Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Ráðuneytið fellst á nafnið Austurbyggð fyrir sameinað sveitarfélag Búðahrepps og Stöðvarhrepps

Sameinað sveitarfélag Búðahrepps og Stöðvarhrepps   6. október 2003       FEL03030008/1031-7611

Steinþór Pétursson, sveitarstjóri

Skólabraut 10

755 STÖÐVARFIRÐI

 

 

 

Vísað er til símbréfs yðar, dags. 2. október sl., þar sem óskað er eftir staðfestingu ráðuneytisins á ákvörðun sveitarstjórnar sameinaðs sveitarfélags Búðahrepps og Stöðvarhrepps um nafn fyrir hið nýja sveitarfélag.

 

Á meðal gagna málsins er umsögn örnefnanefndar, dags. 14. ágúst 2003, þar sem fram kemur að nefndin treystir sér ekki til þess að mæla með nafninu Austurbyggð fyrir hið nýja sveitarfélag, þar sem það nafn eigi sér ekki stoð í málvenju. Þrátt fyrir þetta álit örnefnanefndar var Austurbyggð eitt fjögurra nafna sem íbúar gátu valið um í atkvæðagreiðslu sem fór fram samhliða sveitarstjórnarkosningum hinn 20. september sl., og hlaut það nafn flest atkvæði. Er það mat ráðuneytisins að þetta hafi verið heimilt skv. 4. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, með síðari breytingum.

 

Samkvæmt fyrrgreindu ákvæði sveitarstjórnarlaga skal nafn sveitarfélags samrýmast íslenskri málfræði og málvenju. Enginn ágreiningur er um það að nafnið Austurbyggð fellur að íslenskri málfræði. Hins vegar kemur fram í umsögn örnefnanefndar að nefndin telur fyrri lið þess nafns ekki heppilegan án frekari afmörkunar. Er nefndin þar að vísa til þess að nafnið skírskotar ekki sérstaklega til staðhátta sem sérkenna það svæði sem sveitarfélagið tekur til, samanber meginsjónarmið nefndarinnar um nöfn sveitarfélaga, dags. 27. ágúst 1998.

 

Með hliðsjón af því að nafnið Austurbyggð á sér hliðstæðu á Vestfjörðum, þar sem til er sveitarfélagið Vesturbyggð, og því að ekki verður ráðið af umsögn örnefnanefndar að nafnið útiloki, þrengi að eða raski á nokkurn hátt merkingu eða notkun rótgróinna heita sem tengjast svæðum eða byggðarlögum innan hins sameinaða sveitarfélags, nágrannasveitarfélaga þess eða þess héraðs sem það tilheyrir, hefur ráðuneytið ákveðið að fallast á erindi sveitarstjórnar og staðfesta heitið Austurbyggð fyrir hið sameinaða sveitarfélag. Er þá einnig horft til þess að það er eindreginn vilji sveitarstjórnar að gefa sveitarfélaginu nafn sem sameinað getur íbúa beggja þeirra sveitarfélaga sem nú hafa sameinast, og að vegna staðhátta virðist nafnið Austurbyggð eitt koma til greina til að ná því takmarki.

 

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið hefur meðfylgjandi auglýsing um staðfestingu ráðuneytisins á hinu nýja sveitarfélagsnafni verið send til birtingar í B-deild Stjórnartíðinda.

 

F. h. r.

Guðjón Bragason (sign.)

Guðmundur Ómar Hafsteinsson (sign.)

Afrit:

Örnefnanefnd

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta