Bessastaðahreppur - Fyrirvaralaus útganga hreppsnefndarmanns af fundi
Oddviti Bessastaðahrepps 5. júlí 1996 96060037
Sigtryggur Jónsson 1001
Miðskógum 3
225 Bessastaðahreppur
Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 11. júní 1996, þar sem óskað er eftir áliti ráðuneytisins á því hvort fyrirvaralaus útganga sveitarstjórnarmanns af fundi hreppsnefndar Bessastaðahrepps brýtur gegn 40. gr. sveitarstjórnarlaga og ákvæðum samþykktar um stjórn og fundarsköp Bessastaðahrepps.
Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 ber sveitarstjórnarmanni skylda til að sækja alla sveitarstjórnarfundi nema lögmæt forföll hamli. Samskonar ákvæði er í 1. mgr. 25. gr. og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Bessastaðahrepps nr. 244/1990, en þar er tiltekið að lögmæt forföll geti t.d. verið önnur brýnni skyldustörf eða veikindi.
Ráðuneytið telur því að þegar sveitarstjórnarmaður gengur af fundi sveitarstjórnar áður en dagskrá hans er lokið án lögmætra forfalla, þá brjóti hann þá skyldu sína sem fram kemur í ofangreindum ákvæðum sveitarstjórnarlaga og samþykktarinnar um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins.
F. h. r.
Húnbogi Þorsteinsson (sign.)
Sesselja Árnadóttir (sign.)