Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Dalabyggð - Kjörgengi, brottvikning úr sveitarstjórn ógilt

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir
5. október 2005
FEL05050034

Seljalandi

371 Búðardal

Hinn 5. október 2005 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með erindi dags. 23. maí 2005, mótteknu 24. maí 2005, kærði Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, Emmubergi,

Dalabyggð, hér eftir nefnd kærandi, samþykkt sem gerð var á fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar, hér eftir

nefnd kærði, þann 19. apríl 2005. Krafðist kærandi þess að samþykktin yrði felld úr gildi í heild sinni

og/eða þeir þættir hennar sem lutu að brottvikningu hennar úr sveitarstjórn Dalabyggðar. Í kærunni er

tekið fram að kæruefnið lúti að samþykktinni í heild sinni, afturköllun umboðs kæranda sem

sveitarstjórnarmanns Dalabyggðar, setu varamanns í sveitarstjórn auk boðunar fundar og sendingar

fundargagna.

Ráðuneytið óskaði eftir umsögn sveitarstjórnar Dalabyggðar með bréfi, dags. 6. júní 2005. Óskað var eftir

því að í umsögninni yrði meðal annars gerð grein fyrir því hvernig staðið hefði verið að upplýsingaöflun

um lögheimili og aðsetur kæranda svo og á hvern hátt sveitarfélagið hefði gefið kæranda tækifæri á því að

tjá sig um efni málsins, sbr. 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Ráðuneytinu barst umsögn

sveitarstjórnar Dalabyggðar með bréfi, dags. 6. júlí 2005. Umsögnin var send kæranda með bréfi, dags.

19. júlí 2005. Athugasemdir kæranda bárust 8. ágúst 2005 með bréfi, dags. 4. ágúst 2005. Með bréfi,

dags. 16. ágúst 2005, sendi ráðuneytið athugasemdir kæranda til kærða og honum gefinn kostur á að

koma að frekari athugasemdum. Þann 2. september 2005 bárust athugasemdir frá kærða.

I. Málavextir

Þann 9. nóvember 2004 tilkynnti kærandi Hagstofu Íslands um nýtt lögheimili sitt að Harastöðum, 371

Búðardal, auk þess sem hún hefði flutt aðsetur sitt tímabundið úr Dalabyggð að Sörlaskjóli 9a, 107

Reykjavík.

Á fundi byggðarráðs Dalabyggðar þann 8. mars 2005 var samþykkt tillaga þess efnis að til álita kæmi að

sveitarstjórn Dalabyggðar tilkynnti breytingu á aðsetri og lögheimili kæranda í samræmi við ákvæði laga

um tilkynningar aðsetursskipta og tæki eftir atvikum afstöðu til kjörgengis hennar, sbr. 98. gr. laga um

kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998.

Var sveitarstjóra Dalabyggðar falið að kynna kæranda tillöguna og leita eftir afstöðu hennar. Í bréfi, dags.

9. mars 2005, frá sveitastjóra Dalabyggðar til kæranda var tillagan kynnt kæranda formlega og óskað eftir

því að kærandi kæmi á framfæri afstöðu sinni til þeirra atriða sem þar væru rakin. Frestur til svara var

veittur til 15. mars 2005.

Á fundi byggðarráðs þann 15. mars 2005 var samþykkt önnur tillaga þess efnis að til álita kæmi að

sveitarstjórn Dalabyggðar tæki ákvörðun um að kærandi viki úr sveitarstjórn, þar til hún tæki aftur búsetu

í sveitarfélaginu í samræmi við 4. mgr. 24. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Var sveitarstjóra

Dalabyggðar falið að kynna kæranda tillöguna og leita eftir afstöðu hennar til málsins. Í bréfi, dags. 15.

mars 2005, frá sveitarstjóra til kæranda var tillagan formlega kynnt kæranda og var henni veittur frestur til

12. apríl 2005 til þess að koma á framfæri afstöðu sinni til málsins.

Í tveimur bréfum, öðru dags. 12. apríl 2005, stíluðu á formann byggðarráðs Dalabyggðar, og í hinu dags.

19. apríl 2005, stíluðu á sveitarstjóra Dalabyggðar, kom kærandi á framfæri afstöðu sinni varðandi

fyrrnefndar tillögur byggðarráðs Dalabyggðar.

Á fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar þann 19. apríl 2005 var samþykkt eftirfarandi tillaga:

Með vísan til þess að sveitarstjórnarmaðurinn Guðrún Jóna Gunnarsdóttir hefur flutt úr sveitarfélaginu

um stundarsakir til að stunda nám og störf í Reykjavík, er ákveðið með vísan til sveitarstjórnarlaga, að

hún skuli „víkja úr sveitarstjórn, þar til hún tekur aftur búsetu í sveitarfélaginu“, sbr. 4. mgr. 24. gr.

sveitarstjórnarlaga og skal varamaður hennar taka sæti í sveitarstjórn í samræmi við niðurlag 24. gr.

laganna.

II. Málsrök kæranda

 

Í málinu heldur kærandi því fram að hún geti áfram átt lögheimili sitt í Dalabyggð þótt hún stundi

tímabundið nám við Háskóla Íslands í Reykjavík. Að mati kæranda ber henni ekki að tilkynna til

sveitarstjórnar um breytt aðsetur meðan á námi stendur. Auk þess telur kærandi að kærða beri að upplýsa,

á grundvelli 15. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, við hvað var átt þegar í bókun byggðarráðs frá 8. apríl

2005 var vísað til þess að búsetufyrirkomulag á Harastöðum væri með þeim hætti að ekki yrði séð að

Harastaðir gætu talist lögheimili kæranda.

Kærandi heldur því einnig fram að boðun sveitarstjórnarfundar þann 19. apríl 2005 og sending

fundargagna vegna fundarins hafi verið ófullnægjandi þar sem 12. gr. samþykktar Dalabyggðar um stjórn

og fundarsköp hafi verið brotin. Kærandi bendir á að sú grein kveði á um að sveitarstjórn skuli senda

sveitarstjórnarmönnum fundarboð sveitarstjórnarfundar ásamt dagskrá og fylgigögnum þannig að þau

gögn berist þeim í síðasta lagi tveimur sólarhringum fyrir sveitarstjórnarfund. Umrædd fundargögn hafi

hins vegar ekki borist sér fyrr en 18. apríl 2005 þar sem þau hafi verið send í ábyrgðarpósti að

Harastöðum föstudaginn 15. apríl 2005 en ábyrgðarpóst þurfi að sækja á póststöð í Búðardal eftir móttöku

tilkynningar um slíka póstsendingu.

Kærandi heldur því enn fremur fram að lagaskilyrði hafi skort til þess að víkja henni úr sveitarstjórn á

grundvelli 4. mgr. 24. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, þar sem ómálefnaleg sjónarmið hafi legið að

baki ákvörðuninni. Að mati kæranda hafi hún áfram átt lögheimili í Dalabyggð þótt hún hafi flutt aðsetur

sitt tímabundið í samræmi við lög vegna náms. Hún telur að með setningu ákvæðisins hafi ætlunin ekki

verið að leysa málefnalegan ágreining eða skoðanamun. Ákvæðið hafi verið sett til þess að hægt væri að

hafa sveitarstjórn starfhæfa þannig að búseta aðalmanns utan sveitarfélags komi ekki í veg fyrir að

sveitarstjórn sé alla jafna fullskipuð og starfhæf.

Kærandi kveðst hafa verið fjarverandi einhverja fundi síðastliðinn vetur vegna veðurfars en ekki vegna

starfs síns og náms. Hún hafi alla jafna bestu viðveru á fundum frá því að hún tók sæti í sveitarstjórn.

Þrátt fyrir það liggi fyrir að hún ein hafi verið beitt einhverjum viðurlögum vegna þess. Það er skilningur

kæranda að meðalhófs hafi hvorki verið gætt við úrlausn málsins né við þá framkvæmd að víkja henni af

fundi og setja þegar í stað varamann.

Auk þess sem að framan greinir telur kærandi að kærði hafi með ákvörðun sinni um að víkja kæranda úr

sveitarstjórn brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, þar sem sveitarstjórn hafi ekki lagt sig mikið

eftir því að upplýsa hvernig búsetu kæranda var háttað á umræddum tíma. Auk þess er það mat kæranda

að kærði hafi brotið gegn andmælareglu 13. gr. sömu laga þar sem henni hafi ekki verið gefinn kostur á

að tjá afstöðu sína gagnvart bréfi sveitarstjóra Dalabyggðar, dags. 15. mars 2005.

III. Málsrök kærða

 

Í málinu heldur kærði því fram að Harastaðir geti ekki talist lögheimili kæranda í skilningi 1. mgr. 1. gr.

laga um lögheimili, nr. 21/1990, en þar segir að lögheimili manns sé „sá staður þar sem hann hefur fasta

búsetu“. Auk þess bendir kærði á að skv. 2. mgr. sömu greinar telst maður hafa fasta búsetu á þeim stað

þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og

svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða

annarra hliðstæðra atvika. Einnig bendir kærði á 3. mgr. 4. gr. sömu laga þar sem segir að dveljist maður

hérlendis við nám utan þess sveitarfélags þar sem hann átti lögheimili er námið hófst geti hann átt

lögheimili þar áfram „enda hafi hann þar bækistöð í leyfum og taki ekki upp fasta búsetu annars staðar“.

Það er mat kærða að kærandi hafi tekið upp fasta búsetu annars staðar en í Dalabyggð, þar sem kærandi

hafi flutt aðsetur sitt til Reykjavíkur. Hafi kærandi frá því haustið 2004 fengið sveitarstjórnargögn sín

send til Reykjavíkur þar sem hún stundi nú nám og vinnu. Auk þess komi fram í gögnum málsins að

kærandi haldi ekki bækistöð sína og heimilismuni að Harastöðum þar sem kærandi hafi komið

ónauðsynlegum munum fyrir í geymslu að Harastöðum, samanber eftirfarandi ummæli kæranda í bréfi

sínu til formanns byggðarráðs Dalabyggðar, dags. 12. apríl 2005: „Þann 18. október [2004] náðist

samkomulag á milli mín og ábúanda Harastaða um tímabundin afnot af húsnæðinu og flutti ég þær eigur

sem fjölskylda mín kemst af án á meðan á námi mínu stendur og hef dvalið þar þegar ég hef átt þess

kost.“ Með greinargerð kærða fylgir yfirlýsing frá ábúanda að Staðarfelli í Dalasýslu, sem er næsti bær

við Harastaði, þess efnis að frá því haustið 2004 hafi ekki verið um að ræða fasta búsetu á Harastöðum.

Kærði hafnar því að boðun sveitarstjórnarfundar þann 19. apríl 2005 og sending fundargagna vegna

fundarins til kæranda hafi verið ófullnægjandi. Bendir kærði á að í bréfi kæranda til formanns

byggðarráðs Dalabyggðar, dags. 12. apríl 2005, hafi kærandi kvartað yfir því að gögn sem ætluð voru

henni sem sveitarstjórnarmanni væru send á aðsetur hennar í Reykjavík að Sörlaskjóli 9. Vegna þessa hafi

Dalabyggð sent viðkomandi gögn með umræddum hætti. Telur kærði því ljóst að reynt hafi verið eins og

mögulegt er að koma gögnum tímanlega til kæranda. Það sé hins vegar ekki á valdi kærða að ákveða

hvenær kærandi nálgist ábyrgðarbréf sín eftir að tilkynningar um slík bréf berast henni í hendur.

Kærði hafnar þeim fullyrðingum kæranda að ómálefnaleg sjónarmið hafi legið að baki þeirri ákvörðun

sveitarstjórnar Dalabyggðar að víkja kæranda úr sveitarstjórn. Að mati kærða kemur fram í 98. gr. laga

um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, að sveitarstjórnarmaður missi sjálfkrafa kjörgengi sitt að

lögum og skuli víkja úr sveitarstjórn flytji hann lögheimili sitt úr sveitarfélagi, „sbr. þó ákvæði

sveitarstjórnarlaga varðandi tímabundinn brottflutning sveitarstjórnarmanns“.

Kærði bendir einnig á að skv. 2. mgr. 34. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, skuli fulltrúi í sveitarstjórn

víkja úr sveitarstjórninni missi hann kjörgengi sitt, „sbr. þó ákvæði 4. mgr. 24. gr. [laganna]“. Samkvæmt

4. mgr. 24. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, er heimilt að veita sveitarstjórnarmanni tímabundna lausn

frá störfum, enda flytji viðkomandi aðeins um stundarsakir úr sveitarfélaginu. Líkt og að framan er rakið

var það mat kærða, þegar hin umdeilda ákvörðun var tekin, að kærandi hefði tekið upp fasta búsetu annars

staðar utan Dalabyggðar og þar með lögheimili í skilningi lögheimilislaga. Að mati kærða var ákvörðunin

því byggð á málefnalegum sjónarmiðum og í fullu samræmi við markmið og orðalag 4. mgr. 24. gr.

sveitarstjórnarlaga. Líkt og að framan greinir telur kærði að óumdeilanleg vitneskja hafi verið til staðar

um að kærandi héldi ekki lengur heimili í Dalabyggð þegar umrædd ákvörðun var tekin og því mótmælir

kærði því að hafa með ákvörðun sinni brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Einnig mótmælir

kærði því að hafa brotið gegn 13. gr. sömu laga og bendir á að þegar málið hafi fyrst verið rætt í

byggðarráði hafi kærandi verið viðstödd fundinn. Í bókun fundarins og í bréfi til kæranda, dags. 9. mars

2005 og mótteknu sama dag, hafi kæranda sérstaklega verið gefinn kostur á að koma athugasemdum

sínum á framfæri. Það hafi hún síðan gert, annars vegar með bréfi til formanns byggðarráðs, dags. 12.

apríl 2005, og hins vegar með bréfi til sveitarstjóra Dalabyggðar, dags. 19. apríl 2005. Að mati kærða hafi

kærandi því notið ótvíræðs og fulls andmælaréttar.

IV. Niðurstaða ráðuneytisins

 

Erindi kæranda er tekið til úrskurðar skv. 1. mgr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, með síðari

breytingum.

Kærandi gerir þær kröfur að ákvarðanir sveitarstjórnar um að víkja henni úr sveitarstjórn, seta varamanns

í sveitarstjórn, boðun funda og sending fundargagna verði felld úr gildi í heild sinni og/eða þeir þættir

hennar sem lutu að brottvikningu hennar úr sveitarstjórn Dalabyggðar.

Á fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar þann 19. apríl 2005 var samþykkt tillaga um að víkja kæranda

tímabundið úr sveitarstjórn eða þar til hún tæki aftur upp búsetu í sveitarfélaginu, sbr. 4. mgr. 24. gr.

sveitarstjórnarlaga. Ákvörðunin var tekin með vísan til þess að hún hafði flutt úr sveitarfélaginu um

stundarsakir til að stunda nám og störf í Reykjavík.

Samkvæmt 1. og 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, gilda lögin þegar sveitarfélag tekur ákvörðun

um rétt og skyldu manna. Gögn málsins bera með sér að sveitarstjórn hafi kynnt sér lögheimilisskipan

kæranda og aðsetur hennar áður en ákvörðun var tekin í málinu, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Með bréfi til

formanns byggðaráðs, dags. 12. apríl 2005, greinir kærandi frá afstöðu sinni um skráningu lögheimilis og

aðsetur sitt. Með bréfi til sveitarstjóra Dalabyggðar, dags. 19. apríl 2005, greinir kærandi frá bréfi sínu til

formanns byggðaráðs þar sem hún greinir frá sjónarmiðum sínum gagnvart lögheimilisskipan og breyttu

aðsetri. Með hliðsjón af því verður ekki annað séð en að sveitarstjórn hafi rannsakað málið og kærandi

hafi fengið að tjá sig um það áður en endanleg ákvörðun var tekin, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga.

Brottvikning úr sveitarstjórn

 

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um lögheimili, nr. 21/1990, telst lögheimili manns vera sá staður þar sem

hann hefur fasta búsetu en 2. mgr. 1. gr. laganna hljóðar svo:

Maður telst hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í

tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um

stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.

Kærandi hefur eins og lög um lögheimili gera ráð fyrir tilkynnt hvar hún óski eftir því að lögheimili

hennar verði skráð. Með búsetuvottorði, dags. 12. ágúst 2005, tilkynnti kærandi um lögheimilisflutning

frá Sunnubraut 5a, Búðardal, að Harastöðum, Búðardal, frá 9. nóvember 2004. Frá sama tíma skráði hún

aðsetur sitt að Sörlaskjóli 9a í Reykjavík. Staðfest er af Endurmenntun Háskóla Íslands með bréfi, dags.

15. ágúst 2005, að kærandi hafi stundað þriggja missera nám sem hófst haustið 2003 og lauk með útskrift

í febrúar 2005. Endurmenntun Háskóla Íslands staðfestir einnig í bréfi, dags. 15. ágúst 2005, að kærandi

hafi lokið tveimur af fjórum misserum (haust 2004 og vor 2005) í MBA námi við viðskipta- og

hagfræðideild Háskóla Íslands. Námið sé tveggja ára nám með starfi, það hafi hafist í september 2004 og

muni ljúka vorið 2006. Eins og fram kemur í 3. mgr. 4. gr. laga um lögheimili, nr. 21/1990, er aðila sem

dvelur hérlendis við nám utan þess sveitarfélags þar sem hann átti lögheimili er námið hófst heimilt að

eiga lögheimili þar áfram enda hafi hann þar bækistöð í leyfum og taki ekki upp fasta búsetu annars

staðar. Vegna náms síns skráði kærandi aðsetur sitt í Reykjavík.

Þann 12. apríl 2005 tilkynnti hún nýtt lögheimili að Emmubergi, Dalabyggð, til Hagstofu Íslands.

Samkvæmt 6. mgr. 4. gr. lögheimilislaga er það kærandi sem ákveður hvar lögheimili hennar skuli vera,

sbr. 1. gr. laganna. Það hefur hún gert og telst því hafa uppfyllt lögbundin ákvæði um tilkynningu

lögheimilis, þ.e. hvar hún skuli skráð með lögheimili. Telji þjóðskráin, hlutaðeigandi aðili eða

sveitarfélag vafa leika á því hvert lögheimili viðkomandi sé er rétt að höfða mál til viðurkenningar á því

hvar lögheimili skuli talið, sbr. 11. gr. lögheimilislaganna. Fyrir liggur í málinu að slíkt mál hefur ekki

verið höfðað. Með hliðsjón af framangreindu er það ekki á færi félagsmálaráðuneytisins að ákveða hvort

kæranda var heimilt að skrá lögheimili sitt að Harastöðum og síðan að Emmubergi á þeim tíma sem um

ræðir.

Ákvörðunin um að vísa kæranda úr sveitarstjórn er tekin með vísan til 4. mgr. 24. gr. sveitarstjórnarlaga. Í

handbók Sambands íslenskra sveitarfélaga Sveitarstjórnarlög nr. 45/1998 ásamt skýringum og

athugasemdum segir svo um 4. mgr. 24. gr.:

Almenna reglan er sú að ef sveitarstjórnarmaður flytur lögheimili sitt þá missi hann kjörgengi, sbr. 3. og

98. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998. Hér er hins vegar að finna reglu um að ef

aðalmaður flytur úr sveitarfélaginu um stundarsakir má ákveða að hann víki úr sveitarstjórn þar til hann

tekur aftur búsetu í sveitarfélaginu. Þessi staða getur komið upp ef sveitarstjórnarmaður fer á brott

tímabundið, til dæmis í nám. Aðalmaður þarf þá fyrirfram að leggja sérstaka beiðni fyrir sveitarstjórnina

þar sem hann greinir frá þessum tímabundna flutningi, að hann hyggist flytjast í sveitarfélagið aftur, að

hann óski eftir leyfi frá störfum í sveitarstjórninni tímabundið og leyfi til að taka sæti í sveitarstjórninni á

nýjan leik þegar hann snýr aftur. Sveitarstjórnin þarf síðan að taka sérstaka afstöðu til beiðninnar.

Kærandi óskaði ekki eftir lausn frá starfi sínu sem fulltrúi í sveitarstjórn, heldur sótti fundi og hélt áfram

að starfa sem sveitarstjórnarfulltrúi. Samkvæmt framangreindu lagaákvæði er það hlutaðeigandi

sveitarstjórnarmaður sem leggur fram beiðni um leyfi frá störfum. Sveitarstjórn Dalabyggðar getur ekki á

grundvelli ákvæðisins ákveðið að kærandi verði leystur frá störfum vegna náms í öðru sveitarfélagi. Svo

framarlega sem kærandi sinnir sínu hlutverki sem sveitarstjórnarfulltrúi verður henni ekki vikið

tímabundið frá störfum án hennar samþykkis. Fram kemur í gögnum málsins að hún hafi fengið

áminningu vegna fjarvista veturinn 2004–2005, en ekki verður séð að því máli hafi verið fylgt eftir. Í

umsögn Dalabyggðar sem dagsett er 6. júlí 2005 segir orðrétt: „Af hálfu Dalabyggðar er vakin sérstök

athygli á því að fjarvistir kæranda sem slíkar hafi ekki legið til grundvallar þeirri ákvörðun Dalabyggðar,

um að víkja kæranda úr sveitarstjórn.“ Um ástæður þess að kæranda var vikið úr sveitarstjórn vísar

Dalabyggð til umfjöllunar í kafla í umsögninni þar sem fjallað er um beitingu sveitarstjórnar á 4. mgr. 24.

gr. sveitarstjórnarlaga og ætlaðra ólögmætra sjónarmiða þar að baki. Það er mat ráðuneytisins að kærða

hafi ekki tekist að þessu leyti að sanna að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum sem löglega kjörinn

fulltrúi í sveitarstjórn.

Kærði vísar til þess að kærandi hafi misst kjörgengi við flutning úr sveitarfélaginu. Henni sé ekki heimilt

að eiga þar lögheimili þar sem hún uppfylli ekki skilyrði lögheimilislaga hvað það varðar. Á grundvelli

98. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, sbr. 2. mgr. 34. gr. sveitarstjórnarlaga, úrskurðar

sveitarstjórn hvort sveitarstjórnarmaður hafi misst kjörgengi sitt. Missi fulltrúi í sveitarstjórn kjörgengi

skal hann víkja úr sveitarstjórninni, sbr. þó ákvæði 4. mgr. 24. gr. laganna um tímabundinn flutning úr

sveitarfélaginu.

Samkvæmt 3. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, eru kjörgengisskilyrði þau að

viðkomandi sé íslenskur ríkisborgari sem náð hefur 18 ára aldri þegar kosning fer fram, eigi lögheimili í

sveitarfélaginu og hafi ekki verið sviptur lögræði. Með hliðsjón af gögnum málsins uppfyllir kærandi

framangreind kjörgengisskilyrði. Það er því mat ráðuneytisins að henni verði ekki vikið úr sveitarstjórn á

þeim forsendum að hún hafi misst kjörgengi.

Boðun funda, sending gagna og seta varamanns

 

Með bréfi, dags. 12. apríl 2005, til formanns byggðaráðs kvartaði kærandi yfir því að gögn vegna starfa

hennar í sveitarstjórn væru send á skráð aðsetur hennar að Sörlaskjóli 9a í Reykjavík. Fram kemur í

gögnum málsins að kærandi hafi fengið gögn vegna fyrirhugaðs fundar í sveitarstjórn þriðjudaginn 19.

apríl 2005 send í ábyrgðarpósti að Harastöðum, þar sem hún var með skráð lögheimili. Gögnin hafi farið í

póst föstudaginn 15. apríl 2005. Rök sendanda voru þau að kvartanir hefðu borist frá kæranda um að gögn

skiluðu sér ekki til hennar á skráð aðsetur hennar að Sörlaskjóli 9a í Reykjavík. Í 12. gr. samþykktar um

stjórn og fundarsköp Dalabyggðar, nr. 977/2000, skal senda sveitarstjórnarmönnum fundarboð

sveitarstjórnarfundar ásamt dagskrá og fylgigögnum þannig að þau gögn berist þeim í síðasta lagi tveimur

sólarhringum fyrir sveitarstjórnarfund. Það er mat ráðuneytisins að í því tilviki sem um ræðir hafi

sveitastjóri ekki farið eftir framangreindri 12. gr. samþykktar þar sem ljóst þykir að bréf sem sent sé í

ábyrgðapósti á föstudegi berist viðkomandi ekki fyrr en í fyrsta lagi á mánudegi, en funda átti á

þriðjudeginum þar á eftir. Félagsmálaráðuneytið telur það aðfinnsluvert að sveitarstjórnin fari ekki eftir

eigin samþykkt um sendingu fundargagna, en metur það þó svo eins og máli þessu er háttað að það valdi

ekki ógildingu viðkomandi sveitarstjórnarfundar.

Eitt af kæruatriðum er seta varamanns í sveitarstjórn. Samkvæmt 99. gr. laga nr. 5/1998 taka varamenn

sæti í sveitarstjórn eftir ákvæðum sveitarstjórnarlaga. Ráðuneytið telur það hafa verið í samræmi við

ákvæði 24. gr. sveitarstjórnarlaga að kalla til varamann kæranda til að taka við hennar sæti í sveitarstjórn

eftir að ákveðið hafði verið að víkja henni úr sveitarstjórninni. Hins vegar víkur sá varamaður þegar

kærandi tekur aftur sæti í sveitarstjórninni.

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að fella beri úr gildi ákvörðun

sveitarstjórnar Dalabyggðar um að víkja kæranda tímabundið úr sveitarstjórn eða þar til hún tekur aftur

búsetu í sveitarfélaginu, sbr. 4. mgr. 24. gr. sveitarstjórnarlaga.

Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu og sumarleyfa.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun sveitarstjórnar Dalabyggðar um að víkja Guðrúnu Jónu Gunnarsdóttir úr sveitarstjórn þar til

hún tekur aftur búsetu í sveitarfélaginu, sbr. 4. mgr. 24. gr. sveitarstjórnarlaga, er ógild.

Fyrir hönd ráðherra

Sesselja Árnadóttir (sign.)

Guðrún A Þorsteinsdóttir (sign.)

 

5. október 2005 - Dalabyggð - Kjörgengi, brottvikning úr sveitarstjórn ógilt (PDF)

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta