Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Bæjarhreppur - Heimild til að veita afslátt af fasteignaskatti eftir sameiningu sveitarfélaga

Glax – viðskiptaráðgjöf
5. júlí 2005
FEL05040086/1031-5508

Garðar Jónsson

Borgartúni 30

105 REYKJAVÍK

Vísað er til erindis yðar, dags. 28. júní 2005, um túlkun 99. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998,

með síðari breytingum.

Í fyrsta lagi er í erindinu óskað eftir áliti ráðuneytisins á því hvort ákvæðið veiti sameinuðu

sveitarfélagi Húnaþings vestra og Bæjarhrepps, ef slík sameining yrði samþykkt, heimild til að

nota lægri álagningarprósentu á fasteignir í Bæjarhreppi en notaðar yrðu við álagningu

fasteignaskatts á öðrum svæðum hins sameinaða sveitarfélags.

Það er álit ráðuneytisins að ákvæðið, samkvæmt orðanna hljóðan, veiti einungis heimild til

afsláttar af fasteignaskatti af eignum í dreifbýli þegar um er að ræða sameiningu

dreifbýlissveitarfélags og sveitarfélags í þéttbýli. Það þýðir að ákvæðið veitir aðeins heimild til

afsláttar af fasteignasköttum í þeim hluta hins nýja sveitarfélags sem telst vera dreifbýli þegar

dreifbýlt sveitarfélag hefur sameinast þéttbýlu sveitarfélagi.

Eins og fram kemur í erindinu er um að ræða hugsanlega sameiningu tveggja sveitarfélaga,

Bæjarhrepps og Húnaþings vestra. Það er álit ráðuneytisins að hvorugt sveitarfélagið geti talist

vera þéttbýlissveitarfélag þar sem um helmingur íbúa Húnaþings vestra og meiri hluti íbúa

Bæjarhrepps býr í dreifbýli.

Ráðuneytið telur því að ákvæði 99. gr. laga nr. 45/1998 veiti sameinuðu sveitarfélagi

Bæjarhrepps og Húnaþings vestra ekki heimild til afsláttar af fasteignaskatti til handa

fasteignaeigendum í Bæjarhreppi.

Í öðru lagi er óskað álits ráðuneytisins á því hvort ákvæðið veiti hinu sameinaða sveitarfélagi

heimild til að nota lægri álagningarprósentu á fasteignir í öllu dreifbýli sveitarfélagsins, sé ekki

heimild til mismunandi álagningarprósentu, sbr.1. lið.

Eins og fyrr segir er það álit ráðuneytisins að ákvæði 99. gr. laga nr. 45/1998 veiti einungis

heimild til afsláttar af fasteignaskatti þegar um er að ræða sameiningu sveitarfélags í dreifbýli og

sveitarfélags í þéttbýli. Í ljósi þess telur ráðuneytið að umrætt ákvæði verði ekki túlkað sem

almenn heimild til lækkunar fasteignaskatts í öllu dreifbýli innan sameinaðs sveitarfélags.

Ráðuneytið bendir á að í 5. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari

breytingum, er sveitarstjórn heimilað að undanþiggja fasteignir í dreifbýli álagi á fasteignaskatt.

Miðað við núverandi álagningarhlutfall á a-stofn fasteignaskatts í Húnaþingi vestra getur sú

heimild þó ekki nýst sameinuðu sveitarfélagi á þann hátt sem spurt er um í erindi yðar.

Í erindi yðar er í þriðja lagi óskað álits ráðuneytisins á því, við hvers konar „mismunandi

þjónustu“ er átt í fyrrnefndri 99. gr. sveitarstjórnarlaga.

Umrætt ákvæði á sér langa sögu í sveitarstjórnarlögunum, en efnislega samhljóða ákvæði má

finna í sveitarstjórnarlögunum allt frá árinu 1970. Ekki er þó að finna útskýringar á ákvæðinu í

greinargerðum með frumvörpum til sveitarstjórnarlaga heldur segir þar aðeins að greinin skýri

sig sjálf. Lögskýringargögn veita því enga leiðsögn um þýðingu orðanna „mismunandi

þjónustu“.

Að mati ráðuneytisins er forsaga ákvæðisins að líkindum sú að fyrr á árum var íbúum bæja og

kauptúna áskilin tiltekin þjónusta á móti skattheimtunni. Skal í því sambandi bent á að með

lögum um tekjur bæjar- og sveitarfélaga og eftirlit með fjárstjórn bæjar- og sveitarstjórna nr.

69/1937 (síðar lög um fasteignaskatt til bæjar- og hreppsfélaga og Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, nr.

67/1945, sbr. lög nr. 53/1945) varð fasteignaskattur tekjustofn sveitarfélaga. Í 7. gr. þeirra laga

sagði eftirfarandi:

„Ef bæjarstjórn í kaupstað eða hreppsnefnd í kauptúni leggur á húseignir skatt, sem er

helmingur eða meira þess hámarks, sem heimilað er í 1. gr., skal bæjarsjóður á sinn kostnað

annast í kaupstaðnum sótthreinsun, sorphreinsun, salernahreinsun, en um vatnsskatt, gjald til

holræsa, gangstétta, og brunatrygginga, fer eftir ákvæðum þeim, sem nú gilda eða síðar verða

sett.“

Í seinni tíð hefur heimildum sveitarstjórna til að innheimta sérstakt gjald fyrir ýmsa

framangreinda þjónustu fjölgað. Um leið hefur þjónusta sem fasteignaskatti er ætlað að

fjármagna orðið óskilgreindari og í raun má segja að eðli fasteignaskatts sé nú hið sama og

útsvars, þ.e. tekjustofn sveitarfélaga sem ætlað er að standa undir almennum rekstri án þess að

íbúar eða fasteignareigendur geti gert kröfur um tiltekna þjónustu á móti. Að mati ráðuneytisins

er því ekki hægt að segja með neinni vissu til um það hvaða þjónustu sveitarfélaga löggjafinn

vísar til í 99. gr. sveitarstjórnarlaga.

F. h. r.

Guðjón Bragason (sign.)

Guðrún A Þorsteinsdóttir (sign.)

 

5. júlí 2005 - Bæjarhreppur - Heimild til að veita afslátt af fasteignaskatti eftir sameiningu sveitarfélaga. (PDF)

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta