Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Mál nr. 13060051

Ár 2013, þann 4. júlí, er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r
í máli nr. IRR 13060051
 
Kæra A
á ákvörðun

Isavia

 

I.      Kæruefni

Með stjórnsýslukæru móttekinni 6. júní 2013 kærði A (hér eftir nefndur A), kt. xxxxxx-xxxx, [...], ákvörðun Isavia um sviptingu aðgangsheimildar að haftasvæði flugverndar. Af kæru verður ráðið að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

II.      Málsatvik

Í kæru kemur fram að lögreglustjórinn í X hafi þann 2. janúar 2013 afturkallað jákvæða umsögn A vegna bakgrunnsskoðunar. Hafi lögregla tilkynnt Isavia um ákvörðunina þann 3. janúar 2013. Stuttu síðar hafi A verið gert að afhenda Isavia aðgangspassa sinn að haftasvæði flugverndar þar sem hann hafi starfað sem H.

III.    Málsástæður A

A byggir á því að Isavia hafi svipt hann aðgangsheimild að haftasvæði flugverndar án þess að honum væri veittur andmælaréttur og án þess að afturköllunin hafi verið rökstudd af hálfu Isavia. Þá hafi ekki verið tilkynnt um málskotsrétt af hálfu Isavia. Sé um að ræða sviptingu aðgangsheimildar í kjölfar afturköllunar jákvæðrar umsagnar af hálfu lögreglustjórans í X.

IV.    Niðurstaða ráðuneytisins

Kærð er sú ákvörðun Isavia að svipta A aðgangsheimild að haftasvæði flugverndar í kjölfar þess að lögreglustjórinn í X afturkallaði jákvæða umsögn hans vegna bakgrunnsskoðunar með bréfi dags. 2. janúar 2013. Byggir A á því að Isavia hafi við sviptinguna ekki gætt fyrirmæla stjórnsýslulaga.

Ráðuneytið telur ljóst að ákvarðanir Isavia séu ekki stjórnvaldsákvarðanir í skilningi stjórnsýslulaga og verða þær því ekki bornar undir stjórnvöld á grundvelli laganna. Isavia er opinbert hlutafélag og fer um starfsemi þess samkvæmt lögum nr. 2/1995, sbr. lög nr. 90/2006. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 90/2006 kemur fram að ákvæði stjórnsýslulaga gildi ekki formlega um opinber hlutafélög. Taka ákvæði stjórnsýslulaga þannig ekki til starfsemi Isavia. Verður kæru A því vísað frá ráðuneytinu.

Úrskurðarorð

Kæru þessari er vísað frá ráðuneytinu.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta