Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Breiðdalshreppur - Réttur hreppsnefndarmanna til að fá lagðan fram á fundi lista með nöfnum einstaklinga sem skulda sveitarsjóði

Lárus Sigurðsson oddviti 9. janúar 1998 98010019

Gilsá 1001

760 Breiðdalsvík

Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 28. desember 1997, þar sem óskað er eftir upplýsingum frá ráðuneytinu varðandi rétt hreppsnefndarmanna til að fá lagðan fram á fundi lista með nöfnum einstaklinga sem skulda sveitarsjóði og ef svo er hvort skylt sé að fjalla um slíkt mál á lokuðum fundi.

Í 1. mgr. 41. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 segir meðal annars að sveitarstjórnarmenn skuli hafa aðgang að bókum og skjölum sveitarfélagsins og óhindraðan aðgang að stofnunum þess og starfsemi.

Með vísan til þessa lagaákvæðis telur ráðuneytið ljóst að sveitarstjórnarmenn eigi rétt á upplýsingum um hvaða einstaklingar skulda sveitarsjóði. Í lögunum er hins vegar ekki kveðið á um skyldu til að leggja slíkar upplýsingar fyrir hreppsnefndarfund, en það skal þó gert ákveði oddviti eða sveitarstjóri það eða hreppsnefndarmaður fer fram á það, sbr. 15. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Breiðdalshrepps nr. 507/1993.

Í 3. mgr. 48. gr. sveitarstjórnarlaga segir að sveitarstjórnarfundir skuli haldnir fyrir opnum dyrum en sveitarstjórn getur ákveðið að einstök mál skuli rædd fyrir luktum dyrum. Í 3. mgr. 20. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Breiðdalshrepps segir meðal annars svo: “Hreppsnefnd getur ákveðið, að einstök mál verði rædd fyrir luktum dyrum s.s. viðkvæm einkamál manna eða viðskiptamál, sem æskilegt er vegna hagsmuna hreppsins, að rædd verði fyrir luktum dyrum.”

Samkvæmt framangreindu er það því hlutverk hreppsnefndar að fjalla um hvort fjalla skuli um mál fyrir luktum dyrum og eru tilteknar viðmiðanir settar fram í samþykkt Breiðdalshrepps. Ráðuneytið telur eðlilegt að meta skuldastöðu einstaklings við sveitarsjóð sem viðkvæmt einkamál, sbr. 3. mgr. 20. gr. samþykktarinnar.

F. h. r.

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta