Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Vestmannaeyjabær - Lagaleg ábyrgð sveitarstjórnarmanna

Oddur Júlíusson
20. júlí 2004
FEL04050004/1001

Brekastíg 7b

900 VESTMANNAEYJAR

Með erindum, dags. 27. janúar og 5. maí 2004, hafið þér óskað upplýsinga um stjórnendaábyrgð

sveitarstjórnarmanna. Rétt er að taka fram að í þessu bréfi verða einungis rakin almenn sjónarmið um

ábyrgð sveitarstjórnarmanna en ekki er tekin afstaða til þess hvort atvik kunni að vera fyrir hendi sem gefi

tilefni til að láta reyna á skaðabóta- eða refsiábyrgð gagnvart einstökum sveitarstjórnarmönnum,

núverandi eða fyrrverandi. Dregist hefur að svara erindum yðar vegna mikils annríkis í ráðuneytinu.

Ákvörðunarvald í sveitarstjórnarmálefnum og framkvæmd þeirra er alfarið í höndum sveitarstjórna svo og

ákvörðunarvald um nýtingu tekjustofna sveitarfélagsins eftir því sem lög ákveða. Sveitarstjórnarmenn eru

kosnir til setu í sveitarstjórn í lýðræðislegum kosningum sem haldnar eru á fjögurra ára fresti.

Sveitarstjórn ábyrgist fyrst og fremst afleiðingar gerða sinna gagnvart íbúum sveitarfélagsins með því að

leggja þær í dóm kjósenda í næstu sveitarstjórnarkosningum. Sveitarstjórnarmenn bera því svokallaða

stjórnmálalega ábyrgð á verkum sínum.

Skaðabótaábyrgð sveitarstjórnar og einstakra sveitarstjórnarmanna byggist í íslenskum rétti fyrst og

fremst á svonefndri sakarreglu. Með henni er átt við að maður beri skaðabótaábyrgð á tjóni ef hann veldur

því með saknæmum, þ.e. af ásetningi eða gáleysi, og ólögmætum hætti enda sé tjónið sennileg afleiðing

af hegðun hans og raski hagsmunum sem verndaðir eru með skaðabótareglum. Þá er það einnig skilyrði

að sérstakar hlutlægar afsökunarástæður eigi ekki við um tjónvald svo sem æska eða skortur á andlegri

heilbrigði. Í sakarreglunni felst einnig að menn verða hugsanlega dregnir til ábyrgðar hvort sem brot er

vegna athafnar eða athafnaleysis.

Í sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998 með síðari breytingum, eru engin ákvæði um refsingu fyrir brot á

fyrirmælum þeirra laga. Í XIV. kafla almennu hegningarlaganna nr. 19/1940 er hins vegar kveðið á um

refsingar fyrir brot í opinberu starfi sem tekur eftir atvikum einnig til sveitarstjórnarmanna. Það eru

einkum 140. og 141. gr. laganna sem geta komið til greina um sveitarstjórnarmenn og starfsmenn

sveitarfélaga. Þar er mælt fyrir um sektir eða varðhald ef opinber starfsmaður synjar eða lætur af ásettu

ráði farast fyrir að gera það sem boðið er á löglegan hátt eða gerist sekur um stórfellda eða ítrekaða

vanrækslu eða hirðuleysi í starfi sínu. Af fyrrgreindum ákvæðum er ljóst að einungis ásetningur eða

stórfelld vanræksla sveitarstjórnarmanns á skyldum sínum geta verið grundvöllur refsiábyrgðar.

Refsikrafa verður einungis gerð á hendur einstökum sveitarstjórnarmönnum persónulega.

Að síðustu má benda á héraðsdóm frá 18. júlí 2003, mál nr. S-49/2003, sem kveðinn var upp í héraðsdómi

Vestfjarða. Í þeim dómi er framkvæmdastjóri sveitarfélags sektaður fyrir að veita tilteknum manni verk

hjá bænum, vitandi það að hann hafði ekki nauðsynlegt starfsleyfi til verksins og að fyrirhugað væri að

vinna verkið með öðrum hætti en var leyfilegt samkvæmt gildandi lögum.

F. h. r.

Guðjón Bragason (sign.)

Lárus Bollason (sign.)

20. júlí 2004 - Vestmannaeyjabær - Lagaleg ábyrgð sveitarstjórnarmanna. (PDF)


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta