Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Rangárþing ytra - Aðgangur kjörinna fulltrúa að upplýsingum um laun starfsmanna sveitarfélags.

Þröstur Sigurðsson
6. júní 2005
FEL05040094/1001

Geitasandi 3

850 HELLA

Vísað er til bréfs yðar, dags. 25. apríl 2005, þar sem þér óskið eftir áliti ráðuneytisins á þeirri

afstöðu meirihluta sveitarstjórnar Rangárþings ytra að hafna ósk þriggja fulltrúa Ó- og K-lista

um gögn er snerta launamál hjá starfsmönnum sveitarfélagsins.

Samkvæmt erindi fulltrúa sveitarstjórnar lögðu fulltrúar Ó- og K-lista fram beiðni á fundi

Rangárþings ytra þann 2. mars 2005 um að fá yfirlit yfir öll greidd laun hjá Rangárþingi ytra

vegna ársins 2004, sundurliðuð á eftirfarandi hátt:

1. Heildarlaun hvers starfsmanns árið 2004. (Nefndarlaun talin sérstaklega)

2. Mánaðarlaun hvers starfsmanns, ásamt föstu tímakaupi hvers og eins.

3. Greidd yfirvinnulaun, ásamt yfirvinnulaunum á hvern klukkutíma hjá hverjum

starfsmanni fyrir sig.

4. Aukagreiðslur hvers konar og hlunnindi ef um þau er að ræða.

5. Heildarkostnað vegna aksturs, sundurliðaðan eftir því hvort um er að ræða akstur

vegna nefndarstarfa eða fastra starfa á vegum sveitarfélagsins, einnig sundurliðuðu á

hvern og einn starfsmann og/eða nefndarmann.

Álit ráðuneytisins.

Mál þetta er tekið fyrir á grundvelli 102. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, þar sem kveðið er á

um að ráðuneytið skuli hafa eftirlit með því að sveitarstjórnir gegni skyldum sínum samkvæmt

þeim lögum og öðrum löglegum fyrirmælum.

Samkvæmt 30. gr. sveitarstjórnarlaga skulu aðalmenn í sveitarstjórn vegna starfa sinna í

sveitarstjórn hafa aðgang að bókum og skjölum sveitarfélagsins og óhindraðan aðgang að

stofnunum þess og starfsemi, sbr. og 36. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Rangárþings

ytra, nr. 513/2002. Ákvæðið hefur verið skýrt á þann veg að sveitarstjórnarmenn hafi almennt

óhindraðan aðgang að gögnum ráða, nefnda og stofnana sveitarfélagsins. Skýrist það meðal

annars af því að sveitarstjórnarmenn eru kjörnir til að fara með stjórn sveitarfélagsins, sbr. 8. og

9. gr. sveitarstjórnarlaga, og bera þar af leiðandi ábyrgð á störfum þess og starfsemi.

Í bréfi fulltrúa Ó- og K-lista, dags. 25. apríl 2005, er bent á nauðsyn þess að fá umbeðnar

upplýsingar þannig að hægt verði að sinna eftirlits- og stjórnunarskyldu sveitarstjórnarmanna og

ná með því yfirsýn yfir rekstur sveitarfélagsins. Tilgangurinn sé að afla vinnugagna til þess að

hægt sé að gera sér grein fyrir stöðu mála hjá sveitarfélaginu og þá sérstaklega í ljósi þess að

starfsmat hafi nýverið gengið í gegn.

Ráðuneytið telur sveitarstjórnarmenn eiga rétt á að þeim séu veittar upplýsingar um kostnað

vegna greiðslu launa starfsmanna sveitarfélagsins, með hliðsjón af skyldum þeirra og ábyrgð á

rekstri sveitarfélagsins, sbr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga. Sveitarfélaginu ber að veita

fyrirspyrjendum aðgang að umræddum upplýsingum eins og þær liggja fyrir. Um er að ræða

trúnaðarupplýsingar sem falla undir þagnarskylduákvæði, sbr. 32. gr. sveitarstjórnarlaga, sbr. og

38. gr. samþykktar nr. 513/2002. Í því sambandi telur ráðuneytið rétt að benda á að ekki er

nauðsynlegt samkvæmt sveitarstjórnarlögum að fyrirspyrjendur fái umræddar upplýsingar

afhentar heldur kann að nægja að þeir fái tækifæri til að kynna sér þær á skrifstofu

sveitarfélagsins.

Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga skal nýkjörin sveitarstjórn kjósa tvo skoðunarmenn

og jafnmarga til vara til loka kjörtímabils sveitarstjórnar, sbr. og 6. tölul. B-liðar 57. gr.

samþykktar nr. 513/2002. Í 2. og 3. mgr. 69. gr. laganna er kveðið á um hlutverk

skoðunarmanna, þ.e. að yfirfara ársreikning sveitarfélagsins og athuga einstök fjárhagsleg

málefni sveitarfélagsins, stofnana þess og fyrirtækja eftir því sem þeim þykir ástæða til.

Skoðunarmenn skulu koma tímanlega á framfæri við endurskoðanda sveitarfélagsins þeim

ábendingum og upplýsingum sem þeir telja að við eigi og geti orðið innlegg í

endurskoðunarstarfið.

Í 70. gr. laganna er kveðið á um aðgang skoðunarmanna að gögnum sveitarfélagsins, ákvæðið

hljóðar svo:

Skylt er að veita endurskoðanda og skoðunarmönnum aðstöðu til þess að gera þær athuganir

sem þeir telja nauðsynlegar. Þeir skulu fá aðgang að öllum eignum, bókum, fylgiskjölum og

öðrum gögnum sveitarfélags. Sveitarstjórn og starfsmenn sveitarfélags skulu veita þeim allar

þær upplýsingar sem starfinu tengjast, þeir óska og unnt er að láta í té.“

Samkvæmt framangreindu geta fulltrúar Ó- og K-lista óskað eftir því við skoðunarmenn

sveitarfélagsins að þeir yfirfari gögn sveitarfélagsins sem varða greiðslur launa starfsmanna þess

og innleiðingu starfsmats. Á grundvelli slíkrar beiðni geta skoðunarmenn kannað gögn

sveitarfélagsins er málið varðar. Telji þeir tilefni til frekari athugana er þeim skylt að koma

upplýsingum um það til endurskoðanda sveitarfélagsins.

Upplýsingar um launagreiðslur starfsmanna sveitarfélagsins verða ekki lagðar fram á opnum

fundi, sbr. 16. gr. sveitarstjórnarlaga, þar sem um er að ræða gögn sem snerta einka- eða

fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, sbr. 5. gr.

upplýsingalaga, nr. 50/1996. Í athugasemdum með frumvarpi til umræddra laga kemur fram að á

grundvelli ákvæðisins sé undanþeginn aðgangur almennings um hver heildarlaun hver opinber

starfsmaður hefur haft, hvort sem laun hans eru hærri en föst laun og kjör, sem stöðu hans fylgja,

sökum unninnar yfirvinnu, eða þá lægri vegna launafrádráttar sökum fjarvista eða annarra atvika.

Fram kemur í gögnum málsins að slík sundurliðun sem um er beðið í erindi yðar til

sveitarstjórnar liggi ekki fyrir og að beiðnin varði 200 kennitölur. Einnig kemur fram að um svo

umfangsmikla vinnu sé að ræða að hún verði ekki unnin á skrifstofu sveitarfélagsins, þannig að

ef af yrði þyrfti að fá utanaðkomandi aðila til starfans. Það er mat ráðuneytisins að ekki sé hægt

að krefja sveitarfélagið Rangárþing ytra um svo ítarlega sundurliðun upplýsinga um

launagreiðslur til starfsmanna sveitarfélagsins sem krafist er í erindinu. Með hliðsjón af því er að

framan er rakið er það mat ráðuneytisins að sveitarstjórnarfulltrúarnir geti sinnt sínum

lögbundnum skyldum með hliðsjón af upplýsingum sem þegar liggja fyrir um kostnað við

launagreiðslur til starfsmanna sveitarfélagsins.

F. h. r.

Guðjón Bragason (sign.)

Guðrún A Þorsteinsdóttir (sign.)

Afrit: Rangárþing ytra

 

6. júní 2005 - Rangárþing ytra - Aðgangur kjörinna fulltrúa að upplýsingum um laun starfsmanna sveitarfélags. (PDF)




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta