Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Mál nr. IRR13100174

 Ár 2014, þann 3. júlí, er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. IRR13100174

 

Kæra [M]]

á ákvörðun

Samgöngustofu

 

I.      Kröfur og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru  dagsettri 15. október 2013 kærði [M] (hér eftir nefndur M), kt. […]], […], ákvörðun Samgöngustofu (hér eftir nefnd SGS) frá 15. júlí 2013 um að synja honum um B1 tegundaráritun fyrir Boeing 737-300/400/500 í Part 66 skírteini. Af kæru verður ráðið að [M] krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og SGS gert að gefa út umrædda tegundaráritun. 

Kæruheimild er í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

II.      Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn dagsettri 6. febrúar 2013 sótti [M] um B1 tegundaráritun fyrir Boeing 737-300/400/500 í Part-66 skírteini sitt. Með bréfi SGS dags. 6. júní 2013 var [M] tilkynnt um fyrirhugaða ákvörðun SGS um að hafna beiðni hans um umrædda tegundaráritun og honum gefinn frestur til að koma að athugasemdum. Með tölvubréfi [M] dags. 25. júní 2013 kom [M] á framfæri andmælum við fyrirhugaða ákvörðun SGS. Með bréfi SGS dags. 15. júlí 2013 var [M] tilkynnt að umsókn hans um tilgreinda tegundaráritun væri hafnað.

Ákvörðun SGS var kærð til ráðuneytisins með bréfi [M] dags. 14. október 2013.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 18. október 2013 var SGS gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið með bréfi stofnunarinnar dags. 28. nóvember 2013.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 5. desember 2013 var [M] gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna málsins. Bárust þær athugasemdir ráðuneytinu með tölvubréfi [M] dags. 10. janúar 2014.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 29. janúar 2014 var [M] tilkynnt að gagnaöflun væri lokið og málið hefði verið tekið til úrskurðar.

 

III.    Málsástæður og rök [M]

[M] bendir á að SGS haldi því ranglega fram að réttindi hans samkvæmt FAA skírteini séu ófullnægjandi þar sem hann hafi ekki sveinspróf. FAA haldi svo nefnd „Oral and Practical“ próf þar sem viðurkenndur prófdómari frá FAA prófi nemendur í því efni sem þeir hafi lært. Enginn fái útgefið FAA skírteini án þess að hafa staðist þetta próf. Sé prófið ígildi sveinsprófs á Íslandi. Bendir [M] á að hefði hann ekki framvísað bandarísku FAA skírteini hjá Icelandair þegar hann sótti um starf hjá félaginu árið […] hefði hann aldrei verið ráðinn sem flugvirki í véladeild. Telur [M] að það standist ekki að réttindi hans falli niður þar sem hann hafi ekki sótt um skírteini hjá SGS fyrr en árið 2009. Hafi [M] sótt um skírteini árið […] um leið og hann hafi lokið tegundarréttarnámskeiðinu en verið synjað munnlega á þeim forsendum að ekki væri farið að gefa út JAR skírteini á Íslandi og hann væri ekki lengur að vinna hjá Icelandair. Byggi SGS síðan á því að það sé mat stofnunarinnar að hann geti ekki borið sig saman við þá sem hafi lokið verklegri þjálfun og fengið útgefin þjóðarskírteini fyrir árið 2002. Þegar [M] hafi lokið verklegu þjálfuninni hafi hann verið handhafi FAA skírteinis og geti SGS ekki mismunað mönnum ef þeir ljúki tegundarréttindum á Íslandi eingöngu af því þeir hafi ekki fengið þjóðarskírteini fyrir árið 2002 en haft erlent skírteini. Þar að auki hafi þeir sem [M] beri sig saman við verið á sama námskeiði og hann og haft jafn langa starfsreynslu auk þess að vera sagt upp á sama tíma og [M]. Geti SGS ekki haldið því fram að þeir hafi lokið öðru námskeiði. Um sé að ræða sama námskeið og tekið á sama tíma. Engin lög eða reglugerðir sem í gildi hafi verið hér á landi þegar [M] lauk námskeiðinu staðfesti fullyrðingu SGS um að réttur til tegundaráritunar hafi eingöngu verið mögulegur ef viðkomandi hafi fengið útgefið þjóðarskírteini. Þá bendir [M] á að hann hafi verið handhafi bandarísks þjóðarskírteinis.

[M] bendir á að synjun SGS á tegundaráritun árið 2009 hafi byggt á því að afaréttur gilti aðeins um tegundaráritanir sem skráðar hafi verið í þjóðarskírteini flugvirkja fyrir 1. júní 2001. [M] hafi á þeim tíma haft bandarískt þjóðarskírteini og setji SGS þessar fullyrðingar fram án þess að vitna í íslenska reglugerð sem mæli fyrir um þetta. Sé ekki kveðið á um þetta í lögum eða reglugerð hér á landi. Kveðst [M] hafa svo nefnd „vernduð réttindi“ þar sem þeim hafi lokið áður en JAR-66 tók gildi. Bendir [M] á að umsóknareyðublöð SGS séu gölluð þar sem hvergi sé minnst á vernduð réttindi sem hægt sé að sækja um í öðrum ríkjum sem eru aðilar að EASA. Burtséð frá lögum JAR-66 og PART-66 sé það mannréttindabrot að neita að viðurkenna þá menntun sem [M] hafði aflað sér áður en JAR-66 og PART-66 tóku gildi.

Í bréfi SGS frá 6. júní 2013 sé vísað í kröfur sem liggi að baki loftfarsréttindaáritunum fyrir loftför í hópi 1 í Part-66 skírteini. Um tegundarþjálfun á loftfar og prófstaðal sé fjallað í liðum b- og c- greinar 66.A.45 ásamt III. viðbæti. Í III. viðauka (66. hluta) í fylgiskjali I við reglugerð nr. 206/2007 sé fjallað um viðvarandi lofthæfi loftfara og flugtæknilegra framleiðsluvara, hluta og búnaðar og um samþykki fyrir viðhaldsstöðvum og starfsfólki á þessu sviði. Í III. viðbæti komi m.a. fram að tegundarþjálfun á loftfar skuli samanstanda af bóklegri þjálfun og prófi í verklegri þjálfun og mati. Í liðum 1 a og b í III. viðbæti segi m.a. að fræðileg þjálfun, próf, verkleg þjálfun og mat skuli framkvæmt af viðhaldskennslufyrirtæki með samþykki í samræmi við IV. viðauka (147. hluta) eða að þau séu framkvæmd af öðrum fyrirtækjum sem SGS veiti beint samþykki fyrir. Ef um fyrstu tegundaráritun fyrir loftfar innan tiltekins flokks eða undirflokks sé að ræða þurfi einnig að ljúka þjálfun á vinnustað (OJT) eins og lýst sé í lið 6 í III. viðbæti.

Þá komi fram í bréfi SGS að til að veita [M] tegundarréttindi í skírteini hans þurfi að liggja fyrir annað hvort þjálfunarvottorð frá viðhaldskennslufyrirtæki með tilhlýðilegt samþykki samkvæmt IV. viðauka (147. hluta) reglugerðar nr. 206/2007 eða þjálfunarvottorð fyrir námskeið sem hlotið hafi samþykki SGS og staðfesti að [M] hafi lokið tegundarþjálfun ásamt gögnum sem staðfesti þjálfun á vinnustað fyrir það loftfar sem sótt er um áritun fyrir samkvæmt liðum b og c í gr. 66.A.45. Kveðst [M] hafa starfað hjá Icelandair í tvö ár sem flugvirki í véladeild. Þar hafi hann fengið almenna þjálfun á flugvélina B737-300/400/500. Umsókn [M] um tegundaráritun hafi fylgt staðfest yfirlýsing þess efnis frá Icelandair. Einnig hafi fylgt umsókninni staðfest afrit af tegundarréttindum þeim sem [M] hafi lokið hjá Icelandair og sótt hafi verið um að færu inn í Part-66 skírteinið. Reglugerð nr. 206/2007 sé gefin út sex árum eftir að [M] lauk námskeiðinu og geti því ekki átt við umsókn hans. Geti reglugerðir ekki virkað afturvirkt og þar að auki þurfi lagaheimild að vera fyrir hendi til geta skert starfsréttindi fólks. Sú lagaheimild sé ekki fyrir hendi og ekki megi nýta reglugerðir til skerðingar atvinnuréttinda. Þar að auki hafi reglugerð nr. 206/2007 ekki haft beint lagagildi á Íslandi fyrr en eftir innleiðingu hennar árið 2007. Með henni hafi reglugerðir framkvæmdastjórnar EB nr. 2042/2003 frá 20. nóvember 2003 og nr. 707/2006 frá 8. maí 2006 verið innleiddar í íslenskan rétt og öðlast lagagildi á Íslandi.

Í þjálfunarvottorði [M] sé viðurkennt að náminu sé lokið sem starfsþjálfun („on the job training“) og í skóla („classroom“). Í vottorðinu komi fram að [M] hafi lokið 184 klukkustunda þjálfun á þessa tegund flugvélar. Veltir [M] því fyrir sér hvort sú þjálfun hafi verið til einskis og SGS ætli að láta hann fara á annað eins námskeið með tilheyrandi kostnaði þar sem þeir viðurkenni ekki námskeið sem sé að öllu leyti sambærilegt. Námskeiðinu sem [M] sat hafi lokið […] en þjálfunarvottorðið sé dagsett […]. Mat á rétti aftur í tímann, rétti [M] til tegundaráritunar vegna námskeiðs sem hann hafi lokið árið […], geti ekki farið fram á grundvelli þeirra laga og reglugerðar sem í gildi séu á árinu 2013 þegar umsókn sé lögð fram. Geti SGS ekki ætlast til að [M] uppfylli Part-66 reglugerðir tólf ár aftur í tímann allt til þess tíma þegar hin vernduðu réttindi hans hafi orðið til. Þjálfunarvottorðið frá […] sé fullgilt samkvæmt þeim stöðlum sem í gildi voru á þeim tíma.

Í andmælum sínum frá 10. janúar 2014  bendir [M] á að aðrir flugvirkjar sem setið hafi sama námskeið hafi fengið sín réttindi viðurkennd við útgáfu JAR-66 skírteinis, sem ekki var hafin útgáfa á þegar [M] lauk réttindunum, og fengið þau síðar inn í Part-66 skírteini. Að neita [M] um áritun sem aðrir sem setið hafi sama námskeið og hann hafi fengið inn í sín skírteini sé brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga. Kveðst [M] hafa lokið öðrum bóklegum tegundarréttindum árið 2009 á Airbus A320. Þar sem SGS hafi ekki viljað viðurkenna B-737 réttindi [M] hafi ekki verið mögulegt fyrir hann að fá A320 réttindin. Ekkert fyrirtæki hafi boðið upp á fjögurra mánaða OJT sem sé skilyrði fyrir fyrstu áritun en mörg fyrirtæki bjóði upp á 15 daga OJT sem sé nægjanlegt fyrir 2. áritun í Part-66 skírteini. Þannig hafi SGS vísvitandi gert kröfur til [M] sem ekki hafi verið hægt að framfylgja með því að ætlast til að hann hafi lokið fjögurra mánaða OJT á A320 sem ætlast sé til við fyrstu tegundarréttindi þegar hann hafi lokið tveggja ára OJT hjá Icelandair á B-737 og lokið þaðan bóklegu námskeiði á sömu flugvélategund. Í meðfylgjandi skjali „maintenance training record“ sé staðfest að [M] hafi lokið námskeiðinu á samtals 184 klukkustundum. Í öðru skjali sé staðfest að [M] hafi unnið við flugvélategundina B737-400 og B757-500 í samtals tvö ár. Þá liggi fyrir afrit af bandarísku flugvirkjaskírteini [M] en ekki sé hægt að fá slíkt skírteini útgefið án þess að ljúka sveinsprófi bandarísku flugmálastofnunarinnar FAA.

[M] bendir á að í umsögn SGS vísi stofnunin stöðugt í JAR-66 og PART-66 reglugerðir sem ekki hafi verið gildandi þegar hann lauk sínum réttindum. Bendir [M] á að hann hafi haft bandarískt sveinsbréf og tveggja ára starfsreynslu og B737 tegundaréttindi. Samkvæmt gr. 4.2.1.3 í reglugerð um skírteini útgefin af Flugmálastjórn Íslands nr. 419/1999, sem í gildi hafi verið á þeim tíma þegar [M] lauk tilgreindu námskeiði, hafi þurft tveggja ára starfsreynslu til að fá II. flokks skírteini flugvéltæknis útgefið ef viðkomandi umsækjandi hefði lokið tegundarréttarnámskeiði. Hafi [M] lokið því námskeiði og haft tveggja ára starfsreynslu. Sama reglugerð hafi ekki gert sveinspróf að skilyrði fyrir útgáfu skírteinis.

[M] telur að það sé rangt hjá SGS að hann geti ekki borið sig saman við þá sem hafi lokið verklegri þjálfun og fengið útgefin íslensk þjóðarskírteini fyrir árið 2002. Hafi [M] lokið sömu starfsþjálfun, sömu verklegu þjálfun og sama tegundarréttarnámsskeiði og þeir aðilar þó svo hann hafi haft bandarískt sveinspróf og þjóðarskírteini en ekki íslenskt. Hafi bæði bókleg og verkleg þjálfun verið sú sama. Hafi SGS neitað að gefa út JAR-skírteini til [M] árið 2002 á þeim forsendum að hann væri ekki með íslenskt sveinspróf. Árið 2007 hafi stofnunin neitað á sömu forsendum auk þess sem sex mánuði hafi vantað á starfsreynslu [M] og enn aftur árið 2009 á þeim forsendum að [M] hefði ekki lokið fjögurra mánaða OJT. Bendir [M] á að hann hafi lokið tveggja ára sambærilegri þjálfun árið […]og hafi næstum tveggja ára nýlega starfsreynslu. Breyti SGS sífellt um ástæður þess að veita [M] ekki réttindin þó svo ljóst megi vera að meta beri réttindi sem tekin hafi verið fyrir gildistöku JAR-66 og PART-66 skírteina í samræmi við reglugerð nr. 419/1999 en ekki reglugerðir ESB sem tekið hafi gildi löngu eftir að [M] lauk réttindum sínum.

[M] bendir á að SGS vísi til krafna í auglýsingu nr. 426/2002 um JAR-viðhaldsvotta sem innleiddar hafi verið 4. júní 2002. Með umsókn [M] árið 2009 hafi hann verið að reyna að framfylgja ákvæði þeirrar reglugerðar þar sem fram komi að umsækjendur skuli fá útgefið JAR-66 skírteini án frekari prófa. Hafi aðlögunartímabili lokið 1. júní 2011 og því hafi verið óheimilt að synja [M] um áritunina árið 2009 þar sem hann hafi uppfyllt öll skilyrði til að fá hana inn í skírteinið og hafi í raun verið skylt að skipta innlenda hæfi [M] yfir í PART-66 skírteini þar sem þær kröfur byggðust á JAR-66.

Þá komi fram í gr. 66.A.70 reglugerðar EB nr. 2042/2003, sem innleidd var með reglugerð nr. 206/2007, að sá sem sé í því ferli að hljóta viðurkenningu á réttindum sem séu gild í aðildarlandi áður en dagsetning þess hluta tekur gildi geti haldið áfram að vera hæfur. Rétthafi slíkra réttinda fengnum í aðildarríki skuli fá útgefið flugvirkjaskírteini án frekari prófa samkvæmt skilyrðum í 66.B.300. Þá sé í umsögn SGS ekki vitnað í nein lög til stuðnings fullyrðingum stofnunarinnar þó svo henni hafi verið kunnugt um að [M] hefði fengið útgefið bandarískt þjóðarskírteini árið 1998 en sveinspróf sé forsenda útgáfu slíks skírteinis. Hafi hvergi komið fram í lögum eða reglugerðum að íslenskt þjóðarskírteini þyrfti til að fá útgefið JAR-66 skírteini á grundvelli umbreytingarskýrslunnar á sínum tíma á sama hátt og réttindi séu metin í umbreytingarskýrslunni dags. 1. nóvember 2005 samkvæmt umsókn um PART-66 skírteini í dag. Samkvæmt þeirri umbreytingarskýrslu sé einnig verið að meta til PART-66 skírteina handhafa bandarískra A&P þjóðarskírteina líkt og [M] sé með. Með umbreytingarskýrslunni sé þannig ekki verið að meta gömul skírteini fyrir ný líkt og SGS haldi fram heldur innlent hæfi og réttindi samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Öllum réttindum og námskeiðum sem lokið hafi verið og sem metin hafi verið með umbreytingarskýrslu eftir gildistöku JAR-66 og PART-66 hafi þannig verið umbreytt og þau viðurkennd að fullu, þó svo þeim væri lokið, eftir þeim lögum og reglum sem voru í gildi fyrir gildistökuna þar sem það hafi verið vernduð réttindi. Komi þannig fram í umbreytingarskýrslunni að umsækjendur sem hófu almenna þjálfun fyrir 1. júní 2001 séu gjaldgengir fyrir vernduð réttindi. Skipti þá ekki máli hvort réttindin hafi verið komin inn í skírteinið eða ekki þar sem réttindin séu sjálfstæð óháð því hvort þau séu skráð í skírteinin eða ekki. [M] sé með tegundarréttindi útgefin af Icelandair. Það eitt skipti máli þar sem tegundarréttindi sem slík hafi ekki verið og verði aldrei útgefin af SGS heldur þeim vottaða prófaðila sem gefur þau út. Það sé aðeins hlutverk SGS að staðfesta réttindi í útgefnu PART-66 flugvirkjaskírteini. Þá komi fram í umbreytingarskýrslunni að hún gildi um tegundarréttindi útgefin fyrir 1. júní 2001 en réttindi [M] hafi verið útgefin af Icelandair fyrir þá dagsetningu þó svo þau hafi ekki verið staðfest í JAR-66 skírteini hjá SGS. Sé hvergi á það minnst í textanum að afaréttur gildi aðeins um þær tegundaráritanir sem skráðar hafi verið í þjóðarskírteini flugvirkja fyrir 1. júní 2001. Séu tegundarréttindi ekki útgefin af SGS heldur námskeiðshaldaranum en síðar staðfest í flugvirkjaskírteinum. Í umbreytingarskýrslunni sé enda staðfest að nægjanlegt sé að hafa hafið þjálfun fyrir 1. júní 2001. Í reglugerð EB nr. 2042/2003 komi einnig fram hvernig umbreytingar á staðfestum fyrirtækjaréttindum líkt og þeim sem [M] hafi fengið hjá Icelandair fari fram. Hafi [M] fengið útgefna tegundaráritun hjá Icelandair en hún hafi hins vegar ekki fengist skráð í PART-66 skírteini [M] hjá SGS.

Samkvæmt b- og c-liðum gr. 66.A.45 IV. viðauka reglugerðar nr. 206/2007 skuli réttindin veitt að lokinni tegundarþjálfun með fullnægjandi árangri á loftfari í flokki B1, B2 eða C, sem lögbæra yfirvaldið samþykkir eða sem viðhaldskennslufyrirtæki með tilhlýðilegt samþykki samkvæmt 147. hluta annast, nema annað sé tekið fram í h-lið. Með kærunni fylgi þjálfunarvottorð frá viðhaldskennslufyrirtækinu Icelandair sem hafi samþykki til þjálfunar auk staðfestingar á að [M] hafi lokið þjálfuninni. Þá liggi einnig fyrir staðfesting á tveggja ára starfsþjálfun. Beri SGS að samþykkja tegundarþjálfun þar sem henni sé lokið með fullnægjandi árangri. Í skjalinu „Maintenance Technical Training“ komi fram að það vottist að [M] hafi lokið með fullnægjandi árangri Boeing 737-300/400/500 burðarvirki/mótorar/rafkerfi og sé því rétthafi vottorðsins. Þá fylgi einnig skjalið „Maintenance training record“ sem útlisti fjölda kennslustunda upp á 184 kennslustundir. Þá sé staðfest tímalengd starfstíma [M] hjá Icelandair upp á tvö ár. Þá liggi fyrir skjal dagsett í Keflavík […] sem útlisti stað og stund námskeiðsins, lengd þess og fjölda kennslustunda í hverju fagi fyrir sig. Þrátt fyrir þessi skjöl haldi SGS því fram að [M] hafi ekki lagt fram PART-147 þjálfunarvottorð eða þjálfunarvottorð sem hlotið hafi samþykki SGS fyrir fræðilega þjálfun, þjálfunarvottorð fyrir verklega þjálfun og mat, ásamt staðfestingu á að [M] hafi lokið þjálfun á vinnustað. Bendir [M] á að umsókn hans sé byggð á mati á réttindum með umbreytingarskýrslu vegna réttinda sem lokið var fyrir gildistöku JAR-66 og PART-66 skírteina fyrir 1. júní 2001. Þá hafi 147. hluti PART-66 og þjálfun samkvæmt JAR-66 ekki tekið gildi á Íslandi. Þá bendir [M] á að hann sæki ekki um samkvæmt PART-147 þjálfunarvottorði enda hafi þau ekki verið í gildi árið 2001. Sé þjálfunarvottorð [M] frá Icelandair fullgilt enda hafi  félagið verið með öll tilskilin réttindi til að halda þessi námskeið árið 2001 samkvæmt staðlinum ATA 104 LEVEL III standard. Hafi [M] lagt fram öll þessi vottorð en matið geti hann ekki lagt fram þar sem SGS eigi að sjá um að það sé framkvæmt á sama hátt hjá [M] og þeim sem luku sama námskeiði og hann. Bendir [M] að lokum á að tegundarréttindi hans hafi orðið virk um leið og hann lauk prófinu með fullnægjandi árangri fyrir 1. júní 2001 þó svo þau hafi ekki verið komin  inn í þjóðarskírteini [M].

 

IV.    Ákvörðun og umsögn SGS

Í ákvörðun SGS frá 15. júlí 2013 kemur fram að varðandi FAA skírteini taki stofnunin fram að í FAA kerfinu sé ekki um sveinspróf að ræða og FAA skírteini hafi ekki gefið réttindi til starfa í flugvirkjun á þeim tíma sem [M] hóf störf hjá Icelandair árið 1999. Til að geta neytt vottunarheimilda á þeim tíma hafi flugvirkjar þurft að hafa útgefin íslensk þjóðarskírteini og til að fá slíkt skírteini hafi þurft að ljúka 30 mánaða verklegri þjálfun auk bóklegs náms. Þrátt fyrir að hafa hafið verklega þjálfun hjá Icelandair árið 1999 hafi [M] ekki sótt um skírteini til SGS fyrr en árið 2009 þegar hann hafi fengið útgefið PART-66 skírteini. Í ljósi þess sé það mat SGS að [M] geti ekki borið sig saman við þá sem luku sinni verklegu þjálfun og fengu útgefið þjóðarskírteini fyrir árið 2002. Það ár hafi verið innleiddar kröfur um JAR-66 skírteini með auglýsingu nr. 426/2002 og hafi þjóðarskírteini og nám sem þar lá að baki verið metið með svo nefndri „umbreytingarskýrslu“ (Conversion report) fyrir JAR-66 sem skapað hafi forsendu fyrir gagnkvæmri viðurkenningu og lagt til grundvallar útgáfu á JAR-66 skírteinum. Svonefndur „afaréttur“ (grandfather right) flugvirkja og þeirra sem sótt hafi nám í skólum vestanhafs og í Skandinavíu byggist á þessu ásamt áritunum í þjóðarskírteinum og vottunarheimildum sem flugvirkjar höfðu í JAR-145 viðhaldsstöðvum. Þeir sem höfðu útgefin þjóðarskírteini hafi fengið útgefin JAR-66 skírteini og haldið þeim tegundaráritunum sem þeir höfðu þegar fengið í þjóðarskírteini sín. Réttur til tegundaráritunar hafi hins vegar eingöngu verið mögulegur þegar viðkomandi hafi fengið útgefið þjóðarskírteini.

SGS bendir á að umbreytingarskýrslu fyrir JAR-66 skírteini hafi nú verið skipt út fyrir umbreytingarskýrslu fyrir PART-66 skírteini. Um breytingu á starfsréttindum og umbreytingarskýrslu sé fjallað í gr. 66.A.70 og D-kafla í III. viðauka (66. hluta) í fylgiskjali I við reglugerð nr. 206/2007 um viðvarandi lofthæfi loftfara og flugtæknilegra framleiðsluvara, hluta og búnaðar og um samþykki fyrir viðhaldsstöðvum og starfsfólki á þessu sviði. Hafi [M] fyrst fengið útgefið PART-66 skírteini árið 2009 og hafi sú útgáfa byggst á afarétti samkvæmt umbreytingarskýrslu fyrir PART-66 skírteini (2. útgáfa). Á sama tíma og [M] hafi sótt um PART-66 skírteini hafi hann einnig sótt um tegundaráritun en verið hafnað með bréfi Flugmálastjórnar dags. 27. febrúar 2009 þar sem afaréttur hafi aðeins gilt um þær tegundaráritanir sem skráðar hafi verið í þjóðarskírteini flugvirkja fyrir 1. júní 2001. Á þeim tíma hafi [M] ekki fengið útgefið þjóðarskírteini sem nauðsynlegt hafi verið til að fá tegundaráritanir skráðar.

Mat á rétti til tegundaráritunar geti aðeins farið fram á grundvelli þeirra laga og reglna sem í gildi eru á þeim tíma sem sótt er um. Í bréfi Flugmálastjórnar frá 6. júní 2013 hafi verið gerð grein fyrir þeim kröfum sem liggi að baki loftfarsréttindaáritunum fyrir loftför í hópi 1 í PART-66 skírteinum en um þær sé m.a. fjallað í gr. 66.A.45, liðum b og c, ásamt III. viðbæti (tegundarþjálfun á loftfar og prófstaðall) í III. viðauka (66. hluti) í fylgiskjali I við reglugerð nr. 206/2007. Í lið 1 a) i. og b) i. í III. viðbæti segi m.a. að fræðileg þjálfun og próf og verkleg þjálfun og mat skuli framkvæmd af viðhaldskennslufyrirtæki með samþykki í samræmi við IV. viðauka (147. hluta) eða, ef þau eru framkvæmd af öðrum fyrirtækjum, eins og SGS veiti beint samþykki fyrir. Ef um fyrstu áritun tegundarréttinda fyrir loftfar innan tiltekins flokks/undirflokks sé að ræða þurfi einnig að ljúka þjálfun á vinnustað (OJT) eins og lýst sé í III. viðbæti lið 6.

Til að veita tegundarréttindi í skírteini [M] þurfi að liggja fyrir annað hvort þjálfunarvottorð frá viðhaldskennslufyrirtæki með tilhlýðilegt samþykki samkvæmt IV. viðauka (147. hluta) reglugerðar nr. 206/2007, eða þjálfunarvottorð fyrir námskeið sem hlotið hefur samþykki Flugmálastjórnar eða SGS sem staðfesti að [M] hafi lokið tegundarþjálfun ásamt gögnum er staðfesti þjálfun á vinnustað fyrir það loftfar sem sótt er um áritun fyrir samkvæmt gr. 66.A.45 lið b og c. Þar sem [M] hafi ekki lagt fram gilt PART-147 þjálfunarvottorð sem hlotið hafi samþykki Flugmálastjórnar eða SGS fyrir fræðilega þjálfun, þjálfunarvottorð fyrir verklega þjálfun og mat, ásamt staðfestingu á að hann hafi lokið þjálfun á vinnustað sé það niðurstaða SGS að ekki séu forsendur til að samþykkja umsókn hans um B1 tegundaráritun á Boeiing 737-300/400/500 (CFM56) í Part-66 skírteini.

Í umsögn SGS vísar stofnunin til úrskurðar samgönguráðuneytisins frá [..]í máli nr. [..]. Í úrskurðinum hafi ráðuneytið staðfest synjun Flugmálastjórnar á útgáfu til handa kæranda á B1 PART-66 skírteini flugvéltæknis með aeroplane turbine áritun á B737-300/400/500 á þeim grundvelli að kærandi hafði ekki sveinsbréf og vantaði sex mánuði upp á starfsreynslu auk þess sem hann hafði ekki nýlega starfsreynslu.

Á það er bent að [M] hafi fyrst fengið útgefið PART-66 skírteini hjá Flugmálastjórn árið 2009 og vísað til sömu sjónarmiða og fram komi í hinni kærðu ákvörðun. Er ítrekað að [M] hafi ekki fengið útgefið þjóðarskírteini og hafi því ekki átt rétt á að fá útgefið JAR-66 skírteini á grundvelli umbreytingarskýrslunnar. Þá er á það bent að úrskurður ráðuneytisins í stjórnsýslumáli nr. 91/2009 geti ekki haft fordæmisgildi þar sem ekki sé um endurnýjun réttinda að ræða líkt og í því máli heldur umsókn um tegundaráritun sem [M] hafi ekki haft.

 

V.     Niðurstaða ráðuneytisins

Til umfjöllunar er sú ákvörðun SGS að synja [M] um B1 tegundaráritun fyrir Boeing 737-300/400/500 í PART-66 skírteini. Krefst [M] þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og hafa sjónarmið hans verið rakin hér að framan sem og röksemdir SGS fyrir hinni kærðu ákvörðun.

Fyrir liggur að M[M]lauk námi flugvéltæknis frá Spartan School of Acronautics þann […] með „Associate degree, Aviation Maintenance Technician“, og fékk flugvirkjaskírteini útgefið af bandarísku flugmálastjórninni þann […]. Starfaði [M] hjá Icelandair um tveggja ára skeið sem flugvéltæknir frá […-…] og lauk tegundarréttarprófi […]. Liggur fyrir að Spartan School of Acronautics er ekki viðurkenndur samkvæmt JAR/PART-147 og því hefur nám frá skólanum verið metið samkvæmt umbreytingarskýrslu sem samþykkt var af Flugmálastjórn Íslands varðandi mat á námi flugvirkja til útgáfu JAR/PART-66 skírteina. Þá liggur fyrir að á þeim tíma hafði [M] ekki íslenskt sveinsbréf en fékk það útgefið þann […]. Heldur [M] því fram að hann eigi rétt á að fá tilgreinda tegundaráritun í PART-66 skírteini sitt. Þá bendir [M] á að aðrir flugvirkjar sem hafi setið sama námskeið og [M] hafi fengið réttindi sín viðurkennd við útgáfu JAR-66 skírteinis og síðar fengið þau inn í PART-66 skírteini.

Líkt og fram kemur í hinni kærðu ákvörðun fékk [M] fyrst útgefið PART-66 skírteini hjá Flugmálastjórn árið 2009. Liggur fyrir að þeir sem öðluðust tiltekin réttindi flugvirkja og fengu útgefin ICAO skírteini fyrir 1. júní 2001 þegar reglugerð um skírteini útgefin af Flugmálastjórn Íslands nr. 419/1999 var breytt gátu fengið þeim skírteinum breytt í PART-66 skírteini hefðu þeir lokið sveinsprófi. Liggur fyrir að [M] fékk ekki þessi réttindi og fékk því ekki útgefið ICAO skírteini líkt og þeir einstaklingar sem luku námi úr sama skóla og hann. Í ljósi þessa er það mat ráðuneytisins að fallast beri á það með SGS að [M] geti ekki borið sig saman við þá sem luku sinni verklegu þjálfun og fengu útgefin þjóðarskírteini fyrir árið 2002.

Árið 2002 voru innleiddar kröfur um JAR-66 skírteini með auglýsingu nr. 426/2002 og voru þá þjóðarskírteini og nám sem þar lá að baki metin með svo nefndri umbreytingarskýrslu fyrir JAR-66 sem skapaði forsendu fyrir gagnkvæmri viðurkenningu og lagt til grundvallar útgáfu á JAR-66 skírteinum. Þeir sem höfðu útgefin þjóðarskírteini fengu útgefin JAR-66 skírteini og héldu þeim tegundaráritunum sem þeir höfðu fengið í þjóðarskírteini sín. Var réttur til tegundaráritunar eingöngu mögulegur þegar viðkomandi hafði fengið útgefið þjóðarskírteini. Hafði [M] ekki útgefið þjóðarskírteini og átti því ekki rétt á að fá útgefið JAR-66 skírteini á grundvelli umbreytingarskýrslunnar. Hefur umbreytingarskýrslu fyrir JAR-66 skírteini nú verið skipt út fyrir umbreytingarskýrslu fyrir PART-66 skírteini og er fjallað um umbreytingu á starfsréttindum í gr. 66.A.70 og D-kafla III. viðauka í fylgiskjali I við reglugerð nr. 206/2007.

Fyrir liggur að [M] sótti um PART-66 skírteini árið 2009 og byggðist útgáfa Flugmálastjórnar á því á svo nefndum „afarétti“ samkvæmt umbreytingarskýrslu fyrir PART-66 skírteini. Þá sótti [M] einnig um tegundaráritun en var synjað um hana með bréfi Flugmálastjórnar dags. 27. febrúar 2009 þar sem afaréttur gilti aðeins um þær tegundaráritanir sem skráðar voru í þjóðarskírteini flugvirkja fyrir 1. júní 2009. Líkt og áður hefur komið fram hafði [M]  á þeim tíma hvorki fengið útgefið þjóðarskírteini né tegundaráritun enda var útgefið þjóðarskírteini nauðsynlegt til að fá tegundaráritanir skráðar. Bendir [M] á að með umsókn hans um tegundaráritun árið 2009 hafi hann verið að reyna að framfylgja ákvæði JAR-66.3 d)d), sbr. auglýsingu nr. 426/2002, um að allir sem þyrftu að fá innlendu hæfi skipt yfir í JAR-66 skírteini samkvæmt ákvæðum g-liðar JAR-66.1 skyldu gera það eigi síðar en 10 árum eftir að aðlögunartímabilinu samkvæmt b-lið lýkur. Hafi aðlögunartímabili lokið þann 1. júní 2011 og telur [M] því ljóst að óheimilt hafi verið að synja honum um áritunina 2009 þar sem hann hafi uppfyllt öll skilyrði til að fá hana inn í skírteinið. Hvað þetta varðar bendir ráðuneytið á að ákvörðun Flugmálastjórnar frá árinu 2009 sem vísað er til af hálfu [M] var ekki kærð til ráðuneytisins og er ekki til umfjöllunar í máli því sem hér er til úrlausnar. Að öðru leyti vísar ráðuneytið til fyrri umfjöllunar um umbreytingu á starfsréttindum samkvæmt umbreytingarskýrslum.

Í hinni kærðu ákvörðun er [M] bent á þær kröfur sem liggja að baki loftfarsréttindaáritunum fyrir loftför í hópi 1 í PART-66 skírteini. Vísar ráðuneytið til umfjöllunar SGS þar um og tekur undir það sem þar kemur fram. Liggur fyrir að áður en hægt er að veita [M] tegundarréttindi í skírteini hans þarf að liggja fyrir annað hvort þjálfunarvottorð frá viðhaldskennslufyrirtæki með tilhlýðilegt samþykki samkvæmt IV. viðauka (147. hluta) reglugerðar nr. 206/2007 eða þjálfunarvottorð fyrir námskeið sem hlotið hefur samþykki Flugmálastjórnar eða SGS sem staðfestir að [M] hafi lokið tegundarþjálfun er staðfesti þjálfun á vinnustað fyrir það loftfar sem sótt er um áritun fyrir samkvæmt gr. 66.A.45 liðum b og c. Liggur fyrir samkvæmt framansögðu að [M] hefur ekki lagt fram gilt PART-147 þjálfunarvottorð eða þjálfunarvottorð sem hlotið hefur samþykki Flugmálastjórnar eða SGS.

Með vísan til alls þess sem að framan hefur verið rakið er það mat ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur uppkvaðning úrskurðar dregist og er beðist velvirðingar á því.

 

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun Samgöngustofu frá 15. júlí 2013 um að synja [M] um B1 tegundaráritun fyrir Boeing 737-300/400/500 í Part 66 skírteini.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta