki verið nægur tími til stefnu
ef bíða ætti eftir næsta fundi sem var 17. október þar sem íbúaþingið átti að fara fram þann 21.
október. Telur ráðuneytið framangreindar útskýringar ekki fullnægjandi þar sem hægt hefði verið
að boða til aukafundar bæjarstjórnar með löglegum hætti, sbr. heimild í 1. mgr. 15. gr.
sveitarstjórnarlaga.
Með hliðsjón af framangreindu er niðurstaða ráðuneytisins í máli þessu sú að málsmeðferð
bæjarstjórnar Dalvíkurbyggðar hafi verið ábótavant þar sem ekki var boðað til aukafundar
bæjarstjórnar, eftir fund bæjarstjórnar þann 3. október 2006, til að staðfesta samninginn við Alta
ehf. áður en hafist var handa við vinnu á grundvelli samningsins. Telur ráðuneytið það
aðfinnsluverð vinnubrögð að ekki hafi verið beðið eftir fullnaðarafgreiðslu bæjarstjórnar áður en
gengið var til verks samkvæmt samningnum. Mun ráðuneytið í tilefni þessa máls rita
Dalvíkurbyggð bréf og beina því til bæjarstjórnarinnar að haga málum sem þessum framvegis í
samræmi við lög og samþykktir sveitarfélagsins.
Fyrir hönd ráðherra
Sesselja Árnadóttir (sign.)
Þorgerður Benediktsdóttir (sign.)