Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Vestur-Landeyjahreppur - Skylda hreppsnefndar til að verða við áskorun um að halda almennan borgarafund

RSG                                                             3. maí 2002                               FEL02030051/16-8604

Rúnar S. Gíslason hdl.

Lágmúla 5

108 REYKJAVÍK

 

 

Með erindi, dags. 12. febrúar 2002 en móttekinni 13. mars s.á.,  kærði Rúnar S. Gíslason hdl., f.h. Eggerts Haukdal, þá ákvörðun hreppsnefndar Vestur-Landeyjahrepps að "hunsa með öllu kröfu ríflega 1/4 hluta atkvæðisbærra manna í hreppnum að halda almennan borgarafund í sveitarfélaginu."

 

Málavextir eru þeir að með áskorun, dags. 29. september 2001, sem undirrituð var af 31 atkvæðisbærum íbúa Vestur-Landeyjahrepps, var þess krafist með vísan til 104. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, að almennur borgarfundur yrði haldinn í byrjun október 2001, um þrjú nánar tilgreind málefni. Fram kemur í áskoruninni að þess sé krafist að á fundinum sitji sveitarstjórn og endurskoðandi hreppsins fyrir svörum um fjármál sveitarfélagsins og að þar verði jafnframt gerð grein fyrir efni skýrslu KPMG endurskoðunarfyrirtækisins, dags. 10. febrúar 1999, og „afleiðingum hennar um ákærur, og í framhaldi af þeim uppkveðnum sýknudómum og fjárkröfum á hendur sveitarfélaginu.” Jafnframt er þess krafist að umræða verði um átak varðandi lagfæringu á vatnsveitu, þannig að allir íbúar hafi nóg vatn. Einnig verði rætt um hvort andvirði seljanlegra eigna Vestur-Landeyjahrepps verði nýtt til uppbyggingar vega og lagningar slitlags í neðanverðri sveitinni áður en til sameiningar komi.

 

Fram kemur í erindi kæranda að áskorunin var afhent 30. október 2001 og móttekin af tveimur hreppsnefndarmönnum og var annar þeirra oddviti hreppsins. Eftir því sem kærandi kemst næst var áskorunin tekin fyrir á hreppsnefndarfundi en þar sem borgarafundur hefur enn ekki verið haldinn telur hann ljóst að kröfu þessari hafi verið stungið undir stól. Er þess því krafist að ráðuneytið hlutist til um, með vísan til 1. og 2. mgr. 102. gr. sveitarstjórnarlaga, að hreppsnefnd haldi almennan borgarafund sem fyrst í samræmi við meðfylgjandi áskorun. Um kæruheimild vísar kærandi til 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

 

Með bréfi, dags. 19. mars 2002, óskaði ráðuneytið eftir skýringum hreppsnefndar Vestur-Landeyjahrepps á ástæðum þess að almennur borgarafundur hefur ekki verið haldinn og minnti ráðuneytið á ákvæði 2. mgr. 104. gr. sveitarstjórnarlaga, sem er svohljóðandi: "Skylt er að halda almennan borgarafund ef 1/4 hluti atkvæðisbærra manna í sveitarfélaginu óskar þess."

 

I. Málsrök aðila

Umsögn hreppsnefndar er dags. 17. apríl 2002. Er þar fjallað í ítarlegu máli um hvort hreppsnefnd sé skylt að halda borgarafund um fjárhagsmálefni sveitarfélagsins og ákæru á hendur kæranda, sem er fyrrum oddviti sveitarfélagsins, en jafnframt er lýst þeirri skoðun að önnur tilefni sem nefnd eru í áskoruninni séu "hrein fjarstæða og aðeins nefnd til að villa um fyrir íbúum sem undirrituðu áskorunina og einnig hinum augljósa aðaltilgangi fundarins."

 

Í umsögninni er lýst þeirri skoðun hreppsnefndar að lög standi ekki til þess að skylt sé að halda almennan borgarafund í sveitarfélaginu og auk þess sé umbeðið umræðuefni af þeim toga að hvorki sé rétt né skynsamlegt að það sé rætt á opinberum vettvangi að frumkvæði hreppsnefndar, fyrr en þá í fyrsta lagi eftir að dómur hefur gengið í einkamáli kæranda á hendur Vestur-Landeyjahreppi. Máli sínu til stuðnings vísar hreppsnefnd einkum til eftirfarandi atriða:

1.       Hreppsnefnd telur að ákvæði 2. mgr. 104. gr. sveitarstjórnarlaga, varðandi skyldu til að halda borgarafundi ef 1/4 atkvæðisbærra manna krefst þess, nái ekki til hvaða málefnis sem er. Jafnframt er bent á að þann 14. júní 1999 var haldinn almennur borgarafundur um skýrslu KPMG Endurskoðunar og því sé með öllu óskylt að halda annan borgarafund um sama málefni.

2.       Samkvæmt áskoruninni er þess krafist að ræða á fundinum skýrslu KPMG Endurskoðunar og afleiðingar hennar um ákærur, og í framhaldi af þeim uppkveðnum sýknudóma og fjárkröfur á hendur sveitarfélaginu. Að mati hreppsnefndar er fráleitt, og alls ekki viðeigandi, að efna til borgarafundar til að ræða þetta málefni. Engin rök séu til umfjöllunar um skýrslu sem sé rúmlega þriggja ára gömul og löngu opinber. Skýrslan sé hluti af málsskjölum í refsimáli á hendur kæranda og í einkamáli sem hann nú rekur fyrir héraðsdómi Suðurlands á hendur sveitarfélaginu, þar sem hann krefur sveitarsjóð um greiðslu á rúmum fjórum milljónum króna sem hann telur sig eiga inni hjá hreppnum. Jafnframt hafi kærandi óskað eftir endurupptöku á refsimáli sem höfðað var gegn honum og lauk með dómi Hæstaréttar þann 17. maí 2001, og sé fráleitt að ætla hreppsnefnd eða endurskoðanda hreppsins að hafa umfjöllun eða fyrirsvar um réttmæti ákæru á hendur kæranda eða dóma héraðsdóms og Hæstaréttar í refsimálinu.

3.       Einkamál sem kærandi rekur nú fyrir héraðsdómi Suðurlands varðar réttmæti þess að kærandi endurgreiddi sveitarsjóði á árinu 1998 kr. 2.800.000,- og verður dómur lagður á þá kröfu í héraðsdómi en ekki á almennum borgarafundi í Vestur-Landeyjahreppi. Málið varðar viðkvæmt fjárhagslegt málefni sem að mati hreppsnefndar á ekkert erindi í umfjöllun íbúafundar, sem ekkert vald hefur í málefnum hreppsins. Fundur um málefnið hafi þannig enga sjáanlega þýðingu.

4.       Hreppsnefnd bendir á að fjórir þeirra sem undirrituðu áskorunina eigi ekki lengur lögheimili í Vestur-Landeyjahreppi og hafi því ekki lögvarða hagsmuni af því að fundurinn verði haldinn en jafnframt sé einn til viðbótar látinn. Eftir standi nöfn 25 einstaklinga, auk kæranda, en sá fjöldi nái ekki því lágmarkshlutfalli sem kveðið er á um í 2. mgr. 104. gr. sveitarstjórnarlaga. Áskorunin uppfylli því ekki lagaskilyrði sveitarstjórnarlaga og hvíli ekki skylda á hreppsnefnd að verða við áskoruninni.

 

Með vísan til framangreindra sjónarmiða krefst hreppsnefnd Vestur-Landeyjahrepps þess að ráðuneytið hafni kröfum kæranda um að ráðuneytið hlutist til um að hreppsnefnd Vestur-Landeyjahrepps haldi almennan borgarafund um þau málefni sem farið er fram á að rædd verði.

 

Að eigin frumkvæði hefur kærandi, Eggert Haukdal, sent ráðuneytinu athugasemdir við umsögn hreppsnefndar. Í bréfi kæranda til ráðuneytisins, dags. 17. apríl 2002, kemur fram að kærandi telur mjög hallað réttu máli í umsögninni og farið frjálslega með staðreyndir. Þannig sé þess að engu getið að kærandi hafi verið sýknaður af tveimur ákæruliðum í refsimáli sem höfðað var á hendur honum og telur hann að sú niðurstaða sé til marks um það að skýrsla KPMG endurskoðunar um fjármál Vestur-Landeyjahrepps sé röng.

 

Jafnframt telur kærandi að ársreikningar áranna 1997-2000 séu rangir svo nemi milljónum króna, ef marka má niðurstöðu dómstóla. Þrátt fyrir þetta hafi kærandi ekki fengið endurgreiddar þær fjárhæðir sem hann greiddi í sveitarsjóð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslu KPMG. Fyrir þá skýrslu hafi Vestur-Landeyjahreppur greitt háar fjárhæðir og telur kærandi að sú greiðsla byggist að stórum hluta á rangfærslum sem ekki standist lög. Geti endurskoðandinn ekki skýlt sér á bak við það að um viðkvæmt málefni sé að ræða til að koma sér hjá því að standa fyrir svörum á almennum borgarafundi um hvers vegna hann hafi borið rangindi á saklausan mann af tilefnislausu. Jafnframt telur hann að annar skoðunarmanna hreppsins, sem ritaði athugasemdalaust undir ársreikning vegna ársins 2000, eigi ósvarað spurningum er það varðar.

 

Þá telur kærandi furðulegan þann málflutning hreppsnefndar að reyna að ómerkja undirskriftir aðila sem fluttir eru úr sveitarfélaginu eða látnir frá því undirskriftir áttu sér stað og að eðlilegra hefði verið að fundurinn hefði verið haldinn skömmu eftir að listinn hafði borist, en ekki tæpu hálfu ári síðar.

 

II. Niðustaða ráðuneytisins

Kæruheimild í máli þessu byggist á 103. gr. sveitarstjórnarlaga og telur ráðuneytið að í ljósi þess að kært er athafnaleysi hreppsnefndar að halda almennan borgarafund verði ekki talið að kæran sé of seint fram komin þótt liðinn sé lengri tími en þrír mánuðir frá því undirskriftalisti var afhentur oddvita ásamt öðrum hreppsnefndarmanni. Eru því lagaskilyrði uppfyllt til að taka erindi kæranda til úrskurðar ráðuneytisins. Virðist ekki ágreiningur um það að hreppsnefnd hefur aldrei tekið formlega afstöðu til framkominnar áskorunar og verður að átelja þá málsmeðferð, með vísan til 9. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

 

Almennir sveitarfundir hafa tíðkast frá upphafi í hreppum og er nú kveðið á um það í 2. mgr. 104. gr. sveitarstjórnarlaga að skylt sé að halda almennan borgarafund ef 1/4 hluti atkvæðisbærra manna í sveitarfélagi fer fram á það. Sambærileg ákvæði var einnig að finna í eldri sveitarstjórnarlögum. Orðalag umrædds ákvæðis er afdráttarlaust og verður ekki af því ráðið að sveitarstjórn eigi val um það hvort slíkur fundur verði haldinn, að öðrum skilyrðum uppfylltum, eins og hreppsnefnd Vestur-Landeyjahrepps virðist þó halda fram í málinu. Með hliðsjón af því að í 1. mgr. 104. gr. er kveðið á um almenna heimild sveitarstjórnar til að boða til almenns borgarafundar um málefni sveitarfélagsins telur ráðuneytið því ótvírætt að skylt er að halda almennan borgarafund ef 1/4 atkvæðisbærra íbúa óskar þess.

 

Óumdeilt er að þegar undirskriftalisti var afhentur oddvita Vestur-Landeyjahrepps þann 30. október 2001 voru fyrir hendi undirskriftir 31 atkvæðisbærra kjósenda í sveitarfélaginu en á íbúaskrá voru þá 118 atkvæðisbærir menn og konur. Formskilyrði framangreinds ákvæðis var því uppfyllt og fellst ráðuneytið á það sjónarmið kæranda að hreppsnefnd geti ekki borið það fyrir sig nú að nokkrir þeirra sem undirrituðu áskorunina eiga ekki lengur lögheimili í sveitarfélaginu.

 

Í umsögn hreppsnefndar er vikið að því að kærandi rekur nú dómsmál fyrir héraðsdómi Suðurlands þar sem fjallað er um fjárkröfur kæranda á hendur hreppnum og telur hreppsnefnd að hvorki sé rétt né skynsamlegt að málefnið sé rætt á opnum fundi þar til dómur er genginn. Ráðuneytið getur að nokkru leyti tekið undir þetta sjónarmið og virðist ljóst að aðstæður kunni að vera með þeim hætti í því málefni sem hér er til umfjöllunar að fjárhagslegir hagsmunir sveitarfélagsins leiði til þess að forsvarsmönnum Vestur-Landeyjahrepps sé rétt eða jafnvel skylt að neita að svara ákveðnum spurningum sem til þeirra verður beint um fjárhagsmálefni sveitarfélagsins eða fjárkröfur kæranda á hendur sveitarfélaginu. Jafnframt skal tekið fram að hreppsnefnd er ekki bundin af ályktunum slíks fundar.

 

Engu að síður er það réttur þeirra íbúa sem undirrituðu beiðni um borgarafund að fundurinn verði haldinn og er það ekki hreppsnefndar að meta hvort fundurinn hafi einhverja þýðingu, þar sem 104. gr. sveitarstjórnarlaga veitir íbúum rétt til að haldinn verði almennur fundur þar sem þeim gefst kostur á að láta álit sitt á tilteknum málefnum í ljós, í viðurvist hreppsnefndar. Jafnframt telur ráðuneytið ekki skipta máli að haldinn var almennur borgarafundur árið 1999 um sama málefni enda er ljóst að margir þeirra atburða, sem þeir sem að áskoruninni standa óska eftir að ræða á fundinum, hafa átt sér stað eftir að sá fundur var haldinn.

 

Með vísan til þess að Vestur-Landeyjahreppur mun sameinast fimm öðrum sveitarfélögum í austanverðri Rangárvallasýslu að loknum næstu sveitarstjórnarkosningum beinir ráðuneytið því hér með til hreppsnefndar að haldinn verði almennur borgarafundur á grundvelli undirskriftalista sem afhentur var oddvita 30. október 2001, eigi síðar en 17. maí 2002.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ

Hreppsnefnd Vestur-Landeyjahrepps er skylt, samkvæmt 2. mgr. 104. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, að halda almennan borgarafund um þau málefni sem tilgreind eru í undirskriftalista, undirrituðum af 31 atkvæðisbærum íbúa sveitarfélagsins, sem afhentur var oddvita hreppsnefndar 30. október 2001.

 

 

F. h. r.

Hermann Sæmundsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

Samrit:

Vestur-Landeyjahreppur




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta