Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Skeiða- og Gnúpverjahreppur - Lausn frá hreppsnefndarstörfum, endurskoðun ákvörðunar hreppsnefndar

Þrándur Ingvarsson
30. ágúst 2005
FEL05080033/1001

Þrándarholti

801 SELFOSSI

Vísað er til bréfs yðar, dags. 22. ágúst 2005, þar sem þér óskið eftir áliti ráðuneytisins um túlkun

sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, með síðari breytingum, varðandi það hvort hreppsnefndarmaður

sem beðist hefur lausnar skv. 34. gr. laganna geti fallið frá lausnarbeiðni sem hreppsnefnd hefur

samþykkt.

Á fundi hreppsnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps sem haldinn var 9. ágúst 2005 var

eftirfarandi bókað:

Erindi frá A hreppsnefndarfulltrúa dags. 2. ágúst 2005 þar sem hún óskar eftir lausn frá

störfum í hreppsnefnd og nefndum á hennar vegum til loka kjörtímabils vegna anna við nám og

önnur störf. A gerði grein fyrir erindi sínu og tók fram að hún óskaði eftir lausn frá og með 7.

september nk. Hreppsnefnd samþykkir erindið.“

Í bréfi yðar er vísað til ofangreindrar samþykktar og jafnframt greint frá því að í blöðum sé haft

eftir A og oddvita hreppsnefndar að A sé hætt við að hætta hreppsnefndarstörfum.

Álit ráðuneytisins.

Mál þetta er tekið fyrir á grundvelli 102. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, þar sem kveðið er á

um að ráðuneytið skuli hafa eftirlit með því að sveitarstjórnir gegni skyldum sínum samkvæmt

þeim lögum og öðrum löglegum fyrirmælum.

Í bréfi yðar, dags. 22. ágúst 2005, er óskað eftir því að ráðuneytið taki til skoðunar samþykkt

hreppsnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps um lausn hreppsnefndarfulltrúans A. Hún hafði að

eigin frumkvæði beðist lausnar sem hreppsnefndarfulltrúi til loka kjörtímabilsins með bréfi

dagsettu 2. ágúst 2005.

Samkvæmt 1. mgr. 34. gr. sveitarstjórnarlaga getur sveitarstjórnarmaður óskað eftir því að

honum verði veitt lausn um tiltekinn tíma eða til loka kjörtímabilsins. Hreppsnefndarfulltrúinn

A óskaði eftir því með bréfi dagsettu 2. ágúst 2005 að henni yrði veitt lausn frá störfum í

hreppsnefnd og nefndum á hennar vegum til loka kjörtímabilsins. Á fundi hreppsnefndar

Skeiða- og Gnúpverjahrepps þann 9. ágúst sl. var erindi hreppsnefndarfulltrúans samþykkt, og

henni veitt lausn frá hreppsnefndarstörfum frá og með 7. september 2005.

Umræddur hreppsnefndarmaður hefur verið kosinn til setu í sveitarstjórn, sbr. 8. gr.

sveitarstjórnarlaga. Eins og áður hefur komið fram hefur hún beðist lausnar frá og með 7.

september nk. og var sú beiðni samþykkt. Fram til þess tíma situr hún í hreppsnefnd og ber þar

af leiðandi ábyrgð og skyldur sem hreppsnefndarfulltrúi, sbr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga. Þegar

litið er til þess er það mat ráðuneytisins að heimilt sé að bera fram á hreppsnefndarfundi tillögu

þess efnis að samþykkt hreppsnefndar um að veita A lausn frá og með 7. september 2005 verði

felld úr gildi, enda fari sú afgreiðsla fram fyrir þann dag.

Í 1. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að sveitarstjórnarmanni beri að víkja sæti

við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo

sérstaklega að almennt megi ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af, sbr.

samhljóða ákvæði í 1. mgr. 23. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Skeiða- og

Gnúpverjahrepps nr. 807/2002. Komi fram beiðni um að fallið verði frá samþykkt

hreppsnefndarinnar frá 9. ágúst sl. telur ráðuneytið að hreppsnefndarfulltrúanum A beri að víkja

sæti við meðferð og afgreiðslu málsins.

Ráðuneytið telur rétt að taka afstöðu til þess hvort 2. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga geti átt við

um aðstæður í máli þessu, en þar er kveðið á um að sveitarstjórnarmenn séu ekki vanhæfir þegar

verið er að velja fulltrúa til trúnaðarstarfa á vegum sveitarstjórnar eða ákvörðun um þóknun fyrir

slík störf. Ákvæðið tekur meðal annars til þess þegar fulltrúar eru kjörnir í nefndir og stjórnir á

vegum sveitarfélagsins. Þegar litið er til atvika þessa máls er það niðurstaða ráðuneytisins að

ákvæðið eigi ekki við þegar greiða á atkvæði um áframhaldandi setu sveitarstjórnarfulltrúa í

sveitarstjórn. Umræddur sveitarstjórnarfulltrúi getur því ekki á grundvelli 2. mgr. 19. gr.

sveitarstjórnarlaga tekið þátt í atkvæðagreiðslu um afturköllun lausnarbeiðnar sinnar frá störfum

í sveitarstjórn.

F. h. r.

Guðjón Bragason (sign.)

Guðrún A Þorsteinsdóttir (sign.)

Afrit:

Skeiða- og Gnúpverjahreppur

Árnes

801 Selfoss

 

 

30. ágúst 2005 - Skeiða- og Gnúpverjahreppur - Lausn frá hreppsnefndarstörfum, endurskoðun ákvörðunar hreppsnefndar (PDF)




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta