Vestur-Landeyjahreppur - Aðgangur hreppsnefndarmanna að gögnum sveitarfélagsins
Hjörtur Hjartarson 9. janúar 1998 98010001
Stíflu, Vestur-Landeyjahreppi 1001
861 Hvolsvöllur
Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 19. desember 1997, varðandi upplýsingaskyldu oddvita o.fl.
Í 1. mgr. 41. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 segir m.a. að sveitarstjórnarmenn skuli hafa “aðgang að bókum og skjölum sveitarfélagsins og óhindraðan aðgang að stofnunum þess og starfsemi.”
Samkvæmt framangreindu er ljóst að sveitarstjórnarlögin veita sveitarstjórnarmönnum mjög víðtækan rétt til þess að fá gögn og réttar upplýsingar um rekstur síns sveitarfélags. Í lögunum er ekki að finna sérstaka heimild fyrir oddvita til að takmarka þann rétt.
Rétt er í þessu sambandi að vekja jafnframt athygli á ákvæði 42. gr. sveitarstjórnarlaga, en þar er kveðið á um að sveitarstjórnarmenn skuli gæta þagnarskyldu um það sem þeir verða áskynja í starfi sínu og leynt á að fara samkvæmt lögum, eðli máls eða samkvæmt sérstakri ákvörðun sem samþykkt er með a.m.k. 2/3 hlutum atkvæða í sveitarstjórn.
F. h. r.
Húnbogi Þorsteinsson (sign.)
Sesselja Árnadóttir (sign.)